
Kóngakrabbinn þykir herramannsmatur og er töluvert veiddur. Á sjöunda áratug síðustu aldar var kóngakrabba sleppt í Barentshaf til að koma upp nýtanlegum stofni í rússneskri landhelgi. Það leiddi til þess að krabbinn dreifðist vestur á bóginn meðfram stönd Noregs og hefur hann hugsanlega valdið mikilli röskun á vistkerfinu við strendur Noregs og Rússlands. Norsk fiskiskip hafa í vaxandi mæli fengið krabbann í veiðarfæri sem hliðarafla. Árið 2000 veiddust til að mynda rúmlega 28 þúsund krabbar. Meginveiðisvæði bandaríska fiskveiðiflotans eru á Beringssundi og undan ströndum SA-Alaska. Kóngakrabbar halda sig yfirleitt á talsverðu dýpi en á mökunartímanum koma þeir upp í fjörur. Þá er hægt að finna þá á þriggja metra dýpi en annars eru þeir vanalega á 150-350 metra dýpi. Krabbarnir eru nokkuð stórir eins og nafn þeirra bendir til. Þyngstu krabbarnir eru rúmlega 10 kg. Krabbarnir eru rauðbrúnir og stundum bleikir á lit. Þeir eru alsettir stórum göddum. Kjöraðstæður fullorðinna krabba er leðju- eða sandbotn og helsta fæða þeirra er ýmsir botnlægir sjávarhryggleysingjar, svo sem ígulker, sæstjörnur, samlokur og hrúðukarlar. Blái kóngakrabbinn (Paralithodes platypus) er náskyldur ættingi kóngakrabbans. Hann er einnig nýttur undan ströndum Alaska. Blái kóngakrabbinn verður ekki jafn stór og kóngakrabbinn. Heimildir og mynd
- Barnes, Robert D.: 1987. Invertebrate Zoology. Saunders College Publishing, Philadelphia.
- Savinov, Mikhail: 1999. The Barents Sea Red King Crab Stock: History, Assessment, Management, and Future Perspective. Norwegian College of Fishery Science, University of Tromso, Norway.
- Alaska Fisheries Science Center