Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er munurinn á hagfræði og viðskiptafræði?

Hagfræði má skilgreina á ýmsa vegu. Algengast er væntanlega að lýsa henni sem þeirri fræðigrein sem fjallar um hvernig takmarkaðir framleiðsluþættir eru nýttir til að framleiða vörur og þjónustu til að mæta þörfum og óskum manna. Með framleiðsluþáttum er hér átt við allt sem nýtt er í slíkri starfsemi, svo sem vinna, þekking, náttúruauðlindir og fjármagn. Framleiðsluþættirnir, og þar með framleiðslugetan, eru takmarkaðir og því fá ekki allir allt sem þeir óska sér. Fyrir vikið þarf með einum eða öðrum hætti að ákveða hvað skuli framleiða og hverjir eigi að njóta góðs af slíkri framleiðslu.

Hagfræði er iðulega skipt í tvennt, eða í rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði. Rekstrarhagfræði fjallar um hvernig grunneiningar sérhvers hagkerfis hegða sér, það er einstaklingar og fyrirtæki, en þjóðhagfræðin lítur á hagkerfið sem heild. Skilin þarna á milli eru þó ekki alltaf skörp.

Viðskiptafræði er talsvert víðfeðmari fræðigrein en hagfræði og fjallar raunar um nánast allt það sem að gagni getur komið í viðskiptum. Nám í viðskiptafræði endurspeglar þetta og er mjög fjölbreytt. Þannig læra viðskiptafræðingar yfirleitt talsvert um hagfræði en einnig mikið um aðrar greinar. Þær helstu eru stjórnun, markaðsfræði, reikningshald, framleiðsla, fjármál, lögfræði og upplýsingatækni. Áherslurnar eru þó nokkuð mismunandi eftir skólum og námslínum í hverjum skóla. Bæði viðskiptafræðingar og hagfræðingar læra síðan nokkra stærðfræði og tölfræði en hagfræðingarnir yfirleitt nokkuð meira.

Viðskiptafræðingar vinna margvísleg störf, bæði í einkageiranum og hinum opinbera geira. Flestir vinna sem einhvers konar sérfræðingar eða stjórnendur við rekstur fyrirtækja eða stofnana. Hagfræðingar eru mun færri. Þeir vinna sumir hverjir við rekstur eða stjórnun fyrirtækja en þó er algengara að þeir starfi sem sérfræðingar í sinni fræðigrein, ýmist í einkageiranum eða hjá hinu opinbera. Undanfarin ár hafa margir þeirra farið til starfa hjá fjármálafyrirtækjum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Hér er einnig svar við spurningunni:
Hvað er hagfræði og hvað gera hagfræðingar?

Útgáfudagur

5.7.2005

Spyrjandi

Hilmar Þór, f. 1989, Hrannar Már

Höfundur

Gylfi Magnússon

dósent í hagfræði við HÍ

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Hver er munurinn á hagfræði og viðskiptafræði?“ Vísindavefurinn, 5. júlí 2005. Sótt 22. ágúst 2019. http://visindavefur.is/svar.php?id=5111.

Gylfi Magnússon. (2005, 5. júlí). Hver er munurinn á hagfræði og viðskiptafræði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5111

Gylfi Magnússon. „Hver er munurinn á hagfræði og viðskiptafræði?“ Vísindavefurinn. 5. júl. 2005. Vefsíða. 22. ágú. 2019. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5111>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gyða Margrét Pétursdóttir

1973

Gyða Margrét Pétursdóttir er dósent í kynjafræði við Háskóla Íslands. Gyða hefur í rannsóknum sínum leitað svara við persónulegum viðfangsefnum sem eru þá jafnframt samfélagslegs og fræðilegs eðlis.