Hvernig komst sagan um hyrndu víkingahjálmana á kreik? Fyrir það fyrsta eru til lýsingar Forn-Grikkja og Rómverja þar sem þeir segja íbúa Norður-Evrópu bera skringileg höfuðföt, svo sem hjálma með vængjum eða hornum. Í öðru lagi hafa verið nokkrir hyrndir hjálmar í fornleifafundum í Evrópu. Þessir hjálmar eru aftur á móti ekki frá víkingatímanum, heldur eru flestir mun eldri. Líklegt þykir að hjálmarnir hafi verið notaðir í einhvers konar trúarathöfnum sem tákn fyrir hyrnd dýr eða jafnvel guði. Það er vel hugsanlegt að þessi siður hafi haldist fram á víkingatímann en fátt bendir aftur á móti til að hjálmarnir hafi nokkru sinni verið notaðir í bardaga.
Evrópskir listamenn snemma á 17. öld urðu fyrir áhrifum af lýsingum fornmanna og hófu að mála myndir af norrænum mönnum (þó ekki víkingum) sem sýndu þá með hyrnd höfuðföt í orrustum. Listamenn rómantíska tímabilsins gerðu svo slíkt hið sama við víkinga. Fyrstur til þess virðist hafa verið Svíinn Gustaf Malmström sem myndskreytti Friðþjófs sögu (1820-25) eftir Esaias Tegnér. Hugmyndina hefur hann líklega sótt í fornleifarannsóknir þess tíma, en þá höfðu fundist nokkrir hyrndir hjálmar. Þegar seinna kom í ljós að hjálmarnir voru ekki frá víkingatímanum hafði hugmyndin þegar skotið rótum í huga almennings. Listamenn nútímans halda henni enn á lofti í verkum sínum. Sérstaklega má nefna teiknimyndasögur eins og Hroll (Hagar the Horrible) og Ástrík (Astérix), en í þeim eru hjálmar víkinga nær undantekningarlaust skreyttir stórum hornum. Líklega er þetta þó gert til að undirstrika hvaða persónur séu þar á ferð fremur en að skýringin sé söguleg vankunnátta höfundanna.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað var oftast borðað á víkingatímanum? eftir HG.
- Hvaða íþróttir stunduðu víkingar og hver var afstaða þeirra til líkamans? eftir Gísla Sigurðsson.
- Hvaðan komu víkingarnir og hvaða áhrif höfðu þeir í öðrum löndum? eftir Sverri Jakobsson.
- Hvar hafa leifar um víkinga varðveist? eftir Orra Vésteinsson.
- Hvernig voru föt víkinga? eftir SHJ.
- Í hverju bjuggu víkingar? eftir Hildi Guðmundsdóttur.
- Hver voru algeng nöfn víkinga? eftir Guðrúnu Kvaran.
- Did Vikings really wear horns on their helmets? Skoðað 27.9.2005.
- Horned helmet. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Skoðað 27.9.2005.
- The Viking Horned Helmet: Myth or Legend? Shire of Tir Briste, SCA Inc. Skoðað 27.9.2005.
- Viking helmets. VillageHatShop.com. Skoðað 27.9.2005.