Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða eldgos hefur valdið mestum hamförum?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Ekki er alveg ljóst hvaða merkingu beri að leggja í orðið hamfarir, hvort átt er við hvaða eldgos hefur haft mest áhrif á umhverfi, veðurfar eða landslag, valdið mestu tjóni á mannvirkjum eða kostað flest mannslíf. Þegar fjallað er um áhrifamikil eldgos á jörðinni á sögulegum tíma þá er sjónum gjarnan beint að manntjóni frekar en eignatjóni eða efnahagslegum afleiðingum. Ástæðan gæti verið sú að í samanburði við aðrar náttúruhamfarir eins og jarðskjálfta og fellibylji hafa eldgos ekki verið jafn afdrifarík á þeim sviðum þó þau hafi valdið miklu manntjóni.

Mannskæðasta eldgos sem sögur fara af var í fjallinu Tambora á eyjunni Sumbawa í Indónesíu í apríl árið 1815. Heimildum ber reyndar ekki alveg saman um hversu margir létu lífið í eldgosinu sjálfu eða í kjölfar þess, en ljóst er að mannfallið hljóp á tugum þúsunda. Lengi vel var talið að allt að 92.000 manns hefðu látið lífið í þeim miklu hamförum sem þarna áttu sér stað en seinna meir hefur sú tala verið dregin nokkuð í efa og verið lækkuð allt niður í 50.000.Árið 2004 hófst uppgröftur mannvistaleifa í Tambora undir stjórn Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings (til vinstri á myndinni).

Aðrir vilja meina að mannfallið hafi líklega verið einhvers staðar þarna á milli, um eða yfir 71.000 dauðsföll, þar af hafi um 12.000 látist af völdum gjóskuflóðs eða öskufalls á meðan gosið stóð yfir en aðrir hafi látist úr sjúkdómum, hungri eða vosbúð sem fylgdu í kjölfar eldgossins. Þessi tala upp á 71.000 tekur aðeins til íbúa á Sumbawa og nágranneyjunni Lombok en talið er að einhverjir hafi látist á öðrum eyjum í kring. Nánar má lesa um þetta í greininni Climatic, environmental and human consequences of the largest known historic eruption: Tambora volcano (Indonesia) 1815 eftir Clive Oppenheimer.

Í gosinu í Tambora kom upp mikið magn gosefna eða sem samsvarar um 50 km3 af föstu bergi. Til samanburðar eru stærstu eldgos á Íslandi um 25 km3. Megnið af gosefnunum voru gjóska. Mikið af henni féll sem aska í nágrenni við eldfjallið en töluvert magn barst einnig út í andrúmsloftið og hafði áhrif á veðurfar langt frá gosstaðnum. Talið er að meðallofthiti á jörðinni hafi lækkað fyrstu árin eftir gosið og er árið 1816 talið eitt það kaldasta ár á norðurhveli jarðar í um 600 ár. Í Norður-Ameríku og Evrópu var árið 1816 kallað „árið þegar ekki kom sumar“ (the year without a summer). Afleiðingarnar af sérlega hörðu vori og sumri það árið urðu meðal annars mikill uppskerubrestur með tilheyrandi þrengingum.Í eldgosinu í Tambora kom upp mikið magn gosefna. Rauðu hringirnir sýna áætlað öskufall en aska féll í að minnsta kosti 1300 km fjarlægð frá gosstaðnum.

Annað mannskæðasta eldgos sögunnar er gosið á eyjunni Krakatá í Indónesíu árið 1883. Eyjan sjálf var óbyggð en talið er að um 36.000 manns á nálægum eyjum hafi þá látið lífið, langflestir vegna mikillar flóðbylgju eða tsunami sem myndaðist við gosið. Þriðja mannskæðasta gosið var í eldfjallinu Pelée á karabísku eyjunni Martiník, sem gaus árið 1902. Í því gosi eyddist borgin St. Pierre og fórust allir íbúarnir, í kringum 30.000. Um það er stuttlega fjallað í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos? Í fjórða sæti á þessu lista er svo gos í Nevado del Ruiz í Kólumbíu árið 1985 þá fórust um 25.000 manns.

Í báðum síðastöldu gosum má rekja hið mikla mannfall til gjóskuhlaupa sem eru hættulegustu fyrirbrigði sem myndast geta í eldgosum en í þeim þeytist brennheit gjóskan á miklum hraða niður hlíðar eldfjallsins í stað þess að fara upp í loftið. Hægt er að lesa um gjóskuhlaup í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvers konar eldgos lagði Pompei í rúst?

Þrátt fyrir að þau eldgos sem hér hafa verið nefnd hafi kostað mjög mörg mannslíf þá flokkast ekkert þeirra sem súpereldgos. Í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvað er súpereldgos? kemur fram að nútíma samfélag manna hefur aldrei þurft að glíma við afleiðingar slíks goss en þær yrðu gífurlegar og gætu stór svæði eins og Bandaríkin eða Evrópa orðið fyrir gríðarlegu manntjóni ef slíkt eldgos yrðu þar. Landbúnaður myndi leggjast af sem og flugsamgöngur, en það gæti fljótt leitt til hungursneyðar í þessum heimshlutum. Veðurfarsáhrif yrðu jafnframt gríðarleg þar sem að mikið magn gosefna og eldfjallagufa bærist upp í heiðhvolfin.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:


Hér er einnig svarað spurningunni:
Mig langar að vita hvaða eldfjöll hafa verið mannskæðust síðustu aldir?

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

9.9.2008

Spyrjandi

Elín Jónsdóttir
Ester Ósk Árnadóttir

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaða eldgos hefur valdið mestum hamförum?“ Vísindavefurinn, 9. september 2008, sótt 20. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=26686.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2008, 9. september). Hvaða eldgos hefur valdið mestum hamförum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=26686

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvaða eldgos hefur valdið mestum hamförum?“ Vísindavefurinn. 9. sep. 2008. Vefsíða. 20. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=26686>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða eldgos hefur valdið mestum hamförum?
Ekki er alveg ljóst hvaða merkingu beri að leggja í orðið hamfarir, hvort átt er við hvaða eldgos hefur haft mest áhrif á umhverfi, veðurfar eða landslag, valdið mestu tjóni á mannvirkjum eða kostað flest mannslíf. Þegar fjallað er um áhrifamikil eldgos á jörðinni á sögulegum tíma þá er sjónum gjarnan beint að manntjóni frekar en eignatjóni eða efnahagslegum afleiðingum. Ástæðan gæti verið sú að í samanburði við aðrar náttúruhamfarir eins og jarðskjálfta og fellibylji hafa eldgos ekki verið jafn afdrifarík á þeim sviðum þó þau hafi valdið miklu manntjóni.

Mannskæðasta eldgos sem sögur fara af var í fjallinu Tambora á eyjunni Sumbawa í Indónesíu í apríl árið 1815. Heimildum ber reyndar ekki alveg saman um hversu margir létu lífið í eldgosinu sjálfu eða í kjölfar þess, en ljóst er að mannfallið hljóp á tugum þúsunda. Lengi vel var talið að allt að 92.000 manns hefðu látið lífið í þeim miklu hamförum sem þarna áttu sér stað en seinna meir hefur sú tala verið dregin nokkuð í efa og verið lækkuð allt niður í 50.000.Árið 2004 hófst uppgröftur mannvistaleifa í Tambora undir stjórn Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings (til vinstri á myndinni).

Aðrir vilja meina að mannfallið hafi líklega verið einhvers staðar þarna á milli, um eða yfir 71.000 dauðsföll, þar af hafi um 12.000 látist af völdum gjóskuflóðs eða öskufalls á meðan gosið stóð yfir en aðrir hafi látist úr sjúkdómum, hungri eða vosbúð sem fylgdu í kjölfar eldgossins. Þessi tala upp á 71.000 tekur aðeins til íbúa á Sumbawa og nágranneyjunni Lombok en talið er að einhverjir hafi látist á öðrum eyjum í kring. Nánar má lesa um þetta í greininni Climatic, environmental and human consequences of the largest known historic eruption: Tambora volcano (Indonesia) 1815 eftir Clive Oppenheimer.

Í gosinu í Tambora kom upp mikið magn gosefna eða sem samsvarar um 50 km3 af föstu bergi. Til samanburðar eru stærstu eldgos á Íslandi um 25 km3. Megnið af gosefnunum voru gjóska. Mikið af henni féll sem aska í nágrenni við eldfjallið en töluvert magn barst einnig út í andrúmsloftið og hafði áhrif á veðurfar langt frá gosstaðnum. Talið er að meðallofthiti á jörðinni hafi lækkað fyrstu árin eftir gosið og er árið 1816 talið eitt það kaldasta ár á norðurhveli jarðar í um 600 ár. Í Norður-Ameríku og Evrópu var árið 1816 kallað „árið þegar ekki kom sumar“ (the year without a summer). Afleiðingarnar af sérlega hörðu vori og sumri það árið urðu meðal annars mikill uppskerubrestur með tilheyrandi þrengingum.Í eldgosinu í Tambora kom upp mikið magn gosefna. Rauðu hringirnir sýna áætlað öskufall en aska féll í að minnsta kosti 1300 km fjarlægð frá gosstaðnum.

Annað mannskæðasta eldgos sögunnar er gosið á eyjunni Krakatá í Indónesíu árið 1883. Eyjan sjálf var óbyggð en talið er að um 36.000 manns á nálægum eyjum hafi þá látið lífið, langflestir vegna mikillar flóðbylgju eða tsunami sem myndaðist við gosið. Þriðja mannskæðasta gosið var í eldfjallinu Pelée á karabísku eyjunni Martiník, sem gaus árið 1902. Í því gosi eyddist borgin St. Pierre og fórust allir íbúarnir, í kringum 30.000. Um það er stuttlega fjallað í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos? Í fjórða sæti á þessu lista er svo gos í Nevado del Ruiz í Kólumbíu árið 1985 þá fórust um 25.000 manns.

Í báðum síðastöldu gosum má rekja hið mikla mannfall til gjóskuhlaupa sem eru hættulegustu fyrirbrigði sem myndast geta í eldgosum en í þeim þeytist brennheit gjóskan á miklum hraða niður hlíðar eldfjallsins í stað þess að fara upp í loftið. Hægt er að lesa um gjóskuhlaup í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvers konar eldgos lagði Pompei í rúst?

Þrátt fyrir að þau eldgos sem hér hafa verið nefnd hafi kostað mjög mörg mannslíf þá flokkast ekkert þeirra sem súpereldgos. Í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvað er súpereldgos? kemur fram að nútíma samfélag manna hefur aldrei þurft að glíma við afleiðingar slíks goss en þær yrðu gífurlegar og gætu stór svæði eins og Bandaríkin eða Evrópa orðið fyrir gríðarlegu manntjóni ef slíkt eldgos yrðu þar. Landbúnaður myndi leggjast af sem og flugsamgöngur, en það gæti fljótt leitt til hungursneyðar í þessum heimshlutum. Veðurfarsáhrif yrðu jafnframt gríðarleg þar sem að mikið magn gosefna og eldfjallagufa bærist upp í heiðhvolfin.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:


Hér er einnig svarað spurningunni:
Mig langar að vita hvaða eldfjöll hafa verið mannskæðust síðustu aldir?
...