Sólin Sólin Rís 10:55 • sest 15:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:21 • Sest 14:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:08 • Síðdegis: 24:54 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:43 • Síðdegis: 18:36 í Reykjavík

Hvað eru margar vefsíður á netinu?

Einar Örn Þorvaldsson og Þorsteinn Vilhjálmsson

Þessari spurningu má með réttu líkja við spurninguna Hvað eru mörg sandkorn í heiminum? Þegar fengist er við þá spurningu má þó vera ljóst að sandkornin eru endanlega mörg en þegar rætt er um vefsíður er það ekki ljóst og raunar má segja að þær séu óendanlega margar.

Síðustu ár hafa vinsældir forritunarmála á borð við PHP, ASP og JSP, sem búa til kvikar (e. dynamic) vefsíður um leið og notendur kalla á þær, aukist mjög. Í kjölfarið er erfitt að tala um fjölda vefsíðna þar sem hver síða á vefsetri sem nýtir þessa tækni er í raun ekki til fyrr en notandi kallar á hana. Áður en þessi tækni kom til sögunnar voru langflestar vefsíður sístæðar (e. static) og þurfti því að búa þær til og dagrétta handvirkt.

Þannig má segja að vefsíðunum sem liggja á vefþjónum og bíða þess að notendur sæki þær hafi jafnvel fækkað en þeim vefsíðum sem hver netnotandi getur beðið vefþjón um að búa til og síðan sótt hefur fjölgað upp úr öllu valdi.

Til dæmis má ímynda sér vefþjón sem býr til einfalda síðu fyrir hvern notanda sem heimsækir hann. Á síðunni væri einungis talan pí með ákveðnum fjölda aukastafa (sem í raun eru óendanlega margir), en sá fjöldi væri ákveðinn á slembinn (e. random) hátt, til dæmis út frá nákvæmri tímasetningu og IP-tölu hvers gests. Þessi eini vefþjónn hefur þá möguleika á að búa til óendanlega margar mismunandi vefsíður.

Við getum tekið sjálfan Vísindavefinn sem dæmi um þetta sem hér hefur verið sagt. Við vitum í rauninni ekki hversu margar "vefsíður" notendur geta kallað fram frá vefþjóninum. Það eina sem við vitum fyrir víst er að fjöldi svara er að nálgast 3000 þegar þetta er skrifað í lok janúar 2003. En í lok hvers svars eru alltaf nokkur efnisorð og þegar smellt er á eitthvert þeirra birtist síða með lista um spurningar sem það vísar á. Við höfum ekki tölu á þessum efnisorðum. Sömuleiðis getur notandinn kallað fram margar mismunandi síður með spurningalistum frá mismunandi efnisflokkum og svo framvegis og svo framvegis. Fjöldi síðna sem starfsmenn vefsins geta kallað fram er síðan margfalt meiri en sá sem gestir geta séð.

Ef til vill væri vænlegra að spyrja um fjölda vefsetra (e. websites) í stað þess að miða við síður (pages). En þá þyrfti að byrja á því að skilgreina hvað átt er við með vefsetri. Kannski væri til dæmis hægt að miða við skráða aðila sem standa að efni á veraldarvefnum. Segjum að skilgreining lægi fyrir og menn hefðu talið vefsetrin samkvæmt henni miðað við tiltekinn dag. Þá er eins víst að talan mundi stórhækka á næstu dögum, vikum og mánuðum, þannig að þessi þekking yrði harla fljótt úrelt.

Við búumst engu að síður við því að fjöldi vefsetra í heiminum í dag skipti tugum milljóna.

En meginatriðið gagnvart upphaflegri spurningu er það að fyrir fimm árum hefði hún líklega haft skýra merkingu; henni hefði verið svarað með fjölda handgerðu, sístæðu síðnanna sem nefndar voru hér á undan. En slíkt svar mundi ekki lengur lýsa neinum markverðum raunveruleika. Og sjálfsagt á fjöldi vefsetra eftir að þróast á sömu leið á næstunni, að tölur um hann gefi heldur litla hugmynd um síbreytilegan veruleika.

Frekara lesefni af Vîsindavefnum:

Höfundar

Einar Örn Þorvaldsson

háskólanemi og fyrrverandi starfsmaður Vísindavefsins

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

24.1.2003

Spyrjandi

Jóhannes Einarsson, f. 1989,
Einar Helgi, f. 1987,
Erling Reynisson og
Daníel Kristinsson

Tilvísun

Einar Örn Þorvaldsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað eru margar vefsíður á netinu?“ Vísindavefurinn, 24. janúar 2003. Sótt 5. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=3054.

Einar Örn Þorvaldsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 24. janúar). Hvað eru margar vefsíður á netinu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3054

Einar Örn Þorvaldsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað eru margar vefsíður á netinu?“ Vísindavefurinn. 24. jan. 2003. Vefsíða. 5. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3054>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru margar vefsíður á netinu?
Þessari spurningu má með réttu líkja við spurninguna Hvað eru mörg sandkorn í heiminum? Þegar fengist er við þá spurningu má þó vera ljóst að sandkornin eru endanlega mörg en þegar rætt er um vefsíður er það ekki ljóst og raunar má segja að þær séu óendanlega margar.

Síðustu ár hafa vinsældir forritunarmála á borð við PHP, ASP og JSP, sem búa til kvikar (e. dynamic) vefsíður um leið og notendur kalla á þær, aukist mjög. Í kjölfarið er erfitt að tala um fjölda vefsíðna þar sem hver síða á vefsetri sem nýtir þessa tækni er í raun ekki til fyrr en notandi kallar á hana. Áður en þessi tækni kom til sögunnar voru langflestar vefsíður sístæðar (e. static) og þurfti því að búa þær til og dagrétta handvirkt.

Þannig má segja að vefsíðunum sem liggja á vefþjónum og bíða þess að notendur sæki þær hafi jafnvel fækkað en þeim vefsíðum sem hver netnotandi getur beðið vefþjón um að búa til og síðan sótt hefur fjölgað upp úr öllu valdi.

Til dæmis má ímynda sér vefþjón sem býr til einfalda síðu fyrir hvern notanda sem heimsækir hann. Á síðunni væri einungis talan pí með ákveðnum fjölda aukastafa (sem í raun eru óendanlega margir), en sá fjöldi væri ákveðinn á slembinn (e. random) hátt, til dæmis út frá nákvæmri tímasetningu og IP-tölu hvers gests. Þessi eini vefþjónn hefur þá möguleika á að búa til óendanlega margar mismunandi vefsíður.

Við getum tekið sjálfan Vísindavefinn sem dæmi um þetta sem hér hefur verið sagt. Við vitum í rauninni ekki hversu margar "vefsíður" notendur geta kallað fram frá vefþjóninum. Það eina sem við vitum fyrir víst er að fjöldi svara er að nálgast 3000 þegar þetta er skrifað í lok janúar 2003. En í lok hvers svars eru alltaf nokkur efnisorð og þegar smellt er á eitthvert þeirra birtist síða með lista um spurningar sem það vísar á. Við höfum ekki tölu á þessum efnisorðum. Sömuleiðis getur notandinn kallað fram margar mismunandi síður með spurningalistum frá mismunandi efnisflokkum og svo framvegis og svo framvegis. Fjöldi síðna sem starfsmenn vefsins geta kallað fram er síðan margfalt meiri en sá sem gestir geta séð.

Ef til vill væri vænlegra að spyrja um fjölda vefsetra (e. websites) í stað þess að miða við síður (pages). En þá þyrfti að byrja á því að skilgreina hvað átt er við með vefsetri. Kannski væri til dæmis hægt að miða við skráða aðila sem standa að efni á veraldarvefnum. Segjum að skilgreining lægi fyrir og menn hefðu talið vefsetrin samkvæmt henni miðað við tiltekinn dag. Þá er eins víst að talan mundi stórhækka á næstu dögum, vikum og mánuðum, þannig að þessi þekking yrði harla fljótt úrelt.

Við búumst engu að síður við því að fjöldi vefsetra í heiminum í dag skipti tugum milljóna.

En meginatriðið gagnvart upphaflegri spurningu er það að fyrir fimm árum hefði hún líklega haft skýra merkingu; henni hefði verið svarað með fjölda handgerðu, sístæðu síðnanna sem nefndar voru hér á undan. En slíkt svar mundi ekki lengur lýsa neinum markverðum raunveruleika. Og sjálfsagt á fjöldi vefsetra eftir að þróast á sömu leið á næstunni, að tölur um hann gefi heldur litla hugmynd um síbreytilegan veruleika.

Frekara lesefni af Vîsindavefnum:...