Sólin Sólin Rís 06:01 • sest 20:57 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:34 • Síðdegis: 21:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 15:33 í Reykjavík

Hvernig myndast öskjur?

Sigurður Steinþórsson

Öskjur eru stórir hringlaga sigkatlar sem útlendingar nefna „kaldera“ eftir heiti sigketils á eynni Palma, einni Kanaríeyja: La Caldera de Tuburiente. Orðið „caldron“ merkir raunar stór hitapottur, (latína: caldarium = áhald til hitunar; caldus = heitur).

Öskjur myndast við það að þakið yfir kvikuþró brestur og landspilda fellur niður í þróna, oft mörg hundruð metra. Jafnframt verður mikið sprengigos er bergkvikan, sem fyrir var í þrónni, þeysist út. Gos sem þessi eru jafnan með nokkrum stórmerkjum, en hin afdrifaríkustu þeirra eru vafalaust gosið á Krakatá við Jövu 1883, sem varð 36.000 manns að bana, og gosið á Santorini í Eyjahafi um 1470 f.Kr., sem eyddi hinni mínósku menningu á eynni Krít, og sumir telja að hafi verið Atlantis. Um það efni skrifaði Sigurður Þórarinsson grein í tímaritið Andvara 1970: Er Atlantisgátan að leysast?

Nýlegri gos af þessu tagi eru til dæmis Öskjugosið 1875, Katmai í Alaska 1912, Kilauea á Hawaii 1924, og Isla Fernandina á Galapagos-eyjum 1968, sem öll hafa verið gerkönnuð af fræðimönnum. Sjónarvottar og myndavélar gervitungla fylgdust með síðastnefnda gosinu jafnfram því sem jarðskjálftamælar og loftþrýstingsmælar um allt vesturhvel skráðu hinar aðskiljanlegu hræringar sem gosið olli. Er fróðlegt að bera atburðarásina saman við Öskjugosið 1875:

Isla Fernandina á Galapagos-eyjum 1968

15. maí 1968 mældist jarðskjálftahrina á Galapagos-svæðinu, en hinn 21. sama mánaðar varð eldgos í hlíðinni utan öskjunnar á Isla Fernandina, líkt Öskjugosinu 1961. Fyrstu vikurnar í júní kom svo allmikil jarðskjálftahrina sem endaði með sprengingu þremur dögum fyrir aðalatburðina, sem hófust hinn 11. júní. Þann dag, kl. 5 eftir hádegi, varð mikil sprenging á eynni, og reiknuðu fræðimenn út frá hvellinum að á því augnabliki hefði hálfur annar rúmkílómetri af gasi ruðst út í andrúmsloftið. Gufu- og rykský reis í 24 km hæð, en gjóska féll í um það bil einn sólarhring á eyjum og skipum umhverfis. Var það mestmegnis ryk af bergbrotum og kristöllum, en lítið af eldgleri.

Rykský stíga upp frá öskjunni á Fernandia í byrjun júlí 1968.

Þessi mikla sprenging markaði upphaf nýrrar öskjumyndunar á eynni, sem tók 12 daga. Voru þau tíðindi öll skráð með skjálftamælum. Jarðhræringarnar náðu hámarki átta dögum eftir sprenginguna, en fjöruðu síðan út að mestu á fáum dögum. Sjö ferkílómetra spilda í botni öskjunnar sporðreistist þannig, að annar endi hennar féll í smá-áföngum eina 300 m, en hinn lítið sem ekkert. Við vesturhlið öskjunnar féll hálfs ferkílómetra spilda sem sérstök eining, og myndaði totu út úr aðalöskjunni. Á henni miðri er sprengigígur líkastur Víti í Dyngjufjöllum. Lengi á eftir varð jarðhitavirkni mest í smáspildu þessari, og sérstaklega í sprengigígnum, enda minnir hún á sigið í SA-horni Öskju (sjá uppdrætti II-IV á mynd hér).

Öskjugos 1875

Í Dyngjufjöllum urðu menn sjónarvottar að öskjumyndun árið 1875 og næstu áratugi á eftir, en þá myndaðist Öskjuvatn. Það gos opnaði mönnum sýn á myndun sigkatla, svo og það að Askja sjálf er ketilsig í eldfjalli. Samtímalýsingar á gosinu má finna í hinum ýmsu blöðum þess tíma, Norðanfara, Norðlingi, Ísafold og Þjóðólfi.

Eftir gosið var fyrstur á vettvang (14. júlí 1875) Skotinn Watts, þá nýkominn af Vatnajökli með kalna tá, en sumarið eftir (30. júní 1876) komu í Öskju Danirnir Johnstrup prófessor og Caroc sjóliðsforingi ásamt tveimur stúdentum, en annar þeirra var Þorvaldur Thoroddsen. Dvöldu þeir eina viku í Dyngjufjöllum við rannsóknir og mælingar. Síðar komu ýmsir í Öskju, þar á meðal Þorvaldur Thoroddsen sumarið 1884. Samantektir þessara rannsókna og heimilda er að finna í Eldfjallasögu Thoroddsens, Ódáðahrauni Ólafs Jónssonar á Akureyri, og í ýmsum erlendum fræðiritum.

Á síðari árum hafa margir rannsakað Öskju, og verða ekki upptaldir hér. Þó ber að nefna það, að svo virðist sem Askja sjálf hafi myndast fyrir um 10.000 árum, og að hraungosið sem hófst 18. febrúar 1875 í Sveinagjá, einum 45 km norðan við Dyngjufjöll, tengist Öskjugosinu líkt og sprungugosin norðan og sunnan við Kröflu 1975-85 voru rakin til öskjunnar þar.Öskjurnar þrjár í Dyngjufjöllum. Nyrsta askjan er talin vera elst, meginaskan 10.000 ára, en Öskjuvatn myndaðist 1875. [Kristján Sæmundsson 1982].

Öskjugosinu 1875 er svo lýst (aðallega fylgt Sigurði Þórarinssyni: Eldur í Öskju, 1963): Í febrúar 1874 fór að bera óvenju mikið á gufustrókum upp úr Dyngjufjöllum, og bendir það til þess að jarðhiti hafi þá verið að færast þar í aukana, en ekki bar meira til tíðinda fyrr en í desember sama ár. Upp úr miðjum mánuðinum fór að verða vart jarðhræringa í Mývatns- og Fjallasveit, sem ágerðust um hátíðirnar og náðu hámarki 2. janúar 1875. Daginn eftir sást úr Mývatnssveit að eldur gaus upp í suðri, en reykjarmökkur hafði sést áður. Um miðjan febrúar gerðu Mývetningar út leiðangur til Dyngjufjalla og komust inn í Öskju þann 16. Þá voru miklir leirhverir að verki í suðausturhorni öskjunnar og þeyttu „grjóti og leirleðju fleiri hundruð feta í loft upp.“ Vatn rann úr hverunum og myndaði litla tjörn í „10-12 dagslátta“ sigkatli skammt þar frá. Má líklegt telja að þarna hafi orðið eins konar sprengigos.

Síðan bar fátt til tíðinda fram til páska, en kl. 9 að kvöldi páskadags 28. mars sást af Jökuldal að kolsvartur öskumökkur reis upp frá Dyngjufjöllum. Þar með hófst eitt hið mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi síðan það byggðist. Gosið fór ekki að færast verulega í aukana fyrr en aðfaranótt hins 29. Á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal byrjaði öskufall kl. hálf fjögur, og féll þá fíngerð ljós aska. Klukkutíma síðar birti nokkuð, en aftur syrti að með ferlegu vikurfalli og varð svo koldimmt að ekki mátti greina hvíta pappírsörk í hendi. Lauk þessu öskufalli um hádegi og var þá gjóskulagið á Skjöldólfsstöðum orðið 20 cm þykkt. Var miðhluti Austurlands sem gulgrá eyðimörk yfir að líta, og tók af um skeið alla byggð á efri Jökuldal og miklum hlut Jökuldalsheiðar. Flúðu bændur til Vopnafjarðar og annarra nálægra héraða, og sumir þeirra síðar til Ameríku.

Um 38 stundum eftir að gosið hófst hafði askan borist alla leið til Stokkhólms, 1800 km, en fregnir af eldsumbrotum á Íslandi bárust ekki til Skandinavíu fyrr en póstskipið Díana kom til Kaupmannahafnar nær þrem vikum síðar. Áætlað heildarmagn gjósku í gosinu var 2-2,5 rúmkílómetrar, þar af féllu 0,8 km3 á Ísland. Megnið af gjóskunni kom upp á 8 klukkustundum.

Lengi var talið að Víti væri aðalgígurinn í gosinu en nú er líklegra talið að gjóskan hafi komið upp um sprungu eða röð af gígum sem nú séu á botni Öskjuvatns. Vatnið er hið dýpsta á Íslandi, 230 m. Þvermál Vítis er nú rúmlega 150 m efst, og dýpi niður að vatnsborði 60 m. Þarna var æsileg ólga fyrstu áratugina eftir gosið, en smásljákkaði, og nú er vatnið kyrrlátt. Hitastig í Víti er nú 22°C.

Öskjur í virku gosbeltum Íslands. Sumar þeirra má telja vafasamar (Þórisvatn), aðrar ef til vill fremur gígar (Eyjafjallajökull). [Kristján Sæmundsson 1982].

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:
 • Kristján Sæmundsson: Öskjur á virkum eldfjallasvæðum á Íslandi. Bls. 221-229 í Eldur er í Norðri, afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum. Ritstj. Helga Þórarinsdóttir o.fl. Sögufélag, Rvk. 1982.
 • Ólafur Jónsson: Ódáðahraun. Norðri, Akureyri 1945.
 • Sigurður Steinþórsson: Aldarafmæli Öskjugossins 1875. Tíminn, 6. apríl 1975.
 • Sigurður Þórarinsson: Eldur í Öskju. Almenna bókafélagið, Rvk. 1963.
 • Mynd frá Fernandina: LaCumbre Fernandina 1968.jpg - Wikimedia Commons Ljósmyndari: Tom Simkin, Smithsonian Institution.
 • Teikningar: Kristján Sæmundsson.

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

26.10.2010

Spyrjandi

Harpa Guðjónsdóttir

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndast öskjur?“ Vísindavefurinn, 26. október 2010. Sótt 13. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=31860.

Sigurður Steinþórsson. (2010, 26. október). Hvernig myndast öskjur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=31860

Sigurður Steinþórsson. „Hvernig myndast öskjur?“ Vísindavefurinn. 26. okt. 2010. Vefsíða. 13. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=31860>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig myndast öskjur?
Öskjur eru stórir hringlaga sigkatlar sem útlendingar nefna „kaldera“ eftir heiti sigketils á eynni Palma, einni Kanaríeyja: La Caldera de Tuburiente. Orðið „caldron“ merkir raunar stór hitapottur, (latína: caldarium = áhald til hitunar; caldus = heitur).

Öskjur myndast við það að þakið yfir kvikuþró brestur og landspilda fellur niður í þróna, oft mörg hundruð metra. Jafnframt verður mikið sprengigos er bergkvikan, sem fyrir var í þrónni, þeysist út. Gos sem þessi eru jafnan með nokkrum stórmerkjum, en hin afdrifaríkustu þeirra eru vafalaust gosið á Krakatá við Jövu 1883, sem varð 36.000 manns að bana, og gosið á Santorini í Eyjahafi um 1470 f.Kr., sem eyddi hinni mínósku menningu á eynni Krít, og sumir telja að hafi verið Atlantis. Um það efni skrifaði Sigurður Þórarinsson grein í tímaritið Andvara 1970: Er Atlantisgátan að leysast?

Nýlegri gos af þessu tagi eru til dæmis Öskjugosið 1875, Katmai í Alaska 1912, Kilauea á Hawaii 1924, og Isla Fernandina á Galapagos-eyjum 1968, sem öll hafa verið gerkönnuð af fræðimönnum. Sjónarvottar og myndavélar gervitungla fylgdust með síðastnefnda gosinu jafnfram því sem jarðskjálftamælar og loftþrýstingsmælar um allt vesturhvel skráðu hinar aðskiljanlegu hræringar sem gosið olli. Er fróðlegt að bera atburðarásina saman við Öskjugosið 1875:

Isla Fernandina á Galapagos-eyjum 1968

15. maí 1968 mældist jarðskjálftahrina á Galapagos-svæðinu, en hinn 21. sama mánaðar varð eldgos í hlíðinni utan öskjunnar á Isla Fernandina, líkt Öskjugosinu 1961. Fyrstu vikurnar í júní kom svo allmikil jarðskjálftahrina sem endaði með sprengingu þremur dögum fyrir aðalatburðina, sem hófust hinn 11. júní. Þann dag, kl. 5 eftir hádegi, varð mikil sprenging á eynni, og reiknuðu fræðimenn út frá hvellinum að á því augnabliki hefði hálfur annar rúmkílómetri af gasi ruðst út í andrúmsloftið. Gufu- og rykský reis í 24 km hæð, en gjóska féll í um það bil einn sólarhring á eyjum og skipum umhverfis. Var það mestmegnis ryk af bergbrotum og kristöllum, en lítið af eldgleri.

Rykský stíga upp frá öskjunni á Fernandia í byrjun júlí 1968.

Þessi mikla sprenging markaði upphaf nýrrar öskjumyndunar á eynni, sem tók 12 daga. Voru þau tíðindi öll skráð með skjálftamælum. Jarðhræringarnar náðu hámarki átta dögum eftir sprenginguna, en fjöruðu síðan út að mestu á fáum dögum. Sjö ferkílómetra spilda í botni öskjunnar sporðreistist þannig, að annar endi hennar féll í smá-áföngum eina 300 m, en hinn lítið sem ekkert. Við vesturhlið öskjunnar féll hálfs ferkílómetra spilda sem sérstök eining, og myndaði totu út úr aðalöskjunni. Á henni miðri er sprengigígur líkastur Víti í Dyngjufjöllum. Lengi á eftir varð jarðhitavirkni mest í smáspildu þessari, og sérstaklega í sprengigígnum, enda minnir hún á sigið í SA-horni Öskju (sjá uppdrætti II-IV á mynd hér).

Öskjugos 1875

Í Dyngjufjöllum urðu menn sjónarvottar að öskjumyndun árið 1875 og næstu áratugi á eftir, en þá myndaðist Öskjuvatn. Það gos opnaði mönnum sýn á myndun sigkatla, svo og það að Askja sjálf er ketilsig í eldfjalli. Samtímalýsingar á gosinu má finna í hinum ýmsu blöðum þess tíma, Norðanfara, Norðlingi, Ísafold og Þjóðólfi.

Eftir gosið var fyrstur á vettvang (14. júlí 1875) Skotinn Watts, þá nýkominn af Vatnajökli með kalna tá, en sumarið eftir (30. júní 1876) komu í Öskju Danirnir Johnstrup prófessor og Caroc sjóliðsforingi ásamt tveimur stúdentum, en annar þeirra var Þorvaldur Thoroddsen. Dvöldu þeir eina viku í Dyngjufjöllum við rannsóknir og mælingar. Síðar komu ýmsir í Öskju, þar á meðal Þorvaldur Thoroddsen sumarið 1884. Samantektir þessara rannsókna og heimilda er að finna í Eldfjallasögu Thoroddsens, Ódáðahrauni Ólafs Jónssonar á Akureyri, og í ýmsum erlendum fræðiritum.

Á síðari árum hafa margir rannsakað Öskju, og verða ekki upptaldir hér. Þó ber að nefna það, að svo virðist sem Askja sjálf hafi myndast fyrir um 10.000 árum, og að hraungosið sem hófst 18. febrúar 1875 í Sveinagjá, einum 45 km norðan við Dyngjufjöll, tengist Öskjugosinu líkt og sprungugosin norðan og sunnan við Kröflu 1975-85 voru rakin til öskjunnar þar.Öskjurnar þrjár í Dyngjufjöllum. Nyrsta askjan er talin vera elst, meginaskan 10.000 ára, en Öskjuvatn myndaðist 1875. [Kristján Sæmundsson 1982].

Öskjugosinu 1875 er svo lýst (aðallega fylgt Sigurði Þórarinssyni: Eldur í Öskju, 1963): Í febrúar 1874 fór að bera óvenju mikið á gufustrókum upp úr Dyngjufjöllum, og bendir það til þess að jarðhiti hafi þá verið að færast þar í aukana, en ekki bar meira til tíðinda fyrr en í desember sama ár. Upp úr miðjum mánuðinum fór að verða vart jarðhræringa í Mývatns- og Fjallasveit, sem ágerðust um hátíðirnar og náðu hámarki 2. janúar 1875. Daginn eftir sást úr Mývatnssveit að eldur gaus upp í suðri, en reykjarmökkur hafði sést áður. Um miðjan febrúar gerðu Mývetningar út leiðangur til Dyngjufjalla og komust inn í Öskju þann 16. Þá voru miklir leirhverir að verki í suðausturhorni öskjunnar og þeyttu „grjóti og leirleðju fleiri hundruð feta í loft upp.“ Vatn rann úr hverunum og myndaði litla tjörn í „10-12 dagslátta“ sigkatli skammt þar frá. Má líklegt telja að þarna hafi orðið eins konar sprengigos.

Síðan bar fátt til tíðinda fram til páska, en kl. 9 að kvöldi páskadags 28. mars sást af Jökuldal að kolsvartur öskumökkur reis upp frá Dyngjufjöllum. Þar með hófst eitt hið mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi síðan það byggðist. Gosið fór ekki að færast verulega í aukana fyrr en aðfaranótt hins 29. Á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal byrjaði öskufall kl. hálf fjögur, og féll þá fíngerð ljós aska. Klukkutíma síðar birti nokkuð, en aftur syrti að með ferlegu vikurfalli og varð svo koldimmt að ekki mátti greina hvíta pappírsörk í hendi. Lauk þessu öskufalli um hádegi og var þá gjóskulagið á Skjöldólfsstöðum orðið 20 cm þykkt. Var miðhluti Austurlands sem gulgrá eyðimörk yfir að líta, og tók af um skeið alla byggð á efri Jökuldal og miklum hlut Jökuldalsheiðar. Flúðu bændur til Vopnafjarðar og annarra nálægra héraða, og sumir þeirra síðar til Ameríku.

Um 38 stundum eftir að gosið hófst hafði askan borist alla leið til Stokkhólms, 1800 km, en fregnir af eldsumbrotum á Íslandi bárust ekki til Skandinavíu fyrr en póstskipið Díana kom til Kaupmannahafnar nær þrem vikum síðar. Áætlað heildarmagn gjósku í gosinu var 2-2,5 rúmkílómetrar, þar af féllu 0,8 km3 á Ísland. Megnið af gjóskunni kom upp á 8 klukkustundum.

Lengi var talið að Víti væri aðalgígurinn í gosinu en nú er líklegra talið að gjóskan hafi komið upp um sprungu eða röð af gígum sem nú séu á botni Öskjuvatns. Vatnið er hið dýpsta á Íslandi, 230 m. Þvermál Vítis er nú rúmlega 150 m efst, og dýpi niður að vatnsborði 60 m. Þarna var æsileg ólga fyrstu áratugina eftir gosið, en smásljákkaði, og nú er vatnið kyrrlátt. Hitastig í Víti er nú 22°C.

Öskjur í virku gosbeltum Íslands. Sumar þeirra má telja vafasamar (Þórisvatn), aðrar ef til vill fremur gígar (Eyjafjallajökull). [Kristján Sæmundsson 1982].

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:
 • Kristján Sæmundsson: Öskjur á virkum eldfjallasvæðum á Íslandi. Bls. 221-229 í Eldur er í Norðri, afmælisrit helgað Sigurði Þórarinssyni sjötugum. Ritstj. Helga Þórarinsdóttir o.fl. Sögufélag, Rvk. 1982.
 • Ólafur Jónsson: Ódáðahraun. Norðri, Akureyri 1945.
 • Sigurður Steinþórsson: Aldarafmæli Öskjugossins 1875. Tíminn, 6. apríl 1975.
 • Sigurður Þórarinsson: Eldur í Öskju. Almenna bókafélagið, Rvk. 1963.
 • Mynd frá Fernandina: LaCumbre Fernandina 1968.jpg - Wikimedia Commons Ljósmyndari: Tom Simkin, Smithsonian Institution.
 • Teikningar: Kristján Sæmundsson.
...