Schindler mannaði verksmiðjuna með gyðingum. Til að byrja með var það ekki af hugsjón heldur voru gyðingar ódýrt vinnuafl sem hann fékk með aðstoð þýskra herforingja og vina sinna í nasistaflokknum en Schindler var sjálfur í flokknum. Þegar leið á stríðið opnuðust augu hans fyrir þeirri hræðilegu meðferð sem gyðingar fengu. Hann fór því að leggja allt kapp á að vernda þá sem fyrir hann unnu og koma í veg fyrir að þeir yrðu sendir á aðra og verri staði sem þeir ættu ekki afturkvæmt frá.
Undir lok stríðsins, þegar Rauði herinn nálgaðist búðir Þjóðverja í Póllandi beitti Schindler sér fyrir því að hans fólk yrði flutt til Súdetalands, þar sem núna er Tékkland, til að vinna í verksmiðju þar og bjargaði því þar með frá því að verða flutt í útrýmingarbúðir.
Nákvæmlega hversu mörgum gyðingum Schindler bjargaði er ekki vitað með vissu en þeir eru gjarnan taldir vera tæplega 1.200. Í byrjun apríl árið 2009 fannst listi með nöfnum 801 gyðings sem Schindler forðaði frá því að lenda í útrýmingarbúðum og er hann dagsettur 18. apríl 1945. Listinn fannst þegar starfsmenn bóksafnsins New South Wales State Library í Ástralíu voru að fara í gegnum gögn frá ástralska rithöfundinum Thomas Keneally.
Keneally er höfundur bókarinnar Schindler's Ark sem kom út árið 1982. Sagt er að þessi listi sem nú er kominn fram hafi verið eitt af því sem sannfærði hann um að skrifa sögu Schindlers. Árið 1993 var kvikmynd Steven Spielberg Listi Schindlers frumsýnd og er handrit hennar byggt á bók Keneally. Myndin varð mjög vinsæl og hlaut sjö Óskarsverðlaun.

Af Schindler er það hins vegar að segja að í stríðslok var hann slyppur og snauður eftir að hafa notað þann auð sem hann áður hafði safnað til þess að bjarga gyðingum. Hann fluttist til Argentínu árið 1948 en vegnaði ekkert sérstaklega vel þar. Eftir gjaldþrot fluttist hann aftur til Þýskalands árið 1957. Honum tókst þó ekki að koma undir sig fótunum aftur og sá rekstur sem hann reyndi gekk ekki vel. Oskar Schindler lést í Þýskalandi þann 9. október 1974, 66 ára að aldri. Hann er jarðsettur í kaþólska kirkjugarðinum á Síonhæð í Jerúsalem, eini meðlimur nasistaflokksins sem hvílir þar. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Voru útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni allar utan Þýskalands? eftir Pál Björnsson
- Hvað getið þið sagt mér um útrýmingarbúðirnar í Auschwitz? eftir Jónu Símoníu Bjarnadóttur
- Hvernig völdu nasistar fólk til „starfa“ í útrýmingarbúðunum? Eru þekkt dæmi þess að menn hafi neitað að fylgja skipunum þar? eftir Gísla Gunnarsson
- Getur verið að færri gyðingar hafi dáið í helförinni en talið hefur verið? eftir Gísla Gunnarsson
- Oskar Schindler á Wikipedia. Skoðað 7. 4. 2009.
- Schindler's List found in Sydney á BBC News Asia - Pacific. Skoðað 7. 4. 2009.
- Listi Schindlers finnst í Ástralíu á Mbl.is. Skoðað 7. 4. 2009.
- Oskar Schindler á Holocaust Education & Archive Research Team. Skoðað 7. 4. 2009.
- Schindler's List á Film Reference. Skoðað 14. 4. 2009.
Hvað hét þýski Súdetinn sem bjargaði gyðingum með því að láta þá vinna í verksmiðjum sínum?