Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kjarni jarðar er mörg hundruð gráðum heitari en möttullinn fyrir ofan, og hugsa má sér þrjár ástæður fyrir því: Mikilvægastur er varmi frá myndun jarðar, en einnig koma til geislavirkni í efni kjarnans og snúningur innri kjarna. Skoðum þetta:
Heimspekingurinn Immanúel Kant (1724-1804) er sagður hafa stungið upp á því fyrstur manna opinberlega að sólkerfið hafi myndast úr disklaga stjarnþoku sem snerist um sameiginlega þungamiðju, hina vaxandi sól.
Þessa aðsópskenningu hafa menn nú fyrir satt, en talið er að þessir atburðir hafi orðið fyrir um 4500 milljónum ára. Þegar þokan þéttist smám saman mynduðu hvirflar (hringiður) í henni, staðbundnar þungamiðjur sem hver um sig dró að sér efni (loftsteina, geimryk, lofttegundir) og úr urðu reikistjörnurnar. Þær uxu smám saman og sópuðu að sér efni með sívaxandi krafti eftir því sem massi þeirra og þyngdarafl óx. Þannig jókst varmamyndun hröðum skrefum eftir því sem massi jarðar óx, og ýmsir fræðimenn telja jafnvel að jörðin hafi verið sem næst albráðin um tíma.
En hitt er ljóst, að hún hitnaði nógu mikið í upphafi til þess að járn-málmur ásamt nikkel og fleiri frumefnum í hinu upphaflega loftsteina-efni bráðnaði og sökk í átt að miðju hennar vegna eðlisþyngdar sinnar – og þar með leystist gríðarmikil staðarorka [E =gmh – orka = þyngdarstuðull x massi x fallhæð] því kjarninn er um 18% af rúmmáli jarðar en 32% af massa hennar. Talið er að hitinn í miðju jarðar sé jafnvel hærri en á yfirborði sólarinnar. Þessi upphaflegi varmi í jarðkjarnanum á verulegan þátt í varmastreymi til yfirborðs jarðar.
Í annan stað snýst innri kjarninn, sem er 2400 km í þvermál og fast efni vegna hins háa þrýstings, hraðar en möttullinn ofan við, sem bæði veldur segulsviði jarðar og myndar einnig varma vegna núnings.
Og í þriðja stað er talið að eitthvað sé af geislavirkum efnum í kjarnanum sem gefi frá sér varma.
Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
Sigurður Steinþórsson. „Hvers vegna er kjarni jarðar heitur?“ Vísindavefurinn, 10. nóvember 2008, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=49242.
Sigurður Steinþórsson. (2008, 10. nóvember). Hvers vegna er kjarni jarðar heitur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=49242
Sigurður Steinþórsson. „Hvers vegna er kjarni jarðar heitur?“ Vísindavefurinn. 10. nóv. 2008. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=49242>.