Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Eru GSM-símar skaðlegir heilsunni?

Magnús Jóhannsson

Fjölmiðlar flytja reglulega fréttir af því hve hættulegt kunni að vera að nota farsíma. Þar er skýrt frá áhyggjum manna af því að farsímar kunni að valda krabbameini eða heilaskemmdum með einkennum eins og svefntruflunum, minnistapi, höfuðverk, ógleði og svima svo nokkuð sé nefnt. Hér er mikið í húfi því að minnsta kosti 500 milljónir manna nota farsíma daglega og fer þeim stöðugt fjölgandi.

Farsímar senda og taka á móti útvarpsbylgjum á örbylgjutíðni á bilinu 450-1800 megarið (MHz). NMT-kerfið notar 450 MHz og GSM-kerfin í Evrópu og víðar nota 900 MHz. Á þessu tíðnibili eru engar vísbendingar um að tíðnin sjálf skipti máli fyrir hugsanleg skaðleg áhrif á lifandi verur.

Þegar farsími er notaður fara þessar bylgjur um loftnet sem er haldið upp að eyra eða gagnaugasvæði. Örbylgjur af þessari tíðni hita umhverfið og hafa áhyggjur manna einkum beinst að því að farsímanotkun hiti heilann og valdi þannig skemmdum á honum. Venjulegur farsími sendir með orku sem er um 1 watt og útreikningar benda til þess að notkun hans gæti hækkað hitastig staðbundið í heilanum um 0,1°C. Slík hitahækkun gæti tæplega valdið skemmdum þar sem sótthiti getur hækkað líkamshitann, og þar með hitann í heilanum, um nokkrar gráður án þess að valda skemmdum. Ef örbylgjur frá farsímum eru heilsuspillandi væri því um að ræða annars konar áhrif en hitahækkun; gallinn er sá að ekkert er vitað um hvaða áhrif gæti verið að ræða.

Örbylgjur frá farsímum eru ekki jónandi, eins og röntgengeislar og geislun frá geislavirkum efnum, og ættu því ekki að geta valdið skemmdum á erfðaefninu (DNA), stökkbreytingum eða krabbameini.

Flest bendir til þess að notkun farsíma sé hættulaus fyrir heilsuna.

En hvað er vitað um þessa hluti, hvaðan kemur sú vitneskja og eru til öryggisstaðlar sem við getum treyst? Mjög viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna hvort farsímanotkun sé hættuleg. Rannsóknir hafa verið gerðar á lifandi frumum og dýrum sem hafa verið langtímum saman í missterku örbylgjusviði. Þannig hafa verið fundin mörk fyrir styrk örbylgna sem hefur ekki áhrif á lifandi verur og út frá því hafa verið settir öryggisstaðlar fyrir fólk, sem eru svolítið mismunandi eftir löndum en eru oftast um það bil 2% af áðurnefndum mörkum í dýratilraunum. Farsímar og sendar fyrir farsíma liggja langt innan þessara öryggisstaðla. Gerðar hafa verið margar dýratilraunir með örbylgjur af svipuðum styrk og farsímanotendur verða fyrir og næstum engin þeirra sýnir áhrif á líkamsstarfsemina.

Einstaka tilraunir sýna einhvers konar áhrif en ýmist hefur ekki tekist að endurtaka þær eða niðurstöðurnar eru í andstöðu við aðrar tilraunir. Rannsóknir á fólki eru að mestu leyti faraldsfræðilegar og beinast að því hvort farsímanotendum sé hættara en öðrum við að fá krabbamein (til dæmis heilaæxli), hrörnunarsjúkdóma í heila eða hvítblæði svo að eitthvað sé nefnt. Hér gildir svipað og um dýratilraunirnar: Í nær öllum rannsóknum á fólki finnst ekkert samband milli farsímanotkunar og sjúkdóma en í einstaka rannsókn hefur fundist slíkt samband. Sama gildir um senda í dreifikerfi fyrir farsíma en loftnet fyrir slíka senda eru ýmist í sérstökum turnum eða á húsþökum.

Samkvæmt stöðlunum er hættulegt að koma nær loftnetunum en 5-10 metra en rannsóknir á þeim sem búa eða starfa í húsum sem hafa farsímaloftnet á þakinu benda ekki til heilsuspillandi áhrifa. Í nýlegri rannsókn á fólki kom í ljós að farsímar höfðu viss örvandi áhrif á heilann, juku einbeitingu og flýttu fyrir ákvarðanatöku. Hvort þetta er rétt, jákvætt eða neikvætt eða hvort það hefur þýðingu fyrir heilsufar vitum við ekki. Ef allt er tekið saman bendir flest til þess að notkun farsíma sé hættulaus fyrir heilsuna en við getum ekki enn þá verið alveg viss og því er sjálfsagt að fara varlega. Ekki er heldur hægt að útiloka að vissir hópar í þjóðfélaginu, til dæmis börn og unglingar, séu viðkvæmari fyrir þessum áhrifum en aðrir.

Farsímaframleiðendur hafa staðið sig frekar illa, ekki gert mikið til að draga úr örbylgjugeislun frá símunum inn í heilann og dregið lappirnar með að gefa upp styrk útgeislunar fyrir hverja tegund farsíma. Það sem við getum gert er að nota farsíma sem minnst, kaupa á símann sérstaka hlíf sem minnkar útgeislun og nota handfrjálsan búnað, en að vísu er umdeilt hvort handfrjáls búnaður minnki örbylgjugeislun inn í heilann.

Að einu leyti eru farsímar örugglega hættulegir en það er þegar ökumenn nota þá í akstri. Nú er búið að sýna svo rækilega fram á aukna slysatíðni af völdum farsímanotenda í umferðinni að hvert landið á fætur öðru, þar á meðal flest lönd í Norður-Evrópu, hafa bannað slíka notkun.

Við bendum lesandanum einnig á svar Viðars Guðmundssonar prófessors í eðlisfræði við spurningunni Eru rafsegulbylgjur frá farsímum og öðrum raftækjum skaðlegar heilsunni eða erfðaefninu?

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Upphaflega var spurt:
Er það satt að GSM símar geti valdið krabbameini?
Hér er einnig svarað spurningu Guðríðar Arnardóttur:
Hefur notkun GSM-síma skaðleg áhrif á heilann?

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

6.6.2000

Spyrjandi

Egill A.
Arnar M.
Lena Kristín

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Eru GSM-símar skaðlegir heilsunni?“ Vísindavefurinn, 6. júní 2000. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=493.

Magnús Jóhannsson. (2000, 6. júní). Eru GSM-símar skaðlegir heilsunni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=493

Magnús Jóhannsson. „Eru GSM-símar skaðlegir heilsunni?“ Vísindavefurinn. 6. jún. 2000. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=493>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru GSM-símar skaðlegir heilsunni?
Fjölmiðlar flytja reglulega fréttir af því hve hættulegt kunni að vera að nota farsíma. Þar er skýrt frá áhyggjum manna af því að farsímar kunni að valda krabbameini eða heilaskemmdum með einkennum eins og svefntruflunum, minnistapi, höfuðverk, ógleði og svima svo nokkuð sé nefnt. Hér er mikið í húfi því að minnsta kosti 500 milljónir manna nota farsíma daglega og fer þeim stöðugt fjölgandi.

Farsímar senda og taka á móti útvarpsbylgjum á örbylgjutíðni á bilinu 450-1800 megarið (MHz). NMT-kerfið notar 450 MHz og GSM-kerfin í Evrópu og víðar nota 900 MHz. Á þessu tíðnibili eru engar vísbendingar um að tíðnin sjálf skipti máli fyrir hugsanleg skaðleg áhrif á lifandi verur.

Þegar farsími er notaður fara þessar bylgjur um loftnet sem er haldið upp að eyra eða gagnaugasvæði. Örbylgjur af þessari tíðni hita umhverfið og hafa áhyggjur manna einkum beinst að því að farsímanotkun hiti heilann og valdi þannig skemmdum á honum. Venjulegur farsími sendir með orku sem er um 1 watt og útreikningar benda til þess að notkun hans gæti hækkað hitastig staðbundið í heilanum um 0,1°C. Slík hitahækkun gæti tæplega valdið skemmdum þar sem sótthiti getur hækkað líkamshitann, og þar með hitann í heilanum, um nokkrar gráður án þess að valda skemmdum. Ef örbylgjur frá farsímum eru heilsuspillandi væri því um að ræða annars konar áhrif en hitahækkun; gallinn er sá að ekkert er vitað um hvaða áhrif gæti verið að ræða.

Örbylgjur frá farsímum eru ekki jónandi, eins og röntgengeislar og geislun frá geislavirkum efnum, og ættu því ekki að geta valdið skemmdum á erfðaefninu (DNA), stökkbreytingum eða krabbameini.

Flest bendir til þess að notkun farsíma sé hættulaus fyrir heilsuna.

En hvað er vitað um þessa hluti, hvaðan kemur sú vitneskja og eru til öryggisstaðlar sem við getum treyst? Mjög viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna hvort farsímanotkun sé hættuleg. Rannsóknir hafa verið gerðar á lifandi frumum og dýrum sem hafa verið langtímum saman í missterku örbylgjusviði. Þannig hafa verið fundin mörk fyrir styrk örbylgna sem hefur ekki áhrif á lifandi verur og út frá því hafa verið settir öryggisstaðlar fyrir fólk, sem eru svolítið mismunandi eftir löndum en eru oftast um það bil 2% af áðurnefndum mörkum í dýratilraunum. Farsímar og sendar fyrir farsíma liggja langt innan þessara öryggisstaðla. Gerðar hafa verið margar dýratilraunir með örbylgjur af svipuðum styrk og farsímanotendur verða fyrir og næstum engin þeirra sýnir áhrif á líkamsstarfsemina.

Einstaka tilraunir sýna einhvers konar áhrif en ýmist hefur ekki tekist að endurtaka þær eða niðurstöðurnar eru í andstöðu við aðrar tilraunir. Rannsóknir á fólki eru að mestu leyti faraldsfræðilegar og beinast að því hvort farsímanotendum sé hættara en öðrum við að fá krabbamein (til dæmis heilaæxli), hrörnunarsjúkdóma í heila eða hvítblæði svo að eitthvað sé nefnt. Hér gildir svipað og um dýratilraunirnar: Í nær öllum rannsóknum á fólki finnst ekkert samband milli farsímanotkunar og sjúkdóma en í einstaka rannsókn hefur fundist slíkt samband. Sama gildir um senda í dreifikerfi fyrir farsíma en loftnet fyrir slíka senda eru ýmist í sérstökum turnum eða á húsþökum.

Samkvæmt stöðlunum er hættulegt að koma nær loftnetunum en 5-10 metra en rannsóknir á þeim sem búa eða starfa í húsum sem hafa farsímaloftnet á þakinu benda ekki til heilsuspillandi áhrifa. Í nýlegri rannsókn á fólki kom í ljós að farsímar höfðu viss örvandi áhrif á heilann, juku einbeitingu og flýttu fyrir ákvarðanatöku. Hvort þetta er rétt, jákvætt eða neikvætt eða hvort það hefur þýðingu fyrir heilsufar vitum við ekki. Ef allt er tekið saman bendir flest til þess að notkun farsíma sé hættulaus fyrir heilsuna en við getum ekki enn þá verið alveg viss og því er sjálfsagt að fara varlega. Ekki er heldur hægt að útiloka að vissir hópar í þjóðfélaginu, til dæmis börn og unglingar, séu viðkvæmari fyrir þessum áhrifum en aðrir.

Farsímaframleiðendur hafa staðið sig frekar illa, ekki gert mikið til að draga úr örbylgjugeislun frá símunum inn í heilann og dregið lappirnar með að gefa upp styrk útgeislunar fyrir hverja tegund farsíma. Það sem við getum gert er að nota farsíma sem minnst, kaupa á símann sérstaka hlíf sem minnkar útgeislun og nota handfrjálsan búnað, en að vísu er umdeilt hvort handfrjáls búnaður minnki örbylgjugeislun inn í heilann.

Að einu leyti eru farsímar örugglega hættulegir en það er þegar ökumenn nota þá í akstri. Nú er búið að sýna svo rækilega fram á aukna slysatíðni af völdum farsímanotenda í umferðinni að hvert landið á fætur öðru, þar á meðal flest lönd í Norður-Evrópu, hafa bannað slíka notkun.

Við bendum lesandanum einnig á svar Viðars Guðmundssonar prófessors í eðlisfræði við spurningunni Eru rafsegulbylgjur frá farsímum og öðrum raftækjum skaðlegar heilsunni eða erfðaefninu?

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Upphaflega var spurt:
Er það satt að GSM símar geti valdið krabbameini?
Hér er einnig svarað spurningu Guðríðar Arnardóttur:
Hefur notkun GSM-síma skaðleg áhrif á heilann?
...