Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiLögfræðiHefur kærasti móður minnar rétt á að hirða af mér eign/ir? Hefur þessi aðili einhverja löglega stjórn yfir mér?
Ef móðir fer ein með forsjá barns en tekur svo upp skráða sambúð með kærasta sínum, fær hann einnig forsjá yfir barninu eftir að sambúðin hefur staðið í eitt ár, samanber 3. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003. Forsjá sambúðarforeldrisins varir þó aðeins á meðan á sambúðinni stendur, samanber þó 2. mgr. 30. gr. barnalaga en samkvæmt henni getur sambúðarforeldrið fengið forsjána ef forsjárforeldrið andast.
Ef móðir þín og kærasti hennar hafa verið í sambúð, skráðri í þjóðskrá, í meira en eitt ár og móðir þín hefur farið ein með forsjá þína áður en hún tók upp skráða sambúð með kærasta sínum eru allar líkur á því að hann hafi forsjá yfir þér. Hvað felst í því að fara með forsjá barns er fjallað um í 28. gr. barnalaga. Þar segir meðal annars að forsjá barns feli í sér að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Með öðrum orðum ráða þeir sem hafa forsjá yfir barni nánast öllu í lífi barnsins.
Samkvæmt 1. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 verða menn lögráða 18 ára og í því felst sjálfræði og fjárræði. Sjálfræði felur í sér rétt til að ráðstafa öðru en fé sínu samkvæmt 2. gr. laganna. Að því gefnu að þú sért undir 18 ára aldri eða verið svipt/ur lögræði, ræður þú hvorki yfir persónulegum munum þínum né peningum samkvæmt fyrrgreindri meginreglu. En hins vegar ræður þú yfir sjálfsaflafé þínu (sem þú hefur unnið þér sjálf/ur inn) og yfir gjafafé þínu, samanber 2. og 3. mgr. 75. gr. lögræðislaga. Hvorki móðir þín, kærasti hennar eða aðrir geta tekið slíkt í sínar vörslur þrátt fyrir að hafa ef til vill forsjá yfir þér. Í tilvikum sem þessum verður þó að gera ákveðinn fyrirvara til dæmis við mjög stórar og verðmætar gjafir sem ólögráða barn hefur enga burði til að fara með á skynsaman hátt.
Ef kærasti móður þinnar uppfyllir skilyrði þess að hafa forsjá yfir þér þá felur það í sér að hann „ræður yfir þér“. Í því felst síðan að hann ræður fjármálum þínum, þar með talið yfir eignum þínum ef undan er skilið sjálfsaflafé og gjafafé.
Frekara lesefni af Vísindavefnum:
Ragnar Guðmundsson. „Hefur kærasti móður minnar rétt á að hirða af mér eign/ir? Hefur þessi aðili einhverja löglega stjórn yfir mér?“ Vísindavefurinn, 19. ágúst 2010, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=23836.
Ragnar Guðmundsson. (2010, 19. ágúst). Hefur kærasti móður minnar rétt á að hirða af mér eign/ir? Hefur þessi aðili einhverja löglega stjórn yfir mér? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=23836
Ragnar Guðmundsson. „Hefur kærasti móður minnar rétt á að hirða af mér eign/ir? Hefur þessi aðili einhverja löglega stjórn yfir mér?“ Vísindavefurinn. 19. ágú. 2010. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=23836>.