Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Gissur Þorvaldsson var höfðingjasonur í Árnesþingi, áttundi maður í beinan karllegg frá Ketilbirni gamla Ketilssyni, landnámsmanni á Mosfelli í Grímsnesi, sjötti maður frá Gissuri hvíta, forystumanni að kristnitöku Íslendinga, fimmti maður frá Ísleifi Gissurarsyni biskupi í Skálholti. Í móðurætt var Gissur sonur Þóru Guðmundsdóttur yngri frá Þingvöllum. Hún var í föðurætt komin af þeim sem fóru með allsherjargoðorð og hafa líklega talist afkomendur Ingólfs Arnarsonar í Reykjavík. Í móðurætt var Þóra komin af Oddaverjum í Rangárþingi, einni mestu höfðingjaætt landsins. Gissur var fæddur árið 1209.
Víst er að Gissur hefur tekið við goðorði því sem var kennt við Mosfellinga og síðar Haukdæli í uppsveitum Árnesþings. Það hefur líklega gerst árið 1226 þegar faðir hans, Þorvaldur Gissurarson í Hruna, gekk í klaustur. Sumir hafa talið að öll þrjú goðorð Árnesinga hafi verið komin í eigu Haukdæla löngu fyrr en raunar er ekki bein heimild um algert héraðsveldi þeirra í Árnesþingi fyrr en árið 1238 þegar sagt er í Íslendinga sögu í Sturlungu að Hjalti Magnússon, frændi hans, hafi tekið við „öllum goðorðum Gissurar“.
Valdaskeið Gissurar var versti ófriðartími Sturlungaaldar. Framan af komst hann hjá því að blandast inn í deilur höfðingja og sýndi ekki viðleitni til að þenja veldi sitt út fyrir Árnesþing. En árið 1238 var hann dreginn inn í deilurnar með svikum. Sturla Sighvatsson af Sturlungaætt var þá að vinna að því að leggja landið undir Noregskonung og reyndi að yfirbuga hvern héraðshöfðingjann af öðrum. Hann stefndi Gissuri á fund við Apavatn í Árnesþingi og sveik hann þar, tók hann höndum og lét hann lofa sér að fara til Noregs þar sem konungur hefur átt að ná héraðsríki hans með einhverju móti af honum. Eftir þetta var Gissur meðal aðalpersóna í átökum Sturlungaaldar og átti eftir að taka við því verkefni sem Sturlu Sighvatssyni hafði mistekist að vinna.
Um skeið fluttist Gissur norður í Skagafjörð og settist að á Flugumýri. Þar réðust andstæðingar hans að honum haustið 1253 og reyndu að brenna hann inni. Þar fórst kona Gissurar, Gróa Álfsdóttir, og allir þrír synir hans sem þá voru á lífi. Eftir það eignaðist Gissur frillu, Ingibjörgu Gunnarsdóttur, „og unni henni brátt mikið“, en ekki er sagt frá því að þau hafi eignast börn.
Gissur jarl slapp lifandi úr Flugumýrarbrennu árið 1253 en kona hans og synir voru meðal þeirra sem brunnu inni. Hér er Flugumýrarbrenna í túlkun listamannsins Jóhannesar Geirs (1927-2003).
Árið 1258 var Gissur með Hákoni konungi Hákonarsyni í Noregi. Þá gaf konungur honum jarlsnafn og sendi hann til Íslands í því skyni að leggja landið undir konung. Um leið skipaði konungur hann yfir Sunnlendingafjórðung, Norðlendingafjórðung og Borgarfjörð. Nokkrir íslenskir höfðingjar höfðu þá afsalað sér til konungs héraðsvöldum, því sem upphaflega var goðavald. Hugsunin með skipun konungs hefur sjálfsagt verið sú að héraðsvöld í þessum landshlutum væru orðin konungseign og tæki Gissur nú við þeim í umboði hans. En jafnframt hefur Gissur átt að fá Íslendinga til að gangast undir konungsvald Hákonar. Það gekk sýnilega ekki vel og var um það nokkurt stapp næstu árin. En árið 1262 tókst Gissuri að fá fulltrúa Norðlendinga, Sunnlendinga vestan Þjórsár og íbúa Vestfirðingafjórðungs til að sverja Noregskonungi land og þegna og fallast á að greiða honum skatt árlega. Um það gerðu landsmenn samning við konung sem löngum hefur verið nefndur Gamli sáttmáli. Á næstu tveimur árum, 1263 og 1264, játuðust Rangæingar og Austfirðingar undir vald konungs með sömu skilmálum og hafði hann þá náð öllu landinu undir sig.
„Jarlinn viljum vér yfir oss hafa meðan hann heldur trúnað við yður en frið við oss,“ segir í Gamla sáttmála. Ekki er þó vitað með vissu hvort Gissur taldist vera jarl yfir öllu landinu eftir að það komst allt undir konungsvald. Jarlstign hélt hann til dauðadags árið 1268. Eftir það var aldrei, svo að vitað sé, skipaður jarl yfir Íslandi eða hluta þess.
Gissur Þorvaldsson hefur löngum hlotið nokkuð harðan dóm í Íslandssögu fyrir að hafa gengist fyrir því að Íslendingar afsöluðu sér sjálfstæði sínu. Gagnstætt því hefur líka verið bent á að „fullveldis- eða sjálfstæðishugmyndir manna voru mjög á reiki á miðöldum“, svo að gripið sé til orða Björns Þorsteinssonar. Það var engan veginn álitið eins sjálfsagður hlutur þá og það varð eftir að þjóðernishyggja 19. aldar kom til að þjóðir ættu umfram allt að mynda sjálfstæð ríki. Hæpið er því að dæma Gissur út frá gildum þjóðernishyggjunnar.
Heimildir og mynd:
Björn Þorsteinsson og Sigurður Líndal: „Lögfesting konungsvalds.“ Saga Íslands III (Reykjavík, Bókmenntafélag, 1978), 17–108.
Gunnar Karlsson: Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga. Reykjavík, Heimskringla, 2004.
Jón Jóhannesson: Íslendinga saga I. Reykjavík, Almenna bókafélagið, 1956.
Ólafur Hansson: Gissur jarl. Reykjavík, Ísafoldarprentsmiðja, 1966.
Sturlunga saga. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um útgáfuna. I–II. Reykjavík, Sturlunguútgáfan, 1946.
Mynd: Atburðasyrpa Jóhannesar Geirs - sturlungaslod.is. Myndin er upprunalega úr handbókinni Á Sturlungaslóð í Skagafirði sem kom út árið 2003 á vegum Héraðsskjala- og Byggðasafns Skagfirðinga og Hólaskóla. (Sótt 24. 1. 2014).
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver var Gissur jarl Þorvaldsson og hvaða hlutverki gegndi hann á Sturlungaöld?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2014, sótt 10. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29318.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2014, 12. febrúar). Hver var Gissur jarl Þorvaldsson og hvaða hlutverki gegndi hann á Sturlungaöld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29318
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver var Gissur jarl Þorvaldsson og hvaða hlutverki gegndi hann á Sturlungaöld?“ Vísindavefurinn. 12. feb. 2014. Vefsíða. 10. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29318>.