Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvaða ár var uppgötvað að reykingar eru skaðlegar og hver uppgötvaði það?
Tóbaksplantan er upprunnin frá Ameríku. Fyrir þúsundum ára reyndu töfralæknar í Nýja heiminum að nota reyk úr tóbaksplöntum til að meðhöndla ýmsa kvilla auk þess sem tóbak var notað í trúarathöfnum, meðal annars af Maya-indíánum í Mið-Ameríku. Í kringum 1492 tók útbreiðsla tóbaksreykinga risakipp á heimsvísu þegar Kristófer Kólumbus flutti fyrstur tóbakslauf og fræ frá Suður-Ameríku til Evrópu. Frekari aukning í neyslu tóbaks varð síðan upp úr 1880 þegar byrjað var að framleiða sígarettur í verksmiðjum.
Það var þó ekki fyrr en upp úr 1930 sem fyrst vöknuðu grunsemdir um að reykingar tengdust lungnakrabbameini, en þessi vitneskja náði þó seint eyrum almennings, enda fjölmiðlar tregir til að styggja öfluga tóbaksframleiðendur. Um svipað leyti tókst tóbaksfyrirtækjum að festa rætur í Hollywood og þannig gera sígarettur að tískuvöru, meðal annars með því að fá fræga leikara til að auglýsa sígarettur. Skömmu fyrir 1950 var gullöld reykinga en þá reykti helmingur Vesturlandabúa, mun fleiri karlar (allt að 80% í Bretlandi) en konur. Þarna voru tóbaksvarnir í mýflugumynd og litið á það sem sjálfsögð réttindi hvers og eins að reykja án tillits til annarra.
Hollywoodleikarinn Ronald Reagan, síðar forseti Bandaríkjanna, var meðal þeirra sem auglýsti sígarettur.
Upp úr 1950 birtust rannsóknir sem sýndu óyggjandi fram á tengsl reykinga og lungnakrabbameins. Í kjölfarið fylgdu fleiri rannsóknir þar sem reykingar voru ekki aðeins tengdar fjölda annarra krabbameina en í lungum, heldur einnig hjarta- og æðasjúkdómum. Þrátt fyrir þessa vitneskju náðu sígarettureykingar auknum vinsældum eftir 1950, ekki síst fyrir tilstilli auglýsingaherferða tóbaksfyrirtækja og ítaka þeirra í stefnumótun stjórnvalda í Bandaríkjunum og Evrópu. Lengst af voru Bandaríkjamenn í fararbroddi í reykingavörnum og eftir að bandaríska landlæknisembættið birti tímamótaskýrslu um skaðsemi reykinga árið 1964 ákváðu margir að hætta að reykja, sérstaklega menntaðir karlar. Hjá konum og þeim efnaminni héldu reykingar þó áfram að vera útbreiddar.
Árið 1972 var skaðsemi óbeinna reykinga getið í skýrslu bandaríska landlæknisembættisins og árið 1986 var talið sannað að óbeinar reykingar gætu valdið lungnakrabbameini og væru sérstaklega skaðlegar börnum. Tóbaksfyrirtækin héldu þó áfram áróðri þar sem gert var lítið úr áhættu af reykingum. Það var ekki fyrr en árið 1998 að tóbaksframleiðendur urðu að lúta í lægra haldi eftir útbreiddar málsóknir allra 50 fylkja Bandaríkjanna gegn þeim. Tóbaksfyrirtækin enduðu á að greiða 206 milljarða bandaríkjadala á 25 árum í skaðabætur til að mæta hluta af þeim samfélagskostnaði sem fylgir reykingum. Tóbaksiðnaðinum voru einnig settar skorður varðandi markaðssetningu, ekki síst vegna sölu tóbaks til unglinga. Árið 1999 höfðaði bandaríska ríkið síðan mál á hendur tóbaksfyrirtækjum og sex árum síðar varð til rammasamningur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem gerði að verkum að fjöldi ríkja um allan heim samþykkti lög og reglur um tóbaksvarnir.
Fjöldi ríkja um allan heim hafa samþykkti lög og reglur um tóbaksvarnir.
Málaferli gegn tóbaksfyrirtækjum eru enn í gangi sem mikilvægur hluti af lýðheilsuaðgerðum á alþjóðavísu. Af þessum sökum hefur afkoma tóbaksfyrirtækjanna versnað til muna og því hafa þau í vaxandi mæli sölsað undir sig rafsígarettu- og nikótínpúðaiðnaðinn. Þar er beitt keimlíkri aðferðafræði í markaðssetningu og gert var með sölu sígaretta á sínum tíma. Rafsígarettur og nikótínpúðar eru markaðssett sem skaðlausar vörur og auglýsingum sérstaklega beint að börnum og ungmennum, til dæmis í gegnum áhrifavalda og samfélagsmiðla. Með þessu móti tryggja fyrirtækin sér framtíðarviðskiptavini, enda nikótín eitt mest ávanabindandi fíkniefni sem til er. Þannig eru unglingar sem prófa rafsígarettur taldir allt að fjórfalt líklegri en aðrir til að reykja sígarettur síðar á ævinni.
Myndir:
Þetta svar er fengið úr bæklingnum Hættu nú alveg (ritstjóri og útgefandi Tómas Guðbjartsson). Reykjavík 2024. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum og birt með góðfúslegu leyfi höfunda og útgefanda.
Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. „Hvenær kom skaðsemi reykinga fyrst í ljós og hvað gerðist í kjölfarið?“ Vísindavefurinn, 30. október 2024, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=87101.
Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. (2024, 30. október). Hvenær kom skaðsemi reykinga fyrst í ljós og hvað gerðist í kjölfarið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87101
Tómas Guðbjartsson, Lára G. Sigurðardóttir og Karl Andersen. „Hvenær kom skaðsemi reykinga fyrst í ljós og hvað gerðist í kjölfarið?“ Vísindavefurinn. 30. okt. 2024. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87101>.