
Basaltið á A-Grænlandi, Færeyjum og N-Bretlandseyjum er um 60 milljón ára, og Grænlands-Færeyjahryggurinn „yngist“ úr báðum áttum til Íslands þar sem hraun gosbeltanna eru 10.000 ára og yngri. Grænlands-Færeyjahryggurinn er því allur afurð Íslands-stróksins – fyrir rúmum 60 milljón árum byrjaði N-Atlantshafið að opnast, meginlöndin beggja vegna að reka sundur, og hafsbotninn á milli að myndast. Sunnan og norðan við Íslands er basaltskorpan 7 km þykk en 30+/-5 km þykk undir Íslandi og Grænlands-Færeyjahryggnum. Hin efnafræðilegu mörk skorpu og möttuls nefnast Moho- eða Mohorovicic-mörk (eftir króatískum jarðskjálftafræðingi sem uppgötvaði þau árið 1909). Basaltskorpan er stundum nefnd „magmatísk skorpa“ (skorpa mynduð úr bergbráð) til aðgreiningar frá „stinnhvels-skorpu“ (e. lithosphere) sem flýtur ofan á deighvelinu (e. asthenosphere) og samanstendur af basaltskorpunni ásamt efsta hluta möttulsins sem er nógu kaldur til að hegða sér sem fjaðrandi efni. Stinnhvelsskorpan þykknar með fjarlægð frá rekhrygg. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað er hafsbotnsskorpa?
- Hversu gamlir eru mismunandi hlutar Íslands?
- Hver er meðalþykkt jarðskorpunnar og hvað er það stór hluti af radíus jarðar?
- Hvernig stýra möttulstrókar flekareki?
- Úr hverju er möttull jarðar?
- Department of Geological Sciences. College of Natural and Social Sciences. Sótt 17. 12. 2008.