Sólin Sólin Rís 06:34 • sest 20:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:29 • Sest 19:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:24 • Síðdegis: 15:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:34 • sest 20:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:29 • Sest 19:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:24 • Síðdegis: 15:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getur þú sagt mér um Leif Müller?

Skúli Sæland

Leifur Müller er þekktastur fyrir að hafa verið fangelsaður af Þjóðverjum í síðari heimsstyrjöldinni og sendur í fangabúðir þeirra í Sachsenhausen. Hann gekk í gegnum miklar hörmungar en var svo lánsamur að lifa þær af og eftir stríðið ritaði hann bókina Í fangabúðum nazista um reynslu sína.

Fyrstu árin

Leifur fæddist 3. september 1920. Hann var sonur hinna norskættuðu Lorentz H. Müller og Marie Bertelsen. Hann átti tvær eldri systur, þær Tonný sem var fjórum árum eldri og Gerd sem var sjö árum eldri. Lorentz og Marie voru ágætlega efnuð og ráku Verslun L.H. Müller í Austurstræti 17. Upplýsingar um hana má meðal annars sjá í svari á Vísindavefnum við spurningunni Hvaða íþróttaverslun notaði vöruheitið "LH MÜLLER - Reykjavík"?

Sjö ára gamall gekk Leifur í Landakotsskóla sem var kaþólskur einkaskóli og að námi loknu þar þreytti hann inntökupróf við gagnfræðadeild Menntaskólans í Reykjavík. Leifur var óframfærinn piltur, átti það til að stama og það háði honum að á heimili hans var aðallega töluð norska sem gerði það að verkum að málfari hans var ábótavant. Hann útskrifaðist þó úr Menntaskólanum 1937 og starfaði svo í eitt ár við verslun foreldra sinna. Leifi var ætlað að taka við versluninni og því var hann sendur utan í verslunarnám við Otto Teiders Handelsskole í Osló í Noregi. Ári síðar tók hann námskeið í Kaupmannahöfn en fór svo aftur til náms í Noregi haustið 1939.

Fangelsaður

Vorið 1940 hertóku Þjóðverjar Noreg. Fljótlega fór Leifur að leita leiða til að komast úr landi og heim til Íslands. Síðla sumars 1942 útvegaði íslenskur diplómat Vilhjálmur Finsen honum skólavist í skóla í Svíþjóð og lofaði honum svo að koma honum þaðan til Bretlands. Danskur konsúll útvegaði Leifi brottfararleyfi en Leifi varð á í messunni. Í feginleik sínum yfir að vera á leið heim sagði hann Ólafi Péturssyni kunningja sínum frá skólaárunum á Íslandi og Agli Holmboe gömlum fjölskylduvin frá fyrirætlunum sínum. Hann gat ekki verið óheppnari. Ólafur njósnaði fyrir nasista og Egil var orðinn dyggur fylgismaður þeirra. Leifur var sóttur heim til sín 21. október og farið með hann í aðalstöðvar Gestapo á Viktoria Terrasse. Þar neyddist hann til að viðurkenna fyrirætlanir sínar og var varpað í fangelsi á Møllergaten 19.

Þýskir hermenn marsera um götur Osló í maí 1940. Hernám Noregs reyndist mjög afdrifaríkt fyrir Leif Müller eins og fjölmarga aðra.

Algeng refsing fyrir tilraun til flótta til Bretlands var þriggja mánaða fangelsi. Það var því áfall fyrir Leif þegar hann var fluttur úr fangelsinu 23. janúar 1943 og yfir í Grini fangabúðirnar rétt fyrir utan Osló sem voru alræmdustu búðir sinnar tegundar í Noregi. Þar hitti hann fyrir annan Íslending Baldur Bjarnason sagnfræðing. Um þetta leyti var gigt farin að hrjá hann verulega í baki auk þess sem hann var mjög máttfarinn og horaður eftir vistina í fangelsinu. Einum og hálfum mánuði síðar fékk hann lungabólgu sem sennilega bjargaði lífi hans þótt sérkennilegt megi virðast. Hefði hann ekki legið á sjúkradeild fangabúðanna hefði hann verið sendur þá um veturinn til fangabúðanna Sachsenhausen við Oranienburg í Þýskalandi. Í fangelsinu á Møllergaten 19 og í Grini-fangabúðunum kynntist Leifur miskunnarlausu ofbeldi fangavarðanna og hegningarleikfimi sem þeir kvöldu fangana með. Þetta reyndist honum mikilvæg aðlögun að því er síðar kom.

Sachsenhausen

Leifur var fluttur frá Grini og til Danmerkur með skipinu Monte Rosa 28. júní. Frá Árósum fóru Leifur og félagar með fangaflutningalest til Sachsenhausen fangabúðanna sem voru við borgina Oranienburg sem er staðsett um 35 km norðan Berlínar. Leifur fékk áfall þegar hann gekk inn í búðirnar og hjá alræmda skiltinu „Vinnan frelsar“ („Arbeit macht Frei“). Honum hafði þótt vistin í Grini slæm en hún var þó hátíð miðað við Sachsenhausen. Hann var þó svo lánsamur að vera settur í bragga sem Norðmenn voru í út af fyrir sig. Þeir fengu nokkuð reglulega Rauða kross pakka sem sennilega gerðu gæfumuninn á milli lífs og dauða. Lýsingar Leifs af aðbúnaðinum í fangabúðunum eru hroðalegar og verður að telja furðulíkast að hann skuli hafa lifað þær af.



Þjóðverjar ráku fangabúðirnar í Sachsenhausen 1936-1945. Af þeim um það bil 200.000 föngum sem komu í fangabúðirnar á þessu 9 ára tímabili lifði ekki nema um helmingur fangavistina af.

Leifur var nú auðkenndur með númerinu 68138 og varð að bera á sér rauðan þríhyrning sem táknaði að hann var pólitískur fangi. Þarna varð hann að vinna nauðungarvinnu fyrir stríðsvél Þjóðverja. Fyrst í stað vann hann við skurðgröft en eftir sjúkralegu fékk hann vinnu sem kalfaktor sem fólst í aðhlynningu á sjúkradeildinni. Pakkar Rauða krossins komu sér nú vel því með því að nota mat úr þeim sem skiptimynt tókst honum að framlengja dvöl sína á sjúkradeildinni.

Um miðjan febrúar 1944 var Leifur settur aftur í þrælkunarvinnuna en hitti þá fyrir annan Íslending, Óskar Björgvin Vilhjálmsson. Ekki er ljóst fyrir hvað Óskar var handtekinn. Kynni þeirra Leifs voru skammvinn því Óskar lést degi síðar.

Eitt skipti komu tveir sænskir diplómatar til að hitta Leif. Hann var leiddur út fyrir búðirnar í fylgd tveggja varða með schäferhunda. Svíarnir báru honum kveðjur frá foreldrum hans og spurðu hann nokkra yfirborðskenndra spurninga um líðan hans á þýsku svo verðirnir gætu fylgst með. Leifur svaraði að sér liði að einu og öllu vel líkt og fyrir hann var lagt. Í ljós kom að með þrýstingi hafði foreldrum hans tekist að fá annaðhvort íslensk eða norsk stjórnvöld til að grennslast fyrir um aðstæður hans.

Vorið 1944 jók Rauði krossinn matarsendingar sínar til fanganna og þá tókst Leifi að múta verkstjóra á meðal fanganna og komast í stöðu ritara. Nú naut Leifur mikið betri kjara og byrjaði að þyngjast að nýju. Þetta varði þó ekki lengi. Verkstjóranum tókst að flýja úr búðunum og stuttu síðar var Leifur aftur kominn í þrælkunarvinnu við gröft og vegavinnu.

Hvítu rúturnar

Sprengjuárásir bandamanna voru orðnar umsvifamiklar 1944 og fögnuðu fangarnir þeim mjög. Nú tók að bera á miklum fangaflutningum til búðanna frá öðrum slíkum sem voru nær víglínunum. Þjóðverjar vildu ekki að fangarnir lentu í höndum andstæðinga sinna og byrjuðu að eyða sönnunargögnum og drepa fanga í miklu drápsæði. Ekki síst stríðsfanga sem áttu ekki að vera í svona búðum samkvæmt Genfarsáttmálanum. Fangarnir fylltust skelfingu en þá barst Norðurlandabúunum óvænt hjálp þegar sænski Rauði krossinn undir forystu Folke Bernadotte greifa flutti þá í hvítmáluðum bifreiðum frá Sachsenhausen um miðjan mars 1945. Síðustu dagana í apríl voru þeir svo fluttir til Svíþjóðar eftir viðkomu í Neuengamme og Fröslev fangabúðunum. Margir fanganna voru svo aðframkomnir að þeir dóu í höndunum á hjúkrunarfólkinu í Svíþjóð og sjálfur þurfti Leifur að taka því rólega í nokkrar vikur. Um Jónsmessuna fór hann til Osló þaðan sem hann flaug til Íslands 7. júlí.



Vorið 1945 stóð sænski Rauði krossinn undir forystu Folke Bernadott greifa fyrir flutningi rúmlega 15.000 fanga úr fangabúðum nasista til Svíþjóðar. Farartækin sem notuð voru til flutninganna voru máluð hvít til þess að ekki yrði ruglast á þeim og herfarartækjum.

Eftir stríðið

Þegar heim var komið fann Leifur að erfitt var að greina fólki frá öllum þessum hörmungum. Ekki síst hve ómennskir fangarnir urðu sjálfir að vera til að geta komist af. Hann ákvað því að skrifa bókin Í fangabúðum nazista og láta það gott heita. Erfiðustu upplifnum sínum hélt hann fyrir sjálfan sig. Síðar sá hann þó að það var rangt af sér að byrgja þetta inni og það háði honum um langan tíma. Hann breytti líka nafni sínu úr Müller yfir í Muller til að fólk héldi ekki að það væri þýskt að uppruna. Leifur sagði hörmungar sínar í fangabúðunum hafa rænt sig barnatrúnni og gert sig að raunsæismanni. Hann taldi sér hafa verið það nauðsynlegt til að geta tekist á við hörmungarnar.

Leifur var þó ekki laus undan eftirköstum fangavistarinnar. Hann þjáðist af berklum og varð að dvelja í Danmörku og Noregi 1946-47 sér til heilsubótar. Í Noregi mætti hann í réttarhöld yfir Agli Holmboe því hann taldi Egil hafa sagt til sín. Egill var hins vegar sýknaður af þeim ákærum þó hann væri sakfelldur fyrir ýmislegt annað. Eftir að hafa afplánað fangelsisvist kom hann til Íslands. Gerðist íslenskur ríkisborgari, tók upp nafnið Egill Fálkason, eignaðist hér fjölskyldu og starfaði fyrir bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli. Í dag er talið að það hafi verið Ólafur Pétursson sem hafi sagt til Leifs. Hann var dæmdur til 20 ára fangelsisvistar í Noregi eftir stríðið en eftir mikinn þrýsting íslenskra stjórnvalda var hann látinn laus þrem mánuðum síðar.

Leifur og Birna Sveinsdóttir giftust 24. júní 1951 og eignuðust þau börnin Stefaníu (1951), Björgu og Maríu (1953), Leif (1961) og Svein (1963). Leifur starfaði við verslunarrekstur, tók við verslun foreldra sinna eftir andlát föður síns 1952 og stofnaði saumastofu. Í byrjun sjöunda áratugarins lagði Leifur niður verslunina og 1974 lokaði hann saumastofunni. Hætti svo sjálfur að vinna 1984. Um miðjan aldur fór hann að finna fyrir svefntruflunum sem hrjáðu hann mjög auk annarra kvilla. Þetta voru síðbúin eftirköst eftir stríðið og ollu fleiri stríðsföngum vandkvæðum. Í ljós kom að svokölluð fangabúðareinkenni hrjá flesta fyrrum stríðsfanga áratugum saman. Þegar Leifur komst að þessu fór hann fram á læknisskoðun með aðstoð öryrkjabandalags fyrrum fanga og aðila í Noregi. Úrskurður rannsóknarinnar var að hann hefði hlotið svo mikinn skaða að hann ætti rétt á hámarksörorkubótum. Leifur lést 24. ágúst 1988, 67 ára að aldri.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

8.10.2008

Síðast uppfært

21.6.2018

Spyrjandi

Kristinn Vignisson, Sædís Magnúsdóttir, Gunnar Kárason, Theodóra Rún Baldursdóttir, Gunnar Björn Ólafsson, Gísli Kristinn Sveinsson

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvað getur þú sagt mér um Leif Müller?“ Vísindavefurinn, 8. október 2008, sótt 9. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=27245.

Skúli Sæland. (2008, 8. október). Hvað getur þú sagt mér um Leif Müller? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=27245

Skúli Sæland. „Hvað getur þú sagt mér um Leif Müller?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2008. Vefsíða. 9. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=27245>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um Leif Müller?
Leifur Müller er þekktastur fyrir að hafa verið fangelsaður af Þjóðverjum í síðari heimsstyrjöldinni og sendur í fangabúðir þeirra í Sachsenhausen. Hann gekk í gegnum miklar hörmungar en var svo lánsamur að lifa þær af og eftir stríðið ritaði hann bókina Í fangabúðum nazista um reynslu sína.

Fyrstu árin

Leifur fæddist 3. september 1920. Hann var sonur hinna norskættuðu Lorentz H. Müller og Marie Bertelsen. Hann átti tvær eldri systur, þær Tonný sem var fjórum árum eldri og Gerd sem var sjö árum eldri. Lorentz og Marie voru ágætlega efnuð og ráku Verslun L.H. Müller í Austurstræti 17. Upplýsingar um hana má meðal annars sjá í svari á Vísindavefnum við spurningunni Hvaða íþróttaverslun notaði vöruheitið "LH MÜLLER - Reykjavík"?

Sjö ára gamall gekk Leifur í Landakotsskóla sem var kaþólskur einkaskóli og að námi loknu þar þreytti hann inntökupróf við gagnfræðadeild Menntaskólans í Reykjavík. Leifur var óframfærinn piltur, átti það til að stama og það háði honum að á heimili hans var aðallega töluð norska sem gerði það að verkum að málfari hans var ábótavant. Hann útskrifaðist þó úr Menntaskólanum 1937 og starfaði svo í eitt ár við verslun foreldra sinna. Leifi var ætlað að taka við versluninni og því var hann sendur utan í verslunarnám við Otto Teiders Handelsskole í Osló í Noregi. Ári síðar tók hann námskeið í Kaupmannahöfn en fór svo aftur til náms í Noregi haustið 1939.

Fangelsaður

Vorið 1940 hertóku Þjóðverjar Noreg. Fljótlega fór Leifur að leita leiða til að komast úr landi og heim til Íslands. Síðla sumars 1942 útvegaði íslenskur diplómat Vilhjálmur Finsen honum skólavist í skóla í Svíþjóð og lofaði honum svo að koma honum þaðan til Bretlands. Danskur konsúll útvegaði Leifi brottfararleyfi en Leifi varð á í messunni. Í feginleik sínum yfir að vera á leið heim sagði hann Ólafi Péturssyni kunningja sínum frá skólaárunum á Íslandi og Agli Holmboe gömlum fjölskylduvin frá fyrirætlunum sínum. Hann gat ekki verið óheppnari. Ólafur njósnaði fyrir nasista og Egil var orðinn dyggur fylgismaður þeirra. Leifur var sóttur heim til sín 21. október og farið með hann í aðalstöðvar Gestapo á Viktoria Terrasse. Þar neyddist hann til að viðurkenna fyrirætlanir sínar og var varpað í fangelsi á Møllergaten 19.

Þýskir hermenn marsera um götur Osló í maí 1940. Hernám Noregs reyndist mjög afdrifaríkt fyrir Leif Müller eins og fjölmarga aðra.

Algeng refsing fyrir tilraun til flótta til Bretlands var þriggja mánaða fangelsi. Það var því áfall fyrir Leif þegar hann var fluttur úr fangelsinu 23. janúar 1943 og yfir í Grini fangabúðirnar rétt fyrir utan Osló sem voru alræmdustu búðir sinnar tegundar í Noregi. Þar hitti hann fyrir annan Íslending Baldur Bjarnason sagnfræðing. Um þetta leyti var gigt farin að hrjá hann verulega í baki auk þess sem hann var mjög máttfarinn og horaður eftir vistina í fangelsinu. Einum og hálfum mánuði síðar fékk hann lungabólgu sem sennilega bjargaði lífi hans þótt sérkennilegt megi virðast. Hefði hann ekki legið á sjúkradeild fangabúðanna hefði hann verið sendur þá um veturinn til fangabúðanna Sachsenhausen við Oranienburg í Þýskalandi. Í fangelsinu á Møllergaten 19 og í Grini-fangabúðunum kynntist Leifur miskunnarlausu ofbeldi fangavarðanna og hegningarleikfimi sem þeir kvöldu fangana með. Þetta reyndist honum mikilvæg aðlögun að því er síðar kom.

Sachsenhausen

Leifur var fluttur frá Grini og til Danmerkur með skipinu Monte Rosa 28. júní. Frá Árósum fóru Leifur og félagar með fangaflutningalest til Sachsenhausen fangabúðanna sem voru við borgina Oranienburg sem er staðsett um 35 km norðan Berlínar. Leifur fékk áfall þegar hann gekk inn í búðirnar og hjá alræmda skiltinu „Vinnan frelsar“ („Arbeit macht Frei“). Honum hafði þótt vistin í Grini slæm en hún var þó hátíð miðað við Sachsenhausen. Hann var þó svo lánsamur að vera settur í bragga sem Norðmenn voru í út af fyrir sig. Þeir fengu nokkuð reglulega Rauða kross pakka sem sennilega gerðu gæfumuninn á milli lífs og dauða. Lýsingar Leifs af aðbúnaðinum í fangabúðunum eru hroðalegar og verður að telja furðulíkast að hann skuli hafa lifað þær af.



Þjóðverjar ráku fangabúðirnar í Sachsenhausen 1936-1945. Af þeim um það bil 200.000 föngum sem komu í fangabúðirnar á þessu 9 ára tímabili lifði ekki nema um helmingur fangavistina af.

Leifur var nú auðkenndur með númerinu 68138 og varð að bera á sér rauðan þríhyrning sem táknaði að hann var pólitískur fangi. Þarna varð hann að vinna nauðungarvinnu fyrir stríðsvél Þjóðverja. Fyrst í stað vann hann við skurðgröft en eftir sjúkralegu fékk hann vinnu sem kalfaktor sem fólst í aðhlynningu á sjúkradeildinni. Pakkar Rauða krossins komu sér nú vel því með því að nota mat úr þeim sem skiptimynt tókst honum að framlengja dvöl sína á sjúkradeildinni.

Um miðjan febrúar 1944 var Leifur settur aftur í þrælkunarvinnuna en hitti þá fyrir annan Íslending, Óskar Björgvin Vilhjálmsson. Ekki er ljóst fyrir hvað Óskar var handtekinn. Kynni þeirra Leifs voru skammvinn því Óskar lést degi síðar.

Eitt skipti komu tveir sænskir diplómatar til að hitta Leif. Hann var leiddur út fyrir búðirnar í fylgd tveggja varða með schäferhunda. Svíarnir báru honum kveðjur frá foreldrum hans og spurðu hann nokkra yfirborðskenndra spurninga um líðan hans á þýsku svo verðirnir gætu fylgst með. Leifur svaraði að sér liði að einu og öllu vel líkt og fyrir hann var lagt. Í ljós kom að með þrýstingi hafði foreldrum hans tekist að fá annaðhvort íslensk eða norsk stjórnvöld til að grennslast fyrir um aðstæður hans.

Vorið 1944 jók Rauði krossinn matarsendingar sínar til fanganna og þá tókst Leifi að múta verkstjóra á meðal fanganna og komast í stöðu ritara. Nú naut Leifur mikið betri kjara og byrjaði að þyngjast að nýju. Þetta varði þó ekki lengi. Verkstjóranum tókst að flýja úr búðunum og stuttu síðar var Leifur aftur kominn í þrælkunarvinnu við gröft og vegavinnu.

Hvítu rúturnar

Sprengjuárásir bandamanna voru orðnar umsvifamiklar 1944 og fögnuðu fangarnir þeim mjög. Nú tók að bera á miklum fangaflutningum til búðanna frá öðrum slíkum sem voru nær víglínunum. Þjóðverjar vildu ekki að fangarnir lentu í höndum andstæðinga sinna og byrjuðu að eyða sönnunargögnum og drepa fanga í miklu drápsæði. Ekki síst stríðsfanga sem áttu ekki að vera í svona búðum samkvæmt Genfarsáttmálanum. Fangarnir fylltust skelfingu en þá barst Norðurlandabúunum óvænt hjálp þegar sænski Rauði krossinn undir forystu Folke Bernadotte greifa flutti þá í hvítmáluðum bifreiðum frá Sachsenhausen um miðjan mars 1945. Síðustu dagana í apríl voru þeir svo fluttir til Svíþjóðar eftir viðkomu í Neuengamme og Fröslev fangabúðunum. Margir fanganna voru svo aðframkomnir að þeir dóu í höndunum á hjúkrunarfólkinu í Svíþjóð og sjálfur þurfti Leifur að taka því rólega í nokkrar vikur. Um Jónsmessuna fór hann til Osló þaðan sem hann flaug til Íslands 7. júlí.



Vorið 1945 stóð sænski Rauði krossinn undir forystu Folke Bernadott greifa fyrir flutningi rúmlega 15.000 fanga úr fangabúðum nasista til Svíþjóðar. Farartækin sem notuð voru til flutninganna voru máluð hvít til þess að ekki yrði ruglast á þeim og herfarartækjum.

Eftir stríðið

Þegar heim var komið fann Leifur að erfitt var að greina fólki frá öllum þessum hörmungum. Ekki síst hve ómennskir fangarnir urðu sjálfir að vera til að geta komist af. Hann ákvað því að skrifa bókin Í fangabúðum nazista og láta það gott heita. Erfiðustu upplifnum sínum hélt hann fyrir sjálfan sig. Síðar sá hann þó að það var rangt af sér að byrgja þetta inni og það háði honum um langan tíma. Hann breytti líka nafni sínu úr Müller yfir í Muller til að fólk héldi ekki að það væri þýskt að uppruna. Leifur sagði hörmungar sínar í fangabúðunum hafa rænt sig barnatrúnni og gert sig að raunsæismanni. Hann taldi sér hafa verið það nauðsynlegt til að geta tekist á við hörmungarnar.

Leifur var þó ekki laus undan eftirköstum fangavistarinnar. Hann þjáðist af berklum og varð að dvelja í Danmörku og Noregi 1946-47 sér til heilsubótar. Í Noregi mætti hann í réttarhöld yfir Agli Holmboe því hann taldi Egil hafa sagt til sín. Egill var hins vegar sýknaður af þeim ákærum þó hann væri sakfelldur fyrir ýmislegt annað. Eftir að hafa afplánað fangelsisvist kom hann til Íslands. Gerðist íslenskur ríkisborgari, tók upp nafnið Egill Fálkason, eignaðist hér fjölskyldu og starfaði fyrir bandaríska herinn á Keflavíkurflugvelli. Í dag er talið að það hafi verið Ólafur Pétursson sem hafi sagt til Leifs. Hann var dæmdur til 20 ára fangelsisvistar í Noregi eftir stríðið en eftir mikinn þrýsting íslenskra stjórnvalda var hann látinn laus þrem mánuðum síðar.

Leifur og Birna Sveinsdóttir giftust 24. júní 1951 og eignuðust þau börnin Stefaníu (1951), Björgu og Maríu (1953), Leif (1961) og Svein (1963). Leifur starfaði við verslunarrekstur, tók við verslun foreldra sinna eftir andlát föður síns 1952 og stofnaði saumastofu. Í byrjun sjöunda áratugarins lagði Leifur niður verslunina og 1974 lokaði hann saumastofunni. Hætti svo sjálfur að vinna 1984. Um miðjan aldur fór hann að finna fyrir svefntruflunum sem hrjáðu hann mjög auk annarra kvilla. Þetta voru síðbúin eftirköst eftir stríðið og ollu fleiri stríðsföngum vandkvæðum. Í ljós kom að svokölluð fangabúðareinkenni hrjá flesta fyrrum stríðsfanga áratugum saman. Þegar Leifur komst að þessu fór hann fram á læknisskoðun með aðstoð öryrkjabandalags fyrrum fanga og aðila í Noregi. Úrskurður rannsóknarinnar var að hann hefði hlotið svo mikinn skaða að hann ætti rétt á hámarksörorkubótum. Leifur lést 24. ágúst 1988, 67 ára að aldri.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

...