Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvaða dýr lifa í Kína? Hver af þeim eru í útrýmingarhættu eða eru sérstök að öðru leyti?
Dýralíf í Kína er með því fjölskrúðugasta sem þekkist innan nokkurs ríkis í heiminum og ógerningur er að fjalla um allar þær tegundir sem þar er að finna í svari eins og þessu. Hér verður því aðeins minnst á nokkrar tegundir og þá helst þær sem þykja sérstakar fyrir þennan heimshluta eða eru í útrýmingarhættu.
Risapandan (Ailuropoda melanoleuca) hefur á undanförnum áratugum orðið tákngervingur fyrir verndun sjaldgæfra dýra. Tegundin var var lengi talin í útrýmingarhættu en staða hennar hefur batnað og nú er hún talin í nokkurri hættu.
Hið margbreytilega dýralíf Kína má rekja til þess að landið er stórt og landsvæði mjög fjölbreytileg, allt frá hitabeltissvæðum syðst, til laufskóga í tempraða svæði Mansjúríu og eyðimerkursvæða í vestan og norðvestanverðu landinu. Tegundirnar sem lifa á þessum svæðum eru mjög ólíkar. Í suðri má finna tegundir eins og asíska fílinn (Elephas maximus) og hlébarða af suður-asískum deilitegundum, en í norðri er fánan líkari því sem gerist í Síberíu. Þar má til dæmis finna Síberíutígurinn (Panthera tigris altaicia), úlfa (Canis lupus) og skógarbirni (Ursus arctos).
Alls hafa fundist 6.266 hryggdýrategundir í Kína, en það samsvarar um 10% allra þekktra hryggdýrategunda jarðar. Þar af eru 500 tegundir spendýra, 1189 tegundir fugla, 320 skriðdýrategundir, 210 tegundir froskdýra og 3.862 tegundir ferskvatnsfiska.
Talsvert af merkum og einstökum dýrum lifir í Kína. Risapandan er einna þekktust þeirra en hún hefur á undanförnum áratugum orðið tákngervingur fyrir verndun sjaldgæfra dýra. Í reynd hefur það átak sem gert var til að vernda risapönduna verið til fyrirmyndar og er stofn villtra panda nú stöðugur þó tegundin teljist enn vera í nokkurri hættu (e. vulnerable).
Af öðrum merkum tegundum má nefna ferskvatnshöfrunginn í Yangtze (Lipotes vexillifer) sem er önnur af tveimur ferskvatnshvalategundum heimsins, suður-kínverska tígrisdýrið (Panthera tigris amoynesis) og litlu rauðu pönduna (Ailurus fulgens) sem er af hálfbjarnarætt.
Litla rauða pandan (Ailurus fulgens).
Í Kína, eins og víða annars staðar, er fjöldi dýrategunda í mikilli útrýmingarhættu. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem landið er gríðarlega fjölmennt og maðurinn hefur því tekið mikið land undir sig. Mikill hagvöxtur með tilheyrandi þenslu og álagi á umhverfið skiptir þar líka miklu máli. Stjórnvöld eru sem betur fer að verða meira meðvituð um mikilvægi þess að vernda kínverska náttúru og hefur fjöldi þjóðgarða og verndarsvæða verið stofnuð undanfarna áratugi. Alls eru nú 1146 verndarsvæði í landinu sem þekja allt að 88 milljónir hektara (2004). Þess má geta að árið 1978 voru verndarsvæðin aðeins 32 þannig að mikil vitundarvakning hefur orðið í þessum málum.
Hér á eftir er fjallað stuttlega um nokkrar af sjaldgæfustu hryggdýrategundunum í Kína sem alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin International Union for the Conservation of Nature and Natural Resources (IUCN) hafa flokkað sem í mikilli útrýmingarhættu (e. critically endangered).
Nokkrar þeirra spendýrategunda sem eru í mikilli útrýmingarhættu í Kína finnast aðeins þar í landi en aðrar teygja útbreiðslu sína yfir til annarra landa. Ein kunnasta tegundin sem aðeins lifir í Kína er kínverski vatnahöfrungurinn sem áður er minnst á. Höfrungur þessi lifir í Yangtze fljótinu og telst vera meðal sjaldgæfustu hvalategunda heims. Hið slæma ástand tegundarinnar má að hluta rekja til ólöglegra veiða í fljótinu, en vísindamen telja að dauði allt að 40% þeirra vatnahöfrunga sem drepast á ári hverju sé vegna veiðiþjófnaðar.
Kínverski vatnahöfrungurinn
(Lipotes vexillifer).
Annað afar sjaldgæft spendýr sem er einlent í Kína er Przewalsky gazellan (Procapra Przewalskii) en hún lifir á steppum í vesturhluta Kína, til dæmis nærri Qinghai vatni og í Gansu. Nýjustu talningar benda til þess að heildarstofnstærðin sé einungis um 250 dýr. Beitihagar gasellunnar hafa verið teknir til annarra nota og hefur fæðuskortur ógnað mjög tilveru hennar undanfarin misseri. Vísindamenn hafa miklar áhyggjur af næringarástandi dýranna og telja að allt að 25% heildarstofnsins muni deyja úr sulti áður en langt um líður.
Þá má nefna suður-kínverska tígrisdýrið (Panthera tigris amoyensis) en sú tegundin telur nú aðeins á bilinu 25-40 dýr. Fyrir um 40 árum taldist stofninn vera rúmlega 3000 dýr. Kerfisbundin útrýming hefur nánast þurrkað tegundina út og skyldleikaæxlun og búsvæðaröskun er orðin slík að vart verður hægt að bjarga tegundinni frá útdauða.
Önnur spendýrategund sem einungis finnst í Kína og telst vera í mikilli útrýmingarhættu er lítið nagdýr sem nefnist cheng´s jird (Meriones chengi), en afar lítið er vitað um þessa tegund. Á þessum lista eru einnig hvíti langur-apinn (Trachypithecus poliocephalus leucocephalus) og austræni svartkambs gibbonin (Nomascus nasutus), sem er talin vera sú apategund sem er í mestri útrýmingarhættu í heiminum.
Síberíutrana (Grus leucogeranus) telst í mikilli útrýmingarhættu í Kína. Vetrarheimkynni hennar eru við Poyang Hu vatn í austurhluta landsins en snemma á vorin heldur hún á varpstöðvarnar á túndrum norður Síberíu. Hér er um austurgrein þessarar tegundar að ræða en vesturgrein hennar verpir í vesturhluta Síberíu og leitar á haustin til Indlands og Íran. Austur-síberíutranan telur í kringum 4000 einstaklinga.
Síberíutrönur Grus leucogeranus.
Af öðrum hryggdýrum má nefna kínverska krókódílinn (Alligator sinensis) sem finnst í neðanverðu Yangtze fljótinu en er nú í mikilli útrýmingarhættu vegna veiða og röskunar á búsvæðum. Miklar verndunaraðgerðir hafa verið í gangi til að bjarga honum og virðast þær vera að bera árangur.
Fjöldi skrið- og froskdýrategunda finnst í Kína og hefur stórum hluta þeirra hnignað mjög á undanförnum áratugum. Þess má geta að froskdýr eru afar viðkvæm fyrir mengun og telja menn það, ásamt skerðingu votlendis, eina helstu skýringuna á þessari miklu hnignun. Sem dæmi má nefna að fjöldi froska af hinni kunnu og tegundaríku Rana ættkvísl lifir í Kína og eru þrjár þessara tegunda (Rana chevronta, Rana minima og Rana wuchuanensis) í mikilli útrýmingarhættu. Annað dæmi er kínverska risasalamandran (Andrias davidianus) sem er meðal alstærstu froskdýra í heimi en um hana er fjallað stuttlega í svari við spurningunni Hver er stærsti froskur í heimi og stærsta salamandran?
Eins og nefnt var í upphafi er ekki hægt að fjalla ítarlega um dýralíf í Kína á þessum vettvangi, til þess er það of margbreytilegt. Þeim sem vilja fræðast nánar er bent á að nota leitarvélar á Netinu og slá inn leitarorð eins og 'China' og 'fauna' eða 'wildlife'.
Frekara lesefni á Vísindavefnum eftir sama höfund:
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr eru í útrýmingarhættu í Kína?“ Vísindavefurinn, 16. febrúar 2006, sótt 14. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5646.
Jón Már Halldórsson. (2006, 16. febrúar). Hvaða dýr eru í útrýmingarhættu í Kína? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5646
Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr eru í útrýmingarhættu í Kína?“ Vísindavefurinn. 16. feb. 2006. Vefsíða. 14. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5646>.