Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um ástralskar eðlur?

Jón Már Halldórsson

Alls hafa fundist um 540 tegundir af eðlum á meginlandi Ástralíu. Mikill meirihluti þeirra tilheyrir fimm ættum en þær eru gekkóar (Gekkonidae), ormeðlur (Pygopodidae), drekar (Agamidae), skinkur (Scincidae) og frýnur (Varanidae).

Gekkóar eru yfirleitt smáar og stóreygðar nætureðlur. Þær eru sérstaklega algengar í regnskógum í norðausturhluta Ástralíu en þar geta skógarnir ómað af hljóðum þeirra að næturlagi. Rúmlega 100 tegundir gekkóa finnast á meginlandi Ástralíu.

Drekar eru smáar og meðalstórar eðlur. Um 300 tegundir þekkjast á heimsvísu og finnast tæplega 70 þeirra í Ástralíu. Kunnasta ástralska tegundin er kragagáma (Chlamydosaurus kingii). Helstu einkenni dreka er að tennurnar vaxa á utanverðum gómnum og eru því sýnilegri en á öðrum eðlum.



Kragagáma (Chlamydosaurus kingii).

Um 35 tegundir teljast til ættar ormeðla eða snákeðla og lifa þær aðeins í Ástralíu og á Nýju-Gíneu. Margar tegundir finnast um alla Ástralíu nema syðst í suðausturhluta meginlandsins og í regnskógum í norðausturhlutanum. Eins og nafnið gefur til kynna þá minna þessar eðlur á orma eða snáka. Framfótleggirnir eru algjörlega horfnir og í stað afturfóta eru aðeins smáir flipar. Við fyrstu sýn eru þessar eðlur alveg eins og snákar en helsti munurinn á þeim og snákum er tilvist ytri eyrna en snákar hafa aðeins innri eyru.

Alls hefur 28 tegundum frýna verið lýst til tegunda á meginlandi Ástralíu. Ástralskt heiti þeirra er goannas. Kjörsvæði frýna eru mjög þurr svæði í mið- og vesturhluta Ástralíu. Þó finnast þær um mestan hluta meginlandsins og hafa aðlagast margvíslegum búsvæðum, allt frá regnskógum og votlendi til þurrustu svæðanna í Mið-Ástralíu.

Helstu einkenni frýna eru vel þróaðir fótleggir, ílöng og sterkleg hauskúpa og löng og klofin tunga. Stærstu núlifandi eðlur í heimi teljast til frýna en einstaka tegundir geta orðið allt að tveir metrar á lengd. Sumar frýnur eru þó mjög smávaxnar og minnstu tegundirnar verða aðeins um 20 cm langar. Kunnasti meðlimur þessarar ættar er hinn alræmdi kómódódreki (V. komodoensis) sem finnst á fáeinum eyjum í Indónesíu. Hann getur orðið allt að þriggja metra langur og vegið vel yfir 75 kg.



Varanus giganteus af ætt frýna er stærsta eðla Ástralíu og getur hún orðið allt að tveggja metra löng.

Skinkur eru sennilega útbreiddasta ætt eðla í heiminum. Til ættarinnar teljast rúmlega 1280 tegundir eða um 28% af öllum eðlutegundum heimsins. Þær eru einnig í miklum meirihluta ástralskra eðla eða um 60% tegunda. Þetta eru aðallega smáar tegundir sem finnast um gjörvalla Ástralíu. Þó eru til stærri tegundir eins og Trachydosaurus rugosus sem er með stutta og gilda rófu sem dýrið safnar fitu í. Þessi tiltekna tegund finnst á mjög þurrum svæðum í Suður- og Austur-Ástralíu. Skinkum hefur tekist að aðlagast vel nábýli við manninn bæði í bæjum og borgum og einnig á landbúnaðarsvæðum, þar sem þær lifa á skordýrum. Tegundir eins og Cyclodomorphus gerrardii eru þó einungis bundnar við regnskógasvæðin á norðausturhluta meginlandsins.

Fleiri og sjálfsagt þekktari skriðdýr tilheyra ástralskri fánu. Meðal annars lifa þar margar tegundir snáka, sumir þeirra með þeim eitruðustu í heiminum. Ekki má gleyma sækrókódílnum eða saltvatnskrókódílnum (Crocodylus porosus) sem telst vera stærsta núlifandi skriðdýr jarðar. Stærstu dýrin geta orðið allt að eitt tonn að þyngd.

Heimildir og myndir:

  • Bauer, Aaron M. (1998). Encyclopedia of Reptiles and Amphibians. Cogger, H.G. & Zweifel, R.G. (ritstj.) San Diego: Academic Press. bls. 134–136.
  • Cogger, H. G. 1992. Reptiles and Amphibians of Australia. Cornell University Press. Ithaca.
  • King, D. og B. Green. 1993. Family Varanidae. Í: Glasby, C.J., G.J.B. Ross, og P. L. Beesley (ritstj.) Fauna of Australia. Amphibia and Reptilia. Australian Government Publishing Service, Canberra 2:A.
  • Mynd af kragagámu: Professional Pest Control. Sótt 20. 3. 2009.
  • Mynd af Varanus gigante: Perentie á Wikipedia. Birt undir GNU Free Documentation leyfi. Sótt 20. 3. 2009.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

23.3.2009

Spyrjandi

Jón Daníel Magnússon, f. 1998

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um ástralskar eðlur?“ Vísindavefurinn, 23. mars 2009, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=51779.

Jón Már Halldórsson. (2009, 23. mars). Hvað getið þið sagt mér um ástralskar eðlur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=51779

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um ástralskar eðlur?“ Vísindavefurinn. 23. mar. 2009. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=51779>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um ástralskar eðlur?
Alls hafa fundist um 540 tegundir af eðlum á meginlandi Ástralíu. Mikill meirihluti þeirra tilheyrir fimm ættum en þær eru gekkóar (Gekkonidae), ormeðlur (Pygopodidae), drekar (Agamidae), skinkur (Scincidae) og frýnur (Varanidae).

Gekkóar eru yfirleitt smáar og stóreygðar nætureðlur. Þær eru sérstaklega algengar í regnskógum í norðausturhluta Ástralíu en þar geta skógarnir ómað af hljóðum þeirra að næturlagi. Rúmlega 100 tegundir gekkóa finnast á meginlandi Ástralíu.

Drekar eru smáar og meðalstórar eðlur. Um 300 tegundir þekkjast á heimsvísu og finnast tæplega 70 þeirra í Ástralíu. Kunnasta ástralska tegundin er kragagáma (Chlamydosaurus kingii). Helstu einkenni dreka er að tennurnar vaxa á utanverðum gómnum og eru því sýnilegri en á öðrum eðlum.



Kragagáma (Chlamydosaurus kingii).

Um 35 tegundir teljast til ættar ormeðla eða snákeðla og lifa þær aðeins í Ástralíu og á Nýju-Gíneu. Margar tegundir finnast um alla Ástralíu nema syðst í suðausturhluta meginlandsins og í regnskógum í norðausturhlutanum. Eins og nafnið gefur til kynna þá minna þessar eðlur á orma eða snáka. Framfótleggirnir eru algjörlega horfnir og í stað afturfóta eru aðeins smáir flipar. Við fyrstu sýn eru þessar eðlur alveg eins og snákar en helsti munurinn á þeim og snákum er tilvist ytri eyrna en snákar hafa aðeins innri eyru.

Alls hefur 28 tegundum frýna verið lýst til tegunda á meginlandi Ástralíu. Ástralskt heiti þeirra er goannas. Kjörsvæði frýna eru mjög þurr svæði í mið- og vesturhluta Ástralíu. Þó finnast þær um mestan hluta meginlandsins og hafa aðlagast margvíslegum búsvæðum, allt frá regnskógum og votlendi til þurrustu svæðanna í Mið-Ástralíu.

Helstu einkenni frýna eru vel þróaðir fótleggir, ílöng og sterkleg hauskúpa og löng og klofin tunga. Stærstu núlifandi eðlur í heimi teljast til frýna en einstaka tegundir geta orðið allt að tveir metrar á lengd. Sumar frýnur eru þó mjög smávaxnar og minnstu tegundirnar verða aðeins um 20 cm langar. Kunnasti meðlimur þessarar ættar er hinn alræmdi kómódódreki (V. komodoensis) sem finnst á fáeinum eyjum í Indónesíu. Hann getur orðið allt að þriggja metra langur og vegið vel yfir 75 kg.



Varanus giganteus af ætt frýna er stærsta eðla Ástralíu og getur hún orðið allt að tveggja metra löng.

Skinkur eru sennilega útbreiddasta ætt eðla í heiminum. Til ættarinnar teljast rúmlega 1280 tegundir eða um 28% af öllum eðlutegundum heimsins. Þær eru einnig í miklum meirihluta ástralskra eðla eða um 60% tegunda. Þetta eru aðallega smáar tegundir sem finnast um gjörvalla Ástralíu. Þó eru til stærri tegundir eins og Trachydosaurus rugosus sem er með stutta og gilda rófu sem dýrið safnar fitu í. Þessi tiltekna tegund finnst á mjög þurrum svæðum í Suður- og Austur-Ástralíu. Skinkum hefur tekist að aðlagast vel nábýli við manninn bæði í bæjum og borgum og einnig á landbúnaðarsvæðum, þar sem þær lifa á skordýrum. Tegundir eins og Cyclodomorphus gerrardii eru þó einungis bundnar við regnskógasvæðin á norðausturhluta meginlandsins.

Fleiri og sjálfsagt þekktari skriðdýr tilheyra ástralskri fánu. Meðal annars lifa þar margar tegundir snáka, sumir þeirra með þeim eitruðustu í heiminum. Ekki má gleyma sækrókódílnum eða saltvatnskrókódílnum (Crocodylus porosus) sem telst vera stærsta núlifandi skriðdýr jarðar. Stærstu dýrin geta orðið allt að eitt tonn að þyngd.

Heimildir og myndir:

  • Bauer, Aaron M. (1998). Encyclopedia of Reptiles and Amphibians. Cogger, H.G. & Zweifel, R.G. (ritstj.) San Diego: Academic Press. bls. 134–136.
  • Cogger, H. G. 1992. Reptiles and Amphibians of Australia. Cornell University Press. Ithaca.
  • King, D. og B. Green. 1993. Family Varanidae. Í: Glasby, C.J., G.J.B. Ross, og P. L. Beesley (ritstj.) Fauna of Australia. Amphibia and Reptilia. Australian Government Publishing Service, Canberra 2:A.
  • Mynd af kragagámu: Professional Pest Control. Sótt 20. 3. 2009.
  • Mynd af Varanus gigante: Perentie á Wikipedia. Birt undir GNU Free Documentation leyfi. Sótt 20. 3. 2009....