Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eins og nafnið bendir til er B12 eitt af B-vítamínunum og er því í flokki vatnsleysanlegra vítamína. Annað heiti þess er kóbalamín vegna þess að í miðri sameind þess er málmjónin kóbalt. Hlutverk kóbalamíns er að taka þátt í myndun blóðfrumna, einkum rauðkorna blóðsins, það er rauðra blóðfrumna sem sjá um að flytja súrefni um líkamann. Einnig kemur kóbalamín við sögu í myndun og starfi taugakerfisins. Skortur á þessu vítamíni kemur fram sem þreyta, máttleysi, mæði, nálardofi í útlimum, niðurgangur og aum tunga.
Ástæður fyrir B12-skorti geta verið ýmsar. Þar má fyrst nefna B12-skort í fæðu viðkomandi einstaklings. B12-vítamín finnst aðallega í kjöti, eggjum og mjólkurafurðum og því er hætta á B12-skorti hjá þeim grænmetisætum sem sneiða hjá öllum dýraafurðum (sjá nánar í svari Jóhönnu Eyrúnar Torfadóttur við spurningunni Fá grænmetisætur öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast?). Drykkjusjúklingar er annar hópur sem er í hættu á að líða skort á B12-vítamíni.
Ýmsir sjúkdómar, til dæmis magabólgur og sjálfsofnæmissjúkdómar eins og Crohns-veiki, geta einnig orsakað skortseinkenni, þar sem þeir trufla upptöku B12 úr fæðunni. Sömu sögu má segja um sníkjudýr, til dæmis bandorma.
Sé skorturinn alvarlegur koma fram áhrif á ónæmiskerfið þannig að ónæmisviðbrögð skerðast og einnig getur komið fram lömun og banvænt blóðleysi (af stórkornóttri gerð).
B12-vítamín finnst aðallega í kjöti, eggjum og mjólkurafurðum og því er hætta á B-12 skorti hjá þeim grænmetisætum sem sneiða hjá öllum dýraafurðum.
Þekktur er alvarlegur sjúkdómur sem kallast illkynja blóðleysi (e. pernicious anemia) og stafar af því að líkaminn getur ekki nýtt sér það B12-vítamín sem hann fær úr fæðunni. Ástæðan er sú að líkamann skortir prótín sem kallast innri þáttur (e. intrinsic factor) en það stuðlar að upptöku B12 úr þörmunum.
Undir eðlilegum kringumstæðum er innri þáttur myndaður af frumum í slímhúð magans en ýmislegt getur leitt til þess að myndun hans eigi sér ekki stað. Þar má nefna magabólgur og sjálfsofnæmissjúkdóma sem lýsa sér þannig að mótefni ráðast á prótínið sjálft eða frumurnar sem mynda það. Einnig má nefna að brottnám maga við skurðaðgerð getur haft í för með sér illkynja blóðleysi.
Til er sjaldgæfur meðfæddur sjúkdómur sem hefur í för með sér að viðkomandi myndar ekki þennan innri þátt sem þarf fyrir upptöku B12. Sjúkdómurinn kemur fyrir í öllum stofnum manna þó tíðnin virðist vera hærri meðal fólks af skandinavískum eða norður-evrópskum uppruna. Hann stafar af víkjandi gölluðu geni og þarf barn því að erfa það frá báðum foreldrum til þess að sjúkdómurinn komi fram.
Að lokum má nefna að ýmis lyf geta einnig stuðlað að myndun illkynja blóðleysis.
Meðferð við skorti á B12-vítamíni fer að sjálfsögðu eftir því hver orsökin er. Sé orsökina að finna í mataræði viðkomandi má lagfæra ástandið með því að breyta því eða taka fjölvítamíntöflur. Sé um tímabundið illkynja blóðleysi að ræða er hægt að gefa B12-sprautur þar til ástandið hefur jafnað sig, til dæmis þar til magabólgur hafa hjaðnað eða sníkjudýr verið drepin og fjarlægð. Í þeim tilfellum þegar um varanlegt illkynja blóðleysi er að ræða þurfa sjúklingar að fá B12-sprautur ævilangt.
Lesa má meira um B12-vítamínið á heimasíðu Lyfju.
Heimildir: