Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos?

Ármann Höskuldsson

Eldgos eru flokkuð á ýmsa vegu. Einna algengast er að nota aðferð George P.L. Walker, en hann flokkaði eldgos í hawaiisk (basísk hraungos), stombólsk (sprengivirk hraungos), vúlkönsk (stopul sprengivirkni með eða án hraungúls) og plínísk (sem hafa verið nefnd þeytigos á íslensku). Einnig eru tveir flokkar þar sem utanaðkomandi vatn hefur mikil áhrif á kvikuna, annars vegar surtseysk gos (basísk) og hins vegar phreato plínísk gos (súr) sem er í rauninni undirflokkur plínískra gosa.

Þessi flokkun Walkers byggir fyrst og fremst á tætingu kvikunnar í gosopi og dreifingu gjóskunnar sem myndast við það. Kostur þessarar aðferðar er að hægt er að beita mælistiku á gosefni til að meta aðstæður á tímum eldgoss. Þessi flokkunaraðferð er hins vegar háð sprengivirkni eldgossins og segir því minna til um eldgos þar sem meginhluti efnanna kemur upp á föstu formi sem hraun eða hraungúll og enn minna um blandgos.

Plínískt eldgos eru kennd við fjölfræðinginn Pliníus eldri sem fórst þegar Vesúvíus á Ítalíu gaus árið 79 og lagði borgina Pompei í rúst. Plínísk gos einkennist af háum gosmekki (20-45 km) og stöðugu útstreymi kviku í langan tíma. Kvikan er seig, köld og vatnsrík sem veldur því að hún tætist í gosrásinni og myndar gjósku. Gjóska og eldfjallagufur troðast út um gosopið á miklum hraða (allt að 600 km/klst) og mynda gosmökkinn ofan við eldstöðina. Þessar aðstæður valda því að gjóskan dreifist um mjög stórt landsvæði. Dæmi um slík eldgos eru eldgosin í Heklu 1947 og 1104, eldgosið í Öskju 1875 og eldgosið í Öræfajökli 1362. Kvikan sem kemur til yfirborðs í slíkum eldgosum er iðulega ísúr til súr. Hægt er að lesa um súra og ísúra kviku í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er átt við með súrum, ísúrum og basískum eldgosum?



Í plínískum eldgosum rís gosmökkurinn hátt til himins en í pelée gosum myndast fyrst hraungúll sem stíflar gosrásina og mikill þrýstingur byggist upp. Þegar gosefnin ná að brjóta sér leið upp á yfirborðið nær gosmökkurinn ekki að rísa hátt upp í loftið heldur þeytist brennheit gjóskan á miklum hraða niður hlíðar eldfjallsins sem gjóskuhlaup.

Pelée eldgos draga nafn sitt af eldfjallinu Pelée á karabísku eyjunni Martiník, sem gaus með voveiflegum hætti 8. maí árið 1902. Í þessu eldgosi eyddist borgin St. Pierre og fórust allir íbúarnir, í kringum 30.000, að undaskildum einum manni og einni konu.

Eldgosið hófst með þeim hætti að súr, seig og vatnsrýr kvika tróðst út um toppgíg eldfjallsins og myndaði hraungúl. Hraungúllinn myndaði tappa í gosrásina þannig að fyrir neðan hann hlóðst upp mikill þrýstingur. Þann 8. maí brast tappinn og kvikan streymdi hratt upp á yfirborðið. Sökum lágs vatnshlutfalls varð tæting kvikunnar ekki næg og útstreymi ekki nógu stöðugt til að lyfta gosmekkinum hátt í loft upp eins og í plínísku eldgosi heldur náði gosmökkurinn einungis 8-12 km hæð. Gjóskan streymdi því sem gjóskuhlaup niður hlíðar eldfjallsins með ofangreindum afleiðingum. Hægt er að lesa um gjóskuhlaup í svari sama höfundar við spurningunni Hvers konar eldgos lagði Pompei í rúst?

Í flokkunarkerfi Walkers flokkast þetta eldgos í fjallinu Pelée sem vúlkanskt. Þegar gosið er hins vegar skoðað í heild sinni er hér um að ræða blandgos, það er upphaflega er það hraungúll sem treðst upp um gosopið og eyðist síðan í vúlkanskri sprengingu. Þegar við tölum um peléeísk eldgos erum við því að tala um blandgos þar sem ofangreint ferli endurtekur sig.

Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör sem fjalla um eldgos, til dæmis:

Myndir:


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað gerðist í Martiník árið 1902?

Höfundur

Ármann Höskuldsson

eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans

Útgáfudagur

18.4.2008

Spyrjandi

Elín Jónsdóttir
Árný Ósk
Nanna Ármannsdóttir

Tilvísun

Ármann Höskuldsson. „Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos?“ Vísindavefurinn, 18. apríl 2008. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=7358.

Ármann Höskuldsson. (2008, 18. apríl). Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=7358

Ármann Höskuldsson. „Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos?“ Vísindavefurinn. 18. apr. 2008. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=7358>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um peléeísk og plínísk eldgos?
Eldgos eru flokkuð á ýmsa vegu. Einna algengast er að nota aðferð George P.L. Walker, en hann flokkaði eldgos í hawaiisk (basísk hraungos), stombólsk (sprengivirk hraungos), vúlkönsk (stopul sprengivirkni með eða án hraungúls) og plínísk (sem hafa verið nefnd þeytigos á íslensku). Einnig eru tveir flokkar þar sem utanaðkomandi vatn hefur mikil áhrif á kvikuna, annars vegar surtseysk gos (basísk) og hins vegar phreato plínísk gos (súr) sem er í rauninni undirflokkur plínískra gosa.

Þessi flokkun Walkers byggir fyrst og fremst á tætingu kvikunnar í gosopi og dreifingu gjóskunnar sem myndast við það. Kostur þessarar aðferðar er að hægt er að beita mælistiku á gosefni til að meta aðstæður á tímum eldgoss. Þessi flokkunaraðferð er hins vegar háð sprengivirkni eldgossins og segir því minna til um eldgos þar sem meginhluti efnanna kemur upp á föstu formi sem hraun eða hraungúll og enn minna um blandgos.

Plínískt eldgos eru kennd við fjölfræðinginn Pliníus eldri sem fórst þegar Vesúvíus á Ítalíu gaus árið 79 og lagði borgina Pompei í rúst. Plínísk gos einkennist af háum gosmekki (20-45 km) og stöðugu útstreymi kviku í langan tíma. Kvikan er seig, köld og vatnsrík sem veldur því að hún tætist í gosrásinni og myndar gjósku. Gjóska og eldfjallagufur troðast út um gosopið á miklum hraða (allt að 600 km/klst) og mynda gosmökkinn ofan við eldstöðina. Þessar aðstæður valda því að gjóskan dreifist um mjög stórt landsvæði. Dæmi um slík eldgos eru eldgosin í Heklu 1947 og 1104, eldgosið í Öskju 1875 og eldgosið í Öræfajökli 1362. Kvikan sem kemur til yfirborðs í slíkum eldgosum er iðulega ísúr til súr. Hægt er að lesa um súra og ísúra kviku í svari sama höfundar við spurningunni Hvað er átt við með súrum, ísúrum og basískum eldgosum?



Í plínískum eldgosum rís gosmökkurinn hátt til himins en í pelée gosum myndast fyrst hraungúll sem stíflar gosrásina og mikill þrýstingur byggist upp. Þegar gosefnin ná að brjóta sér leið upp á yfirborðið nær gosmökkurinn ekki að rísa hátt upp í loftið heldur þeytist brennheit gjóskan á miklum hraða niður hlíðar eldfjallsins sem gjóskuhlaup.

Pelée eldgos draga nafn sitt af eldfjallinu Pelée á karabísku eyjunni Martiník, sem gaus með voveiflegum hætti 8. maí árið 1902. Í þessu eldgosi eyddist borgin St. Pierre og fórust allir íbúarnir, í kringum 30.000, að undaskildum einum manni og einni konu.

Eldgosið hófst með þeim hætti að súr, seig og vatnsrýr kvika tróðst út um toppgíg eldfjallsins og myndaði hraungúl. Hraungúllinn myndaði tappa í gosrásina þannig að fyrir neðan hann hlóðst upp mikill þrýstingur. Þann 8. maí brast tappinn og kvikan streymdi hratt upp á yfirborðið. Sökum lágs vatnshlutfalls varð tæting kvikunnar ekki næg og útstreymi ekki nógu stöðugt til að lyfta gosmekkinum hátt í loft upp eins og í plínísku eldgosi heldur náði gosmökkurinn einungis 8-12 km hæð. Gjóskan streymdi því sem gjóskuhlaup niður hlíðar eldfjallsins með ofangreindum afleiðingum. Hægt er að lesa um gjóskuhlaup í svari sama höfundar við spurningunni Hvers konar eldgos lagði Pompei í rúst?

Í flokkunarkerfi Walkers flokkast þetta eldgos í fjallinu Pelée sem vúlkanskt. Þegar gosið er hins vegar skoðað í heild sinni er hér um að ræða blandgos, það er upphaflega er það hraungúll sem treðst upp um gosopið og eyðist síðan í vúlkanskri sprengingu. Þegar við tölum um peléeísk eldgos erum við því að tala um blandgos þar sem ofangreint ferli endurtekur sig.

Á Vísindavefnum eru fjölmörg önnur svör sem fjalla um eldgos, til dæmis:

Myndir:


Hér er einnig svarað spurningunni:
Hvað gerðist í Martiník árið 1902?
...