Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrir nokkru bárust fréttir frá Bandaríkjum um aukna tíðni dauðsfalla af völdum slímdýrs eða amöbu sem leggst á heila fórnarlamba sinna. Amaba þessi nefnist á fræðimáli Naegleria fowleri. Á árunum 1995 til 2004 olli hún 23 dauðsföllum í Bandaríkjunum en það sem af er þessu ári (október 2007) hafa sex manns látist.
Amaban Naegleria fowleri finnst bæði á amöbu- (e. trophozoite) og svipustigi (e. flagellated) í 25-35°C heitu ferskvatni. Hún tilheyrir fylkingu frumdýra sem nefnast Percolozoa og er innan ættarinnar Vahlkampfiidae. Margar tegundir ferskvatns- og jarðvegsamaba innan þeirrar ættar lifa sem sníklar í hryggdýrum.
Hér sést lífsferill og sýkingarferill amöbunnar Naegleria fowleri.
Naegleria fowleri finnst líkt og aðrar amöbur á þremur lífsstigum. Á svokölluðu amöbustigi er hún svipulaus einfrumungur. Það er á þessu stigi sem hún ræðst á fórnarlömb sín og sýkir þau. Annað stigið nefnist svipustig en þá myndast svipa út frá frumunni sem hún notar til þess að synda um í vatninu. Þegar umhverfið verður óhagstætt, til dæmis ef vatnið sem hún lifir í þornar upp, getur hún myndað um sig þolhjúp (e. cyst) og þannig tekið á sig þriðja formið. Þá losar hún sig við mest allan vökva, tekur á sig hnattlaga form sem er umlukið ógegndræpum hjúpnum og leggst svo í dvala. Þegar umhverfisaðstæður verða hentugar að nýju losar hún sig við þolhjúpinn, tekur í sig vökva og getur á ný borist í hýsla sína.
Naegleria fowleri sýkir fórnarlömb sín með því að bora sig inn í gegnum örþunna húð í nefgöngum þeirra. Þaðan kemst hún inn í miðtaugakerfið með því að skríða eftir lyktartauginni inn í heilann. Þar nærist hún svo á taugafrumum heilans. Yfirleitt hefur greining á þessum sjúkdómi komið fram við krufningu en fyrstu einkennin eru höfuðverkur, uppköst, hiti og stífleiki í hálsi. Þegar fram líða stundir fer heilaskemmda að verða vart og önnur og alvarlegri taugaviðbrögð koma fram, svo sem ofskynjanir, minnistap, skert athygli, breyting á persónuleika og að lokum dregur sjúkdómurinn fólk til dauða.
Þessi sjúkdómsferill tekur innan við 14 daga og er engin lækning til eins og er. Á tilraunastofum hefur þó tekist að ráða niðurlögum amöbunnar með lyfjum og í framtíðinni verður vonandi hægt að stöðva sjúkdómsferilinn með lyfjagjöf.
Hér sést Naegleria fowleri á amöbustigi. Það er á þessu stigi sem amaban sýkir hýsla sína.
Þó amaban finnist í heitu vatni getur hún ekki lifað í klórhreinsuðum sundlaugum eins og skylda er að hafa hér á landi. Fólk þarf því ekki að vera hrætt um að smitast af henni á heitum sumardögum í laugunum svo lengi sem farið er eftir settum reglum um þrif og viðhald á sundlaugum. Þess má geta að klór drepur amöburnar jafnvel þótt þær séu í þolhjúpnum. Þannig næst algjör sótthreinsun gegn amöbunni þegar vatn er klórblandað.
Tíðni sýkinga í mönnum er hærri eftir því sem nær dregur miðbaug en Naegleria fowleri finnst nánast hvar sem er á jörðinni þar sem skilyrði eru heppileg.
Stofnstærð amöbunnar sveiflast eftir árstíðum sem von er og eru líkurnar á því að sýkjast mestar á sumrin þegar heitast er. Miðað við stofnstærð amöbunnar og þann fjölda fólks sem syndir í vötnum hvarvetna í heiminum eru í raun afar litlar líkur á því að smitast. Fulltrúi Sjúkdómavarna Bandaríkjanna mælir með einföldu ráði til að afstýra sýkingarhættu: Ef menn synda í ósótthreinsuðum laugum eða vötnum er best að synda með nefklemmu. Algengast er að menn sýkist þegar þeir fá vatn í nefið, til dæmis þegar þeir kafa.
Vitað er um þrjár aðrar tegundir sem tilheyra ættkvíslinni Naegleria. Aðeins er þó talið að ein þeirra, Naegleria australiensis, sé sjúkdómsvaldandi.
Vísindamenn hafa bent á að hætta sé á aukinni útbreiðslu Naegleria fowleri í kjölfar hlýnandi veðurfars á jörðinni. Þetta valdi því að kjörsvæðum fyrir amöbuna fjölgar og getur það skýrt aukna tíðni sýkinga af hennar völdum í Bandaríkjunum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
M. Scaglia, M. Strosselli, V. Grazioli, S. Gatti, A. M. Bernuzzi, and J. F. de Jonckheere. 1983. Isolation and identification of pathogenic Naegleria australiensis (Amoebida, Vahlkampfiidae) from a spa in northern Italy. Applied Environmental Microbiology. 46(6): 1282–1285.
G. Schmidt, og L. Roberts. 1996. Foundations of parasitology, 5th. WCB publishers, London.
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um heilaétandi slímdýrið sem fannst í Flórída?“ Vísindavefurinn, 18. október 2007, sótt 8. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6856.
Jón Már Halldórsson. (2007, 18. október). Hvað getið þið sagt mér um heilaétandi slímdýrið sem fannst í Flórída? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6856
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um heilaétandi slímdýrið sem fannst í Flórída?“ Vísindavefurinn. 18. okt. 2007. Vefsíða. 8. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6856>.