- Hvað lifa pöndur lengi?
- Í hvaða löndum lifa pöndur?
- Hvað heita karldýr, kvendýr og afkvæmi panda?

Þar sem risapöndur eru af bjarndýraætt þá liggur beinast við að nefna karldýrin birni, kvendýrin birnur og afkvæmin húna líkt og hjá öðrum tegundum bjarna. Risapöndur geta orðið langlífar eins og aðrir frændur þeirra innan ættarinnar en rannsóknir hafa sýnt að þær geti náð allt að 30 ára aldri. Risapandan hefur um áratugaskeið verið tákn þeirra dýra sem eiga á hættu að hverfa úr villtri náttúru. Ástæðuna fyrir bágbornu ástandi risapöndunnar má fyrst og fremst rekja til eyðingar bambusskóganna í Kína eins og áður er getið en einnig voru um langt árabil stundaðar stjórnlausar veiðar á henni. Fram eftir 20. öldinni ógnaði veiðiþjófnaður mjög tilvist risapöndunnar en á síðasta áratug aldarinnar stórefldu stjórnvöld í Kína allt verndunarstarf og telst risapandan núna vera „dýrgripur kínversku þjóðarinnar“. Verndarsvæði pöndunnar hafa verið stækkuð nokkuð og eftirlit stóreflt auk þess sem viðurlög við veiðum á risapöndum er nú dauðadómur. Þar að auki hafa kínversk stjórnvöld hafið umfangsmikið samstarf við erlenda vísindamenn um aðstoð við verndunarstarfið líkt og stjórnvöld í Austur-Afríku og Rússlandi hafa gert með góðum árangri vegna tegunda sem þar eru í útrýmingarhættu. Niðurstöður rannsókna á fjölda villtra panda sumarið 2004 benda til þess að þeim hafi fjölgað talsvert. Nú er talið að villtar pöndur séu um 1590 auk 120 dýra sem eru í dýragörðum víðsvegar í Kína og 15-20 dýra sem eru í dýragörðum annars staðar í heiminum (aðallega í Bandaríkjunum). Á undanförnum áratugum hefur flestum tegundum villtra spendýra í Kína fækkað gríðarlega þó svo að athyglin hafi fyrst og fremst beinst að risapöndunni. Óhætt er að segja að aðrar tegundir í þessu víðlenda ríki hafi liðið fyrir það, sérstaklega suðurkínverska tígrisdýrið (Panthera tigris amoyensis). Um miðja síðustu öld var stofninn álitinn vera um 3-5 þúsund dýr en með kerfisbundinni útrýmingarherferð að skipun stjórnvalda í Peking er þessi deilitegund tígrisdýra því sem næst útdauð í dag. Aðeins teljast nú um 20 villt dýr á örlitlu svæði í suðurhluta Kína. Heimildir og myndir:
- George B. Schaller o.fl., 1985. The Giant Pandas of Wolong. University of Chicago Press.
- The International Association for Bear Research and Management
- Chinadaily
- China Internet Information Center