- Er hættulegt að anda að sér lofti frá reykingamanni?
- Eru óbeinar reykingar jafn hættulegar og beinar reykingar?
- Hvað getur gerst ef foreldrar reykja með börnin fyrir framan sig? Getur það spillt heilsu barnanna og hver er hættan?
- Er jafn hættulegt að vera á skemmtistöðum og anda ofan í sig tóbaksreyk og reykja?
- Er búið að sanna að óbeinar reykingar valdi lungnakrabbameini?
- Hvaða sjúkdómar geta fylgt óbeinum reykingum?
- Börn sem eiga foreldra sem reykja heima hjá sér anda náttúrulega óvart að sér reyknum. Er það hættulegt fyrir þau eða bara fyrir aðilann sem reykir?
- Hver eru áhrif reykinga á barn þegar það er enn í maganum og móðir þess reykir?
Rúm hálf öld er síðan fyrstu sannanir um heilsuskaðleg áhrif reykinga komu fram og hefur það margoft verið staðfest síðan. Áratugir eru liðnir síðan menn gerðu sér grein fyrir því að reykingar þungaðra kvenna hafa skaðleg áhrif á fóstur. Styttra er síðan vísbendingar komu fram um heilsuskaða hjá þeim sem ekki reykja sjálfir en búa við tóbaksreykmengað andrúmsloft á heimili eða í vinnu. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að óbeinar reykingar geta auk ýmiss konar óþæginda og vanlíðunar valdið mörgum sömu sjúkdómum og hljótast af því að reykja. Óþægindi í augum, nefi og öndunarfærum eru algengustu og best staðfestu heilsufarsáhrif óbeinna reykinga. Sýnt hefur verið fram á að tóbaksreykur og þau efni og efnasambönd sem hann inniheldur, hafa áhrif á starfsemi bifhára í öndunarvegi og draga úr hreinsun slíms og óhreininda, meðal annars reykagna úr öndunarvegi og lungum. Þetta getur valdið því að þeir sem verða fyrir óbeinum reykingum reglulega eigi frekar á hættu að fá langvinn öndunarfæraeinkenni, svo sem hósta, slímuppgang og mæði. Einnig hefur verið sýnt fram á að þeir sem verða fyrir tóbaksreyk heima eða í vinnunni eru í 40-60% meiri hættu á að fá astma en þeir sem ekki verða fyrir tóbaksreyk. Fólk, sem er með astma, fær ekki aðeins alvarlegri astmaköst ef það verður fyrir tóbaksreyk heldur líður því almennt verr og þarf oftar að leggjast inn á sjúkrahús. International Agency for Research on Cancer (IARC) hefur skoðað allar stærri rannsóknir þar sem könnuð voru tengsl milli óbeinna reykinga og lungnakrabbameins. Þessi sérfræðingahópur komst að þeirri niðurstöðu að óbeinar reykingar geti aukið hættu á lungnakrabbameini um 20-30%. Tengsl eru milli þess magns reykjar sem einstaklingur verður fyrir og hættu á lungnakrabbameini, rétt eins og hjá reykingamönnum. Einnig benda rannsóknarniðurstöður til þess að óbeinar reykingar geti aukið hættuna á legháls- og brjóstakrabbameini. Margar rannsóknir hafa sýnt að óbeinar reykingar auka hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum hjá þeim sem búa við reykingar heima eða í vinnunni. Þessar rannsóknir benda til þess að ef einstaklingur sem reykir ekki á maka sem reykir eða vinnur í reykmettuðu umhverfi aukist hættan á að þessi einstaklingur fái hjartaáfall um 25-30%. Ekki er línulegt samband milli reykjarmagns og áhrifa á hjarta- og æðakerfi eins og þegar lungnakrabbamein hlýst af tóbaksreyk. Sérfræðingar hafa komist að því að aðeins lítið magn reykjar þarf til að hafa áhrif á storknun blóðs og myndun blóðtappa en langtímaáhrif koma fram í æðakölkun. Allt eru þetta áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma. Nokkuð er um að rannsóknir sýni tengsl milli óbeinna reykinga og heilablóðfalls. Í ljós hefur komið að fólk, sem varð reglulega fyrir óbeinum reykingum, var í tvöfalt meiri hættu á heilablóðfalli en þeir sem urðu ekki fyrir óbeinum reykingum.
Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir óbeinum reykingum. Tóbaksreykur minnkar lungnavirkni þeirra og þau verða viðkvæmari fyrir sýkingum í öndunarfærum, svo sem lungnabólgu, berkjubólgu og eyrnabólgu. Óbeinar reykingar hafa jafnframt verið tengdar minni vexti lungna (lungun verða ekki eins stór og í jafnöldrum sem búa ekki við reyk heima við). Einnig valda óbeinar reykingar einkennum eins og hósta og blístri í öndunarfærum. Börn reykingafólks fá líka oftar astma en börn þeirra sem reykja ekki og auka óbeinar reykingar fjölda og alvarleika astmakastanna. Í Bretlandi er áætlað að um 17.000 börn undir 5 ára aldri séu lögð inn á sjúkrahús á ári hverju vegna heilsubrests sem rekja má til óbeinna reykinga. Ófædd börn verða fyrir óbeinum reykingum ef móðir þeirra reykir eða ef reykt er í kringum þungaða móður. Lítil fæðingarþyngd og fyrirburafæðing er algengari ef móðirin hefur orðið fyrir óbeinum reykingum á meðgöngu og hættan eykst eftir því sem óbeinu reykingarnar eru meiri og tíðari. Einnig hefur verið bent á að vöggudauði sé algengari ef barn verður fyrir óbeinum reykingum. Þetta svar er hluti af lengri greinargerð um áhrif óbeinna reykinga sem unnin var á vegum Lýðheilsustöðvar og birt hér með góðfúslegu leyfi hennar. Með því að smella hér má sjá greinargerðina í heild sinni auk ítarlegrar heimildaskrár. Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um reykingar, til dæmis:
- Af hverju fær fólk krabbamein ef það reykir? eftir Jóhannes Björnsson
- Hvert er algengasta krabbameinið af völdum reykinga? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Eru sígarettur skaðlegri en vindlar, pípa eða munntóbak? eftir Öldu Ásgeirsdóttur og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir
- Hver er eiginlega lagalegur réttur fósturs gagnvart móður sem reykir eins og strompur á meðgöngunni? eftir Helgu Hafliðadóttur
- Hvers vegna geta sumir reykt tóbak í 70-80 ár án þess að það hafi sýnileg áhrif til heilsubrests á þá? eftir Magnús Jóhannsson