Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Hver er munurinn á heilkenni og sjúkdómi?

Jóhann Heiðar Jóhannsson

Spurningin getur gefið tilefni til margvíslegra hugleiðinga á orðfræðilegum, læknisfræðilegum eða jafnvel heimspekilegum grunni. Hún getur einnig verið hvöt til þess að rifja upp ýmis af þeim mörgu orðum, sem til eru í íslensku og hafa verið notuð um veikindi og sjúkdóma, svo sem: kröm, kvilli, mein, meinsemd, pest, sótt, sýki og veiki.1

Í upphafi er einfaldast að segja að orðið „sjúkdómur” vísi til veikinda þar sem sem orsakir og ferill veikindanna eru vel þekkt. Orðið „heilkenni” vísar hins vegar fyrst og fremst til veikindaástands, þar sem minna er vitað um orsakir. Flest heilkenni eru engu að síður vel skilgreind og mikil þekking fyrirliggjandi um eðli þeirra.

Orðfræðin

Hugtakið sjúkdómur nær til veikinda, sem hægt er að lýsa nokkuð nákvæmlega. Orsakirnar eru þekktar, einnig dæmigerð einkenni og vefrænar meinsemdir, það er vitað hvaða athuganir eða rannsóknir þarf að gera til að greina sjúkdóminn og einnig höfum við vitneskju um hvað er réttmæt meðferð og hverjar eru almennar horfur sjúklinga, sem fengið hafa sjúkdóminn. Hver sjúkdómur, sem þannig er hægt að lýsa eða skilgreina, fær venjulega sérstakt heiti og er að lokum „viðurkenndur” sem læknisfræðilegt fyrirbæri. Sjúkdómsheitið má síðan nota til að auðkenna veikindin, skiptast á skoðunum um þau og til að leita að almennum eða fræðilegum upplýsingum, til dæmis í bókum, blöðum eða á netinu.

Íslenska orðið heilkenni var búið til á síðustu öld, sem þýðing á gríska nafnorðinu syndromē. Gríska orðið er samsett úr forskeytinu syn-, sem táknar saman eða með, og nafnorðinu dromos, sem táknar hlaup, vegur eða leið. Þetta gríska orð hefur verið notað í læknamáli öldum saman um sjúkdómseinkenni, sem saman fara og eru talin tilheyra sama fyrirbærinu. Íslenska nafnorðið heilkenni er búið til úr samsetningunni: heild einkenna, og táknar á sama hátt (sjúkdóms)einkenni sem saman fara.

Sagan segir að syndromē hafi í mörgum tilfellum átt að vera „bráðabirgðaheiti” eða „þægindaheiti” á tilteknum sjúkdómi, sem nota mætti þar til nægar upplýsingar lægju fyrir um orsakir, einkenni, greiningu, meðferð og horfur, til að veikindunum mætti lýsa sem „viðurkenndum” sjúkdómi. Heitið heilkenni er einnig notað um samstæður einkenna, sem afmarka ekki tiltekinn sjúkdóm, en vísa til sjúkdómaflokks eða líffærakerfis (flogaveikiheilkenni, hjarta- og lungnaheilkenni, kransæðaheilkenni) eða fylgja skilgreindum sjúkdómum (bólgusóttarheilkenni, hormónaheilkenni, krabbameinsheilkenni).

Læknisfræðin

Læknar hafa vafalaust frá alda öðli leitast við að lýsa veikindum manna og geyma upplýsingar um þau fyrirbæri sem þeir fást við. Þetta er gert til að koma reglu á þekkingu þeirra um veikindin og setja hana í samhengi. Þegar tiltekin veikindi hafa verið afmörkuð, eða viðurkennd sem sjúkdómur, má safna saman hagnýtum og fræðilegum upplýsingum, til að geta notað þekkinguna á skipulegan hátt við greiningu og meðferð. Það er síðan atriði til hagræðingar, að sérhver afmarkaður sjúkdómur hafi sitt sérstaka heiti, sem er þá einnig ávísun á tilheyrandi upplýsingar um hann.

Sjúkdómaheiti eru margvísleg og hafa verið búin til með mismunandi hætti. Sum eru það sem nefnist „lýsandi” eða „gagnsæ” og gefa eitthvað til kynna um eðli sjúkdómsins eða staðsetningu meinsemdar, svo sem lungnabólga (bólgusjúkdómur í lungum) og ristilsárabólga (bólgusjúkdómur með sárum í ristli), en önnur gefa engar slíkar upplýsingar, svo sem Hodgkins-sjúkdómur (eitlaæxli) og Edwards-heilkenni (mæðfætt heilkenni sem stafar af litningagalla). Sértæku íslensku sjúkdómaheitin má mörg finna í Íðorðasafni lækna hjá Íslenskri málstöð2.

Enginn veit í raun hversu mörg sjúkdómaheitin eru. Alþjóðlega sjúkdómaskráin, ICD-10, inniheldur að minnsta kosti 12 þúsund sjúkdómaheiti3, en sennilega eru „viðurkenndir” sjúkdómar talsvert fleiri. Nafngreind heilkenni eru einnig mjög mörg. ErfðasjúkdómaskráinOMIM inniheldur um 5 þúsund heiti, þar sem enska orðið syndrome er hluti af heitinu4, en til er einnig fjöldi heilkenna sem ekki tilheyra arfgengum fyrirbærum.

Að lokum

Heiti sjúkdóma verða ekki alltaf til á alveg rökréttan hátt og skilin á milli „sjúkdóms” og „heilkennis” eru ekki alltaf skörp. Enn fremur gerir innbyggð íhaldssemi okkar það oft að verkum að gömlum og óheppilegum heitum er ekki breytt. Í lokasamantekt má segja að sjúkdómur afmarkast af skilgreiningu sem tekur til orsaka, einkenna, vefjabreytinga og veikindaferils, en að heilkenni afmarkist einungis af tilteknum einkennum.

Tilvísanir:

1 Jóhann Heiðar Jóhannsson. Íðorðasafn 144: Sjúkleikaheiti. Læknablaðið. 5. tbl. 88. árg. 2002.

2 http://www.ismal.hi.is/ob/ (smella á „Leita” og slá síðan inn sjúkdómsheiti í leitarreit)

3 International Classification of Diseases (ICD) á World Health Organization (WHO).

4 OMIM - Online Mendelian Inheritance in Man á National Center for Biotechnology Information.


Aðrar spurningar sem Vísindavefnum hafa borist um svipað efni eru:
  • Hvað er heilkenni?
  • Hver er munurinn á einkenni og heilkenni?
  • Hvað er heilkenni og hver er munurinn á því og tengdum hugtökum?
  • Þýðir orðið heilkenni það sama og einkenni?

Höfundur

læknir á Landspítala, sérfræðingur í meinafræði

Útgáfudagur

12.9.2008

Spyrjandi

Gunnar Valur Stefánsson
Pjetur St. Arason
Eva Thoroddsen
Hjalti H.
Guðmundur Guðlaugsson

Tilvísun

Jóhann Heiðar Jóhannsson. „Hver er munurinn á heilkenni og sjúkdómi?“ Vísindavefurinn, 12. september 2008. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=47516.

Jóhann Heiðar Jóhannsson. (2008, 12. september). Hver er munurinn á heilkenni og sjúkdómi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=47516

Jóhann Heiðar Jóhannsson. „Hver er munurinn á heilkenni og sjúkdómi?“ Vísindavefurinn. 12. sep. 2008. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=47516>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á heilkenni og sjúkdómi?
Spurningin getur gefið tilefni til margvíslegra hugleiðinga á orðfræðilegum, læknisfræðilegum eða jafnvel heimspekilegum grunni. Hún getur einnig verið hvöt til þess að rifja upp ýmis af þeim mörgu orðum, sem til eru í íslensku og hafa verið notuð um veikindi og sjúkdóma, svo sem: kröm, kvilli, mein, meinsemd, pest, sótt, sýki og veiki.1

Í upphafi er einfaldast að segja að orðið „sjúkdómur” vísi til veikinda þar sem sem orsakir og ferill veikindanna eru vel þekkt. Orðið „heilkenni” vísar hins vegar fyrst og fremst til veikindaástands, þar sem minna er vitað um orsakir. Flest heilkenni eru engu að síður vel skilgreind og mikil þekking fyrirliggjandi um eðli þeirra.

Orðfræðin

Hugtakið sjúkdómur nær til veikinda, sem hægt er að lýsa nokkuð nákvæmlega. Orsakirnar eru þekktar, einnig dæmigerð einkenni og vefrænar meinsemdir, það er vitað hvaða athuganir eða rannsóknir þarf að gera til að greina sjúkdóminn og einnig höfum við vitneskju um hvað er réttmæt meðferð og hverjar eru almennar horfur sjúklinga, sem fengið hafa sjúkdóminn. Hver sjúkdómur, sem þannig er hægt að lýsa eða skilgreina, fær venjulega sérstakt heiti og er að lokum „viðurkenndur” sem læknisfræðilegt fyrirbæri. Sjúkdómsheitið má síðan nota til að auðkenna veikindin, skiptast á skoðunum um þau og til að leita að almennum eða fræðilegum upplýsingum, til dæmis í bókum, blöðum eða á netinu.

Íslenska orðið heilkenni var búið til á síðustu öld, sem þýðing á gríska nafnorðinu syndromē. Gríska orðið er samsett úr forskeytinu syn-, sem táknar saman eða með, og nafnorðinu dromos, sem táknar hlaup, vegur eða leið. Þetta gríska orð hefur verið notað í læknamáli öldum saman um sjúkdómseinkenni, sem saman fara og eru talin tilheyra sama fyrirbærinu. Íslenska nafnorðið heilkenni er búið til úr samsetningunni: heild einkenna, og táknar á sama hátt (sjúkdóms)einkenni sem saman fara.

Sagan segir að syndromē hafi í mörgum tilfellum átt að vera „bráðabirgðaheiti” eða „þægindaheiti” á tilteknum sjúkdómi, sem nota mætti þar til nægar upplýsingar lægju fyrir um orsakir, einkenni, greiningu, meðferð og horfur, til að veikindunum mætti lýsa sem „viðurkenndum” sjúkdómi. Heitið heilkenni er einnig notað um samstæður einkenna, sem afmarka ekki tiltekinn sjúkdóm, en vísa til sjúkdómaflokks eða líffærakerfis (flogaveikiheilkenni, hjarta- og lungnaheilkenni, kransæðaheilkenni) eða fylgja skilgreindum sjúkdómum (bólgusóttarheilkenni, hormónaheilkenni, krabbameinsheilkenni).

Læknisfræðin

Læknar hafa vafalaust frá alda öðli leitast við að lýsa veikindum manna og geyma upplýsingar um þau fyrirbæri sem þeir fást við. Þetta er gert til að koma reglu á þekkingu þeirra um veikindin og setja hana í samhengi. Þegar tiltekin veikindi hafa verið afmörkuð, eða viðurkennd sem sjúkdómur, má safna saman hagnýtum og fræðilegum upplýsingum, til að geta notað þekkinguna á skipulegan hátt við greiningu og meðferð. Það er síðan atriði til hagræðingar, að sérhver afmarkaður sjúkdómur hafi sitt sérstaka heiti, sem er þá einnig ávísun á tilheyrandi upplýsingar um hann.

Sjúkdómaheiti eru margvísleg og hafa verið búin til með mismunandi hætti. Sum eru það sem nefnist „lýsandi” eða „gagnsæ” og gefa eitthvað til kynna um eðli sjúkdómsins eða staðsetningu meinsemdar, svo sem lungnabólga (bólgusjúkdómur í lungum) og ristilsárabólga (bólgusjúkdómur með sárum í ristli), en önnur gefa engar slíkar upplýsingar, svo sem Hodgkins-sjúkdómur (eitlaæxli) og Edwards-heilkenni (mæðfætt heilkenni sem stafar af litningagalla). Sértæku íslensku sjúkdómaheitin má mörg finna í Íðorðasafni lækna hjá Íslenskri málstöð2.

Enginn veit í raun hversu mörg sjúkdómaheitin eru. Alþjóðlega sjúkdómaskráin, ICD-10, inniheldur að minnsta kosti 12 þúsund sjúkdómaheiti3, en sennilega eru „viðurkenndir” sjúkdómar talsvert fleiri. Nafngreind heilkenni eru einnig mjög mörg. ErfðasjúkdómaskráinOMIM inniheldur um 5 þúsund heiti, þar sem enska orðið syndrome er hluti af heitinu4, en til er einnig fjöldi heilkenna sem ekki tilheyra arfgengum fyrirbærum.

Að lokum

Heiti sjúkdóma verða ekki alltaf til á alveg rökréttan hátt og skilin á milli „sjúkdóms” og „heilkennis” eru ekki alltaf skörp. Enn fremur gerir innbyggð íhaldssemi okkar það oft að verkum að gömlum og óheppilegum heitum er ekki breytt. Í lokasamantekt má segja að sjúkdómur afmarkast af skilgreiningu sem tekur til orsaka, einkenna, vefjabreytinga og veikindaferils, en að heilkenni afmarkist einungis af tilteknum einkennum.

Tilvísanir:

1 Jóhann Heiðar Jóhannsson. Íðorðasafn 144: Sjúkleikaheiti. Læknablaðið. 5. tbl. 88. árg. 2002.

2 http://www.ismal.hi.is/ob/ (smella á „Leita” og slá síðan inn sjúkdómsheiti í leitarreit)

3 International Classification of Diseases (ICD) á World Health Organization (WHO).

4 OMIM - Online Mendelian Inheritance in Man á National Center for Biotechnology Information.


Aðrar spurningar sem Vísindavefnum hafa borist um svipað efni eru:
  • Hvað er heilkenni?
  • Hver er munurinn á einkenni og heilkenni?
  • Hvað er heilkenni og hver er munurinn á því og tengdum hugtökum?
  • Þýðir orðið heilkenni það sama og einkenni?
...