Þegar ljós eða önnur rafsegulgeislun fellur á hlut, endurvarpar hann sumum bylgjulengdum en drekkur aðrar í sig og geislar síðan orkunni frá þeim til baka með annarri bylgjulengd. „Hvítur hlutur“ endurvarpar mestum hluta ljóssins. „Rauður hlutur“ endurvarpar bylgjulengdum sem svara til rauða ljóssins en drekkur aðrar bylgjulengdir í sig. Þannig ræðst litur hluta við venjulegt hitastig af því hvaða bylgjulengdir efnið drekkur í sig og hverjum það endurvarpar. Hlutur sem drekkur í sig alla rafsegulgeislun en sendir í staðinn frá sér jafnmikla orku sem svokallaða varmageislun eða hitageislun er kallaður svarthlutur eða algeislari í eðlisfræði. Geislun frá slíkum hlut við stofuhita hefur miklu meiri bylgjulengd en ljós og því sjáum við enga geislun frá honum og köllum hann svartan í daglegu tali. Þegar hluturinn hitnar styttist bylgjulengdin hins vegar og að því kemur að rautt ljós í henni nægir til að við sjáum hlutinn sem rauðan og köllum hann þá rauðglóandi. „Svarthluturinn“ er þá ekki lengur svartur! Við meiri hitun styttist bylgjulengdin enn og hluturinn verður hvítglóandi. Síðan verður hann bláleitur og má til dæmis sjá svo heit fyrirbæri á stjörnuhimninum.

- Hvað eru litir? eftir Þorstein Vilhjálmsson
- Þótt augun mín og þín greini ekki alla liti sem til eru, væri samt hægt að hugsa sér liti sem ekki eru þekktir? eftir Ara Ólafsson