Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru tekjuáhrif?

Gylfi Magnússon

Hagfræðingar nota hugtakið tekjuáhrif (e. income effect) oftast til að lýsa áhrifum tiltekinnar verðbreytingar á eftirspurn vegna þeirrar breytingar á kaupmætti sem verðbreytingin veldur. Að auki veldur verðbreyting alla jafna svokölluðum staðkvæmdaráhrifum (e. substitution effect) en með því er átt við þá breytingu á eftirspurn sem rekja má til þess að verðhlutföll breytast þegar verð einnar vöru hækkar eða lækkar.

Heildaráhrifum verðbreytingar á eftirspurn er þannig skipt í tvennt, annars vegar staðkvæmdaráhrif og hins vegar tekjuáhrif. Sem dæmi má taka verðhækkun á flatbökum (sem sumir kalla pizzur eða jafnvel pítsur) á veitingastöðum. Slík verðhækkun veldur því að flatbökur á veitingastöðum verða dýrari en áður í samanburði við samkeppnisvörur, til dæmis hamborgara og kjúklingabita á veitingastöðum og frosnar flatbökur í nýlenduvöruverslunum. Þessi breyting á verðhlutföllum ætti að valda því að spurn eftir flatbökum á veitingastöðum minnkar en spurn eftir hamborgurum og kjúklingabitum á veitingastöðum og flatbökum í nýlenduvöruverslunum eykst. Það eru staðkvæmdaráhrif, neytendur láta aðrar vörur koma í staðinn fyrir þá sem hefur orðið (hlutfallslega) dýrari.

Ef verð á flatbökum hækkar getur það haft í för með sér aukna eftirspurn eftir öðrum skyndibita.

Þess utan minnkar kaupmáttur við það að flatbökur á veitingastöðum verða dýrari, að minnsta kosti hjá þeim sem á annað borð kaupa eitthvað af þeim. Minnkun kaupmáttar veldur því væntanlega að neytendur draga almennt eitthvað úr innkaupum, þó væntanlega mismikið eftir tegundum vara. Sala á sumum vörum getur jafnvel aukist fyrir vikið. Þannig er hugsanlegt að þegar kaupmáttur minnkar vegna verðhækkunar á flatbökum á veitingastöðum þá skipti menn sjaldnar við veitingastaði en geri meira af því að borða heimatilbúinn mat. Tekjuáhrifin af verðhækkun á flatbökum á veitingastöðum ættu því að draga úr kaupum á flatbökum á slíkum stöðum, líkt og staðkvæmdaráhrifin. Jafnframt gætu tekjuáhrifin leitt til færri viðskipta við veitingahús yfirleitt sem myndi vega að hluta upp staðkvæmdaráhrifin á kaup á hamborgurum og kjúklingabitum á veitingastöðum. Tekjuáhrifanna gæti líka orðið vart í örlítið minni sölu á alls óskyldum vörum, til dæmis farsímum. Tekjuáhrifin gætu síðan leitt til aukinnar sölu á flatbökum í nýlenduvöruverslunum og unnið þar með staðkvæmdaráhrifunum.

Sambærilega skiptingu í staðkvæmdar- og tekjuáhrif er líka hægt að nota til að varpa ljósi á ákvarðanir um hve lengi menn eru tilbúnir að vinna á degi hverjum, til dæmis hve mikla yfirvinnu þeir vilja vinna eða almennt hve löng vinnuvikan er. Þegar laun á vinnustund hækka þá verða frístundir dýrari, sem ætti að leiða til þess að menn vinna meira og eiga færri frístundir. Um leið eykst hins vegar kaupmáttur og það ætti að leiða til þess að menn vilja „kaupa“ sér fleiri frístundir, með því að vinna minna. Staðkvæmdaráhrifin af launahækkun eru því þau að menn vilja minna meira en tekjuáhrifin að menn vilja vinna minna. Heildaráhrifin geta því hvort heldur verið þau að menn vinna meira eða minna, allt eftir því hvort staðkvæmdar- eða tekjuáhrifin eru sterkari.

Mynd:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

9.12.2003

Spyrjandi

Gunnar Jónsson

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hvað eru tekjuáhrif?“ Vísindavefurinn, 9. desember 2003, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3908.

Gylfi Magnússon. (2003, 9. desember). Hvað eru tekjuáhrif? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3908

Gylfi Magnússon. „Hvað eru tekjuáhrif?“ Vísindavefurinn. 9. des. 2003. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3908>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað eru tekjuáhrif?
Hagfræðingar nota hugtakið tekjuáhrif (e. income effect) oftast til að lýsa áhrifum tiltekinnar verðbreytingar á eftirspurn vegna þeirrar breytingar á kaupmætti sem verðbreytingin veldur. Að auki veldur verðbreyting alla jafna svokölluðum staðkvæmdaráhrifum (e. substitution effect) en með því er átt við þá breytingu á eftirspurn sem rekja má til þess að verðhlutföll breytast þegar verð einnar vöru hækkar eða lækkar.

Heildaráhrifum verðbreytingar á eftirspurn er þannig skipt í tvennt, annars vegar staðkvæmdaráhrif og hins vegar tekjuáhrif. Sem dæmi má taka verðhækkun á flatbökum (sem sumir kalla pizzur eða jafnvel pítsur) á veitingastöðum. Slík verðhækkun veldur því að flatbökur á veitingastöðum verða dýrari en áður í samanburði við samkeppnisvörur, til dæmis hamborgara og kjúklingabita á veitingastöðum og frosnar flatbökur í nýlenduvöruverslunum. Þessi breyting á verðhlutföllum ætti að valda því að spurn eftir flatbökum á veitingastöðum minnkar en spurn eftir hamborgurum og kjúklingabitum á veitingastöðum og flatbökum í nýlenduvöruverslunum eykst. Það eru staðkvæmdaráhrif, neytendur láta aðrar vörur koma í staðinn fyrir þá sem hefur orðið (hlutfallslega) dýrari.

Ef verð á flatbökum hækkar getur það haft í för með sér aukna eftirspurn eftir öðrum skyndibita.

Þess utan minnkar kaupmáttur við það að flatbökur á veitingastöðum verða dýrari, að minnsta kosti hjá þeim sem á annað borð kaupa eitthvað af þeim. Minnkun kaupmáttar veldur því væntanlega að neytendur draga almennt eitthvað úr innkaupum, þó væntanlega mismikið eftir tegundum vara. Sala á sumum vörum getur jafnvel aukist fyrir vikið. Þannig er hugsanlegt að þegar kaupmáttur minnkar vegna verðhækkunar á flatbökum á veitingastöðum þá skipti menn sjaldnar við veitingastaði en geri meira af því að borða heimatilbúinn mat. Tekjuáhrifin af verðhækkun á flatbökum á veitingastöðum ættu því að draga úr kaupum á flatbökum á slíkum stöðum, líkt og staðkvæmdaráhrifin. Jafnframt gætu tekjuáhrifin leitt til færri viðskipta við veitingahús yfirleitt sem myndi vega að hluta upp staðkvæmdaráhrifin á kaup á hamborgurum og kjúklingabitum á veitingastöðum. Tekjuáhrifanna gæti líka orðið vart í örlítið minni sölu á alls óskyldum vörum, til dæmis farsímum. Tekjuáhrifin gætu síðan leitt til aukinnar sölu á flatbökum í nýlenduvöruverslunum og unnið þar með staðkvæmdaráhrifunum.

Sambærilega skiptingu í staðkvæmdar- og tekjuáhrif er líka hægt að nota til að varpa ljósi á ákvarðanir um hve lengi menn eru tilbúnir að vinna á degi hverjum, til dæmis hve mikla yfirvinnu þeir vilja vinna eða almennt hve löng vinnuvikan er. Þegar laun á vinnustund hækka þá verða frístundir dýrari, sem ætti að leiða til þess að menn vinna meira og eiga færri frístundir. Um leið eykst hins vegar kaupmáttur og það ætti að leiða til þess að menn vilja „kaupa“ sér fleiri frístundir, með því að vinna minna. Staðkvæmdaráhrifin af launahækkun eru því þau að menn vilja minna meira en tekjuáhrifin að menn vilja vinna minna. Heildaráhrifin geta því hvort heldur verið þau að menn vinna meira eða minna, allt eftir því hvort staðkvæmdar- eða tekjuáhrifin eru sterkari.

Mynd:...