Sólin Sólin Rís 05:08 • sest 21:44 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:47 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:49 • Síðdegis: 14:50 í Reykjavík

Hvað var kreppan mikla og hvenær átti hún sér stað?

Guðmundur Jónsson

Á árunum 1929–1939 gekk yfir Vesturlönd dýpsta efnahagskreppa sem um getur á friðartímum. Mesti samdrátturinn var á árunum 1929–1932 og er áætlað að heimsframleiðsla á mann hafi þá dregist saman um 15%. Einna mestur var samdrátturinn í helsta iðnríki heims, Bandaríkjunum, þar sem landsframleiðsla skrapp saman um tæp 30%. Norðurlönd og Bretland komu hins vegar miklu betur út úr kreppunni (sjá myndrit). Frá árinu 1933 fóru mörg lönd að rétta úr kútnum en önnur glímdu áfram við mikla efnahagserfiðleika, atvinnuleysi og fjöldafátækt allt fram í síðari heimsstyrjöld. Samdrátturinn í efnahagslífi heimsins á fjórða áratug 20. aldar hefur gengið undir nafninu kreppan mikla.

Kreppan átti upptök sín í Bandaríkjunum og er venja að setja upphaf hennar við verðbréfahrunið í New York haustið 1929. Orsakir kreppunnar liggja þó lengra og dýpra. Bæði landbúnaður og ýmsar greinar iðnaðar áttu í erfiðleikum á þriðja áratugnum. Verðlag á landbúnaðarvörum, sérstaklega kornvöru, fór lækkandi vegna offramleiðslu og sumar iðngreinar svo sem kola- og stálframleiðsla, vefnaðariðnaður og skipasmíðar áttu undir högg að sækja. Uppsveifla varð þó á mörgum sviðum efnahagslífs þegar líða tók á áratuginn og mikil veltiár voru í alþjóðaviðskiptum. Margir töldu að hagsveiflur væru úr sögunni og ýtti ofurbjartsýni undir spákaupmennsku og ofþenslu á verðbréfamarkaðinum. Vísitala verðbréfa hækkaði um 100% á árunum 1925–1929 en þá tók að syrta í álinn. Verðbréf byrjuðu að falla í september en stærsta dýfan varð fimmtudaginn svarta, 24. október 1929. Í nóvember höfðu verðbréf í iðnaði í kauphöllinni í New York fallið um nálega helming og á botni kreppunnar 1932 námu þau aðeins fimmtungi þess sem þau voru á toppi uppsveiflunnar 1929. Verðbréfahrunið olli ómældum skaða, fólk og fyrirtæki kipptu að sér höndunum, eftirspurn dróst stórlega saman, verðlækkanir fylgdu í kjölfarið og hagnaður fyrirtækja snerist í tap.

Atvinnulausir menn í biðröð fyrir utan súpueldhús í Chicago 1931.

Margir hagfræðingar telja að gullfóturinn, hið alþjóðlega gjaldmiðlakerfi, hafi átt stóran þátt í því hve djúp kreppan varð. Ríki sem notuðust við gullfót tengdu gjaldmiðla sína við ákveðið magn af gulli til að stuðla að fastgengi þeirra og var gjaldmiðillinn innleysanlegur í gulli. Ríkjandi hagstjórnarhugmyndir mögnuðu frekar en drógu úr samdrætti hagkerfisins þar eð stjórnvöld töldu að besta leiðin til að koma á jöfnuði í viðskiptum við útlönd væri að lækka innlent verðlag með því að takmarka lánsfé og lækka kaupgjald. Á fyrstu árum kreppunnar einkenndust viðbrögð stjórnvalda af niðurskurði á opinberum útgjöldum, innflutningstakmörkunum og tilraunum til að lækka kaupgjald – sem varð til að dýpka kreppuna enn frekar.

Áhrif kreppunnar í Bandaríkjunum höfðu keðjuverkandi áhrif víða um heim. Minnkandi eftirspurn leiddi til verðhruns og samdráttar í framleiðslu. Á árunum 1929–1932 lækkaði heimsmarkaðsverð á iðnaðarvörum um 36%, matvælum um 48% og hráefnum um 56%. Verðfallið, sölutregðan og innflutningstakmarkanir leiddu til stórkostlegs samdráttar í verslun milli landa og er talið að alþjóðaverslun hafi dregist saman um rúm 60%. Vandræðin jukust enn frekar þegar bandarískir bankar, sem stóðu höllum fæti, ákváðu að stöðva lánveitingar til útlanda og kalla inn skammtímalán. Þetta olli miklum usla í alþjóðlegum gjaldeyrisviðskiptum, margir bankar, einkum í Þýskalandi og Mið-Evrópu, fóru í þrot, og Bretland ásamt um 30 öðrum löndum hurfu af gullfæti og lækkuðu gengi gjaldmiðla sinna.

Sparifjáreigendur utan við sparisjóðinn á Mühlendamm stræti í Berlín eftir að fréttist um fall Darmstädter- und Nationalbank í júlí 1931.

Kreppan mikla markaði tímamót í hagsögu heimsins vegna þess hversu víðtæk og alvarleg hún var. Áhrifa hennar gætti í flestum ríkjum heims, bændur og iðnfyrirtæki urðu fyrir miklum búsifjum og atvinnuleysi varð með því mesta sem mælst hefur. Kreppan hafði líka langvarandi áhrif á stjórnmál, víða um lönd varð mikil skauthverfing og öfgastefnur til hægri (fasismi) og vinstri (kommúnismi) efldust. Hagstjórnarhugmyndir breyttust þar sem horfið var frá fríverslunarstefnu til verndarstefnu, og ríkisvaldið gerðist miklu afskiptasamara í efnahagslífi en áður hafði verið. Helstu úrlausnarefni stjórnvalda þegar fram í sótti voru að örva efnahagslífið og draga úr atvinnuleysi. Til þess að vernda innlenda framleiðslu gripu mörg lönd til ýmissa stuðningsaðgerða, gjaldeyrisskömmtunar og ekki síst innflutningshafta, til dæmis með stórhækkun tolla á innfluttar vörur í samkeppni við innlenda framleiðslu.

Myndir:


Vísindavefurinn hefur fengið allmargar spurningar um kreppuna miklu og er þeim að hluta eða öllu leyti svarað hér. Þessar spurningar eru:

  • Hverjar voru helstu orsakir heimskreppunnar á fjórða áratug 20. aldar?
  • Hvernig og af hverju smitaðist heimskreppan mikla frá New York 1929, til flestra landa í heimi?
  • Geturðu sagt mér það helsta um hrunið á Wall Street 1929 og hvað orsakaði það?
  • Hvaða dag er talið að heimskreppan hafi byrjað?
  • Hver er ástæða heimskreppunnar miklu 1929?
  • Hvað vitiði um heimskreppuna sem átti sér stað 1929?
  • Hvað orsakaði kreppuárin svokölluðu upp úr 1930? Hvar hófust þau?
  • Hvernig byrjaði heimskreppan á millistríðsárunum? Hvað olli henni? Sáu menn ekki fyrir hana (engin aðdragandi) eða gerðist þetta bara sisona?
  • Heimskreppan mikla: eðli hennar og einkenni?
  • Hvernig var reynt að hamla gegn áhrifum kreppunnar miklu?
  • Getið sagt mér allt um kreppuna árið 1929?
  • Hvað orsakaði kreppuna miklu í Bandaríkjunum og hvers vegna breiddist hún um nær allan heim?
  • Hvað geturðu sagt mér um orsakir áhrif og afleiðingar kreppunnar miklu í Bandaríkjunum?
  • Hvaða áhrif hafði kreppan (um 1930) á Evrópu, Ísland og Bandaríkin?

Spyrjendur eru: Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Kristófer Eggertsson, Rakel Ósk Sigurðardóttir, Arnaldur Árnason, Sólveig Helga Hjarðar, Erla Rán Eiríksdóttir, Íris Tersa Emilsdóttir, Kristjana Halldóra Kjartansdóttir,Guðmundur Frímann, Mekkin Einardóttir, Ingunn Hreinsdóttir, Þóra Guðmundsdóttir, Svanborg Jónsdóttir og Geir Konráð Theodórsson.

Höfundur

Guðmundur Jónsson

prófessor í sagnfræði, Hugvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

16.1.2024

Spyrjandi

Steinunn Lára Skúladóttir o.fl.

Tilvísun

Guðmundur Jónsson. „Hvað var kreppan mikla og hvenær átti hún sér stað?“ Vísindavefurinn, 16. janúar 2024. Sótt 28. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=19663.

Guðmundur Jónsson. (2024, 16. janúar). Hvað var kreppan mikla og hvenær átti hún sér stað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=19663

Guðmundur Jónsson. „Hvað var kreppan mikla og hvenær átti hún sér stað?“ Vísindavefurinn. 16. jan. 2024. Vefsíða. 28. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=19663>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað var kreppan mikla og hvenær átti hún sér stað?
Á árunum 1929–1939 gekk yfir Vesturlönd dýpsta efnahagskreppa sem um getur á friðartímum. Mesti samdrátturinn var á árunum 1929–1932 og er áætlað að heimsframleiðsla á mann hafi þá dregist saman um 15%. Einna mestur var samdrátturinn í helsta iðnríki heims, Bandaríkjunum, þar sem landsframleiðsla skrapp saman um tæp 30%. Norðurlönd og Bretland komu hins vegar miklu betur út úr kreppunni (sjá myndrit). Frá árinu 1933 fóru mörg lönd að rétta úr kútnum en önnur glímdu áfram við mikla efnahagserfiðleika, atvinnuleysi og fjöldafátækt allt fram í síðari heimsstyrjöld. Samdrátturinn í efnahagslífi heimsins á fjórða áratug 20. aldar hefur gengið undir nafninu kreppan mikla.

Kreppan átti upptök sín í Bandaríkjunum og er venja að setja upphaf hennar við verðbréfahrunið í New York haustið 1929. Orsakir kreppunnar liggja þó lengra og dýpra. Bæði landbúnaður og ýmsar greinar iðnaðar áttu í erfiðleikum á þriðja áratugnum. Verðlag á landbúnaðarvörum, sérstaklega kornvöru, fór lækkandi vegna offramleiðslu og sumar iðngreinar svo sem kola- og stálframleiðsla, vefnaðariðnaður og skipasmíðar áttu undir högg að sækja. Uppsveifla varð þó á mörgum sviðum efnahagslífs þegar líða tók á áratuginn og mikil veltiár voru í alþjóðaviðskiptum. Margir töldu að hagsveiflur væru úr sögunni og ýtti ofurbjartsýni undir spákaupmennsku og ofþenslu á verðbréfamarkaðinum. Vísitala verðbréfa hækkaði um 100% á árunum 1925–1929 en þá tók að syrta í álinn. Verðbréf byrjuðu að falla í september en stærsta dýfan varð fimmtudaginn svarta, 24. október 1929. Í nóvember höfðu verðbréf í iðnaði í kauphöllinni í New York fallið um nálega helming og á botni kreppunnar 1932 námu þau aðeins fimmtungi þess sem þau voru á toppi uppsveiflunnar 1929. Verðbréfahrunið olli ómældum skaða, fólk og fyrirtæki kipptu að sér höndunum, eftirspurn dróst stórlega saman, verðlækkanir fylgdu í kjölfarið og hagnaður fyrirtækja snerist í tap.

Atvinnulausir menn í biðröð fyrir utan súpueldhús í Chicago 1931.

Margir hagfræðingar telja að gullfóturinn, hið alþjóðlega gjaldmiðlakerfi, hafi átt stóran þátt í því hve djúp kreppan varð. Ríki sem notuðust við gullfót tengdu gjaldmiðla sína við ákveðið magn af gulli til að stuðla að fastgengi þeirra og var gjaldmiðillinn innleysanlegur í gulli. Ríkjandi hagstjórnarhugmyndir mögnuðu frekar en drógu úr samdrætti hagkerfisins þar eð stjórnvöld töldu að besta leiðin til að koma á jöfnuði í viðskiptum við útlönd væri að lækka innlent verðlag með því að takmarka lánsfé og lækka kaupgjald. Á fyrstu árum kreppunnar einkenndust viðbrögð stjórnvalda af niðurskurði á opinberum útgjöldum, innflutningstakmörkunum og tilraunum til að lækka kaupgjald – sem varð til að dýpka kreppuna enn frekar.

Áhrif kreppunnar í Bandaríkjunum höfðu keðjuverkandi áhrif víða um heim. Minnkandi eftirspurn leiddi til verðhruns og samdráttar í framleiðslu. Á árunum 1929–1932 lækkaði heimsmarkaðsverð á iðnaðarvörum um 36%, matvælum um 48% og hráefnum um 56%. Verðfallið, sölutregðan og innflutningstakmarkanir leiddu til stórkostlegs samdráttar í verslun milli landa og er talið að alþjóðaverslun hafi dregist saman um rúm 60%. Vandræðin jukust enn frekar þegar bandarískir bankar, sem stóðu höllum fæti, ákváðu að stöðva lánveitingar til útlanda og kalla inn skammtímalán. Þetta olli miklum usla í alþjóðlegum gjaldeyrisviðskiptum, margir bankar, einkum í Þýskalandi og Mið-Evrópu, fóru í þrot, og Bretland ásamt um 30 öðrum löndum hurfu af gullfæti og lækkuðu gengi gjaldmiðla sinna.

Sparifjáreigendur utan við sparisjóðinn á Mühlendamm stræti í Berlín eftir að fréttist um fall Darmstädter- und Nationalbank í júlí 1931.

Kreppan mikla markaði tímamót í hagsögu heimsins vegna þess hversu víðtæk og alvarleg hún var. Áhrifa hennar gætti í flestum ríkjum heims, bændur og iðnfyrirtæki urðu fyrir miklum búsifjum og atvinnuleysi varð með því mesta sem mælst hefur. Kreppan hafði líka langvarandi áhrif á stjórnmál, víða um lönd varð mikil skauthverfing og öfgastefnur til hægri (fasismi) og vinstri (kommúnismi) efldust. Hagstjórnarhugmyndir breyttust þar sem horfið var frá fríverslunarstefnu til verndarstefnu, og ríkisvaldið gerðist miklu afskiptasamara í efnahagslífi en áður hafði verið. Helstu úrlausnarefni stjórnvalda þegar fram í sótti voru að örva efnahagslífið og draga úr atvinnuleysi. Til þess að vernda innlenda framleiðslu gripu mörg lönd til ýmissa stuðningsaðgerða, gjaldeyrisskömmtunar og ekki síst innflutningshafta, til dæmis með stórhækkun tolla á innfluttar vörur í samkeppni við innlenda framleiðslu.

Myndir:


Vísindavefurinn hefur fengið allmargar spurningar um kreppuna miklu og er þeim að hluta eða öllu leyti svarað hér. Þessar spurningar eru:

  • Hverjar voru helstu orsakir heimskreppunnar á fjórða áratug 20. aldar?
  • Hvernig og af hverju smitaðist heimskreppan mikla frá New York 1929, til flestra landa í heimi?
  • Geturðu sagt mér það helsta um hrunið á Wall Street 1929 og hvað orsakaði það?
  • Hvaða dag er talið að heimskreppan hafi byrjað?
  • Hver er ástæða heimskreppunnar miklu 1929?
  • Hvað vitiði um heimskreppuna sem átti sér stað 1929?
  • Hvað orsakaði kreppuárin svokölluðu upp úr 1930? Hvar hófust þau?
  • Hvernig byrjaði heimskreppan á millistríðsárunum? Hvað olli henni? Sáu menn ekki fyrir hana (engin aðdragandi) eða gerðist þetta bara sisona?
  • Heimskreppan mikla: eðli hennar og einkenni?
  • Hvernig var reynt að hamla gegn áhrifum kreppunnar miklu?
  • Getið sagt mér allt um kreppuna árið 1929?
  • Hvað orsakaði kreppuna miklu í Bandaríkjunum og hvers vegna breiddist hún um nær allan heim?
  • Hvað geturðu sagt mér um orsakir áhrif og afleiðingar kreppunnar miklu í Bandaríkjunum?
  • Hvaða áhrif hafði kreppan (um 1930) á Evrópu, Ísland og Bandaríkin?

Spyrjendur eru: Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir, Kristófer Eggertsson, Rakel Ósk Sigurðardóttir, Arnaldur Árnason, Sólveig Helga Hjarðar, Erla Rán Eiríksdóttir, Íris Tersa Emilsdóttir, Kristjana Halldóra Kjartansdóttir,Guðmundur Frímann, Mekkin Einardóttir, Ingunn Hreinsdóttir, Þóra Guðmundsdóttir, Svanborg Jónsdóttir og Geir Konráð Theodórsson....