
Skónefurinn þykir vera afar forn í útliti.

Skónefurinn er stór fugl með 230 cm vænghaf.
Heildarstofnstærð tegundarinnar er um 5 til 8 þúsund einstaklingar og eru stærstu stofnarnir í hinum víðlendu Sudd fenjasvæðum í Suður-Súdan. Alþjóða fugla-verndarsamtökin Birdlife Inter-national skilgreina fuglinn sem viðkvæman (e. vulnerable) gagnvart frekari hnignun. Þrátt fyrir að tegundin sé á víðlendu svæði í álfunni eru staðbundnir stofnar afar smáir. Í áðurnefndum Sudd fenja-svæðum er stærsti stofninn með rúmlega 5 þúsund einstaklinga en á votlendissvæðum í austurhluta Tansaníu telur stofninn aðeins á bilinu 200 – 500 einstaklinga. Rannsóknir frá 1997 sýndu að stofninn þá var um 12.000 til 15.000 fuglar þannig að greinilegt er að veruleg hnignun hefur átt sér stað á tiltölulega stuttum tíma. Litlar upplýsingar eru þó til um þróun tegundarinnar undanfarna áratugi en talið er að helsta orsök þessarar hnignunar sé framræsing og röskun á votlendi og óhóflegar veiðar á sumum svæðum. Þar sem skónefurinn er frekar sérhæfður í lifnaðarháttum er hann afar viðkvæmur fyrir slíku raski.
Fyrir áhugasama sem eiga leið til Afríku getur því miður reynst afar erfitt að sjá skónefinn í sínu náttúrulega umhverfi þar sem hann heldur til á ógreiðfærum fenjasvæðum. Það er þó einn staður sem er nokkuð aðgengilegur og sennilega besti staðurinn í Afríku til að sjá skónefinn. Þetta er í Mbamba fenjunum í Úganda, spölkorn frá Entebbe alþjóðaflugvellinum, en þar halda til nokkur pör.Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvort þróuðust fuglar frá forsögulegum eðlungum eða fleglum? eftir Leif A. Símonarson
- Eru til tenntir fuglar? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvernig geta fuglar flogið? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Hvaða dýr í Afríku eru í útrýmingarhættu? eftir Jón Má Halldórsson
Heimildir:
- Elliott, A.. 1992. Family Balaenicipitidae (Shoebill). Ritstj. del Hoyo, J., Elliott, A., & Sargatal, J. Handbook of the Birds of the World. Vol. 1. Lynx Edicions, Barcelona.
- Sibley, C. G., and B. L. Monroe, Jr. 1990. Distribution and Taxonomy of Birds of the World. Yale University Press, New Haven, CT.
- BirdLife International. 2006. Threatened Birds of the World 2006.