Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:02 • sest 15:37 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:37 • Sest 23:27 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:30 • Síðdegis: 23:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:04 • Síðdegis: 17:00 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd?

Sigmundur Guðbjarnason (1931-2023)

Ætihvönn er ein merkasta lækningajurt Íslandssögunnar en hvönnin var notuð á Íslandi allt frá landnámi. Ætihvönnin var vel þekkt meðal fyrstu landnema á Íslandi. Auk þess að vera mikilvæg matjurt á Norðurlöndum og Bretlandseyjum var lækningamáttur hvannarinnar vel þekktur meðal norrænna manna. Ætihvönn óx einnig sunnar í Evrópu en sú norræna þótti kraftmeiri.

Ætihvönn (Angelica archangelica).

Þegar víkingar hófu verslunarferðir til Evrópulanda á níundu öld var ætihvönnin mikilvæg verslunarvara. Á haustin tóku menn með sér þurrkaðar hvannarætur sem notaðar voru sem gjaldmiðill í verslun við innfædda. Sjaldan er getið um nytjajurtir í íslenskum miðaldaritum en hvannir koma þó fyrir á nokkrum stöðum. Í Grágás er til dæmis kveðið á um viðurlög við stuldi á hvönn, útlegð eða sekt ef teknar voru hvannir í annarra garði.

Latneskt heiti ætihvannar er Angelica archangelica. Sagan segir að þegar bólusóttarfaraldur fór um Evrópu 1665 þá hafi munk einn dreymt að engill hafi sýnt honum jurt, ætihvönn, sem gæti læknað menn af drepsóttinni. Munkurinn nefndi jurtina Angelica archangelica eftir englinum og hefur nafnið verið notað síðan. Bólusótt er smitsjúkdómur og var oftast banvænn en síðari tíma rannsóknir hafa sýnt að í ætihvönninni eru ýmis sýkladrepandi efni og hefði hún því getað komið að gagni.

Notkun ætihvannar

Hvönnin var öll notuð, ræturnar sem voru þurrkaðar, blaðstilkar, laufið og fræin. Áhrifin voru einkum talin felast í því að styrkja og verma meltingarfærin, örva meltinguna, eyða spennu og losa slím. Ætihvönn var einkum talin góð fyrir fólk sem var að ná sér eftir erfið veikindi, ef það skorti þrek og kraft.

Ætihvönn var notuð við meltingartruflunum svo sem krampa og vindi í meltingarfærum og gegn kvilla í lifur. Hvönnin var talin mjög góð til að losa slím úr öndunarfærum og var hún notuð við bronkítis og brjósthimnubólgu og öðrum lungnakvillum. Fræin voru talin góð við krabbameini.

Algengast var að búa til te og seyði en einnig jurtaveig (tinktúru í 45% vínanda) af laufi, rót eða fræjum. Áherslan á notkun hvannar við kvillum í öndunarfærum og meltingarfærum er skiljanleg þegar haft er í huga að fólk bjó oft í röku og jafnvel köldu húsnæði og maturinn var oft gamall og jafnvel skemmdur.

Ætihvönnin er ekki aðeins forn lækningajurt, hún er einnig vinsæl sem bragðefni. Ætihvönn hefur verið notuð sem bragðefni í framleiðslu á líkjörum (Chartreuse og Benedictine) og Vermouth og Dubonnet. Bragðefnin úr hvönn hafa einnig verið notuð í framleiðslu á gini og Muscatel Rínarvíni að ógleymdu hvannarótarbrennivíni. Ætihvönn er einnig notuð sem matvara, sem fersk kryddjurt á kjöt og fisk. Matvæla- og lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum (FDA) samþykkir ætihvönnina til neyslu (Generally Regarded as Safe).

Íslenskar rannsóknir á virkni ætihvannar

Rannsóknir á Raunvísindastofnun hafa sýnt að í ætihvönn eru efni sem verka á bakteríur, veirur, sveppi og jafnvel á krabbameinsfrumur, og þar eru efni sem virðast örva ónæmiskerfið. Þessar niðurstöður staðfesta þá reynsluþekkingu liðinna kynslóða, að ætihvönnin getur verið mjög virk lækningajurt.

Virkni afurða úr íslenskum lækningajurtum hefur verið borin saman við erlendar vörur úr samskonar jurtum sem vaxa á suðlægari slóðum. Virkni íslensku jurtanna hefur reynst mun meiri en þeirra erlendu. Þetta staðfestir tiltrú manna frá víkingatímanum.

Mynd:
  • EDS. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Höfundur

prófessor emeritus í efnafræði við HÍ

Útgáfudagur

3.10.2001

Síðast uppfært

27.4.2023

Spyrjandi

Patricia Jonsson

Tilvísun

Sigmundur Guðbjarnason (1931-2023). „Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd?“ Vísindavefurinn, 3. október 2001, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1888.

Sigmundur Guðbjarnason (1931-2023). (2001, 3. október). Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1888

Sigmundur Guðbjarnason (1931-2023). „Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd?“ Vísindavefurinn. 3. okt. 2001. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1888>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er ætihvönn góð sem grasalyf og ef svo er, hvernig er hún þá matreidd?
Ætihvönn er ein merkasta lækningajurt Íslandssögunnar en hvönnin var notuð á Íslandi allt frá landnámi. Ætihvönnin var vel þekkt meðal fyrstu landnema á Íslandi. Auk þess að vera mikilvæg matjurt á Norðurlöndum og Bretlandseyjum var lækningamáttur hvannarinnar vel þekktur meðal norrænna manna. Ætihvönn óx einnig sunnar í Evrópu en sú norræna þótti kraftmeiri.

Ætihvönn (Angelica archangelica).

Þegar víkingar hófu verslunarferðir til Evrópulanda á níundu öld var ætihvönnin mikilvæg verslunarvara. Á haustin tóku menn með sér þurrkaðar hvannarætur sem notaðar voru sem gjaldmiðill í verslun við innfædda. Sjaldan er getið um nytjajurtir í íslenskum miðaldaritum en hvannir koma þó fyrir á nokkrum stöðum. Í Grágás er til dæmis kveðið á um viðurlög við stuldi á hvönn, útlegð eða sekt ef teknar voru hvannir í annarra garði.

Latneskt heiti ætihvannar er Angelica archangelica. Sagan segir að þegar bólusóttarfaraldur fór um Evrópu 1665 þá hafi munk einn dreymt að engill hafi sýnt honum jurt, ætihvönn, sem gæti læknað menn af drepsóttinni. Munkurinn nefndi jurtina Angelica archangelica eftir englinum og hefur nafnið verið notað síðan. Bólusótt er smitsjúkdómur og var oftast banvænn en síðari tíma rannsóknir hafa sýnt að í ætihvönninni eru ýmis sýkladrepandi efni og hefði hún því getað komið að gagni.

Notkun ætihvannar

Hvönnin var öll notuð, ræturnar sem voru þurrkaðar, blaðstilkar, laufið og fræin. Áhrifin voru einkum talin felast í því að styrkja og verma meltingarfærin, örva meltinguna, eyða spennu og losa slím. Ætihvönn var einkum talin góð fyrir fólk sem var að ná sér eftir erfið veikindi, ef það skorti þrek og kraft.

Ætihvönn var notuð við meltingartruflunum svo sem krampa og vindi í meltingarfærum og gegn kvilla í lifur. Hvönnin var talin mjög góð til að losa slím úr öndunarfærum og var hún notuð við bronkítis og brjósthimnubólgu og öðrum lungnakvillum. Fræin voru talin góð við krabbameini.

Algengast var að búa til te og seyði en einnig jurtaveig (tinktúru í 45% vínanda) af laufi, rót eða fræjum. Áherslan á notkun hvannar við kvillum í öndunarfærum og meltingarfærum er skiljanleg þegar haft er í huga að fólk bjó oft í röku og jafnvel köldu húsnæði og maturinn var oft gamall og jafnvel skemmdur.

Ætihvönnin er ekki aðeins forn lækningajurt, hún er einnig vinsæl sem bragðefni. Ætihvönn hefur verið notuð sem bragðefni í framleiðslu á líkjörum (Chartreuse og Benedictine) og Vermouth og Dubonnet. Bragðefnin úr hvönn hafa einnig verið notuð í framleiðslu á gini og Muscatel Rínarvíni að ógleymdu hvannarótarbrennivíni. Ætihvönn er einnig notuð sem matvara, sem fersk kryddjurt á kjöt og fisk. Matvæla- og lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum (FDA) samþykkir ætihvönnina til neyslu (Generally Regarded as Safe).

Íslenskar rannsóknir á virkni ætihvannar

Rannsóknir á Raunvísindastofnun hafa sýnt að í ætihvönn eru efni sem verka á bakteríur, veirur, sveppi og jafnvel á krabbameinsfrumur, og þar eru efni sem virðast örva ónæmiskerfið. Þessar niðurstöður staðfesta þá reynsluþekkingu liðinna kynslóða, að ætihvönnin getur verið mjög virk lækningajurt.

Virkni afurða úr íslenskum lækningajurtum hefur verið borin saman við erlendar vörur úr samskonar jurtum sem vaxa á suðlægari slóðum. Virkni íslensku jurtanna hefur reynst mun meiri en þeirra erlendu. Þetta staðfestir tiltrú manna frá víkingatímanum.

Mynd:
  • EDS. Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.
...