Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Sú skorpa sem vísað er til í spurningunni er basaltskorpa hafsbotnanna, sem er að jafnaði um 7 km þykk undir úthöfunum en 30+/-5 km þykk á hryggnum frá A-Grænlandi um Ísland til Færeyja. Undir basaltskorpunni er jarðmöttullinn sem hefur talsvert aðra efna- og steindasamsetningu. Basaltið sem myndar skorpuna hefur storknað sem hraun og innskot úr bergkviku sem bráðnaði úr möttulefninu fyrir neðan. Þykkt skorpunnar fer þess vegna eftir því hve mikið bráðnar úr möttlinum á hverjum stað.
Það er einkum þrýstiléttir sem veldur bráðnun í jarðmöttlinum (en bráðin er basalt), því bræðslumark efnis er háð þrýstingi: Efni, sem er nálægt bræðslumarki sínu við tiltekinn þrýsting, bráðnar sé þrýstingur lækkaður. Í möttulstrókum eins og þeim sem talinn er vera undir Íslandi (sjá til dæmis svar við Er heitur reitur undir Íslandi?) rís heitt, fast efni úr iðrum jarðar, svo heitt að bráðnun hefst á um 150 km dýpi og heldur áfram í hinum rísandi stróki upp á 30-20 km dýpi – þetta þrýstibil veldur 25-30% bráðnun og 25-30 km þykkri skorpu.
Á úthafshryggjunum, utan heitra reita, er það gliðnunin sjálf milli flekanna sem veldur þrýstilétti í möttlinum undir, sem þó ekki dugir til að mynda meira en 6-8 km þykka skorpu.
Hafsbotninn umhverfis Ísland. Rauðu svæðin standa hátt vegna þess að skorpan (eðlislétt) er þykk þar.
Basaltið á A-Grænlandi, Færeyjum og N-Bretlandseyjum er um 60 milljón ára, og Grænlands-Færeyjahryggurinn „yngist“ úr báðum áttum til Íslands þar sem hraun gosbeltanna eru 10.000 ára og yngri. Grænlands-Færeyjahryggurinn er því allur afurð Íslands-stróksins – fyrir rúmum 60 milljón árum byrjaði N-Atlantshafið að opnast, meginlöndin beggja vegna að reka sundur, og hafsbotninn á milli að myndast. Sunnan og norðan við Íslands er basaltskorpan 7 km þykk en 30+/-5 km þykk undir Íslandi og Grænlands-Færeyjahryggnum.
Hin efnafræðilegu mörk skorpu og möttuls nefnast Moho- eða Mohorovicic-mörk (eftir króatískum jarðskjálftafræðingi sem uppgötvaði þau árið 1909). Basaltskorpan er stundum nefnd „magmatísk skorpa“ (skorpa mynduð úr bergbráð) til aðgreiningar frá „stinnhvels-skorpu“ (e. lithosphere) sem flýtur ofan á deighvelinu (e. asthenosphere) og samanstendur af basaltskorpunni ásamt efsta hluta möttulsins sem er nógu kaldur til að hegða sér sem fjaðrandi efni. Stinnhvelsskorpan þykknar með fjarlægð frá rekhrygg.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Sigurður Steinþórsson. „Hvað veldur því að austan og vestan við Ísland er úthafsskorpan óvenjulega þykk?“ Vísindavefurinn, 22. desember 2008, sótt 10. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=31499.
Sigurður Steinþórsson. (2008, 22. desember). Hvað veldur því að austan og vestan við Ísland er úthafsskorpan óvenjulega þykk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=31499
Sigurður Steinþórsson. „Hvað veldur því að austan og vestan við Ísland er úthafsskorpan óvenjulega þykk?“ Vísindavefurinn. 22. des. 2008. Vefsíða. 10. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=31499>.