Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í tóbaksreyk eru yfir sjö þúsund mismundandi efnasambönd, bæði lofttegundir, vökvi og örsmáar fastar efnisagnir. Í laufum tóbaksjurtarinnar eru um tvö þúsund efni.
Gera þarf greinamun á:
efnasamsetningu laufa tóbaksjurtarinnar
efnum sem bætt er í tóbak við vinnslu
efnasamböndum í tóbaksreyknum sem myndast við brunann þegar reykt er
efnasamböndum í tóbaki sem myndast við blöndun við líkamsvessa
Nikótín
Þekktasta efnið í tóbaksblöðunum er nikótín. Nikótín og sölt þess eru með eitruðustu efnum sem þekkjast. Nikótín er kröftugt, skjótvirkt og ávanabindandi efni. Efnið er aðeins sjö sekúndur að fara upp í heila. Í reyktóbaki er venjulega 1-2% nikótín eða minna. Þetta litla magn er nóg til þess að fólk myndi ekki reykja tóbak án nikótíns. Nikótín er þannig bein forsenda þess að tóbak er reykt eða notað á annan hátt.
Nikótín raskar á margan hátt eðlilegri líkamsstarfsemi. Það örvar meðal annars hjartslátt um 15-30 slög á mínútu, þrengir slagæðar, ekki síst í höndum og fótum, og hækkar blóðþrýsting, eykur viðloðunartilhneigingu blóðflagna auk þess sem það getur valdið hjartakveisu hjá þeim sem eru með hjartasjúkdóm fyrir. Nikótín ruglar hraða efnaskipta í líkamanum og minnkar matarlyst þannig að tóbaksnotendur eru stundum undir kjörþyngd. Þá eykur það munnvatnsrennsli og slímrennsli í nefi og berkjum. Sýrustig í munni eykst en það breytir bakteríuflórunni og veldur andremmu auk þess sem munnvatnskirtlar þorna og tennur geta losnað. Samdráttur í innyflum eykst og hægðir ganga hraðar fyrir sig. Saltsýrumyndun í maga eykst einnig nokkuð. Nikótín hefur áhrif á varnarkerfi líkamans gegn æðakölkun, öndun örvast og sömuleiðis svokölluð uppsölumiðstöð í heilastofni.
Í tóbaksreyk eru yfir sjö þúsund mismundandi efnasambönd, bæði lofttegundir, vökvi og örsmáar fastar efnisagnir.
Nikótín losar dópamín auk annarra boðefna og hormóna úr taugungum í miðtaugakerfinu. Heilafrumur örvast af efninu fyrst í stað en mynda síðan nikótínþol. Talið er að nikótín hafi slævandi áhrif á kyngetu karla. Við það að minnka eða hætta inntöku nikótíns geta, innan við sólarhring, komið fram eftirfarandi einkenni: depurð svefnleysi, pirringur, reiði, óþol, einbeitingarskortur, eirðarleysi, hægari hjartsláttur, svimi og aukin matarlyst.
Tjara
Fjöldi efnasambanda í tjöru skiptir hundruðum. Meðal þeirra eru nokkrir tugir efna sem geta valdið krabbameini. Þegar reyknum er andað ofan í lungu situr 70% af tjörunni eftir í lungunum. Hver ögn er mynduð af mörgum lífrænum og ólífrænum efnum. Tjaran veldur skaða í lungum og bifhárum sem hjálpa annars til við að verja lungun fyrir óhreinindum og sýkingum. Samþjöppuð er tjaran klístrað brúnt efni sem getur litað tennur og fingur reykingamannsins.
Kolsýrlingur (CO), koleinoxíð
Kolsýrlingur er lofttegund sem myndast við ófullkominn bruna þegar nægilegt súrefni berst ekki að. Kolsýrlingur myndast í ríkum mæli þegar tóbak er reykt. Kolsýrlingur er lyktarlaus, bragðlaus og eitruð lofttegund sem ekki verður vart við í andrúmsloftinu. Í stórum skömmtum er hún lífshættuleg.
Kolsýrlingur kemur í veg fyrir súrefnisflutning í blóðinu vegna þess að binding hans við rauðu blóðkornin er sterkari en binding súrefnis við þau. Þannig tekur kolsýrlingur þau sæti sem súrefninu eru ætluð. Þetta leiðir til vægrar fjölgunar rauðra blóðkorna, eins og líkaminn sé að reyna að bæta fyrir minnkaða súrefnisburðargetu. Fjölgun á rauðum blóðkornum leiðir til aukinnar seigju blóðsins sem getur valdið blóðtappamyndun og leitt til annarra alvarlegra blóðrásarsjúkdóma. Í blóði reykingarmanns hefur mælst allt upp í 15% kolsýrlingur en 50% mettun boðar bráðan dauða ef ekkert er að gert.
Önnur eiturefni í tóbaksreyk:
Akrýlónitril - Getur valdið krabbameini. Eitrað við innöndun, í snertingu við húð og við inntöku.
Ammoníak - Eitrað við innöndun. Ætandi.
Arsenik - Eitrað við innöndun og inntöku.
Benzen - Getur valdið krabbameini.
Benzó(a)pýren - Getur valdið krabbameini. Getur valdið arfgengum skaða og getur dregið úr frjósemi og skaðað barn í móðurkviði.
Blásýra - Mjög eitruð við innöndun, í snertingu við húð og við inntöku.
Brennisteinsvetni - Mjög eitrað við innöndun.
Dímetýlnítrósamín - Getur valdið krabbameini. Eitrað við inntöku. Mjög eitrað við innöndun.
Formaldehýð - Getur valdið krabbameini. Eitrað í snertingu við húð, við innöndun og inntöku. Getur valdið ofnæmi í snertingu við húð.
Hýdrazín - Getur valdið krabbameini. Eitrað í snertingu við húð, við innöndun og inntöku. Getur valdið ofnæmi í snertingu við húð. Ætandi.
Metanól (tréspíritus) - Eitrað við innöndun og inntöku.
Pólóníum 210 - Getur valdið krabbameini (geislavirkt efni).
Úretan - Getur valdið krabbameini.
Þessi upptalning er engan veginn tæmandi en gefur þó nokkra hugmynd um hve margbreytt safn af eiturefnum er að finna í tóbaksreyk. Veljum hreint loft!
Mynd:
Alda Ásgeirsdóttir. „Hvaða hættulegu efni eru í sígarettum?“ Vísindavefurinn, 18. júlí 2002, sótt 6. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2599.
Alda Ásgeirsdóttir. (2002, 18. júlí). Hvaða hættulegu efni eru í sígarettum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2599
Alda Ásgeirsdóttir. „Hvaða hættulegu efni eru í sígarettum?“ Vísindavefurinn. 18. júl. 2002. Vefsíða. 6. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2599>.