Krullujárnið er þekkt frá því snemma í sögu Rómverja. Á latínu nefndist það calamistrum, dregið af því að járnið var holað að innan líkt og reyr sem heitir calamus á latínu. Krulluhárgreiðslan kallaðist á latínu calamistrati. Krullujárnið, sem var hitað í viðarösku, er oft nefnt í ritum Síserós (106-45 f. Kr.) og notkun þess var þá tíð meðal rómverskra ungmenna og hefðarkvenna. Leiða má líkum að því að siðurinn að krulla hár hafi borist til Rómar frá Grikklandi en þar voru aðrar aðferðir notaðar og hið hitaða krullujárn því rómversk uppfinning. Krullujárnið hefur að minnsta kosti fylgt vestrænni menningu síðan.
Margir merkir menn hafa lagt krullujárninu liðsinni sitt. Bandaríkjamaðurinn Hiram Maxim (1840-1916), sá sem fann upp sjálfvirku vélbyssuna, fékk sitt fyrsta einkaleyfi fyrir krullujárni árið 1866. Japaninn Kazuma Tateisi lagði grunninn að OMRON-viðskiptaveldinu með því að framleiða krullujárn árið 1946. Afríski-ameríski uppfinningamaðurinn Solomon Harper fann upp hitakrullupinna (e. thermo hair curlers) 1930, og þann 21. október 1980 fékk Theora Stephens einkaleyfi fyrir pressukrullujárninu.

Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Er hægt að efla hár sem er farið að þynnast með bætiefnum fyrir hárið sem fást í apótekum? eftir Magnús Jóhannsson
- Hvort er brúnt eða ljóst hár algengara? Er rautt hár sjaldgæfast? eftir EDS
- Hvort er krullað hár ríkjandi eða víkjandi? eftir Þuríði Þorbjarnadóttur
- Hvaða áhrif hafði grísk menning á hina rómversku? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Hver fann upp brauðristina? eftir Elíni Carstensdóttur
Heimildir og myndir:
- LacusCurtius: Into the Roman World
- Um Hiram Maxim á vefsetri Encyclopædia Britannica
- Save Me Products
- Louise Marie Longhairs
- Inventors.about.com
- Omron.com