Sólin Sólin Rís 03:40 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:00 • Síðdegis: 00:00 í Reykjavík

Hvað eru frumdýr?

Jón Már Halldórsson

Frumdýr (protozoa) eru litlar lífverur, venjulega á bilinu 10-50 μm (míkrómetrar) að stærð. Sumar tegundir geta þó orðið allt að 1mm og því vel sýnilegar í víðsjá. Frumdýr eru langflest einfrumungar en fáeinar tegundir mynda sambú frumna.

Lífríkinu er gjarnan skipt í þrjú yfirríki, en það eru gerlar (bacteria), forngerlar (archeae) og heilkjörnungar (eukarya). Um þetta er meðal annars fjallað í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um fornbakteríur? Frumdýr tilheyra síðastnefnda ríkinu ásamt plöntum (plantae), dýrum (animalia) og sveppum (fungi).

Vísindamenn hafa reynt að geta sér til um fjölda tegunda frumdýra en sennilega eru þeir ekki nálægt réttu svari, ekki frekar en við mat á fjölda skordýrategunda. Um 65 þúsund tegundum frumdýra hefur verið lýst en sjálfsagt er fjöldinn margfalt meiri.

Frumdýr eru mun stærri hluti af vistkerfi jarðar en hryggdýr (vertebrata) hvort sem miðað er við einstaklingsfjölda eða heildarlífþyngd. Frumdýr eru mjög mikilvæg í vistkerfinu því þau eru aðal neytendur gerla og smásærra sveppa. Án frumdýra yrði vöxtur þessara hópa í lífkerfinu því sem næst stjórnlaus sem aftur hefði veruleg áhrif á lífsskilyrði annarra lífvera hér á jörðinni. Frumdýr eru einnig sníklar og samlífisdýr meðal vefdýra og gegna mikilvægu hlutverki í rotnunarferlum í fæðukeðjunni. Síðast en ekki síst eru frumdýr mikilvæg fæðuuppspretta fyrir smáa hryggleysingja.

Fjórir meginflokkar frumdýra eru flokkaðir sem fylkingar. Þær eru slímdýr (Sarcodina), gródýr (Sporozoa), bifdýr (Ciliophora) og svipudýr (Mastigophora).

Slímdýr

Tegundir sem tilheyra slímdýrum hreyfast úr stað og afla sér fæðu með skynfótum. Amaban er líklega kunnasta ættkvísl slímdýra. Tegundir þessarar ættkvíslar eru naktar og lifa sumar þeirra sníkjulífi. Meðal annars orsakar Entamoeba histolytica amöbublóðsótt í mönnum.Amaba af tegundinni Naegleria fowleri getur valdið dauða hjá mönnum. Hún berst yfirleitt um nef til heila og getur dregið fólk til dauða á tveimur vikum. Fjallað er um þessa amöbu og sjúkdóminn sem hún veldur í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um heilaétandi slímdýrið sem fannst í Flórída?

Önnur slímdýr hylja sig með skeljum sem fruman myndar. Má þar til dæmis nefna götunga (foraminifera) en þeir mynda kalkskeljar með margvíslegu sniði sem minna mjög á örlitlar kuðungsskeljar. Skynfætur ganga út um mörg lítil göt á skelinni og götungar draga nafn sitt af þessum götum. Götungar eru afar algengir í sjávarsvifi. Við dauða þeirra falla skeljarnar til botns og getur mergð þeirra verið slík að þær séu aðalefni botnsetsins. Við vissar aðstæður ummyndast þessi skeljalög í krít og ef sjávarbotn rís verða þau sýnileg í landslaginu. Kunnasta dæmið um slíkar jarðmyndanir eru krítarklettarnir við Dover á Ermasundsströnd Englands. Geislungar (radiolaria) er annar stór hópur slímdýra í sjávarsvifi.

Bifdýr (bifhærð frumdýr)

Þessi fylking frumdýra er að mati þróunarfræðinga hvað best og lengst þróuð þegar litið er til líkamsgerðar. Bifhárin nota dýrin bæði til þess að synda eða koma sér áfram í vatni og eins til þess að sópa fæðu að munnholi.

Sum bifdýr hafa bifhár allt sitt æviskeið en önnur aðeins í “æsku” en verða bifháralaus á seinni stigum æviferils síns. Sem dæmi um hóp sem hefur aðeins bifhár á fyrstu stigum ævinnar má taka sogdýr (suctoria). Þau eru öll botnföst og fullvaxin hafa þau nokkurs konar arma sem þau nota til að grípa önnur frumdýr og sjúga úr þeim innihaldið.

Fjölmörg bifdýr lifa samlífi, einkum sníkjulífi. Meðal annars þekkjast margar tegundir sem leggjast á fisk svo sem Ichthyophtirius multifilis sem veldur hvítblettaveiki hjá ferskvatnsfiskum.Bifdýr af tegundinni Ophryoscolex. Það er að meðaltali 185 μm langt og eitt stærsta frumdýrið sem lifir í maga kúa.

Gródýr

Gródýr lifa nær eingöngu sníkjulífi og hafa aðlagast því með flóknum lífsferlum sem oftar en ekki krefjast fleiri en eins hýsils. Eins og nafn fylkingarinnar gefur til kynna er gróæxlunarskeið hluti af lífsferlinum. Á gróæxlunarskeiði margskiptist ein fruma svo að úr henni verða samtímis mjög margar litlar frumur. Þessar grófrumur sjá um dreifingu tegundarinnar og halda lífsferlinum áfram.

Hjá sumum gródýrum eru gróin nakin og amöbuleg, en aðrar ættkvíslir mynda gró sem eru varin með hylkjum fyrir áhrifum umhverfisins. Þekktasta gródýrið er líklegast Plasmodium en ýmsar tegundir þessarar ættkvíslar valda malaríu í spendýrum og fuglum. Gródýrin sem valda malaríu í mönnum þurfa moskítóflugu af ættkvíslinni Anopheles sem millihýsil.

Svipudýr

Svipudýr hafa svipu sem þau nota til þess að synda og sópa fæðu að munni. Sennilega voru forfeður þessa hóps náskyldir ljóstillífunarsvipungum þeim sem þörungar eru komnir af. Meðal frumstæðustu svipudýra sem þekkt eru má nefna átlífisverur sem minna mjög í allri líffræði á litlausa svipuþörunga. Til dæmis líkist kragasvipudýr af ættkvíslinni Proterospongia þörungum af fylkingu gullþörunga. Proterospongia nærist á örverum og ýmsum smásæjum lífrænum ögnum. Vel þekkt er að kragasvipudýr mynda hópa eða losaralegt sambú af ýmsum gerðum.

Samlífisform eru mjög algeng meðal svipudýra og hafa sennilega þróast af óbundnum formum. Samlífisverurnar geta verið ákaflega sérhæfðar og aðlagaðar að ákveðnum hýslum. Til dæmis lifir Trychonympha samlífi í þörmum termíta, þar sem svipudýrið meltir við og viðarafurðir sem termítarnir lifa á. Trichomonas lifir gistilífi eða sníkjulífi í þörmum og kynfærum manna. Kunnast þessara frumdýra og sú eina sem er sjúkdómsvaldandi í mönnum er Trichomonas vaginalis sem veldur leggangasýki (Trichomoniasis). Ýmsar tegundir innan Trypanosoma ættkvíslar lifa sem sníklar í blóði ýmissa hryggdýra og má þar nefna tegundina African trypanosomiasis sem veldur svefnsýki í mönnum.

Heimildir og myndir:

  • Barnes Robert, D. Invertebrate zoology. 5. útgáfa. Saunders College edition.
  • C. R. Woese, O. Kandler og M. L. Wheelis. „Towards a Natural System of Organisms: Proposal for the Domains Archaea, Bacteria, and Eucarya“. Proceedings of the National Academy of Sciences. (87) (1990): 4576–4579.
  • Mynd af amöbu: Naegleria fowleri á Centers for Disease Control and Prevention.
  • Mynd af bifdýri: United States Department of Agriculture.

Hér er einnig svarað spurningunni:

Hvað getið þið sagt mér um frumdýr?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

2.7.2009

Spyrjandi

Elín Rós
Sara Kristín

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað eru frumdýr?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2009. Sótt 25. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=52772.

Jón Már Halldórsson. (2009, 2. júlí). Hvað eru frumdýr? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=52772

Jón Már Halldórsson. „Hvað eru frumdýr?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2009. Vefsíða. 25. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=52772>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru frumdýr?
Frumdýr (protozoa) eru litlar lífverur, venjulega á bilinu 10-50 μm (míkrómetrar) að stærð. Sumar tegundir geta þó orðið allt að 1mm og því vel sýnilegar í víðsjá. Frumdýr eru langflest einfrumungar en fáeinar tegundir mynda sambú frumna.

Lífríkinu er gjarnan skipt í þrjú yfirríki, en það eru gerlar (bacteria), forngerlar (archeae) og heilkjörnungar (eukarya). Um þetta er meðal annars fjallað í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um fornbakteríur? Frumdýr tilheyra síðastnefnda ríkinu ásamt plöntum (plantae), dýrum (animalia) og sveppum (fungi).

Vísindamenn hafa reynt að geta sér til um fjölda tegunda frumdýra en sennilega eru þeir ekki nálægt réttu svari, ekki frekar en við mat á fjölda skordýrategunda. Um 65 þúsund tegundum frumdýra hefur verið lýst en sjálfsagt er fjöldinn margfalt meiri.

Frumdýr eru mun stærri hluti af vistkerfi jarðar en hryggdýr (vertebrata) hvort sem miðað er við einstaklingsfjölda eða heildarlífþyngd. Frumdýr eru mjög mikilvæg í vistkerfinu því þau eru aðal neytendur gerla og smásærra sveppa. Án frumdýra yrði vöxtur þessara hópa í lífkerfinu því sem næst stjórnlaus sem aftur hefði veruleg áhrif á lífsskilyrði annarra lífvera hér á jörðinni. Frumdýr eru einnig sníklar og samlífisdýr meðal vefdýra og gegna mikilvægu hlutverki í rotnunarferlum í fæðukeðjunni. Síðast en ekki síst eru frumdýr mikilvæg fæðuuppspretta fyrir smáa hryggleysingja.

Fjórir meginflokkar frumdýra eru flokkaðir sem fylkingar. Þær eru slímdýr (Sarcodina), gródýr (Sporozoa), bifdýr (Ciliophora) og svipudýr (Mastigophora).

Slímdýr

Tegundir sem tilheyra slímdýrum hreyfast úr stað og afla sér fæðu með skynfótum. Amaban er líklega kunnasta ættkvísl slímdýra. Tegundir þessarar ættkvíslar eru naktar og lifa sumar þeirra sníkjulífi. Meðal annars orsakar Entamoeba histolytica amöbublóðsótt í mönnum.Amaba af tegundinni Naegleria fowleri getur valdið dauða hjá mönnum. Hún berst yfirleitt um nef til heila og getur dregið fólk til dauða á tveimur vikum. Fjallað er um þessa amöbu og sjúkdóminn sem hún veldur í svari við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um heilaétandi slímdýrið sem fannst í Flórída?

Önnur slímdýr hylja sig með skeljum sem fruman myndar. Má þar til dæmis nefna götunga (foraminifera) en þeir mynda kalkskeljar með margvíslegu sniði sem minna mjög á örlitlar kuðungsskeljar. Skynfætur ganga út um mörg lítil göt á skelinni og götungar draga nafn sitt af þessum götum. Götungar eru afar algengir í sjávarsvifi. Við dauða þeirra falla skeljarnar til botns og getur mergð þeirra verið slík að þær séu aðalefni botnsetsins. Við vissar aðstæður ummyndast þessi skeljalög í krít og ef sjávarbotn rís verða þau sýnileg í landslaginu. Kunnasta dæmið um slíkar jarðmyndanir eru krítarklettarnir við Dover á Ermasundsströnd Englands. Geislungar (radiolaria) er annar stór hópur slímdýra í sjávarsvifi.

Bifdýr (bifhærð frumdýr)

Þessi fylking frumdýra er að mati þróunarfræðinga hvað best og lengst þróuð þegar litið er til líkamsgerðar. Bifhárin nota dýrin bæði til þess að synda eða koma sér áfram í vatni og eins til þess að sópa fæðu að munnholi.

Sum bifdýr hafa bifhár allt sitt æviskeið en önnur aðeins í “æsku” en verða bifháralaus á seinni stigum æviferils síns. Sem dæmi um hóp sem hefur aðeins bifhár á fyrstu stigum ævinnar má taka sogdýr (suctoria). Þau eru öll botnföst og fullvaxin hafa þau nokkurs konar arma sem þau nota til að grípa önnur frumdýr og sjúga úr þeim innihaldið.

Fjölmörg bifdýr lifa samlífi, einkum sníkjulífi. Meðal annars þekkjast margar tegundir sem leggjast á fisk svo sem Ichthyophtirius multifilis sem veldur hvítblettaveiki hjá ferskvatnsfiskum.Bifdýr af tegundinni Ophryoscolex. Það er að meðaltali 185 μm langt og eitt stærsta frumdýrið sem lifir í maga kúa.

Gródýr

Gródýr lifa nær eingöngu sníkjulífi og hafa aðlagast því með flóknum lífsferlum sem oftar en ekki krefjast fleiri en eins hýsils. Eins og nafn fylkingarinnar gefur til kynna er gróæxlunarskeið hluti af lífsferlinum. Á gróæxlunarskeiði margskiptist ein fruma svo að úr henni verða samtímis mjög margar litlar frumur. Þessar grófrumur sjá um dreifingu tegundarinnar og halda lífsferlinum áfram.

Hjá sumum gródýrum eru gróin nakin og amöbuleg, en aðrar ættkvíslir mynda gró sem eru varin með hylkjum fyrir áhrifum umhverfisins. Þekktasta gródýrið er líklegast Plasmodium en ýmsar tegundir þessarar ættkvíslar valda malaríu í spendýrum og fuglum. Gródýrin sem valda malaríu í mönnum þurfa moskítóflugu af ættkvíslinni Anopheles sem millihýsil.

Svipudýr

Svipudýr hafa svipu sem þau nota til þess að synda og sópa fæðu að munni. Sennilega voru forfeður þessa hóps náskyldir ljóstillífunarsvipungum þeim sem þörungar eru komnir af. Meðal frumstæðustu svipudýra sem þekkt eru má nefna átlífisverur sem minna mjög í allri líffræði á litlausa svipuþörunga. Til dæmis líkist kragasvipudýr af ættkvíslinni Proterospongia þörungum af fylkingu gullþörunga. Proterospongia nærist á örverum og ýmsum smásæjum lífrænum ögnum. Vel þekkt er að kragasvipudýr mynda hópa eða losaralegt sambú af ýmsum gerðum.

Samlífisform eru mjög algeng meðal svipudýra og hafa sennilega þróast af óbundnum formum. Samlífisverurnar geta verið ákaflega sérhæfðar og aðlagaðar að ákveðnum hýslum. Til dæmis lifir Trychonympha samlífi í þörmum termíta, þar sem svipudýrið meltir við og viðarafurðir sem termítarnir lifa á. Trichomonas lifir gistilífi eða sníkjulífi í þörmum og kynfærum manna. Kunnast þessara frumdýra og sú eina sem er sjúkdómsvaldandi í mönnum er Trichomonas vaginalis sem veldur leggangasýki (Trichomoniasis). Ýmsar tegundir innan Trypanosoma ættkvíslar lifa sem sníklar í blóði ýmissa hryggdýra og má þar nefna tegundina African trypanosomiasis sem veldur svefnsýki í mönnum.

Heimildir og myndir:

  • Barnes Robert, D. Invertebrate zoology. 5. útgáfa. Saunders College edition.
  • C. R. Woese, O. Kandler og M. L. Wheelis. „Towards a Natural System of Organisms: Proposal for the Domains Archaea, Bacteria, and Eucarya“. Proceedings of the National Academy of Sciences. (87) (1990): 4576–4579.
  • Mynd af amöbu: Naegleria fowleri á Centers for Disease Control and Prevention.
  • Mynd af bifdýri: United States Department of Agriculture.

Hér er einnig svarað spurningunni:

Hvað getið þið sagt mér um frumdýr?

...