Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Næsta eldstöðvakerfi austan Reykjaness er venjulega kennt við Svartsengi og Eldvörp. Hér verður það nefnt Svartsengiskerfi. Röð af dyngjum og móbergsfellum úr ólivínríku bergi skilur á milli þess og Reykjaneskerfisins. Þar er Háleyjarbunga syðst, þá Sandfellshæð, Lágafell, Sandfell, Þórðarfell og Súlur-Stapafell nyrst. Dyngjurnar eru frá síðjökultíma. Tvær þeirra eru úr pikríti og Súlur og Stapafell einnig. Sprungusveimar Reykjaness- og Svartsengiskerfanna renna saman þegar kemur inn fyrir Stapafell. Svartsengiskerfið er um sjö kílómetra breitt og að minnsta kosti 30 kílómetra langt. Gosstöðvar eru á syðstu 17 kílómetrum þess, sjá mynd 1.
Í Svartsengiskerfinu hafa aðeins orðið hraungos á gossprungum eftir að land varð íslaust. Það skiptist í tvær gosreinar. Oftast hefur gosið á Svartsengisrein sem er milli Þorbjarnarfells og Sundhnúks. Önnur gosrein, Eldvarparein, liggur um Eldvörp. Svartsengiskerfið er allt á landi. Gosmyndanir í kerfinu hafa verið kortlagðar og þar með gígaraðir og útbreiðsla hrauna.[1] Alls hafa verið aðgreind 12-15 misgömul hraun. Nokkur þeirra komu upp í kringum ísaldarlokin. Um aldursdreifingu er annars lítið vitað fyrr en kemur að þeim sem eru yngri en 3500 ára. Hraunin úr þessum gosum eru misstór. Tvö þeirra yngstu eru líklega stærst. Það yngsta um 45 ferkílómetrar.
Mynd 1: Svartsengis- og Reykjanesskerfi. Gosreinar, hraun og sprungur.
Elstu hraun
Elstu hraunin í Svartsengiskerfinu eru kleprahraun. Útbreiðsla þeirra takmarkast við nágrenni gíganna. Þar sem land er lægra eru þau komin undir yngra hraun. Kleprahraunin eru mynduð úr öflugum kvikustrókum. Þegar niður kom, var úrfallið nógu heitt til að renna undan halla, en innri gerðin sýnir að þau eru úr sambræddum hraunflyksum. Virkni af þessu tagi einkennir elstu hraungosin á utanverðum Reykjanesskaga og raunar ekki aðeins þar. Þessar gosmenjar liggja jafnan á berri klöpp eða á jökulruðningi og eru líkast til frá síðjökultíma. Kleprahraunin eru þrjú, öll í Svartsengisreininni.
Nokkur sprunguhraun í Svartsengisreininni eru eldri en öskulag úr Kötlu sem finnst víðast hvar á Reykjanesskaga og er um 3500 ára.[2] Hraunið í Hópsnesi og Hópsheiði er það eina sem hefur verið aldursgreint með geislakoli. Það reyndist vera um 8000 ára og er meðal þeirra yngri í „syrpunni“, upprunnið í gígaröð austan í Hagafelli.[3] Aldursröð hraunanna er þekkt að nokkru leyti. Með hliðsjón af jarðvegsþykkt ofan á þeim má ætla að þau séu frá fyrri hluta eftirjökultímans.
Sprunguhraun í Eldvarpareininni eru að minnsta kosti fjögur talsins. Aðeins eitt þeirra er eldra en fyrrgreint Kötlulag. Það sést aðeins á smáblettum austur og norður af gígnum Lat og dálitlar spildur norður í Lágum, en það nær einnig niður í Tóttakróka og suður að Lambagjá vestur af Stað. Hraunið gæti því verið allstórt. Það mætti kalla Latshraun. Það er lynggróið og töluvert eldra en áður nefnt Kötlulag. Upptökin hafa verið á Eldvarpasprungunni. Latur er eini gígurinn sem greindur verður á henni sem „gamall“. Hann er auðþekktur á kulnaðri jarðhitaskellu.
Yngstu hraun
Með yngstu hraunum er átt við þau sem eru yngri en rúmlega 3000 ára. Þau eru frá þremur gosskeiðum. Í Svartsengisreininni hefur gosið tvisvar á þeim tíma, en þrisvar í Eldvarpareininni.
Elsta hraunið kemur fram í smáhólmum í Berghrauni og við jaðra þess. Lynghólshraun er örnefni í því. Elsta öskulag á því er Reykjaneslag sem er um 2000 ára. Undir því er mold, mest um fimm sentimetra þykk í dældum. Aldur gæti því verið um 3000 ár. Upptök hraunsins eru ekki þekkt með vissu, en þau eru að öllum líkindum á Eldvarpasprungunni. Gjár eru í því. Sú stærsta, Lambagjá, er raunar aðallega í eldra hrauni (úr Sandfellshæð) á vatnstökusvæði Íslandslax.[4] Nokkur gliðnun hefur sjáanlega orðið á Lambagjá eftir að Lynghólshraun rann yfir hana. Stærð hraunsins verður ekki séð nú, en ætla má að það hafi ekki verið mikið yfir tíu ferkílómetrar.
Næst koma tvö hraun á líkum aldri, annað í Svartsengisreininni, hitt í Eldvarpareininni. Ofan á þeim er fimm til átta sentimetra þykkt moldarlag upp að miðaldalaginu, öskulagi frá 1226.[5] Bæði hafa verið aldursgreind. Annað er Sundhnúkahraun ofan við Grindavík, um 2400 ára.[6] Það er um 22 ferkílómetrar, komið úr níu kílómetra langri gígaröð með tveimur nafnkenndum gígum, Sundhnúk og Melhól, sjá mynd 2. Það nær niður í Grindavík og er vesturbærinn og hafnarsvæðið á því að hluta. Hitt hraunið er í fjórum hlutum.[7]
Sundhnúkagígaröðin norðaustur af Grindavík. Dæmigerðir gjallgígar.
Háahraun vestan við Eldvörp er nyrst. Blettahraun, stór hraunfláki, er vestan Grindavíkur. Berghraun er upp af Staðarbergi, og Klofningshraun er vestast, annar stór hraunfláki sunnan við Sandfellshæð. Lágmarksstærð hraunsins alls er 30 ferkílómetrar. Hraunflákar þessir eru víða með háa hraunjaðra og sumir uppbólgnir af írennsli og með skvompum þar sem hraunið var áður gegnstorkið. Gjár eru fáar. Upptökin eru í tveimur stórum gígum. Annar er skammt suður af Þórðarfelli, stundum nefndur „Þórðarfells-Eldborg“. Úr honum komu Háahraun og Blettahraun. Hinn er Rauðhóll, suður af gígnum í Sandfellshæð. Þaðan runnu Berghraun og Klofningahraun. Aldur þeirra er um 2200 ár samkvæmt C-14 aldursgreiningu.[8] Jón Jónsson[9] greindi Eldvarpahraunin sundur í eldra og yngra. Aldursgreiningin á við það eldra, en sýnatökustaður var í jaðri Háahrauns vestur við Lágafell.[10]
Yngstu hraunin eru þrjú, frá því skömmu eftir að miðaldalagið féll.[11] Þau ná til beggja gosreina kerfisins. Eldvarpahraun er vestast. Gossprungan þar nær átta kílómetra til norðausturs frá sjó. Það er um 20 ferkílómetrar að stærð. Illahraun er komið úr stuttri gígaröð um 1200 metrum austan við Eldvörp, og liggja hraunin saman á kafla. Illahraun er um þrír ferkílómetrar. Orkuverið í Svartsengi er á því og Bláa lónið við norðurjaðar þess. Arnarseturshraun er norðaustast. Meginhluti þess kom upp á 500 metra langri gossprungu í Gíghæð. Norðaustan hennar er 700 metra löng gígaröð sem hefur verið virk í upphafi gossins.[12] Arnarseturshraun er 22 ferkílómetrar að stærð, þykkt og kargakennt. Gossprungukerfi í þessum hraunum er 14 kílómetra langt og samanlagt flatarmál þeirra um 45 ferkílómetrar.
Engar af gossprungum eftirjökultímans í Svartsengiskerfinu hafa náð út í sjó, en tæpt hefur staðið með þá yngstu, Eldvarpasprunguna. Sprungurnar ofan við Grindavík enda um tvo kílómetra frá sjó.
Tilvísanir:
^ Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík. Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
^ Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
^ Kristján Sæmundsson, 2002. Jarðfræði Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Þingvallavatn. Undraheimur í mótun. (Pétur M. Jónasson og Páll Hersteinsson ritstjórar). Mál og menning, Reykjavík, 40-63. Sinton og fleiri, 2005. Postglacial eruptive history of the Western Volcanic Zone, Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems, 6, Q12009; doi: 10.1029/2005GC001021.
^ Jón Jónsson, 1986b. Hraunið við Lambagjá. Náttúrufræðingurinn, 56, 209-212.
^ Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988b. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull, 38, 71-87.
^ Jón Jónsson, 1973. Sundhnúkahraun við Grindavík. Náttúrufræðingurinn, 43, 145-153. Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
^ Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík. Kristján Sæmundsson, 1997. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 2. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
^ Jón Jónsson, 1983a. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga.Náttúrufræðingurinn, 52, 127-139.
^ Jón Jónsson, 1978b. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga (1:25 000). OS-JHD-7831. Orkustofnun, Reykjavík.
^ Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7. Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1988b. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull, 38, 71-87.
^ Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson, 1989. Aldur Arnarseturshrauns á Reykjanesskaga. Fjölrit Nátturufræðistofnunar, 8. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík.
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Reykjanesskaga í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi. Myndir eru fengnar úr sama riti, bls. 394-395.
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. „Getið þið sagt mér það helsta um eldstöðvakerfið sem kennt er við Svartsengi og Eldvörp?“ Vísindavefurinn, 12. mars 2018, sótt 12. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=29508.
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. (2018, 12. mars). Getið þið sagt mér það helsta um eldstöðvakerfið sem kennt er við Svartsengi og Eldvörp? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=29508
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson. „Getið þið sagt mér það helsta um eldstöðvakerfið sem kennt er við Svartsengi og Eldvörp?“ Vísindavefurinn. 12. mar. 2018. Vefsíða. 12. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=29508>.