Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Venjulegir símar eru ekki vatnsheldari en svo, að vatnið kemst fljótlega að spennuhafa hlutum, til dæmis snertunum við rafhlöðuna. Strangt til tekið er svarið því já, en í daglegu tali þýðir orðalagið "að fá straum" að viðkomandi finni fyrir honum. Það er ólíklegt í þessu tilviki. Við algenga rafhlöðuspennu getur heildarstraumur út í vatnið náð því marki sem menn finna fyrir, en í flestum tilfellum gengi hann að miklu leyti framhjá líkamanum, jafnvel inni í símanum sjálfum. Þetta er þó háð fyrirkomulagi símans og nálægð hans við líkamann. Leiðni til jarðar skiptir hér engu máli, því rafvakinn er staðbundinn án þess að annað skaut hans sé jarðtengt.
Sendingin frá símanum veldur engri sérstakri hættu þó síminn fari í vatn, þvert á móti dofna rafsegulbylgjurnar mjög við það.
Tæki sem eru tengd 230 V veitu eru hins vegar hættuleg í þessu samhengi. Það er bæði vegna aukinnar spennu og straumgetu, og líka vegna þess að ekki er lengur um staðbundna straumrás að ræða. Snerti maður í baði tæki sem leiðir út, hvort sem er vegna bleytu af höndum hans eða bilunar í tækinu, kemst straumur um manninn til jarðar í gegnum lögboðna jarðtengingu vatnslagna og baðkers. Annað skaut rafveitunnar er alltaf jarðtengt svo að hér verður greið hringrás fyrir strauminn, að minnsta kosti ef baðker og lagnir eru ekki úr plasti, en jafnvel þá þyrfti að huga að leiðni vatnsins í lögnunum.
Það er líka góð regla að snerta ekki línutengdan síma þegar maður er í baði. Sumir símar þiggja straum frá 230 V veitu, til dæmis fyrir símsvara, og þess utan er hringispennan allhá. Loks geta óhöpp eins og bilun eða elding veitt hættulegri spennu út á símalínuna.
Frekara lesefni af Vísindavefnum:
Vilhjálmur Þór Kjartansson. „Hvað gerist ef maður missir þráðlausan síma eða farsíma ofan í baðkarið til sín? Fær maður straum?“ Vísindavefurinn, 13. mars 2000, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=227.
Vilhjálmur Þór Kjartansson. (2000, 13. mars). Hvað gerist ef maður missir þráðlausan síma eða farsíma ofan í baðkarið til sín? Fær maður straum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=227
Vilhjálmur Þór Kjartansson. „Hvað gerist ef maður missir þráðlausan síma eða farsíma ofan í baðkarið til sín? Fær maður straum?“ Vísindavefurinn. 13. mar. 2000. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=227>.