Sólin Sólin Rís 09:48 • sest 16:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:02 • Sest 03:44 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 15:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:24 • Síðdegis: 21:51 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:48 • sest 16:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:02 • Sest 03:44 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:10 • Síðdegis: 15:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:24 • Síðdegis: 21:51 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða áhrif hafði kreppan mikla á Ísland og Íslendinga?

Guðmundur Jónsson

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
  • Hvað gerðist í kreppunni á Íslandi árið 1929?

Einnig hefur verið spurt:
  • Kreppan mikla á Íslandi, hvaða áhrif hafði hún á heimili og atvinnulíf?
  • Hvaða áhrif hafði kreppan (um 1930) á Ísland?

Á fyrstu áratugum 20. aldar var Ísland komið í hóp þeirra landa sem mesta utanríkisverslun höfðu miðað við íbúafjölda. Efnahagslíf var því viðkvæmt fyrir alþjóðlegum hagsveiflum og hlaut heimskreppan sem brast á árið 1929 að valda landsmönnum verulegum vandræðum. Áhrifa hennar gætti þó ekki að ráði fyrr en haustið 1930 þegar mikið verðfall varð á íslenskum útflutningsvörum og sölutregða varð á erlendum mörkuðum. Stærsti skellurinn kom 1931. Á árunum 1928–1931 féll verð á saltfiski, langmikilvægustu útflutningsvöru Íslands, um 40%, saltkjöti um 47%, ull 68% og gærum um 78%. Botninum var náð 1932 og hafði þá verð á útflutningsafurðum lækkað um 43% frá 1929. Eftir það rofaði til en enn átti Ísland eftir að verða fyrir miklu áfalli þegar saltfiskmarkaðurinn á Spáni lokaðist vegna borgarastyrjaldarinnar 1936–1939. Kreppan átti sér líka innlendar rætur og þá fyrst og fremst í einhliða áherslu á saltfiskframleiðslu en þegar árið 1926 var offramboðs og verðlækkana farið að gæta á alþjóðlegum mörkuðum.

Einhliða áhersla á saltfiskframleiðslu kom Íslendingum í koll í kreppunni miklu vegna mikillar verðlækkunar á saltfiskmörkuðum og lokunar Spánarmarkaðar.

Tekjur útflutningsgreina rýrnuðu gífurlega og fóru mörg sjávarútvegsfyrirtæki á hausinn. Bændur áttu líka í miklu basli vegna þrenginga á erlendum mörkuðum og sneru sér að framleiðslu á mjólkurvörum og kjöti fyrir innlendan markað. Í Reykjavík og stærri bæjum fór að bera á atvinnuleysi og vaxandi fátækt meðal verkafólks. Í Reykjavík var 731 skráður atvinnulaus í nóvember 1932. Í minni bæjum gátu menn frekar drýgt tekjurnar með skepnuhaldi og sjóróðrum.

Samdrátturinn í atvinnulífi leiddi til mikils halla á viðskiptum við útlönd og gjaldeyrisskorts. Stjórnvöld hófu því að takmarka innflutning og skammta gjaldeyri árið 1931. Matvæli, sælgæti, húsgögn, hljóðfæri, skófatnaður og aðrar neysluvörur urðu fágætar. Ekki var gripið til gengisfellingar að öðru leyti en því að láta krónuna fylgja falli enska sterlingspundsins haustið 1931. Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar 1934–1939 tók upp markvissa verndarstefnu og bannaði eða takmarkaði innflutning flestra matvæla. Með afurðasölulögum sem samþykkt voru á Alþingi 1934–1935 var samkeppni að heita má afnumin á kindakjöts- og mjólkurmarkaði og framboði og verðlagi stýrt af yfirvöldum. Iðngreinar voru efldar með verndartollum og tollalækkunum á hráefni og aðföng. Stjórnvöld beittu sér jafnframt fyrir nýsköpun í atvinnulífi meðal annars með eflingu síldveiða og uppbyggingu hraðfrystihúsa. Til að koma til móts við kröfur verkafólks hófu ríki og sveitarfélög atvinnubótavinnu snemma í kreppunni og árið 1936 voru sett lög um alþýðutryggingar.

Þrátt fyrir margháttaða erfiðleika kom Ísland ekki illa út úr kreppunni, miðað við flest Evrópulönd, þegar hún er metin á mælikvarða landsframleiðslu (sjá myndrit). Framleiðsla dróst saman um 3,8% 1929–1932 en eftir það var samdráttur aðeins einu sinni, 2,7% árið 1935. Þegar kreppuárin í heild 1929–1939 eru skoðuð var árlegur meðalhagvöxtur ekki neikvæður heldur jákvæður um 2,4%, en í Vestur-Evrópu var hann 1,2%. Í ljósi þessa er von að spurt sé: Af hverju hefur kreppan mikla verið talin eitt mesta efnahagsáfall sem dunið hefur yfir Íslendinga? Því er til að svara að hagvaxtartölur segja aðeins takmarkaða sögu um efnahagserfiðleikana. Stórum hluta framleiðslunnar, allnokkrum útgerðarfyrirtækjum og búskap bænda var haldið gangandi að verulegu leyti með opinberum styrkjum og skuldasöfnun í bönkum og sjóðum. Íslendingar söfnuðu gríðarlegum skuldum bæði innanlands og erlendis. Efnahagserfiðleikarnir á Íslandi vöruðu óvenju lengi eða allt fram í síðari heimsstyrjöld sem birtist í kyrrstöðu í atvinnulífi, atvinnuleysi og vaxandi fátækt. Atvinnuleysi var meira en dæmi voru til og náði hámarki í togarabæjunum Reykjavík og Hafnarfirði veturna 1938 og 1939. Á þessum tíma hafði almenningur að litlu að hverfa þegar vinna brást, atvinnuleysistryggingar voru ekki til og varð því margt fátækt fólk að leita á náðir ættingja eða sveitarfélaga um aðstoð.

Myndir:

Höfundur

Guðmundur Jónsson

prófessor í sagnfræði, Hugvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

18.1.2024

Síðast uppfært

22.1.2024

Spyrjandi

Una Árnadóttir, Friðrik Arthúr Guðmundsson, Geir Konráð Theodórsson

Tilvísun

Guðmundur Jónsson. „Hvaða áhrif hafði kreppan mikla á Ísland og Íslendinga?“ Vísindavefurinn, 18. janúar 2024, sótt 12. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29032.

Guðmundur Jónsson. (2024, 18. janúar). Hvaða áhrif hafði kreppan mikla á Ísland og Íslendinga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29032

Guðmundur Jónsson. „Hvaða áhrif hafði kreppan mikla á Ísland og Íslendinga?“ Vísindavefurinn. 18. jan. 2024. Vefsíða. 12. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29032>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða áhrif hafði kreppan mikla á Ísland og Íslendinga?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

  • Hvað gerðist í kreppunni á Íslandi árið 1929?

Einnig hefur verið spurt:
  • Kreppan mikla á Íslandi, hvaða áhrif hafði hún á heimili og atvinnulíf?
  • Hvaða áhrif hafði kreppan (um 1930) á Ísland?

Á fyrstu áratugum 20. aldar var Ísland komið í hóp þeirra landa sem mesta utanríkisverslun höfðu miðað við íbúafjölda. Efnahagslíf var því viðkvæmt fyrir alþjóðlegum hagsveiflum og hlaut heimskreppan sem brast á árið 1929 að valda landsmönnum verulegum vandræðum. Áhrifa hennar gætti þó ekki að ráði fyrr en haustið 1930 þegar mikið verðfall varð á íslenskum útflutningsvörum og sölutregða varð á erlendum mörkuðum. Stærsti skellurinn kom 1931. Á árunum 1928–1931 féll verð á saltfiski, langmikilvægustu útflutningsvöru Íslands, um 40%, saltkjöti um 47%, ull 68% og gærum um 78%. Botninum var náð 1932 og hafði þá verð á útflutningsafurðum lækkað um 43% frá 1929. Eftir það rofaði til en enn átti Ísland eftir að verða fyrir miklu áfalli þegar saltfiskmarkaðurinn á Spáni lokaðist vegna borgarastyrjaldarinnar 1936–1939. Kreppan átti sér líka innlendar rætur og þá fyrst og fremst í einhliða áherslu á saltfiskframleiðslu en þegar árið 1926 var offramboðs og verðlækkana farið að gæta á alþjóðlegum mörkuðum.

Einhliða áhersla á saltfiskframleiðslu kom Íslendingum í koll í kreppunni miklu vegna mikillar verðlækkunar á saltfiskmörkuðum og lokunar Spánarmarkaðar.

Tekjur útflutningsgreina rýrnuðu gífurlega og fóru mörg sjávarútvegsfyrirtæki á hausinn. Bændur áttu líka í miklu basli vegna þrenginga á erlendum mörkuðum og sneru sér að framleiðslu á mjólkurvörum og kjöti fyrir innlendan markað. Í Reykjavík og stærri bæjum fór að bera á atvinnuleysi og vaxandi fátækt meðal verkafólks. Í Reykjavík var 731 skráður atvinnulaus í nóvember 1932. Í minni bæjum gátu menn frekar drýgt tekjurnar með skepnuhaldi og sjóróðrum.

Samdrátturinn í atvinnulífi leiddi til mikils halla á viðskiptum við útlönd og gjaldeyrisskorts. Stjórnvöld hófu því að takmarka innflutning og skammta gjaldeyri árið 1931. Matvæli, sælgæti, húsgögn, hljóðfæri, skófatnaður og aðrar neysluvörur urðu fágætar. Ekki var gripið til gengisfellingar að öðru leyti en því að láta krónuna fylgja falli enska sterlingspundsins haustið 1931. Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar 1934–1939 tók upp markvissa verndarstefnu og bannaði eða takmarkaði innflutning flestra matvæla. Með afurðasölulögum sem samþykkt voru á Alþingi 1934–1935 var samkeppni að heita má afnumin á kindakjöts- og mjólkurmarkaði og framboði og verðlagi stýrt af yfirvöldum. Iðngreinar voru efldar með verndartollum og tollalækkunum á hráefni og aðföng. Stjórnvöld beittu sér jafnframt fyrir nýsköpun í atvinnulífi meðal annars með eflingu síldveiða og uppbyggingu hraðfrystihúsa. Til að koma til móts við kröfur verkafólks hófu ríki og sveitarfélög atvinnubótavinnu snemma í kreppunni og árið 1936 voru sett lög um alþýðutryggingar.

Þrátt fyrir margháttaða erfiðleika kom Ísland ekki illa út úr kreppunni, miðað við flest Evrópulönd, þegar hún er metin á mælikvarða landsframleiðslu (sjá myndrit). Framleiðsla dróst saman um 3,8% 1929–1932 en eftir það var samdráttur aðeins einu sinni, 2,7% árið 1935. Þegar kreppuárin í heild 1929–1939 eru skoðuð var árlegur meðalhagvöxtur ekki neikvæður heldur jákvæður um 2,4%, en í Vestur-Evrópu var hann 1,2%. Í ljósi þessa er von að spurt sé: Af hverju hefur kreppan mikla verið talin eitt mesta efnahagsáfall sem dunið hefur yfir Íslendinga? Því er til að svara að hagvaxtartölur segja aðeins takmarkaða sögu um efnahagserfiðleikana. Stórum hluta framleiðslunnar, allnokkrum útgerðarfyrirtækjum og búskap bænda var haldið gangandi að verulegu leyti með opinberum styrkjum og skuldasöfnun í bönkum og sjóðum. Íslendingar söfnuðu gríðarlegum skuldum bæði innanlands og erlendis. Efnahagserfiðleikarnir á Íslandi vöruðu óvenju lengi eða allt fram í síðari heimsstyrjöld sem birtist í kyrrstöðu í atvinnulífi, atvinnuleysi og vaxandi fátækt. Atvinnuleysi var meira en dæmi voru til og náði hámarki í togarabæjunum Reykjavík og Hafnarfirði veturna 1938 og 1939. Á þessum tíma hafði almenningur að litlu að hverfa þegar vinna brást, atvinnuleysistryggingar voru ekki til og varð því margt fátækt fólk að leita á náðir ættingja eða sveitarfélaga um aðstoð.

Myndir:

...