Sólin Sólin Rís 03:04 • sest 23:52 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 02:49 • Sest 12:05 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:35 • Síðdegis: 24:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:26 • Síðdegis: 17:39 í Reykjavík

Hvað gerðist í orrustunni um Saipan í síðari heimsstyrjöldinni?

G. Jökull Gíslason

Kyrrahafsstríðið hófst með árás Japana á Pearl Harbor hinn 7. desember 1941. Í kjölfarið fylgdu örir landvinningar og sigrar Japana sem lögðu undir sig landsvæði allt að Indlandi til vesturs, Nýju-Gíneu til suðurs og Wake-eyju og Gilberts-eyja til austurs. Þetta var mikil sigurganga og gefur til kynna þá miklu yfirburði sem Japanir höfðu í upphafi. Aðalástæða þess var einföld. Japan var á þessum tíma herveldisþjóð og réðst á þjóðir og svæði sem gátu illa varið sig. Það breyttist þó fljótt þegar Bandaríkin hófu að hervæðast og taka þátt af fullum þunga.

Ein veigamesta orrusta síðari heimsstyrjaldarinnar og sennilega sú mikilvægasta í Kyrrahafsstríðinu fór fram 4. til 7. júní 1942, rúmlega hálfu ári eftir árásina á Pearl Harbor. Þar var barist um Midway-eyjar og fór svo að Japanir guldu afhroð og töpuðu mikilvægum flugmóðurskipum, flugvélum og flugmönnum. Sá skaði var þeim óbætanlegur.

Kyrrahafið og eyjarnar sem koma við sögu í þessu svari.

Eftir það óx styrkur Bandaríkjamanna hratt á Kyrrahafinu og þeir, ásamt herjum Breska samveldisins, hófu að vinna til baka þau svæði sem Japanir höfðu náð. Fyrst voru það Salómons-eyjar og þar á eftir Gilberts- og Marshall-eyjar. Ásamt Áströlum náðu þeir einnig að stoppa landvinninga Japana á Nýju-Gíneu og hrekja þá til baka.

Herför Bandaríkjamanna var kölluð „eyjahopp“ eða „Island Hopping“. Hún miðaði að því að sækja að Japönum með því að hertaka hvern eyjaklasann á fætur öðrum. Á víðáttumiklu hafsvæði Kyrrahafsins voru þessir eyjaklasar lykillinn að yfirráðum á hafsvæðunum í kring og mikilvægir fyrir flugvélar og vistir.

Eftir fyrri sigra var röðin komin að Maríana-eyjaklasanum. Þetta voru fyrstu eyjarnar sem Bandaríkin réðust á sem höfðu tilheyrt Japan frá því fyrir stríð, en ekki verið herteknar af Japönum eftir að stríðið hófst. Vegna staðsetningar sinnar var Maríana-eyjaklasinn mjög mikilvægur í innri varnarhring japanska veldisins. Ljóst var að fall eyjanna mundi hafa gríðarleg áhrif á gang stríðsins því þá gætu Bandaríkjamenn hindrað allar samgöngur til og frá Japan í suðri. Það ætluðu Bandaríkjamenn að gera með skipum og kafbátum. Einna mikilvægast var þó að gera þar flugvelli þaðan sem herflugvélar af tegundinni B-29 Superfortress gátu athafnað sig en þarna voru þær komnar nógu nálægt til að geta flogið yfir margar japanskar borgir.

B-29 Superfortress. Vélar af þessari tegund áttu eftir að valda miklum skaða í Japan með eldsprengjuárásum og voru að lokum notaðar til að sleppa kjarnorkusprengjunum á Híróshíma og Nagasakí í ágúst árið 1945.

Japanir höfðu gert sitt besta til að vígbúa eyjarnar og áttu enn þá flota sem gat valdið Bandaríkjamönnum usla. Aðflutningar voru þó erfiðir og kafbátahernaður Bandaríkjanna gegn Japan var farinn að valda Japönum miklum skaða.

Eyjan Saipan er næststærsta eyja Maríana-eyjaklasans á eftir Guam og sú fyrsta sem Bandaríkjamenn réðust á. Bandaríkin skipulögðu aðgerðir sínar vel og sendu þrjár herdeildir til Saipan. Aðgerðir hófust hinn 13. júní 1944 með því að bandaríski sjóherinn lét skotum rigna yfir Saipan til þess að auðvelda landgöngu. Til þess voru notuð 165.000 skot, þau stærstu voru 410 mm í þvermál og vógu yfir eitt tonn. Landgangan hófst að morgni 15. júní og leiddu 300 landgönguskriðdrekar sóknina, en þeir gátu siglt á sjó. Árásin var vel studd af herskipum og flugvélum af flugmóðurskipum. Landgangan var engu að síður erfið og kostaði mikið mannfall í báðum liðum. Japanir mættu innrásarhernum með vel skipulögðum vörnum, vélbyssum, stórskotaliði og gaddavír en um kvöldið höfðu bandarísku landgönguliðarnir náð fótfestu og hrundu frá sér öflugri gagnsókn Japana um nóttina. Japanir gerðu grimmar gagnsóknir á fyrstu dögunum en þær náðu engum árangri öðrum en að valda miklu mannfalli, þó mest hjá Japönum sjálfum.

Bandarískir landgönguskriðdrekar (e. Landing Vehicle Tracked - LVT) lenda á Tinian, systureyju Saipan, í lok júlí 1944. Sams konar farartæki voru notuð við landtöku á Saipan.

Japanski flotaforinginn Soemu Toyoda (1885–1957) sendi síðustu sterku flotaeiningu Japana gegn innrásarflotanum og við tóku ein umfangsmestu átök sem orðið hafa á milli flugmóðurskipa í mannkynssögunni. Þau urðu hins vegar nokkuð einhliða og enduðu með afgerandi sigri Bandaríkjamanna. Þessi sjóorrusta hefur hlotið nafngiftina The Great Marianas Turkey Shoot á ensku, það þýðist illa en vísar til þess að mjög auðvelt er að skjóta kalkúna þar sem þeir eru ófleygir, svifaseinir og geta enga vörn sér veitt. Ástæðan fyrir miklum yfirburðum Bandaríkjanna var meðal annars sú að sáralítil þróun hafði orðið í herbúnaði Japana frá upphafi Kyrrahafsstríðsins. Þeir reiddu sig enn á Zero A6M-flugvélar sem höfðu verið öflugar á árunum 1941-42 en stóðust engan veginn nýjar Hellcat-flugvélar Bandaríkjamanna. Þá höfðu Japanir þegar misst nær alla sína hæfustu flugmenn og nýliðarnir í þessari orrustu máttu sín lítils á móti reyndari og betur þjálfuðum Bandaríkjamönnum.

Bandaríkjamenn skutu niður meira en 600 japanskar flugvélar á tveimur dögum og eftir það höfðu Japanir nær engan sóknarkraft á hafi. Það varð til þess að þeir tóku upp kamikaze-flugvélasjálfsmorðsárásir í von um að geta að minnsta kosti valdið einhverjum skaða þar sem þeir höfðu aldrei tök á því að bæta sér upp missi flugvéla og þjálfaðra flugmanna.

Bandarískir hermenn leita skjóls við skriðdreka. Sókn Bandaríkjamanna gekk nokkuð vel en Japanir voru staðráðnir í að berjast til síðasta manns.

Bandaríkjamenn héldu áfram að sækja fram á Saipan næstu daga og þar sem Japanir áttu enga möguleika á að koma að liðsauka og vistum til eyjarinnar eftir stórtap í sjóorrustunni, var staða þeirra vonlaus. Þrátt fyrir það börðust þeir af heift og reyndu að valda eins miklum skaða og þeir gátu. Það var 7. júlí að leifar japönsku hersveitanna gerðu lokaárás á víglínur Bandaríkjamanna. Japanska herliðið taldi þá um 3.000 menn en á eftir þeim ósærðu komu særðir japanskir hermenn sem sumir þurftu að ganga með staf. Þeir voru mjög illa vopnaðir en sóttu fram í opinn dauðan. Þetta lokaáhlaup stóð yfir í 15 klukkustundir og þegar því var lokið voru nær engir japanskir hermenn eftir. Hinn 9. júlí lýsti Turner flotaforingi því yfir að Saipan væri sigruð. Af þeim 30.000 japönsku hermönnum sem höfðu verið á eyjunni voru næstum allir fallnir. Hjá Bandaríkjamönnum særðust 10.464 en 2.949 létust.

Það er sorgarsaga að segja frá því að af rúmlega 25.000 íbúum eyjarinnar þá dóu um 20.000 í árásinni. Flestir íbúarnir féllu í átökunum sjálfum þegar barist var í návígi eða vistarverur sprengdar. Japönsk yfirvöld höfðu áhyggjur af því að Bandaríkin gætu notað íbúa Saipan í áróðursskyni. Hirohito keisari (1901–1989) sendi því út hvatningu til fólks um að svipta sig lífi frekar en að vera tekið höndum og þeir sem færu þá leið fengju sama stað í framhaldslífinu og þeir hermenn sem féllu í orrustu. Yfir 1.000 óbreyttir borgarar svöruðu kalli keisarans, eða óttuðust um afdrif sín væru þeir handteknir, og tóku eigið líf. Eyjaskeggjar og þeir sem heimsækja eyjuna eru minntir á þetta enn þann dag í dag með örnefnum á borð við Sjálfsmorðsklettur og Banzai-klettur, þar sem hundruð íbúar köstuðu sér fram af, oft með börnum sínum.

Margir íbúar Saipan völdu að taka eigið líf fremur en að falla í hendur óvinarins. Hundruð hentu sér fram af þessum kletti sem síðan hefur gengið undir heitinu Sjálfsmorðsklettur (e. Suicide Cliff).

Fall Saipan hafði alvarlegar afleiðingar fyrir Japan. Bandaríkjamenn voru fljótir að byggja þar öfluga herstöð sem var í lykilhlutverki í frekari landvinningum og nú gátu þeir gert árásir beint á Japan. Missir japanska flotans var líka afgerandi og þeir gátu ekki lengur veitt bandaríska flotanum viðnám. Fall Saipan varð til þess að forsætisráðherra Japan, Hideki Tojo (1884–1948) varð að segja af sér embætti en hann hafði verið einn helsti áhrifamaður japanskrar útþenslustefnu.

Heimildir, frekari fróðleikur og myndir:

Höfundur

G. Jökull Gíslason

rithöfundur og stundakennari hjá Endurmenntun HÍ

Útgáfudagur

5.9.2016

Spyrjandi

Kristófer Þorgrímsson

Tilvísun

G. Jökull Gíslason. „Hvað gerðist í orrustunni um Saipan í síðari heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 5. september 2016. Sótt 10. júní 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=27076.

G. Jökull Gíslason. (2016, 5. september). Hvað gerðist í orrustunni um Saipan í síðari heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=27076

G. Jökull Gíslason. „Hvað gerðist í orrustunni um Saipan í síðari heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 5. sep. 2016. Vefsíða. 10. jún. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=27076>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerðist í orrustunni um Saipan í síðari heimsstyrjöldinni?
Kyrrahafsstríðið hófst með árás Japana á Pearl Harbor hinn 7. desember 1941. Í kjölfarið fylgdu örir landvinningar og sigrar Japana sem lögðu undir sig landsvæði allt að Indlandi til vesturs, Nýju-Gíneu til suðurs og Wake-eyju og Gilberts-eyja til austurs. Þetta var mikil sigurganga og gefur til kynna þá miklu yfirburði sem Japanir höfðu í upphafi. Aðalástæða þess var einföld. Japan var á þessum tíma herveldisþjóð og réðst á þjóðir og svæði sem gátu illa varið sig. Það breyttist þó fljótt þegar Bandaríkin hófu að hervæðast og taka þátt af fullum þunga.

Ein veigamesta orrusta síðari heimsstyrjaldarinnar og sennilega sú mikilvægasta í Kyrrahafsstríðinu fór fram 4. til 7. júní 1942, rúmlega hálfu ári eftir árásina á Pearl Harbor. Þar var barist um Midway-eyjar og fór svo að Japanir guldu afhroð og töpuðu mikilvægum flugmóðurskipum, flugvélum og flugmönnum. Sá skaði var þeim óbætanlegur.

Kyrrahafið og eyjarnar sem koma við sögu í þessu svari.

Eftir það óx styrkur Bandaríkjamanna hratt á Kyrrahafinu og þeir, ásamt herjum Breska samveldisins, hófu að vinna til baka þau svæði sem Japanir höfðu náð. Fyrst voru það Salómons-eyjar og þar á eftir Gilberts- og Marshall-eyjar. Ásamt Áströlum náðu þeir einnig að stoppa landvinninga Japana á Nýju-Gíneu og hrekja þá til baka.

Herför Bandaríkjamanna var kölluð „eyjahopp“ eða „Island Hopping“. Hún miðaði að því að sækja að Japönum með því að hertaka hvern eyjaklasann á fætur öðrum. Á víðáttumiklu hafsvæði Kyrrahafsins voru þessir eyjaklasar lykillinn að yfirráðum á hafsvæðunum í kring og mikilvægir fyrir flugvélar og vistir.

Eftir fyrri sigra var röðin komin að Maríana-eyjaklasanum. Þetta voru fyrstu eyjarnar sem Bandaríkin réðust á sem höfðu tilheyrt Japan frá því fyrir stríð, en ekki verið herteknar af Japönum eftir að stríðið hófst. Vegna staðsetningar sinnar var Maríana-eyjaklasinn mjög mikilvægur í innri varnarhring japanska veldisins. Ljóst var að fall eyjanna mundi hafa gríðarleg áhrif á gang stríðsins því þá gætu Bandaríkjamenn hindrað allar samgöngur til og frá Japan í suðri. Það ætluðu Bandaríkjamenn að gera með skipum og kafbátum. Einna mikilvægast var þó að gera þar flugvelli þaðan sem herflugvélar af tegundinni B-29 Superfortress gátu athafnað sig en þarna voru þær komnar nógu nálægt til að geta flogið yfir margar japanskar borgir.

B-29 Superfortress. Vélar af þessari tegund áttu eftir að valda miklum skaða í Japan með eldsprengjuárásum og voru að lokum notaðar til að sleppa kjarnorkusprengjunum á Híróshíma og Nagasakí í ágúst árið 1945.

Japanir höfðu gert sitt besta til að vígbúa eyjarnar og áttu enn þá flota sem gat valdið Bandaríkjamönnum usla. Aðflutningar voru þó erfiðir og kafbátahernaður Bandaríkjanna gegn Japan var farinn að valda Japönum miklum skaða.

Eyjan Saipan er næststærsta eyja Maríana-eyjaklasans á eftir Guam og sú fyrsta sem Bandaríkjamenn réðust á. Bandaríkin skipulögðu aðgerðir sínar vel og sendu þrjár herdeildir til Saipan. Aðgerðir hófust hinn 13. júní 1944 með því að bandaríski sjóherinn lét skotum rigna yfir Saipan til þess að auðvelda landgöngu. Til þess voru notuð 165.000 skot, þau stærstu voru 410 mm í þvermál og vógu yfir eitt tonn. Landgangan hófst að morgni 15. júní og leiddu 300 landgönguskriðdrekar sóknina, en þeir gátu siglt á sjó. Árásin var vel studd af herskipum og flugvélum af flugmóðurskipum. Landgangan var engu að síður erfið og kostaði mikið mannfall í báðum liðum. Japanir mættu innrásarhernum með vel skipulögðum vörnum, vélbyssum, stórskotaliði og gaddavír en um kvöldið höfðu bandarísku landgönguliðarnir náð fótfestu og hrundu frá sér öflugri gagnsókn Japana um nóttina. Japanir gerðu grimmar gagnsóknir á fyrstu dögunum en þær náðu engum árangri öðrum en að valda miklu mannfalli, þó mest hjá Japönum sjálfum.

Bandarískir landgönguskriðdrekar (e. Landing Vehicle Tracked - LVT) lenda á Tinian, systureyju Saipan, í lok júlí 1944. Sams konar farartæki voru notuð við landtöku á Saipan.

Japanski flotaforinginn Soemu Toyoda (1885–1957) sendi síðustu sterku flotaeiningu Japana gegn innrásarflotanum og við tóku ein umfangsmestu átök sem orðið hafa á milli flugmóðurskipa í mannkynssögunni. Þau urðu hins vegar nokkuð einhliða og enduðu með afgerandi sigri Bandaríkjamanna. Þessi sjóorrusta hefur hlotið nafngiftina The Great Marianas Turkey Shoot á ensku, það þýðist illa en vísar til þess að mjög auðvelt er að skjóta kalkúna þar sem þeir eru ófleygir, svifaseinir og geta enga vörn sér veitt. Ástæðan fyrir miklum yfirburðum Bandaríkjanna var meðal annars sú að sáralítil þróun hafði orðið í herbúnaði Japana frá upphafi Kyrrahafsstríðsins. Þeir reiddu sig enn á Zero A6M-flugvélar sem höfðu verið öflugar á árunum 1941-42 en stóðust engan veginn nýjar Hellcat-flugvélar Bandaríkjamanna. Þá höfðu Japanir þegar misst nær alla sína hæfustu flugmenn og nýliðarnir í þessari orrustu máttu sín lítils á móti reyndari og betur þjálfuðum Bandaríkjamönnum.

Bandaríkjamenn skutu niður meira en 600 japanskar flugvélar á tveimur dögum og eftir það höfðu Japanir nær engan sóknarkraft á hafi. Það varð til þess að þeir tóku upp kamikaze-flugvélasjálfsmorðsárásir í von um að geta að minnsta kosti valdið einhverjum skaða þar sem þeir höfðu aldrei tök á því að bæta sér upp missi flugvéla og þjálfaðra flugmanna.

Bandarískir hermenn leita skjóls við skriðdreka. Sókn Bandaríkjamanna gekk nokkuð vel en Japanir voru staðráðnir í að berjast til síðasta manns.

Bandaríkjamenn héldu áfram að sækja fram á Saipan næstu daga og þar sem Japanir áttu enga möguleika á að koma að liðsauka og vistum til eyjarinnar eftir stórtap í sjóorrustunni, var staða þeirra vonlaus. Þrátt fyrir það börðust þeir af heift og reyndu að valda eins miklum skaða og þeir gátu. Það var 7. júlí að leifar japönsku hersveitanna gerðu lokaárás á víglínur Bandaríkjamanna. Japanska herliðið taldi þá um 3.000 menn en á eftir þeim ósærðu komu særðir japanskir hermenn sem sumir þurftu að ganga með staf. Þeir voru mjög illa vopnaðir en sóttu fram í opinn dauðan. Þetta lokaáhlaup stóð yfir í 15 klukkustundir og þegar því var lokið voru nær engir japanskir hermenn eftir. Hinn 9. júlí lýsti Turner flotaforingi því yfir að Saipan væri sigruð. Af þeim 30.000 japönsku hermönnum sem höfðu verið á eyjunni voru næstum allir fallnir. Hjá Bandaríkjamönnum særðust 10.464 en 2.949 létust.

Það er sorgarsaga að segja frá því að af rúmlega 25.000 íbúum eyjarinnar þá dóu um 20.000 í árásinni. Flestir íbúarnir féllu í átökunum sjálfum þegar barist var í návígi eða vistarverur sprengdar. Japönsk yfirvöld höfðu áhyggjur af því að Bandaríkin gætu notað íbúa Saipan í áróðursskyni. Hirohito keisari (1901–1989) sendi því út hvatningu til fólks um að svipta sig lífi frekar en að vera tekið höndum og þeir sem færu þá leið fengju sama stað í framhaldslífinu og þeir hermenn sem féllu í orrustu. Yfir 1.000 óbreyttir borgarar svöruðu kalli keisarans, eða óttuðust um afdrif sín væru þeir handteknir, og tóku eigið líf. Eyjaskeggjar og þeir sem heimsækja eyjuna eru minntir á þetta enn þann dag í dag með örnefnum á borð við Sjálfsmorðsklettur og Banzai-klettur, þar sem hundruð íbúar köstuðu sér fram af, oft með börnum sínum.

Margir íbúar Saipan völdu að taka eigið líf fremur en að falla í hendur óvinarins. Hundruð hentu sér fram af þessum kletti sem síðan hefur gengið undir heitinu Sjálfsmorðsklettur (e. Suicide Cliff).

Fall Saipan hafði alvarlegar afleiðingar fyrir Japan. Bandaríkjamenn voru fljótir að byggja þar öfluga herstöð sem var í lykilhlutverki í frekari landvinningum og nú gátu þeir gert árásir beint á Japan. Missir japanska flotans var líka afgerandi og þeir gátu ekki lengur veitt bandaríska flotanum viðnám. Fall Saipan varð til þess að forsætisráðherra Japan, Hideki Tojo (1884–1948) varð að segja af sér embætti en hann hafði verið einn helsti áhrifamaður japanskrar útþenslustefnu.

Heimildir, frekari fróðleikur og myndir:

...