Hvar í heiminum er það algengast að konur hafi ekki kosningarétt?Ekki er til ein og algild skilgreining á því hvaða lönd teljast til Mið-Austurlanda. Afmörkunin getur að einhverju leyti farið eftir samhenginu eða forsendum hverju sinni. Hugtakið nær þó venjulega um það bil yfir löndin fyrir botni Miðjarðarhafs, Arabíuskagann, Íran, Tyrkland og Norður-Afríku. Ólíkt því sem margir halda hafa konur kosningarétt í öllum ríkjum Mið-Austurlanda og það sama gildir í raun um öll önnur lönd að einu undanskildu. Eftir því sem næst verður komist er Vatíkanið nú eina landið í heiminum þar sem konur hafa ekki kosningarétt. Einu kosningarnar sem þar fara fram eru páfakjör. Páfi er kjörinn af kardínálum en þeir eru æðstu menn kaþólsku kirkjunnar á eftir páfa. Konur geta ekki orðið kardínálar og þar af leiðandi ekki tekið þátt í þessum kosningum. Síðasta landið til að veita konum kosningarétt var Sádi-Arabía. Árið 2011 tilkynnti Abdullah konungur Sáda að konur mættu bjóða sig fram og kjósa í sveitastjórnarkosningum árið 2015. Það var svo þann 12. desember 2015 sem konur þar í landi fengu í fyrsta skipti að nýta þennan rétt sinn. Reyndar er ekkert sérlega mikil kosningahefð í landinu og karlar hafa ekki kosið mikið oftar, en þeir höfðu þó réttinn til þess þá sjaldan að kosið var.

Konur í Sádi-Arabíu máttu í fyrsta skipti kjósa í desember 2015. Rúmlega 130.000 konur skráðu sig á kjörskrá. Til samanburðar voru yfir 1 milljón karla á kjörskrá.
- Mið-Austurlönd - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið.
- Kvennasögusafn Íslands - Kosningaréttur í ýmsum löndum.
- In Which Countries are Women Not Allowed to Vote? - wiseGEEK
- Timeline « Women Suffrage and Beyond.
- Women's suffrage - Wikipedia, the free encyclopedia.
- Saudi Arabian municipal elections, 2015 - Wikipedia, the free encyclopedia.
- Mynd: Saudi Arabia women vote for the first time in landmark election - LA Times. (Sótt 4. 5. 2016).