Sólin Sólin Rís 06:40 • sest 20:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:45 • Síðdegis: 17:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:40 • sest 20:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:55 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:45 • Síðdegis: 17:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um Þingeyrar í Húnaþingi?

Vignir Már Lýðsson

Þingeyrar er býli í Austur-Húnavatnssýslu milli Hóps og Húnavatns. Þar var klaustur fram að siðaskiptum árið 1550 en fyrir stofnun þess héldu Húnvetningar þing sitt á staðnum. Engar menjar tengdar þinginu hafa varðveist og þess er jafnframt ekki getið í heimildum eftir 1133 en það ár er talið stofnár klaustursins. Um upphaf klaustursins segir í sögu Jóns biskups Ögmundssonar að eftir mikið hallæri í landinu hafi hann heitið því að á Þingeyrum skyldi byggt klaustur og staðurinn efldur. Þetta efndi Jón og þar með varð fyrsta klaustur á Íslandi að veruleika. Sagan segir að hann hafi sjálfur markað upphaflegu kirkjunni stað en á Þingeyrum hefur æ síðan staðið kirkja.

Mikil hlunnindi hafa fylgt jörðinni en ásamt miklum engjalöndum og stórum afréttum er þar góð lax- og selaveiði. Bærinn á jörðinni sem var mesta höfuðból Húnaþings um aldir. Bærinn stendur í miðju héraðinu á lágum en víðáttumiklum hól og sér þaðan suður til jökla, austur á Skaga og vestur á Strandir. Kirkjan sem nú stendur á staðnum var byggð á árunum 1864 til 1877 að frumkvæði Ásgeirs Einarssonar (1809-1885) alþingismanns. Hann lagði tíu þúsund krónur til af þeim sextán þúsundum sem kostaði að reisa kirkjuna. Yfirumsjón með verkinu hafði Sverrir Runólfsson sem jafnframt er talinn hafa teiknað kirkjuna. Hún er hlaðin úr steini en engar grjótnámur eru í nágrenninu. Brugðu menn á það ráð að taka grjótið úr Nesbjörgum handan Hóps og flytja það yfir á sleða eftir ísilögðu vatninu.

Kirkjan á Þingeyrum.

Á tímum klaustursins á Þingeyrum var staðurinn eitt mesta fræðasetur landsins. Þar sátu munkar og skrifuðu fjöldann allan af ritum sem sum hver hafa varðveist. Talið er að nokkrar Íslendingasögur hafi verið skrifaðar á Þingeyrum en ekki er vitað hverjar þeirra. Frægasti munkur klaustursins er eflaust Gunnlaugur Leifsson (d. 1218) sem ritaði meðal annars sögu Ólafs Tryggvasonar og sögu Jóns helga Ögmundssonar, báðar á latínu.

Í gegnum aldirnar hafa margir merkismenn setið á Þingeyrum. Á árunum 1683 til 1721 bjó þar lögmaðurinn Lauritz Gottrup (1648-1721) sem býlið Gottorp í Vesturhópi er nefnt eftir. Um 1800 bjó hestamaðurinn Jón Ásgeirsson á Þingeyrum en sonur hans, Ásgeir Jónsson, skrifaði bókina Horfnir góðhestar. Árið 1850 fæddist á Þingeyrum Björn M. Ólsen (1850-1919) sem árið 1911 varð fyrsti rektor Háskóla Íslands. Fleiri menntamenn eru tengdir Þingeyrum en árið 1923 giftist Hulda Á. Stefánsdóttir (1897-1989) Jóni Sigurði Pálmasyni ábúanda á Þingeyrum. Hulda var skólastjóri húsmæðraskólanna á Blönduósi og í Reykjavík um áratugaskeið en henni var menntun stúlkna mjög hugleikin.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Örlygur Hálfdánarson og Eva Hálfdánardóttir. Vegahandbókin, Þingeyrar bls. 342. Landmælingar Íslands og Vegahandbókin ehf. Reykjavík, 2008.
  • Tómas Einarsson og Helgi Magnússon. Vegahandbókin, Þingeyrar bls. 363-365. Örn og Örlygur. Reykjavík, 1989.
  • Þingeyrar á Þingeyrar Hestabúgarður
  • Hulda Árdís Stefánsdóttir eftir Berglindi Hansen og Guðrúnu Sigríði Magnúsdóttur

Mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

25.7.2008

Spyrjandi

Hafsteinn Birgir Einarsson

Tilvísun

Vignir Már Lýðsson. „Hvað getið þið sagt mér um Þingeyrar í Húnaþingi?“ Vísindavefurinn, 25. júlí 2008, sótt 11. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=48260.

Vignir Már Lýðsson. (2008, 25. júlí). Hvað getið þið sagt mér um Þingeyrar í Húnaþingi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=48260

Vignir Már Lýðsson. „Hvað getið þið sagt mér um Þingeyrar í Húnaþingi?“ Vísindavefurinn. 25. júl. 2008. Vefsíða. 11. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=48260>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Þingeyrar í Húnaþingi?
Þingeyrar er býli í Austur-Húnavatnssýslu milli Hóps og Húnavatns. Þar var klaustur fram að siðaskiptum árið 1550 en fyrir stofnun þess héldu Húnvetningar þing sitt á staðnum. Engar menjar tengdar þinginu hafa varðveist og þess er jafnframt ekki getið í heimildum eftir 1133 en það ár er talið stofnár klaustursins. Um upphaf klaustursins segir í sögu Jóns biskups Ögmundssonar að eftir mikið hallæri í landinu hafi hann heitið því að á Þingeyrum skyldi byggt klaustur og staðurinn efldur. Þetta efndi Jón og þar með varð fyrsta klaustur á Íslandi að veruleika. Sagan segir að hann hafi sjálfur markað upphaflegu kirkjunni stað en á Þingeyrum hefur æ síðan staðið kirkja.

Mikil hlunnindi hafa fylgt jörðinni en ásamt miklum engjalöndum og stórum afréttum er þar góð lax- og selaveiði. Bærinn á jörðinni sem var mesta höfuðból Húnaþings um aldir. Bærinn stendur í miðju héraðinu á lágum en víðáttumiklum hól og sér þaðan suður til jökla, austur á Skaga og vestur á Strandir. Kirkjan sem nú stendur á staðnum var byggð á árunum 1864 til 1877 að frumkvæði Ásgeirs Einarssonar (1809-1885) alþingismanns. Hann lagði tíu þúsund krónur til af þeim sextán þúsundum sem kostaði að reisa kirkjuna. Yfirumsjón með verkinu hafði Sverrir Runólfsson sem jafnframt er talinn hafa teiknað kirkjuna. Hún er hlaðin úr steini en engar grjótnámur eru í nágrenninu. Brugðu menn á það ráð að taka grjótið úr Nesbjörgum handan Hóps og flytja það yfir á sleða eftir ísilögðu vatninu.

Kirkjan á Þingeyrum.

Á tímum klaustursins á Þingeyrum var staðurinn eitt mesta fræðasetur landsins. Þar sátu munkar og skrifuðu fjöldann allan af ritum sem sum hver hafa varðveist. Talið er að nokkrar Íslendingasögur hafi verið skrifaðar á Þingeyrum en ekki er vitað hverjar þeirra. Frægasti munkur klaustursins er eflaust Gunnlaugur Leifsson (d. 1218) sem ritaði meðal annars sögu Ólafs Tryggvasonar og sögu Jóns helga Ögmundssonar, báðar á latínu.

Í gegnum aldirnar hafa margir merkismenn setið á Þingeyrum. Á árunum 1683 til 1721 bjó þar lögmaðurinn Lauritz Gottrup (1648-1721) sem býlið Gottorp í Vesturhópi er nefnt eftir. Um 1800 bjó hestamaðurinn Jón Ásgeirsson á Þingeyrum en sonur hans, Ásgeir Jónsson, skrifaði bókina Horfnir góðhestar. Árið 1850 fæddist á Þingeyrum Björn M. Ólsen (1850-1919) sem árið 1911 varð fyrsti rektor Háskóla Íslands. Fleiri menntamenn eru tengdir Þingeyrum en árið 1923 giftist Hulda Á. Stefánsdóttir (1897-1989) Jóni Sigurði Pálmasyni ábúanda á Þingeyrum. Hulda var skólastjóri húsmæðraskólanna á Blönduósi og í Reykjavík um áratugaskeið en henni var menntun stúlkna mjög hugleikin.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Örlygur Hálfdánarson og Eva Hálfdánardóttir. Vegahandbókin, Þingeyrar bls. 342. Landmælingar Íslands og Vegahandbókin ehf. Reykjavík, 2008.
  • Tómas Einarsson og Helgi Magnússon. Vegahandbókin, Þingeyrar bls. 363-365. Örn og Örlygur. Reykjavík, 1989.
  • Þingeyrar á Þingeyrar Hestabúgarður
  • Hulda Árdís Stefánsdóttir eftir Berglindi Hansen og Guðrúnu Sigríði Magnúsdóttur

Mynd:

...