Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvert var hlutverk hinnar svokölluðu „joy division“ hjá nasistum í seinni heimsstyrjöldinni?

Skúli Sæland

Með spurningunni er væntanlega átt við konur sem voru kynlífsþrælar og þóknuðust nasistum og öðrum í fangabúðum með grimmdarlegum og þaulskipulögðum hætti. Rétt er að taka fram að heitið „joy division“ var aldrei notað á þeim tíma og er seinna tíma slangur.

Hljómsveitin

Þegar maður sér nafnið „joy division“ þá dettur manni strax í hug hljómsveitin Joy Division sem starfaði árin 1978-1980. Reyndar er tenging á milli nafngiftar hljómsveitarinnar og hinnar svokölluðu „joy division“ nasista. Hljómsveitin hafði starfað í tæpt ár undir heitinu Warsaw en breytti nafninu í Joy Division árið 1978 meðal annars til þess að ögra ríkjandi siðferðisgildum. Nafnið tóku þeir upp eftir sögunni House of Dolls sem kom út í enskri þýðingu árið 1955. Sagan er eftir rithöfundurinn Yehiel De-Nur og kom fyrst út á hebresku. Hljómsveitin var gagnrýnd harkalega fyrir þetta og að skeyta ekki um tilfinningar eftirlifenda helfararinnar auk þess að aðhyllast nýnasisma sem hún neitaði þó staðfastlega. Fyrrnefnd saga hafði þó djúp áhrif á meðlimi hljómsveitarinnar og í fyrri útgáfu lagsins „No love lost” er erindi sem lesið er upp úr sögu De-Nurs.

Yehiel De-Nur og House of Dolls

Yehiel De-Nur (1909-2001) fæddist í Sosnowiec í Póllandi nærri þýsku landamærunum. Hann var handtekinn í síðari heimsstyrjöld og sendur til fanga- og útrýmingarbúðanna Auschwitz þar sem hann dvaldi í tvö ár. Eftir stríðið fluttist hann til Palestínu, sem síðar varð Ísraelsríki, og skrifaði sögur um reynslu sína í stríðinu og um helförina undir nafninu Ka-Tzetnik 135633, sem í raun þýðir „Fangi 135633“ og vísaði þannig í sitt eigið fanganúmer í Auschwitz.

Í einni af sínum þekktustu sögum House of Dolls lýsir hann „vinnubúðum ánægjunnar“ (e. „Camp Labor Via Joy“) þangað sem kvenfangar voru sérvaldir og gerðir að hórum. Áður en þær hófu 'störf' voru þær teknar úr sambandi og þeim gert skylt að sýna 'gleði' og 'þjónustulund'. Ef þær stóðu sig ekki í starfi sínu áttu þær á hættu grimmilega refsingu, til að mynda líflát að undangenginni hýðingu. Konurnar voru líka teknar af lífi fengju þær kynsjúkdóma. Samkvæmt De-Nur voru stúlkurnar ætlaðar þýskum hermönnum sem komu við á leið sinni til sovésku vígstöðvanna. Hann greindi enn frekar frá kynlífsþrælkun nasista í bókinni Piepel. Þar er viðfangsefnið hins vegar þrælkun á ungum strákum.

Í sögum sínum gefur De-Nur í skyn að hann sé að skrifa um yngri systkini sín sem dóu bæði í helförinni. Þó er óljóst eftir hvaða heimildum hann ritaði sögur sínar og telja sumir að hann hafi stuðst við óþekkta dagbók 14 ára gyðingastúlku sem neydd var til starfa í svokallaðri „joy division“.

Sögur De-Nurs urðu upphafið að klámsagnaiðnaði í Ísrael, svokölluðum Stalag-bókmenntum þar sem höfundarnir létu líta út fyrir að sögurnar væru byggðar á endurminningum breskra og amerískra fanga sem beittir voru harðræði af lostafullum SS-kvenkynsvörðum.

Kynlífsþrælkun í Auschwitz

Lengi vel var talið að frásögn Yehiels De-Nurs væri vafasöm. Stafar það meðal annars af því að heimildir hans voru óljósar, sumir efast um að gyðingakonum hafi verið þröngvað til vændisstarfa vegna kynþáttaaðskilnaðarstefnu nasista og ekki síður vegna þess að af hugmyndafræðilegum ástæðum var samkynhneigðum refsað grimmilega og ef fangar eða starfsmenn urðu uppvísir að slíku voru þeir aflífaðir.

Það var hins vegar sjálfur Heinrich Himmler, ríkisforingi SS (þ. Reichsführer SS) og æðsti yfirmaður SS-sveita Hitlers, sem lagði á ráðin um skipulagt vændi innan fanga- og útrýmingarbúðanna í Auschwitz. Himmler var umhugað að auka virkni svokallaðra Sonderkommandos eða sérsveita, sem voru sveitir fanga sem neyddar voru til að vinna ýmis störf innan fangabúða nasista svo sem að eyða líkum deyddra fanga, flokka og hreinsa verðmæti og svo framvegis. Síðla árs 1943 skrifaði hann bréf til Oswalds Pohls, yfirmanns hagstjórnardeildar SS (þ. SS-Wirtschafts-Verwaltungshauptamt) og umsjónarmanns með fanga- og útrýmingarbúðum, þar sem Himmler útlistar leiðir til að verðlauna Sonderkommandos svo þær ynnu betur fyrir SS. Tók hann sérstaklega fram að velja skyldi konur til vændisþjónustu fyrir þessa fanga. Pohl áframsendi fyrirmælin til manna eins og Rudolfs Höss, yfirmanns Auschwitz-búðanna.

Næsta sumar höfðu hóruhús tekið til starfa í 10 stórum fanga- og útrýmingarbúðum – Mauthausen, Gusen, Auschwitz-Stammlager, Auschwitz-Monowitz, Buchenwald, Flossenbürg, Neuen-gamme, Dachau, Sachsenhausen og Mittelbau-Dora. Konurnar voru stundum lokkaðar til vændisstarfanna með loforði um frelsi að lokinni sex mánaða þjónustu en einungis er vitað um tvær konur sem fengu frelsi með þessum hætti. Oft voru konur neyddar í þessi störf og oft var um að ræða konur sem fangelsaðar höfðu verið vegna vafasamra ásakana um götuvændi.



Þessi bygging gegndi hlutverki vændishúss í Mauthausen-útrýmingarbúðunum í Austurríki.

Í Auschwitz var komið upp vændishúsi í blokk 24 sem stóð afsíðis innan fangabúðanna og var rétt við aðalhlið þeirra. Fangar sem gegndu ábyrgðarstörfum innan búðanna gátu fengið aðgangsmiða að vændishúsinu með samkomulagi við SS-verðina. Þetta vændishús starfaði í rúmt ár, allt til endaloka Auschwitz í janúar 1945 þegar Þjóðverjar flýðu þaðan undan sovéska hernum.

Leifur Müller

Íslendingurinn Leifur Müller lifði af vist í fangabúðum Þjóðverja í Sachenhausen og greindi frá veru sinni þar eftir stríð. Lýsti hann meðal annars vændishúsinu sem var komið þar upp í búðunum. Leifur sagði 10 konur hafa verið fluttar að úr Ravensbrück-fangabúðunum en að öllum föngum hafi verið seldir aðgöngumiðar að kvenföngunum. Að vísu var eingöngu þýskum föngum leyft að nýta sér þessa „þjónustu“ en síðar var öðrum „Germönum“ einnig hleypt að og loks Pólverjum. Leifur sagði mikla ásókn hafa verið í vændishúsið sem opið var eftir vinnudag fanganna og gengið var hart fram í því að hver maður fengi einungis 10-15 mínútur með kvenföngunum.

Þegar Leifur var á heimleið undir vernd sænska Rauða krossins, fyrir tilstilli hins sænska Bernadotte greifa, var honum komið fyrir um mánaðartíma í fangabúðunum Neuengamme. Þar var sömuleiðis vændishús en einungis stjórnendur úr liði fanganna fengu aðgang að hórunum. Taldi Leifur þetta merki um spillingu en áttaði sig ekki á því að hér var verið að fylgja beinum fyrirmælum Himmlers um verðlaun fyrir góða þjónustu og að í raun var meiri spilling í Sachsenhausen þar sem hverjum sem er var seldur aðgangur gegn háu gjaldi.

Örlög kvennanna

Talið er að um 3-400 konur hafi verið neyddar til vændis með þessum hætti. Lítið er vitað um vist þeirra frá þeim sjálfum. Lýsingar af veru þeirra eru einungis fengnar frá öðrum heimildum. Þó er vitað að þær fengu betri mat og klæði en aðrir fangar og var leyft að þrífa sig.

Einungis er vitað um afdrif kvenna sem sendar voru aftur til Ravensbrück fangabúðanna. Þær voru oft óléttar eða með kynsjúkdóma og þá var framkvæmd á þeim fóstureyðing og/eða þær nýttar í „læknisfræðilegar tilraunir.“ Samfangar þeirra lýstu þeim sem niðurbrotnum á sál og líkama við komuna aftur til fangabúðanna. Konurnar voru oft lækkaðar í stöðu innan búðanna og merktar með svörtum þríhyrningi sem þýddi 'andfélagslegur fangi' og urðu þær fyrir aðkasti vegna þess.

Reynsla þeirra sem lifðu af var eðlilega þess eðlis að erfitt var að tala um hana. Þjáning þeirra er sennilega einna síst þekkt af þeim hryllingi sem viðgekkst innan fanga- og dauðabúða Þjóðverja, bæði vegna þess að konurnar hafa þagað yfir þessu vegna skammartilfinningar og fordóma annarra. Leifur Müller sagði að á þessum tíma hefði honum fundist „vændishúsið ekki vera skref niður. En þegar ... [hann liti til baka gerði hann sér] grein fyrir niðurlægingunni sem í þessu fólst.“

Opinber afskipti af vændishúsum í Þriðja ríki Hitlers

Nasistar beittu vændishúsum sem hluta af framkvæmd kynþáttastefnu sinnar. Strax árið 1940 fyrirskipaði Hitler að útlendir verkamenn innan Þýskalands (þ. fremdvölkische Arbeiter) skyldu hafa aðgang að vændishúsum sem eingöngu var mannað erlendum vændiskonum. Um leið var Þjóðverjum bannað að stunda viðkomandi hús. Á sama tíma var ýtt undir fjölgun „þýskra“ hóruhúsa og vændiskonur hraktar af götunum. Þetta var allt gert til þess að tryggja aðskilnað kynþátta.

Eitthvað var líka um að Þjóðverjar rækju hóruhús sem staðsett voru skammt frá víglínunni. Konur voru stundum þvingaðar til að þjónusta hermennina, jafnvel þó þær væru gyðingar. Þær voru þá tattúveraðar með númeri líkt og aðrir fangar í fangabúðum en til viðbótar voru stafirnir FH (þ. Feldhur) settir fyrir framan númerið til að auðkenna þær sem hórur til afnota fyrir herinn.

Kynlífsþrælar japanska hersins

Frásagnir kvenna sem notaðar voru sem kynlífsþrælar í japanska hernum á sama tíma eru alræmdar. Óbreyttir borgarar voru valdir til þess að sjá um vændisbúðir sem staðsettar voru innan japanskra herstöðva. Japanski herinn taldi að með þessu væri hægt að fylgjast betur með kynsjúkdómum, bæta liðsanda innan hersins og eins þyrftu hermenn færri frí frá skyldustörfum. Þegar ekki reyndist unnt að mæta þörfinni fyrir vændiskonur með auglýsingum var þeim einfaldlega rænt. Frásagnir eftirlifenda eru hræðilegar en hvorki japanska ríkisstjórnin né herinn viðurkenna beina ábyrgð á þessum hroða. Segja þau sér til varnar að milligöngumenn hafi séð um að útvega konur til þjónustu í vændishúsum og séð um þau. Þó hefur verið hægt að sýna fram á að í sumum tilvikum valdi herinn sjálfur milligöngumennina til að sjá um þessa þjónustu.

Niðurlag

Hér að ofan hefur verið fjallað um skipulagða kynlífsþrælkun tveggja ríkja sem töpuðu í styrjöld. Við verðum að hafa í huga að sigurvegarinn skrifar ávallt söguna og að við vitum að mörgu leyti sáralítið um þennan þátt stríðsins þó enn sé ýmislegt nýtt að koma fram. Nauðganir og misþyrmingar á saklausum eða þeim sem minna mega sín eru því miður fylgifiskur átaka og má hér nefna fjöldanauðganir sovéskra hermanna í Þýskalandi 1945 við lok stríðsins. Þetta átti sér einnig stað á meðal hermanna og fangavarða bandamanna en þó ekki með eins umfangsmiklum hætti og við minni umfjöllun. Enn er nauðgunum beitt sem vopni og er skemmst að minnast skipulagðra nauðgana við þjóðernishreinsanir í borgarastyrjöldinni í gömlu Júgóslavíu. Í dag hafa Sameinuðu þjóðirnar kveðið á um að slíkur óhugnaður sé stríðsglæpur, glæpur gegn mannkyni og brot á mannréttindum kvenna.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um útrýmingarbúðir nasista, til dæmis:

Heimildir:

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

7.1.2008

Spyrjandi

Kjartan Gíslason

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hvert var hlutverk hinnar svokölluðu „joy division“ hjá nasistum í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn, 7. janúar 2008, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6987.

Skúli Sæland. (2008, 7. janúar). Hvert var hlutverk hinnar svokölluðu „joy division“ hjá nasistum í seinni heimsstyrjöldinni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6987

Skúli Sæland. „Hvert var hlutverk hinnar svokölluðu „joy division“ hjá nasistum í seinni heimsstyrjöldinni?“ Vísindavefurinn. 7. jan. 2008. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6987>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvert var hlutverk hinnar svokölluðu „joy division“ hjá nasistum í seinni heimsstyrjöldinni?
Með spurningunni er væntanlega átt við konur sem voru kynlífsþrælar og þóknuðust nasistum og öðrum í fangabúðum með grimmdarlegum og þaulskipulögðum hætti. Rétt er að taka fram að heitið „joy division“ var aldrei notað á þeim tíma og er seinna tíma slangur.

Hljómsveitin

Þegar maður sér nafnið „joy division“ þá dettur manni strax í hug hljómsveitin Joy Division sem starfaði árin 1978-1980. Reyndar er tenging á milli nafngiftar hljómsveitarinnar og hinnar svokölluðu „joy division“ nasista. Hljómsveitin hafði starfað í tæpt ár undir heitinu Warsaw en breytti nafninu í Joy Division árið 1978 meðal annars til þess að ögra ríkjandi siðferðisgildum. Nafnið tóku þeir upp eftir sögunni House of Dolls sem kom út í enskri þýðingu árið 1955. Sagan er eftir rithöfundurinn Yehiel De-Nur og kom fyrst út á hebresku. Hljómsveitin var gagnrýnd harkalega fyrir þetta og að skeyta ekki um tilfinningar eftirlifenda helfararinnar auk þess að aðhyllast nýnasisma sem hún neitaði þó staðfastlega. Fyrrnefnd saga hafði þó djúp áhrif á meðlimi hljómsveitarinnar og í fyrri útgáfu lagsins „No love lost” er erindi sem lesið er upp úr sögu De-Nurs.

Yehiel De-Nur og House of Dolls

Yehiel De-Nur (1909-2001) fæddist í Sosnowiec í Póllandi nærri þýsku landamærunum. Hann var handtekinn í síðari heimsstyrjöld og sendur til fanga- og útrýmingarbúðanna Auschwitz þar sem hann dvaldi í tvö ár. Eftir stríðið fluttist hann til Palestínu, sem síðar varð Ísraelsríki, og skrifaði sögur um reynslu sína í stríðinu og um helförina undir nafninu Ka-Tzetnik 135633, sem í raun þýðir „Fangi 135633“ og vísaði þannig í sitt eigið fanganúmer í Auschwitz.

Í einni af sínum þekktustu sögum House of Dolls lýsir hann „vinnubúðum ánægjunnar“ (e. „Camp Labor Via Joy“) þangað sem kvenfangar voru sérvaldir og gerðir að hórum. Áður en þær hófu 'störf' voru þær teknar úr sambandi og þeim gert skylt að sýna 'gleði' og 'þjónustulund'. Ef þær stóðu sig ekki í starfi sínu áttu þær á hættu grimmilega refsingu, til að mynda líflát að undangenginni hýðingu. Konurnar voru líka teknar af lífi fengju þær kynsjúkdóma. Samkvæmt De-Nur voru stúlkurnar ætlaðar þýskum hermönnum sem komu við á leið sinni til sovésku vígstöðvanna. Hann greindi enn frekar frá kynlífsþrælkun nasista í bókinni Piepel. Þar er viðfangsefnið hins vegar þrælkun á ungum strákum.

Í sögum sínum gefur De-Nur í skyn að hann sé að skrifa um yngri systkini sín sem dóu bæði í helförinni. Þó er óljóst eftir hvaða heimildum hann ritaði sögur sínar og telja sumir að hann hafi stuðst við óþekkta dagbók 14 ára gyðingastúlku sem neydd var til starfa í svokallaðri „joy division“.

Sögur De-Nurs urðu upphafið að klámsagnaiðnaði í Ísrael, svokölluðum Stalag-bókmenntum þar sem höfundarnir létu líta út fyrir að sögurnar væru byggðar á endurminningum breskra og amerískra fanga sem beittir voru harðræði af lostafullum SS-kvenkynsvörðum.

Kynlífsþrælkun í Auschwitz

Lengi vel var talið að frásögn Yehiels De-Nurs væri vafasöm. Stafar það meðal annars af því að heimildir hans voru óljósar, sumir efast um að gyðingakonum hafi verið þröngvað til vændisstarfa vegna kynþáttaaðskilnaðarstefnu nasista og ekki síður vegna þess að af hugmyndafræðilegum ástæðum var samkynhneigðum refsað grimmilega og ef fangar eða starfsmenn urðu uppvísir að slíku voru þeir aflífaðir.

Það var hins vegar sjálfur Heinrich Himmler, ríkisforingi SS (þ. Reichsführer SS) og æðsti yfirmaður SS-sveita Hitlers, sem lagði á ráðin um skipulagt vændi innan fanga- og útrýmingarbúðanna í Auschwitz. Himmler var umhugað að auka virkni svokallaðra Sonderkommandos eða sérsveita, sem voru sveitir fanga sem neyddar voru til að vinna ýmis störf innan fangabúða nasista svo sem að eyða líkum deyddra fanga, flokka og hreinsa verðmæti og svo framvegis. Síðla árs 1943 skrifaði hann bréf til Oswalds Pohls, yfirmanns hagstjórnardeildar SS (þ. SS-Wirtschafts-Verwaltungshauptamt) og umsjónarmanns með fanga- og útrýmingarbúðum, þar sem Himmler útlistar leiðir til að verðlauna Sonderkommandos svo þær ynnu betur fyrir SS. Tók hann sérstaklega fram að velja skyldi konur til vændisþjónustu fyrir þessa fanga. Pohl áframsendi fyrirmælin til manna eins og Rudolfs Höss, yfirmanns Auschwitz-búðanna.

Næsta sumar höfðu hóruhús tekið til starfa í 10 stórum fanga- og útrýmingarbúðum – Mauthausen, Gusen, Auschwitz-Stammlager, Auschwitz-Monowitz, Buchenwald, Flossenbürg, Neuen-gamme, Dachau, Sachsenhausen og Mittelbau-Dora. Konurnar voru stundum lokkaðar til vændisstarfanna með loforði um frelsi að lokinni sex mánaða þjónustu en einungis er vitað um tvær konur sem fengu frelsi með þessum hætti. Oft voru konur neyddar í þessi störf og oft var um að ræða konur sem fangelsaðar höfðu verið vegna vafasamra ásakana um götuvændi.



Þessi bygging gegndi hlutverki vændishúss í Mauthausen-útrýmingarbúðunum í Austurríki.

Í Auschwitz var komið upp vændishúsi í blokk 24 sem stóð afsíðis innan fangabúðanna og var rétt við aðalhlið þeirra. Fangar sem gegndu ábyrgðarstörfum innan búðanna gátu fengið aðgangsmiða að vændishúsinu með samkomulagi við SS-verðina. Þetta vændishús starfaði í rúmt ár, allt til endaloka Auschwitz í janúar 1945 þegar Þjóðverjar flýðu þaðan undan sovéska hernum.

Leifur Müller

Íslendingurinn Leifur Müller lifði af vist í fangabúðum Þjóðverja í Sachenhausen og greindi frá veru sinni þar eftir stríð. Lýsti hann meðal annars vændishúsinu sem var komið þar upp í búðunum. Leifur sagði 10 konur hafa verið fluttar að úr Ravensbrück-fangabúðunum en að öllum föngum hafi verið seldir aðgöngumiðar að kvenföngunum. Að vísu var eingöngu þýskum föngum leyft að nýta sér þessa „þjónustu“ en síðar var öðrum „Germönum“ einnig hleypt að og loks Pólverjum. Leifur sagði mikla ásókn hafa verið í vændishúsið sem opið var eftir vinnudag fanganna og gengið var hart fram í því að hver maður fengi einungis 10-15 mínútur með kvenföngunum.

Þegar Leifur var á heimleið undir vernd sænska Rauða krossins, fyrir tilstilli hins sænska Bernadotte greifa, var honum komið fyrir um mánaðartíma í fangabúðunum Neuengamme. Þar var sömuleiðis vændishús en einungis stjórnendur úr liði fanganna fengu aðgang að hórunum. Taldi Leifur þetta merki um spillingu en áttaði sig ekki á því að hér var verið að fylgja beinum fyrirmælum Himmlers um verðlaun fyrir góða þjónustu og að í raun var meiri spilling í Sachsenhausen þar sem hverjum sem er var seldur aðgangur gegn háu gjaldi.

Örlög kvennanna

Talið er að um 3-400 konur hafi verið neyddar til vændis með þessum hætti. Lítið er vitað um vist þeirra frá þeim sjálfum. Lýsingar af veru þeirra eru einungis fengnar frá öðrum heimildum. Þó er vitað að þær fengu betri mat og klæði en aðrir fangar og var leyft að þrífa sig.

Einungis er vitað um afdrif kvenna sem sendar voru aftur til Ravensbrück fangabúðanna. Þær voru oft óléttar eða með kynsjúkdóma og þá var framkvæmd á þeim fóstureyðing og/eða þær nýttar í „læknisfræðilegar tilraunir.“ Samfangar þeirra lýstu þeim sem niðurbrotnum á sál og líkama við komuna aftur til fangabúðanna. Konurnar voru oft lækkaðar í stöðu innan búðanna og merktar með svörtum þríhyrningi sem þýddi 'andfélagslegur fangi' og urðu þær fyrir aðkasti vegna þess.

Reynsla þeirra sem lifðu af var eðlilega þess eðlis að erfitt var að tala um hana. Þjáning þeirra er sennilega einna síst þekkt af þeim hryllingi sem viðgekkst innan fanga- og dauðabúða Þjóðverja, bæði vegna þess að konurnar hafa þagað yfir þessu vegna skammartilfinningar og fordóma annarra. Leifur Müller sagði að á þessum tíma hefði honum fundist „vændishúsið ekki vera skref niður. En þegar ... [hann liti til baka gerði hann sér] grein fyrir niðurlægingunni sem í þessu fólst.“

Opinber afskipti af vændishúsum í Þriðja ríki Hitlers

Nasistar beittu vændishúsum sem hluta af framkvæmd kynþáttastefnu sinnar. Strax árið 1940 fyrirskipaði Hitler að útlendir verkamenn innan Þýskalands (þ. fremdvölkische Arbeiter) skyldu hafa aðgang að vændishúsum sem eingöngu var mannað erlendum vændiskonum. Um leið var Þjóðverjum bannað að stunda viðkomandi hús. Á sama tíma var ýtt undir fjölgun „þýskra“ hóruhúsa og vændiskonur hraktar af götunum. Þetta var allt gert til þess að tryggja aðskilnað kynþátta.

Eitthvað var líka um að Þjóðverjar rækju hóruhús sem staðsett voru skammt frá víglínunni. Konur voru stundum þvingaðar til að þjónusta hermennina, jafnvel þó þær væru gyðingar. Þær voru þá tattúveraðar með númeri líkt og aðrir fangar í fangabúðum en til viðbótar voru stafirnir FH (þ. Feldhur) settir fyrir framan númerið til að auðkenna þær sem hórur til afnota fyrir herinn.

Kynlífsþrælar japanska hersins

Frásagnir kvenna sem notaðar voru sem kynlífsþrælar í japanska hernum á sama tíma eru alræmdar. Óbreyttir borgarar voru valdir til þess að sjá um vændisbúðir sem staðsettar voru innan japanskra herstöðva. Japanski herinn taldi að með þessu væri hægt að fylgjast betur með kynsjúkdómum, bæta liðsanda innan hersins og eins þyrftu hermenn færri frí frá skyldustörfum. Þegar ekki reyndist unnt að mæta þörfinni fyrir vændiskonur með auglýsingum var þeim einfaldlega rænt. Frásagnir eftirlifenda eru hræðilegar en hvorki japanska ríkisstjórnin né herinn viðurkenna beina ábyrgð á þessum hroða. Segja þau sér til varnar að milligöngumenn hafi séð um að útvega konur til þjónustu í vændishúsum og séð um þau. Þó hefur verið hægt að sýna fram á að í sumum tilvikum valdi herinn sjálfur milligöngumennina til að sjá um þessa þjónustu.

Niðurlag

Hér að ofan hefur verið fjallað um skipulagða kynlífsþrælkun tveggja ríkja sem töpuðu í styrjöld. Við verðum að hafa í huga að sigurvegarinn skrifar ávallt söguna og að við vitum að mörgu leyti sáralítið um þennan þátt stríðsins þó enn sé ýmislegt nýtt að koma fram. Nauðganir og misþyrmingar á saklausum eða þeim sem minna mega sín eru því miður fylgifiskur átaka og má hér nefna fjöldanauðganir sovéskra hermanna í Þýskalandi 1945 við lok stríðsins. Þetta átti sér einnig stað á meðal hermanna og fangavarða bandamanna en þó ekki með eins umfangsmiklum hætti og við minni umfjöllun. Enn er nauðgunum beitt sem vopni og er skemmst að minnast skipulagðra nauðgana við þjóðernishreinsanir í borgarastyrjöldinni í gömlu Júgóslavíu. Í dag hafa Sameinuðu þjóðirnar kveðið á um að slíkur óhugnaður sé stríðsglæpur, glæpur gegn mannkyni og brot á mannréttindum kvenna.

Á Vísindavefnum er að finna fleiri svör um útrýmingarbúðir nasista, til dæmis:

Heimildir:...