Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Eru hættulegar jurtir allt í kringum okkur?

Magnús Jóhannsson

Sumir virðast halda að allt, eða að minnsta kosti flest, sem kemur úr náttúrunni, og þá sérstaklega úr jurtaríkinu, sé hollt og heilnæmt. Þá gleymist að mörg af lúmskustu og sterkustu eiturefnum sem við þekkjum koma einmitt úr jurtaríkinu. Fáein dæmi um vel þekkt eiturefni úr jurtaríkinu eru blásýra, nikótín, kókaín, ópíum, digitalis, koffín og kannabis en þar að auki er mikill fjöldi eitraðra efna sem eru minna þekkt.

Fyrir utan þessi eiturefni eru ýmis sem valda ofnæmi með útbrotum, snertiexemi eða gera húðina svo viðkvæma fyrir ljósi að jafnvel innilýsing getur valdið bruna (annars stigs) með vessandi blöðrum og sárum. Plöntur sem geta valdið útbrotum af ýmsum toga er að finna nánast alls staðar í umhverfi okkar, sem stofublóm, garðagróður, grænmeti eða villtar jurtir úti í náttúrunni. Sumar af hættulegustu plöntunum, til dæmis risahvannir, er auðvelt að þekkja og þess vegna auðvelt að varast.


Risahönn getur valdið slæmu ljósertiexemi. Í safa plöntunnar eru efni sem valda því að húð fólks verður ofurnæm fyrir útfjólubláu ljósi. Við minnstu birtu fær viðkomandi annars stigs bruna með vessandi blöðrum.

Víða í görðum á Íslandi er að finna risahvannir sem sumar geta orðið 2-3 metrar á hæð og eru oft til mikillar prýði og stolt margra garðeigenda. Þarna er einkum um að ræða bjarnarkló en til eru fleiri tegundir risahvanna (af ættinni Heracleum). Risahvannir eru svo nefndar vegna þess að þær líkjast og eru skyldar ætihvönn en eru miklu stærri. Nokkrar tegundir risahvanna vaxa hér og er dálítill ruglingur á nafngiftum þannig að handbókum ber ekki saman en algengastar eru bjarnarkló, tröllahvönn og tromsöpálmi. Í því samhengi sem hér um ræðir eru allar tegundir risahvanna álíka eitraðar. Risahvannir er að finna í görðum víða um land.

Risahvannir eru eitraðar á þann hátt að berist safi úr blöðum eða stönglum á húð, veldur það ljósertiexemi. Í safa plöntunnar eru efni (einkum efnið psoralen) sem sogast fljótt inn í húðina og valda því að hún verður ofurviðkvæm fyrir útfjólubláu ljósi. Við minnstu birtu fær viðkomandi annars stigs bruna með vessandi blöðrum og sárum sem oft eru í rákum eða skellum þar sem plöntusafinn straukst eða draup á húðina en slíkt kallast ljósertiexem. Útbrotin koma oftast 5-18 klst. eftir sólbað og eru verst eftir 1½ til 2 sólarhringa. Húðin er viðkvæm í nokkrar vikur og eina ráðið er að verja viðkomandi húðsvæði fyrir ljósi en það getur verið erfitt til dæmis í andliti. Þegar brunasárin hafa gróið skilja þau oftast eftir brúna bletti sem geta verið mörg ár að hverfa.

Slysin verða þegar fólk er að klippa eða grisja plönturnar eða við leik hjá börnum, til dæmis ef þau nota hola stöngla plöntunnar fyrir blásturspípur. Mörg tilvik af slæmum bruna eftir risahvannir eru þekkt hér á landi og hafa sjúklingarnir leitað á heilsugæslustöðvar eða til sérfræðinga í húðsjúkdómum. Hættulegast er ef fólk kemst í snertingu við plöntur sem eru eitraðar á þennan hátt og fer síðan í sólbað eða á sólbaðsstofu. Hér á landi eru þekkt nokkur tilvik af slæmum bruna hjá fólki sem vann við að snyrta og pakka selleríi (blaðselju) og fór síðan á sólbaðstofu.

Fjöldinn allur af plöntum inniheldur efni sem gera húðina viðkvæma fyrir ljósi og geta valdið ljósertiexemi og fyrir utan risahvannir og sellerí má þar nefna hvannir, nípu, gulrætur (stönglar og blöð), ýmsar sóleyjar, steinselju, fíkjutré, dill, linditré og sumar tegundir sinnepsplantna. Það er því virkilega ástæða til að varast þær plöntur sem hér hafa verið nefndar og vafasamt er að risahvannir eigi rétt á sér á stöðum þar sem börn eru að leik og í almenningsgörðum.

Ýmsar jurtir geta valdið útbrotum (snertiexemi) á annan hátt en hér hefur verið lýst og má þar nefna páskaliljur, túlípana (laukurinn), köllubróður (Dieffenbachia), gúmmítré, hvítlauk og margt fleira.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Magnús Jóhannsson

prófessor emeritus í líflyfjafræði við HÍ

Útgáfudagur

1.4.2009

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Magnús Jóhannsson. „Eru hættulegar jurtir allt í kringum okkur?“ Vísindavefurinn, 1. apríl 2009. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=52204.

Magnús Jóhannsson. (2009, 1. apríl). Eru hættulegar jurtir allt í kringum okkur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=52204

Magnús Jóhannsson. „Eru hættulegar jurtir allt í kringum okkur?“ Vísindavefurinn. 1. apr. 2009. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=52204>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Eru hættulegar jurtir allt í kringum okkur?
Sumir virðast halda að allt, eða að minnsta kosti flest, sem kemur úr náttúrunni, og þá sérstaklega úr jurtaríkinu, sé hollt og heilnæmt. Þá gleymist að mörg af lúmskustu og sterkustu eiturefnum sem við þekkjum koma einmitt úr jurtaríkinu. Fáein dæmi um vel þekkt eiturefni úr jurtaríkinu eru blásýra, nikótín, kókaín, ópíum, digitalis, koffín og kannabis en þar að auki er mikill fjöldi eitraðra efna sem eru minna þekkt.

Fyrir utan þessi eiturefni eru ýmis sem valda ofnæmi með útbrotum, snertiexemi eða gera húðina svo viðkvæma fyrir ljósi að jafnvel innilýsing getur valdið bruna (annars stigs) með vessandi blöðrum og sárum. Plöntur sem geta valdið útbrotum af ýmsum toga er að finna nánast alls staðar í umhverfi okkar, sem stofublóm, garðagróður, grænmeti eða villtar jurtir úti í náttúrunni. Sumar af hættulegustu plöntunum, til dæmis risahvannir, er auðvelt að þekkja og þess vegna auðvelt að varast.


Risahönn getur valdið slæmu ljósertiexemi. Í safa plöntunnar eru efni sem valda því að húð fólks verður ofurnæm fyrir útfjólubláu ljósi. Við minnstu birtu fær viðkomandi annars stigs bruna með vessandi blöðrum.

Víða í görðum á Íslandi er að finna risahvannir sem sumar geta orðið 2-3 metrar á hæð og eru oft til mikillar prýði og stolt margra garðeigenda. Þarna er einkum um að ræða bjarnarkló en til eru fleiri tegundir risahvanna (af ættinni Heracleum). Risahvannir eru svo nefndar vegna þess að þær líkjast og eru skyldar ætihvönn en eru miklu stærri. Nokkrar tegundir risahvanna vaxa hér og er dálítill ruglingur á nafngiftum þannig að handbókum ber ekki saman en algengastar eru bjarnarkló, tröllahvönn og tromsöpálmi. Í því samhengi sem hér um ræðir eru allar tegundir risahvanna álíka eitraðar. Risahvannir er að finna í görðum víða um land.

Risahvannir eru eitraðar á þann hátt að berist safi úr blöðum eða stönglum á húð, veldur það ljósertiexemi. Í safa plöntunnar eru efni (einkum efnið psoralen) sem sogast fljótt inn í húðina og valda því að hún verður ofurviðkvæm fyrir útfjólubláu ljósi. Við minnstu birtu fær viðkomandi annars stigs bruna með vessandi blöðrum og sárum sem oft eru í rákum eða skellum þar sem plöntusafinn straukst eða draup á húðina en slíkt kallast ljósertiexem. Útbrotin koma oftast 5-18 klst. eftir sólbað og eru verst eftir 1½ til 2 sólarhringa. Húðin er viðkvæm í nokkrar vikur og eina ráðið er að verja viðkomandi húðsvæði fyrir ljósi en það getur verið erfitt til dæmis í andliti. Þegar brunasárin hafa gróið skilja þau oftast eftir brúna bletti sem geta verið mörg ár að hverfa.

Slysin verða þegar fólk er að klippa eða grisja plönturnar eða við leik hjá börnum, til dæmis ef þau nota hola stöngla plöntunnar fyrir blásturspípur. Mörg tilvik af slæmum bruna eftir risahvannir eru þekkt hér á landi og hafa sjúklingarnir leitað á heilsugæslustöðvar eða til sérfræðinga í húðsjúkdómum. Hættulegast er ef fólk kemst í snertingu við plöntur sem eru eitraðar á þennan hátt og fer síðan í sólbað eða á sólbaðsstofu. Hér á landi eru þekkt nokkur tilvik af slæmum bruna hjá fólki sem vann við að snyrta og pakka selleríi (blaðselju) og fór síðan á sólbaðstofu.

Fjöldinn allur af plöntum inniheldur efni sem gera húðina viðkvæma fyrir ljósi og geta valdið ljósertiexemi og fyrir utan risahvannir og sellerí má þar nefna hvannir, nípu, gulrætur (stönglar og blöð), ýmsar sóleyjar, steinselju, fíkjutré, dill, linditré og sumar tegundir sinnepsplantna. Það er því virkilega ástæða til að varast þær plöntur sem hér hafa verið nefndar og vafasamt er að risahvannir eigi rétt á sér á stöðum þar sem börn eru að leik og í almenningsgörðum.

Ýmsar jurtir geta valdið útbrotum (snertiexemi) á annan hátt en hér hefur verið lýst og má þar nefna páskaliljur, túlípana (laukurinn), köllubróður (Dieffenbachia), gúmmítré, hvítlauk og margt fleira.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Mynd: