Sólin Sólin Rís 05:15 • sest 21:38 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:18 • Sest 04:30 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:36 • Síðdegis: 19:53 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:39 • Síðdegis: 13:42 í Reykjavík

Er hægt að verða geðveikur með því að lesa yfir sig?

Björn Harðarson

Flestir kannast við goðsögnina um að einhver hafi hreinlega lesið yfir sig og þjáist í kjölfarið af alvarlegum geðröskunum. Það er þó misskilningur að orsök geðveilunnar sé lærdómurinn sjálfur.

Geðklofi er sú geðröskun sem almennt er talin vera alvarlegasta geðröskunin og sú sem einna helst krefst innlagna á geðdeild. Það getur hinsvegar verið mismunandi eftir einstaklingum hvernig einkennin birtast og hversu alvarlegur geðklofinn verður. Sumir verða mjög veikir, einkennin langvarandi og tímabilin sem einkennin liggja niðri stutt. Aðrir veikjast aðeins einu sinni eða sjaldan og geta lifað eðlilegu lífi þess á milli. Algengt er að upphaf einkenna eigi sér stað í kjölfar mikils álags. Einstaklingurinn virðist þá oft veikjast mjög skyndilega og eru þá einkennin mjög áberandi.

Þessi tími fyrstu einkenna hefur hinsvegar lengi valdið töluverðum misskilningi, þar sem fólk hefur tengt álag eins og próflestur við upphaf geðklofaeinkenna og því litið á álagið sem orsakavald geðklofa. Þegar talað er um að "lesa yfir sig" er oft gert ráð fyrir að álagið við lærdóminn sé hin raunverulega orsök og hefur þessi misskilningur í gegnum tíðina jafnvel gert sumt fólk hrætt við nám og þá sérstaklega langskólanám. Þegar maður ræðir við fólk sem á ættingja eða vini sem "lásu yfir sig" er það gjarnan sannfært um að ef einstaklingurinn hefði ekki farið í nám hefði ættinginn eða vinurinn aldrei veikst. Hinsvegar er mikilvægt að átta sig á að álag, eins og erfið próf eða krefjandi nám, er einungis það sem kemur einkennunum af stað en er ekki orsakavaldur geðklofans. Einstaklingurinn hefði að öllum líkindum veikst við önnur skilyrði og þá kannski í kjölfar annars konar álags.



Fyrstu einkenni geðklofa koma oft fram við mikið álag.

Geðklofi fyrirfinnst í öllum samfélögum og hrjáir fólk alls staðar að því er virðist. Talið er að um það bil 1% mannkyns þjáist af þessum sjúkdómi. Ef álagið eða lærdómurinn væri orsök geðklofans ættu einkennin að vera algengari í vestrænum samfélögum þar sem meira er um að fólk fari í langskólanám og streita í umhverfinu almennt talin vera meiri. Einstaklingar veikjast yfirleitt fyrst á aldrinum 18-35 ára, sem er einmitt sá aldur þar sem fólk er gjarnan í námi. Þetta getur því að hluta til skýrt misskilning fólks. Ef lærdómur væri orsök sjúkdómsins ættum við að hafa orðið vör við töluverða aukningu á tíðni hans síðustu ár, samhliða þeirri þróun að sífellt fleiri sækja langskólanám. Þetta hefur hinsvegar ekki verið raunin og ef eitthvað er virðist nýgengi (ný tilfelli) sjúkdómsins hafa farið lækkandi milli ára.

Önnur algeng mýta varðandi geðklofa er að fólk með sjúkdóminn verði eins og margar persónur. Þetta virðist einnig vera afar útbreiddur misskilningur. Margir telja að geðklofi sé það sama og margskiptur persónuleiki eða klofinn persónuleiki, þar sem einstaklingur hefur tvo eða fleiri, oft mjög mismunandi, persónuleika. Þetta er þó mikill misskilningur en geðklofi einkennist af skynvillum, hugsanatruflunum og ranghugmyndum, svo dæmi séu nefnd, en alls ekki af mörgum persónuleikum. Sú röskun sem einkennist af tveimur eða fleiri persónuleikum nefnist rofinn persónuleiki og er nánar fjallað um það í svari Jakobs Smára við spurningunni: Hvað er rofinn persónuleiki?

Það er engin spurning að ef fólk þjáist af alvarlegum geðröskunum getur álag eins og mikil streita, miklar vökur og þær streituaðstæður sem próftímabil einkennast oft af valdið því að einstaklingurinn veikist eða honum versnar. Aftur á móti er það mikill misskilningur að þetta álag sé orsök geðklofa. Fólk ætti því ekki að hafa miklar áhyggjur af því að hefja langskólanám eða láta standa sér fyrir þrifum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir: BizEd.co.uk

Svar þetta er fengið af vefsetrinu persona.is og birtist hér í örlítið breyttri mynd með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

sálfræðingur

Útgáfudagur

28.5.2008

Spyrjandi

Hjördís Eiríksdóttir
Vilhjálmur Jónsson
Magnús Óskarsson
Eva Ösp
Ingibjörg Ingadóttir

Tilvísun

Björn Harðarson. „Er hægt að verða geðveikur með því að lesa yfir sig?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2008. Sótt 26. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=30230.

Björn Harðarson. (2008, 28. maí). Er hægt að verða geðveikur með því að lesa yfir sig? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=30230

Björn Harðarson. „Er hægt að verða geðveikur með því að lesa yfir sig?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2008. Vefsíða. 26. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=30230>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er hægt að verða geðveikur með því að lesa yfir sig?
Flestir kannast við goðsögnina um að einhver hafi hreinlega lesið yfir sig og þjáist í kjölfarið af alvarlegum geðröskunum. Það er þó misskilningur að orsök geðveilunnar sé lærdómurinn sjálfur.

Geðklofi er sú geðröskun sem almennt er talin vera alvarlegasta geðröskunin og sú sem einna helst krefst innlagna á geðdeild. Það getur hinsvegar verið mismunandi eftir einstaklingum hvernig einkennin birtast og hversu alvarlegur geðklofinn verður. Sumir verða mjög veikir, einkennin langvarandi og tímabilin sem einkennin liggja niðri stutt. Aðrir veikjast aðeins einu sinni eða sjaldan og geta lifað eðlilegu lífi þess á milli. Algengt er að upphaf einkenna eigi sér stað í kjölfar mikils álags. Einstaklingurinn virðist þá oft veikjast mjög skyndilega og eru þá einkennin mjög áberandi.

Þessi tími fyrstu einkenna hefur hinsvegar lengi valdið töluverðum misskilningi, þar sem fólk hefur tengt álag eins og próflestur við upphaf geðklofaeinkenna og því litið á álagið sem orsakavald geðklofa. Þegar talað er um að "lesa yfir sig" er oft gert ráð fyrir að álagið við lærdóminn sé hin raunverulega orsök og hefur þessi misskilningur í gegnum tíðina jafnvel gert sumt fólk hrætt við nám og þá sérstaklega langskólanám. Þegar maður ræðir við fólk sem á ættingja eða vini sem "lásu yfir sig" er það gjarnan sannfært um að ef einstaklingurinn hefði ekki farið í nám hefði ættinginn eða vinurinn aldrei veikst. Hinsvegar er mikilvægt að átta sig á að álag, eins og erfið próf eða krefjandi nám, er einungis það sem kemur einkennunum af stað en er ekki orsakavaldur geðklofans. Einstaklingurinn hefði að öllum líkindum veikst við önnur skilyrði og þá kannski í kjölfar annars konar álags.



Fyrstu einkenni geðklofa koma oft fram við mikið álag.

Geðklofi fyrirfinnst í öllum samfélögum og hrjáir fólk alls staðar að því er virðist. Talið er að um það bil 1% mannkyns þjáist af þessum sjúkdómi. Ef álagið eða lærdómurinn væri orsök geðklofans ættu einkennin að vera algengari í vestrænum samfélögum þar sem meira er um að fólk fari í langskólanám og streita í umhverfinu almennt talin vera meiri. Einstaklingar veikjast yfirleitt fyrst á aldrinum 18-35 ára, sem er einmitt sá aldur þar sem fólk er gjarnan í námi. Þetta getur því að hluta til skýrt misskilning fólks. Ef lærdómur væri orsök sjúkdómsins ættum við að hafa orðið vör við töluverða aukningu á tíðni hans síðustu ár, samhliða þeirri þróun að sífellt fleiri sækja langskólanám. Þetta hefur hinsvegar ekki verið raunin og ef eitthvað er virðist nýgengi (ný tilfelli) sjúkdómsins hafa farið lækkandi milli ára.

Önnur algeng mýta varðandi geðklofa er að fólk með sjúkdóminn verði eins og margar persónur. Þetta virðist einnig vera afar útbreiddur misskilningur. Margir telja að geðklofi sé það sama og margskiptur persónuleiki eða klofinn persónuleiki, þar sem einstaklingur hefur tvo eða fleiri, oft mjög mismunandi, persónuleika. Þetta er þó mikill misskilningur en geðklofi einkennist af skynvillum, hugsanatruflunum og ranghugmyndum, svo dæmi séu nefnd, en alls ekki af mörgum persónuleikum. Sú röskun sem einkennist af tveimur eða fleiri persónuleikum nefnist rofinn persónuleiki og er nánar fjallað um það í svari Jakobs Smára við spurningunni: Hvað er rofinn persónuleiki?

Það er engin spurning að ef fólk þjáist af alvarlegum geðröskunum getur álag eins og mikil streita, miklar vökur og þær streituaðstæður sem próftímabil einkennast oft af valdið því að einstaklingurinn veikist eða honum versnar. Aftur á móti er það mikill misskilningur að þetta álag sé orsök geðklofa. Fólk ætti því ekki að hafa miklar áhyggjur af því að hefja langskólanám eða láta standa sér fyrir þrifum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir: BizEd.co.uk

Svar þetta er fengið af vefsetrinu persona.is og birtist hér í örlítið breyttri mynd með góðfúslegu leyfi....