Sólin Sólin Rís 02:57 • sest 24:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:51 • Sest 07:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:40 • Síðdegis: 21:03 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:39 • Síðdegis: 14:42 í Reykjavík

Getið þið sagt mér allt um pöndur?

Jón Már Halldórsson

Risapandan (Ailuropoda melanoleuca), eða bambusbjörn eins og hún hefur einnig verið kölluð, er digurvaxinn og kraftalegur björn að meðalstærð. Feldurinn er þéttur og með sérkennilegu hvítflekkkóttu mynstri. Fullorðin panda vegur á bilinu 80 til 120 kg og er um 150 til 180 cm á hæð.

Flokkun og lifnaðarhættir

Þó pandan tilheyri bjarndýrum eru lífshættir hennar og útlit nokkuð frábrugðin. Hún er vel aðlöguð að þeim búsvæðum sem hún lifir á og eru lífshættir hennar því nokkuð sérhæfðir. Hauskúpan er breiðari en hjá öðrum bjarndýrum og snoppan styttri. Jaxlarnir eru einnig mun breiðari og kröftugri en hjá öðrum rándýrum og minna frekar á fellingarjaxla hófdýra. Þetta er lýsandi fyrir aðlögun pöndunnar að jurtafæði.

Ólíkt öðrum björnum þá leggjast pöndur ekki í hýði. Á veturna færa þær sig niður í dali og hafa þar hægt um sig. Ólíkt öðrum björnum merkja pöndur sér ákveðin svæði. Bæði kynin marka sér land með lyktarmerkingum, en við endaþarminn eru kirtar sem gefa frá sér sterkþefjandi safa. Þær nudda endaþarminum við trjáboli og losa þannig efnið frá kirtlunum.

Viðamiklar rannsóknir sem gerðar hafa verið á uppruna panda hafa staðfest það að þær teljist til bjarnardýra. Þær eru þó fjarskyldari en aðrar tegundir, en talið er að þær hafi skilist frá öðrum björnum fyrir um 13 milljón árum síðan.

Risapandan (Ailuropoda melanoleuca) nærist að mestu leyti á bambus.

Æxlun

Þegar birnurnar eru yxna sprauta þær efnum sem innihalda kynhormón úr endaþarmskirtli. Þær gefa einnig frá sér ákveðin hljóðmerki til að laða að karldýr, en æxlun á sér stað á tímabilinu frá mars til maí. Líkt og þekkist meðal annarra rándýra verður seinkun á þroskun fósturvísis skömmu eftir frjóvgun. Húnarnir fæðast því á kjörtíma í ágúst eða byrjun september þegar pöndurnar halda til í fjallendi Miðhluta Kína.

Raunþroskunartími fóstursins er aðeins 6 vikur og seinkunin varir því á fjórða mánuð. Húnarnir vega aðeins frá 85 til 140 gr við got og eru bæði hárlausir og blindir. Það fyrsta sem birnan gerir er að staðsetja húninn við spena svo hann geti byrjað að sjúga. Húnarnir fá sjón við þriggja vikna aldur og halda sig í samvistum við móður sína um það bil 18 mánuði. Pöndur verða kynþroska þegar þær eru um það bil sjö ára og eignast hver birna venjulega 2-3 húna á lífsleiðinni.

Staða pöndunnar

Pandan finnst nú á afar takmörkuðu svæði í héruðunum Sichuan, Gansu, og Shanxi í miðhluta Kína. Þessi svæði eru hálend, í um 1200 til 3500 m.h.y.s. og heldur pandan oftast til í gjám og fjalladölum þar sem er mikill bambusgróður. Þar situr hún megnið af deginum og nagar bambussprota, en bambus er uppistaðan í fæðu pöndunnar.

Pöndur eyða um það bil 12 klst á dag í fæðuöflun, en næringarinnihald bambuss er frekar lítið og hún þarf því mikið af honum. Kostirnir eru þó þeir að nægt framboð er af honum allt árið um kring ólíkt öðrum plöntum. Rannsóknir hafa sýnt að allt að 99% af fæðu pöndunnar er bambus, en afgangurinn eru ýmsar tegundir ávaxta og jafnvel smærri hryggdýr og skordýr.

Óvinir

Hið fræga svarta og hvíta mynstur pöndunnar hefur sennilega komið til sem vörn geng afráni líkt og rendur sebrahesta. Mynstrið brýtur útlínur hennar niður og gerir hana óreglulega í þykku bambusþykkninu. Í dag á pandan sér enga náttúrulega óvini, en hér áður fyrr veiddu asískir villihundar (dhole) húna og tígrisdýr réðust stundum á fullorðin dýr.

Hér sést útbreiðsla pöndunnar.

Saga pöndunnar

Íbúar Kína hafa vissulega verið meðvitaðir um tilvist pöndunnar alla tíð. Pandan var talin vera konunglegt dýr og því var afar illa séð að hún væri drepin. Afurðir pöndunnar voru heldur ekki taldar búa yfir læknisfræðilegum krafti, en mörg dýr, til dæmis tígrisdýr, voru mikið veidd þar sem þau voru talin búa yfir lækningamætti.

Vestrænir vísindamenn kynntust pöndum fyrst árið 1869 þegar tvö skinn bárust í hendur jesúítamunki. Á árunum 1913-1915 fönguðu svo þýskir leiðangursmenn pöndu í fyrsta skipti og lýstu þeir lifnaðarháttum hennar nokkuð ýtarlega. Það var þó ekki fyrr en árið 1936 sem fyrsta pandan var fönguð og flutt í dýagarð á Vesturlöndum. Þetta var Brookfield garðurinn í Chicago í Bandaríkjunum og fengu þeir lítinn hún sem bar heitið Su Li.

Á árunum fyrir seinna stríð voru alls 29 dýr flutt í dýragarða í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum og voru þeir keyptir dýrum dómum. Árið 1939 ákváðu hins vegar stjórnvöld í Kína að banna slíkar veiðar og lýstu yfir alfriðun á pöndunni. Dýraverndunarsinnar og náttúrufræðingar höfðu mikla áhyggjur af afdrifum pöndunar á valdatíð Maó tsjetung, en kommúnistastjórnin var ekki þekkt fyrir mikinn skilning né áhuga á dýravernd. Stofnar fjölmargra dýra minnkuðu á þessum tímum og kínverska tígrisdýrið (Panthera tigris amoyensis) dó meðal annars út. Seinna setti Alþjóðasjóður villtra dýra (World Wildlife Fund, WWF) pönduna í merki sitt og varð hún frá því tákn um baráttu samtakanna fyrir vernd villtra dýra.

Ástand pöndunar í dag

Kínversk stjórnvöld sýndu mikla hörku við verndun pöndunnar og er þessari árvekni stjórnvalda að þakka að ástand pöndunar er sæmilegt í dag. Allt fram til ársins 1997 voru þeir sem gerðust sekir um að drepa pöndur dæmdir til dauða, en þá var því breytt í 20 ára fangelsisdóm. Undanfarin 25 ár hafa þau jafnframt staðið fyrir umfangsmikilli fræðslu um verndun pöndunar í þúsundum þorpa á þeim svæðum sem pönduna er að finna. Einnig hafa þeir reynt að stemma stigu við skógarhöggi á svæðinu og þá sérstaklega beytt sér gegn nýtingu bambusskóga.

Pandan er afar viðkvæm tegund. Hún hefur mjög lága fæðingatíðni og eru slík dýr mjög viðkvæm fyrir miklu veiðiálagi. Rannsóknir frá árinu 2006 á stofnstærð pöndunnar sýndu að stofnstærðin hefur sennilega verið nokkuð vanmetin. Í dag telst því heildarstofnstærðin vera um þrjú þúsund einstaklingar.

Pandan er ekki úr allri hættu þó vel hafi gengið með verndun hennar. Mannskepnan gengur sífellt á heimkynni hennar, enda er mannfjöldinn gríðarlegur í þessu stóra ríki. Teljast má víst að pandan væri horfin af sjónarsviðinu fyrir löngu hefðu kínversk stjórnvöld ekki gripið í taumana. Pandabirnir eru því gott dæmi um að það er langt frá því að vera vonlaus barátta að vernda lífríki jarðarinnar, en til þess þurfi hins vegar skýra stefnu og samstöðu fólks.

Heimildir:
  • Helin, S. 1999. The Mammalian of China. Beijing China: China Forestry Publishing House.
  • Milius, S. Jan. 27, 2001. The lives of pandas. Science News, 159(4): 61(3).
  • Ward, P., S. Kynaston. 1995. Bears of the World. London: Blandford.
  • Giant Pandas having a snack.jpg. Wikimedia Commons. Höfundur myndar Chi King. Birt undir CC BY 2.0 DEED leyfi. (Sótt 3.5.2024).
  • Mapa distribuicao Ailuropoda melanoleuca.png. Wikimedia Commons. (Sótt 3.5.2024).

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

1.3.2007

Spyrjandi

Sólveig Morávek

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um pöndur?“ Vísindavefurinn, 1. mars 2007. Sótt 25. júní 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6516.

Jón Már Halldórsson. (2007, 1. mars). Getið þið sagt mér allt um pöndur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6516

Jón Már Halldórsson. „Getið þið sagt mér allt um pöndur?“ Vísindavefurinn. 1. mar. 2007. Vefsíða. 25. jún. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6516>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getið þið sagt mér allt um pöndur?
Risapandan (Ailuropoda melanoleuca), eða bambusbjörn eins og hún hefur einnig verið kölluð, er digurvaxinn og kraftalegur björn að meðalstærð. Feldurinn er þéttur og með sérkennilegu hvítflekkkóttu mynstri. Fullorðin panda vegur á bilinu 80 til 120 kg og er um 150 til 180 cm á hæð.

Flokkun og lifnaðarhættir

Þó pandan tilheyri bjarndýrum eru lífshættir hennar og útlit nokkuð frábrugðin. Hún er vel aðlöguð að þeim búsvæðum sem hún lifir á og eru lífshættir hennar því nokkuð sérhæfðir. Hauskúpan er breiðari en hjá öðrum bjarndýrum og snoppan styttri. Jaxlarnir eru einnig mun breiðari og kröftugri en hjá öðrum rándýrum og minna frekar á fellingarjaxla hófdýra. Þetta er lýsandi fyrir aðlögun pöndunnar að jurtafæði.

Ólíkt öðrum björnum þá leggjast pöndur ekki í hýði. Á veturna færa þær sig niður í dali og hafa þar hægt um sig. Ólíkt öðrum björnum merkja pöndur sér ákveðin svæði. Bæði kynin marka sér land með lyktarmerkingum, en við endaþarminn eru kirtar sem gefa frá sér sterkþefjandi safa. Þær nudda endaþarminum við trjáboli og losa þannig efnið frá kirtlunum.

Viðamiklar rannsóknir sem gerðar hafa verið á uppruna panda hafa staðfest það að þær teljist til bjarnardýra. Þær eru þó fjarskyldari en aðrar tegundir, en talið er að þær hafi skilist frá öðrum björnum fyrir um 13 milljón árum síðan.

Risapandan (Ailuropoda melanoleuca) nærist að mestu leyti á bambus.

Æxlun

Þegar birnurnar eru yxna sprauta þær efnum sem innihalda kynhormón úr endaþarmskirtli. Þær gefa einnig frá sér ákveðin hljóðmerki til að laða að karldýr, en æxlun á sér stað á tímabilinu frá mars til maí. Líkt og þekkist meðal annarra rándýra verður seinkun á þroskun fósturvísis skömmu eftir frjóvgun. Húnarnir fæðast því á kjörtíma í ágúst eða byrjun september þegar pöndurnar halda til í fjallendi Miðhluta Kína.

Raunþroskunartími fóstursins er aðeins 6 vikur og seinkunin varir því á fjórða mánuð. Húnarnir vega aðeins frá 85 til 140 gr við got og eru bæði hárlausir og blindir. Það fyrsta sem birnan gerir er að staðsetja húninn við spena svo hann geti byrjað að sjúga. Húnarnir fá sjón við þriggja vikna aldur og halda sig í samvistum við móður sína um það bil 18 mánuði. Pöndur verða kynþroska þegar þær eru um það bil sjö ára og eignast hver birna venjulega 2-3 húna á lífsleiðinni.

Staða pöndunnar

Pandan finnst nú á afar takmörkuðu svæði í héruðunum Sichuan, Gansu, og Shanxi í miðhluta Kína. Þessi svæði eru hálend, í um 1200 til 3500 m.h.y.s. og heldur pandan oftast til í gjám og fjalladölum þar sem er mikill bambusgróður. Þar situr hún megnið af deginum og nagar bambussprota, en bambus er uppistaðan í fæðu pöndunnar.

Pöndur eyða um það bil 12 klst á dag í fæðuöflun, en næringarinnihald bambuss er frekar lítið og hún þarf því mikið af honum. Kostirnir eru þó þeir að nægt framboð er af honum allt árið um kring ólíkt öðrum plöntum. Rannsóknir hafa sýnt að allt að 99% af fæðu pöndunnar er bambus, en afgangurinn eru ýmsar tegundir ávaxta og jafnvel smærri hryggdýr og skordýr.

Óvinir

Hið fræga svarta og hvíta mynstur pöndunnar hefur sennilega komið til sem vörn geng afráni líkt og rendur sebrahesta. Mynstrið brýtur útlínur hennar niður og gerir hana óreglulega í þykku bambusþykkninu. Í dag á pandan sér enga náttúrulega óvini, en hér áður fyrr veiddu asískir villihundar (dhole) húna og tígrisdýr réðust stundum á fullorðin dýr.

Hér sést útbreiðsla pöndunnar.

Saga pöndunnar

Íbúar Kína hafa vissulega verið meðvitaðir um tilvist pöndunnar alla tíð. Pandan var talin vera konunglegt dýr og því var afar illa séð að hún væri drepin. Afurðir pöndunnar voru heldur ekki taldar búa yfir læknisfræðilegum krafti, en mörg dýr, til dæmis tígrisdýr, voru mikið veidd þar sem þau voru talin búa yfir lækningamætti.

Vestrænir vísindamenn kynntust pöndum fyrst árið 1869 þegar tvö skinn bárust í hendur jesúítamunki. Á árunum 1913-1915 fönguðu svo þýskir leiðangursmenn pöndu í fyrsta skipti og lýstu þeir lifnaðarháttum hennar nokkuð ýtarlega. Það var þó ekki fyrr en árið 1936 sem fyrsta pandan var fönguð og flutt í dýagarð á Vesturlöndum. Þetta var Brookfield garðurinn í Chicago í Bandaríkjunum og fengu þeir lítinn hún sem bar heitið Su Li.

Á árunum fyrir seinna stríð voru alls 29 dýr flutt í dýragarða í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum og voru þeir keyptir dýrum dómum. Árið 1939 ákváðu hins vegar stjórnvöld í Kína að banna slíkar veiðar og lýstu yfir alfriðun á pöndunni. Dýraverndunarsinnar og náttúrufræðingar höfðu mikla áhyggjur af afdrifum pöndunar á valdatíð Maó tsjetung, en kommúnistastjórnin var ekki þekkt fyrir mikinn skilning né áhuga á dýravernd. Stofnar fjölmargra dýra minnkuðu á þessum tímum og kínverska tígrisdýrið (Panthera tigris amoyensis) dó meðal annars út. Seinna setti Alþjóðasjóður villtra dýra (World Wildlife Fund, WWF) pönduna í merki sitt og varð hún frá því tákn um baráttu samtakanna fyrir vernd villtra dýra.

Ástand pöndunar í dag

Kínversk stjórnvöld sýndu mikla hörku við verndun pöndunnar og er þessari árvekni stjórnvalda að þakka að ástand pöndunar er sæmilegt í dag. Allt fram til ársins 1997 voru þeir sem gerðust sekir um að drepa pöndur dæmdir til dauða, en þá var því breytt í 20 ára fangelsisdóm. Undanfarin 25 ár hafa þau jafnframt staðið fyrir umfangsmikilli fræðslu um verndun pöndunar í þúsundum þorpa á þeim svæðum sem pönduna er að finna. Einnig hafa þeir reynt að stemma stigu við skógarhöggi á svæðinu og þá sérstaklega beytt sér gegn nýtingu bambusskóga.

Pandan er afar viðkvæm tegund. Hún hefur mjög lága fæðingatíðni og eru slík dýr mjög viðkvæm fyrir miklu veiðiálagi. Rannsóknir frá árinu 2006 á stofnstærð pöndunnar sýndu að stofnstærðin hefur sennilega verið nokkuð vanmetin. Í dag telst því heildarstofnstærðin vera um þrjú þúsund einstaklingar.

Pandan er ekki úr allri hættu þó vel hafi gengið með verndun hennar. Mannskepnan gengur sífellt á heimkynni hennar, enda er mannfjöldinn gríðarlegur í þessu stóra ríki. Teljast má víst að pandan væri horfin af sjónarsviðinu fyrir löngu hefðu kínversk stjórnvöld ekki gripið í taumana. Pandabirnir eru því gott dæmi um að það er langt frá því að vera vonlaus barátta að vernda lífríki jarðarinnar, en til þess þurfi hins vegar skýra stefnu og samstöðu fólks.

Heimildir:
  • Helin, S. 1999. The Mammalian of China. Beijing China: China Forestry Publishing House.
  • Milius, S. Jan. 27, 2001. The lives of pandas. Science News, 159(4): 61(3).
  • Ward, P., S. Kynaston. 1995. Bears of the World. London: Blandford.
  • Giant Pandas having a snack.jpg. Wikimedia Commons. Höfundur myndar Chi King. Birt undir CC BY 2.0 DEED leyfi. (Sótt 3.5.2024).
  • Mapa distribuicao Ailuropoda melanoleuca.png. Wikimedia Commons. (Sótt 3.5.2024).
...