Sólin Sólin Rís 06:46 • sest 19:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:31 • Síðdegis: 14:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:45 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:46 • sest 19:59 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:31 • Síðdegis: 14:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:45 • Síðdegis: 21:08 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getur þú sagt mér eitthvað um broddgelti?

Jón Már Halldórsson

Ætt broddgalta (Erinaceidae) skiptist í tvær undirættir, eiginlega broddgelti (Erinaceidae) og svokallaða rottugelti (Galericinae), eins og fjallað er um í svari við spurningunni Hafa allir broddgeltir brodda?

Evrópski broddgölturinn (Erinaceus europeus) tilheyrir ættkvísl skógarbroddgalta (Erinaceus), sem er ein fimm ættkvísla eiginlegra broddgalta (Erinaceidae). Hann er sjálfsagt mörgum Íslendingum vel kunnur og má segja að hann sé einskonar fulltrúi fyrir þessa ætt í huga Íslendinga og sjálfsagt flestra Evrópubúa. Þetta svar fjallar því um hann.

Fullvaxinn er evrópski broddgölturinn 20-30 cm langur. Þyngd hans er breytileg eftir árstíma, áður en hann leggst í vetrardvala er hann yfirleitt á bilinu 1100-1200 g eða jafnvel þyngri en eftir að hann vaknar úr dvala er hann 600-700 g.

Hann er auðþekkjanlegur af broddunum sem þekja bæði bak hans og síður. Á öðrum stöðum, svo sem á kvið, fótum og nefi er hann loðinn. Líkaminn er stuttur og fremur digur og svo fótstuttur að engu er líkara en að hann líði eftir jörðinni. Líkt og aðrar tegundir ættarinnar hefur hann mjög langt og oddmjótt trýni. Augun eru nokkuð stór og eyrun breið en liggja mjög þétt að hausnum og eru þakin hárum svo þau eru lítt áberandi. Framfætur evrópska broddgaltarins eru mun kröftugri en afturlappirnar. Fyrir utan það að koma sér út stað notar hann framfæturna til að klóra og grafa í svörðinn eftir æti og til híbýlagerðar.

Evrópski broddgölturinn (Erinaceus europaeus).

Broddar á broddgöltum eru ummynduð hár. Þegar efnisgerð þeirra er skoðuð kemur í ljós sama efnasamsetning og í hárum. Auk þess vaxa broddarnir upp úr hárkirtlum í húðinni. Litlir vöðvastrengir tengjast hverjum broddi og því geta dýrin reist þá við. Dýrið getur meira að segja reist brodda við á afmörkuðu svæði, til dæmis aðeins öðru megin. Þetta er ólíkt flestum öðrum dýrum sem reisa hár þegar þeim er ógnað svo sem köttum (Felidae). Hryggvöðvar broddgalta eru afar sérhæfðir og miðast við að dýrið geti hniprað sig saman í kúlu. Auk þeirra hafa broddgeltir líka svokallaðan sporöskjuvöðva sem liggur ofarlega með síðunum. Þegar sá vöðvi dregst saman, hniprast dýrið saman í harðan hnút. Á sama tíma strekkist á bakvöðvunum þannig að broddarnir rísa hvasst út og dýrið myndar virki um sig sem er nánast óvinnandi fyrir hvaða rándýr sem er.

Evrópski broddgölturinn lifir nánast um alla Evrópu nema á köldustu svæðunum nyrst í Skandinavíu og ekki á eyjum eins og Íslandi og Færeyjum. Austurheimsbroddi (E. concolor) var áður talinn tilheyra tegundinni en er nú aðskilin tegund. Hann lifir í Austur-Evrópu, frá Póllandi, Ungverjalandi, Balkanskaga, Litlu-Asíu og á stórum svæðum í Rússlandi, austur til slétta Mið-Asíu. Fyrir austan hann tekur svo önnur tegund við innan ættkvíslarinnar. Hún nefnist Amúr-broddi (E. amurensis) og er kennd við fljótið mikla Amúr.

Þriðja tegundin sem finnst í Evrópu (auk þess evrópska og austurheimsbrodda) er flökkubroddi (Erinaceus algirus). Hann finnst meðal annars á sömu slóðum og evrópski broddgölturinn á Pýreneaskaga og á nokkrum eyjum í Miðjarðarhafi, svo sem Baleareyjum, og strandsvæði Frakklands. Náttúrufræðingar telja að þessi tegund sé aðflutt til Evrópu frá Norður-Afríku sennilega á dögum Rómaveldis.

Fæða evrópska broddgaltarins er að langmestu leyti skordýr, sniglar, margfætlur og ánamaðkar auk þess sem hann leggst á hræ og sækir í matarleifar. Einnig á hann það til að ræna eggjum og ungum úr hreiðrum fugla, og éta ýmis hryggdýr sem verða á vegi hans, svo sem smávaxin nagdýr, eðlur og froska.

Broddgölturinn er næturdýr. Hann veiðir á nóttunni en í dagrenningu leitar hann aftur í bælið sitt og hvílist. Bæli broddgaltarins er oft neðanjarðar en getur einnig verið ofanjarðar og þá í einhvers konar hrúgu, til dæmis laufhrúgu. Bælið fóðrar hann að innan með laufi eða þurru grasi. Broddgölturinn eignar sér ekki land líkt og mörg spendýra gera, heldur ríkir fullkomið ferðafrelsi í samfélagi broddgalta. Athafasvæðið er ákaflega stórt, margir ferkílómetrar og innan þess svæðir eru jafnvel hundruð annarra broddgalta á veiðum á nóttunni.

Broddgeltir kunna vel að meta þegar skilinn er eftir matur fyrir þá.

Broddgeltir hafa verið vel liðnir í sveita- og bæjarsamfélögum álfunnar hin síðari ár. Algengt er að Evrópubúar fóðri broddgöltinn sinn þegar hann kemur að næturþeli í garðinn. Fólk stendur þá í þeirri trú að þetta sé alltaf sami broddgölturinn en það þarf alls ekki að vera. Oft lendir fólk í því þegar það stundar slíkar matargjafir af krafti að sitja uppi með óþægilega marga broddgelti í mat. Fræg er saga frá Skáni í Svíþjóð þar sem garðeigandi einn fór að gefa broddgöltum mat og áður en hann vissi af tóku þeir að hópast hundruðum saman inn í garðinn hans að næturlagi.

Fengitími evrópska broddgaltarins er í maí og júní. Þá fara karldýrin í ferðalag í leit að blæsma kvendýrum. Þeir geta komist yfir ótrúlegar vegalengdir í leit sinni. Þegar karlinn finnur tilkippilegt kvendýr þarf hann að ganga á eftir kerlingu svo klukkutímum skiptir. Hann hringsnýst utan um hana stynjandi og blásandi og reynir að stugga við henni og fá hana til við sig. Einhverjir kunna að furða sig á því hvernig broddgeltir geti makast án þess að stórskaða sig, en í raun er aðferðin ekki flókin. Karlinn ber sig að eins og karldýr langflestra annarra spendýra með því að fara upp á kerluna að aftan. Hún þarf hins vegar að gæta þess að hafa broddanna niðri á meðan á mökun stendur og þá sleppur karlinn ómeiddur eftir ástarleikinn.

Þótt broddgölturinn eigi sér fáa óvini á fullorðinsárum þá eru ungar hans auðveld bráð þar sem broddarnir koma ekki fram fyrstu vikurnar. Það er helst óværa af minni gerðinni sem angrar fullorðna broddgelti, til að mynda flær, lýs og svokallaður festingi sem er stórmaur af stærri gerðinni sem sýgur blóð.

Broddgeltir voru eftirsótti á tímum Rómaveldis, bæði þótti kjötið gómsætt auk þess sem broddarnir voru notaðir í ullarkamba. Broddgaltarkjöt er einnig eftirsótt á veisluborðum sígauna um alla Evrópu. Evrópski broddgölturinn var áður ofsóttur víða um álfuna. Menn töldu hann éta fasanaunga, héra og kanínuunga sem voru áður eftirsótt veiðidýr. Staðreyndin er þó sú að afrán hans á þessum tegundum er svo lítið að það skiptir engu máli.

Nú á dögum er broddgölturinn fremur vel liðinn. Hundruð þúsunda Evrópubúa setja út mat handa honum og vinsælt er að sitja að kvöldlagi og fylgjast með háttalagi hans. Það slær ekki á vinsældir broddgaltarins að hann er slyngur að drepa höggorma (Vipera berus). Hins vegar bera broddgeltir flær og lýs auk þess sem þeir eru smitberar salmonellu, gin- og klaufaveiki og leptóspírósu en það er sjúkdómur sem bakterían Leptospira interrogans veldur.

Heimildir og myndir:

  • Burton, M. 1969. The Hedgehog. Worchester and London: Andre Deutsch Limited.
  • Macdonald, D. 1995. The Encyclopedia of Mammals. London, Sydney: George Allen and Unwin.
  • Southern, H. 1964. Handbook of British Mammals. Oxford: Blackwell Scientific Publications.
  • Mynd af evrópskum broddgelti: Hedgehog á Wikipedia. Birt undir Creative Commons Attribution ShareAlike 3.0 leyfi. Sótt 9.6.2021.
  • Mynd af broddgelti að snæða: Pixabay.com. Sótt 9.6.2021.


Vísindavefnurinn hefur fengið nokkrar spurningar um broddgelti sem er einnig er svarað hér. Þær eru meðal annars:

  • Hvar lifa broddgeltir?
  • Hvað borða broddgeltir?
  • Hvernig er æxlun broddgalta?
  • Hvað eru broddgeltir stórir?

Spyrjendur eru:
Fanny Hrund Ásgeirsdóttir, Hafdís Eva Árnadóttir, Steingrímur Ingólfsson, Ívar Máni, Pétur Ástbjartsson og Elín Magnúsdóttir

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

13.1.2010

Síðast uppfært

9.6.2021

Spyrjandi

Helena Björg Thorlacius og fleiri spyrjendur

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getur þú sagt mér eitthvað um broddgelti?“ Vísindavefurinn, 13. janúar 2010, sótt 13. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=54614.

Jón Már Halldórsson. (2010, 13. janúar). Getur þú sagt mér eitthvað um broddgelti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=54614

Jón Már Halldórsson. „Getur þú sagt mér eitthvað um broddgelti?“ Vísindavefurinn. 13. jan. 2010. Vefsíða. 13. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=54614>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getur þú sagt mér eitthvað um broddgelti?
Ætt broddgalta (Erinaceidae) skiptist í tvær undirættir, eiginlega broddgelti (Erinaceidae) og svokallaða rottugelti (Galericinae), eins og fjallað er um í svari við spurningunni Hafa allir broddgeltir brodda?

Evrópski broddgölturinn (Erinaceus europeus) tilheyrir ættkvísl skógarbroddgalta (Erinaceus), sem er ein fimm ættkvísla eiginlegra broddgalta (Erinaceidae). Hann er sjálfsagt mörgum Íslendingum vel kunnur og má segja að hann sé einskonar fulltrúi fyrir þessa ætt í huga Íslendinga og sjálfsagt flestra Evrópubúa. Þetta svar fjallar því um hann.

Fullvaxinn er evrópski broddgölturinn 20-30 cm langur. Þyngd hans er breytileg eftir árstíma, áður en hann leggst í vetrardvala er hann yfirleitt á bilinu 1100-1200 g eða jafnvel þyngri en eftir að hann vaknar úr dvala er hann 600-700 g.

Hann er auðþekkjanlegur af broddunum sem þekja bæði bak hans og síður. Á öðrum stöðum, svo sem á kvið, fótum og nefi er hann loðinn. Líkaminn er stuttur og fremur digur og svo fótstuttur að engu er líkara en að hann líði eftir jörðinni. Líkt og aðrar tegundir ættarinnar hefur hann mjög langt og oddmjótt trýni. Augun eru nokkuð stór og eyrun breið en liggja mjög þétt að hausnum og eru þakin hárum svo þau eru lítt áberandi. Framfætur evrópska broddgaltarins eru mun kröftugri en afturlappirnar. Fyrir utan það að koma sér út stað notar hann framfæturna til að klóra og grafa í svörðinn eftir æti og til híbýlagerðar.

Evrópski broddgölturinn (Erinaceus europaeus).

Broddar á broddgöltum eru ummynduð hár. Þegar efnisgerð þeirra er skoðuð kemur í ljós sama efnasamsetning og í hárum. Auk þess vaxa broddarnir upp úr hárkirtlum í húðinni. Litlir vöðvastrengir tengjast hverjum broddi og því geta dýrin reist þá við. Dýrið getur meira að segja reist brodda við á afmörkuðu svæði, til dæmis aðeins öðru megin. Þetta er ólíkt flestum öðrum dýrum sem reisa hár þegar þeim er ógnað svo sem köttum (Felidae). Hryggvöðvar broddgalta eru afar sérhæfðir og miðast við að dýrið geti hniprað sig saman í kúlu. Auk þeirra hafa broddgeltir líka svokallaðan sporöskjuvöðva sem liggur ofarlega með síðunum. Þegar sá vöðvi dregst saman, hniprast dýrið saman í harðan hnút. Á sama tíma strekkist á bakvöðvunum þannig að broddarnir rísa hvasst út og dýrið myndar virki um sig sem er nánast óvinnandi fyrir hvaða rándýr sem er.

Evrópski broddgölturinn lifir nánast um alla Evrópu nema á köldustu svæðunum nyrst í Skandinavíu og ekki á eyjum eins og Íslandi og Færeyjum. Austurheimsbroddi (E. concolor) var áður talinn tilheyra tegundinni en er nú aðskilin tegund. Hann lifir í Austur-Evrópu, frá Póllandi, Ungverjalandi, Balkanskaga, Litlu-Asíu og á stórum svæðum í Rússlandi, austur til slétta Mið-Asíu. Fyrir austan hann tekur svo önnur tegund við innan ættkvíslarinnar. Hún nefnist Amúr-broddi (E. amurensis) og er kennd við fljótið mikla Amúr.

Þriðja tegundin sem finnst í Evrópu (auk þess evrópska og austurheimsbrodda) er flökkubroddi (Erinaceus algirus). Hann finnst meðal annars á sömu slóðum og evrópski broddgölturinn á Pýreneaskaga og á nokkrum eyjum í Miðjarðarhafi, svo sem Baleareyjum, og strandsvæði Frakklands. Náttúrufræðingar telja að þessi tegund sé aðflutt til Evrópu frá Norður-Afríku sennilega á dögum Rómaveldis.

Fæða evrópska broddgaltarins er að langmestu leyti skordýr, sniglar, margfætlur og ánamaðkar auk þess sem hann leggst á hræ og sækir í matarleifar. Einnig á hann það til að ræna eggjum og ungum úr hreiðrum fugla, og éta ýmis hryggdýr sem verða á vegi hans, svo sem smávaxin nagdýr, eðlur og froska.

Broddgölturinn er næturdýr. Hann veiðir á nóttunni en í dagrenningu leitar hann aftur í bælið sitt og hvílist. Bæli broddgaltarins er oft neðanjarðar en getur einnig verið ofanjarðar og þá í einhvers konar hrúgu, til dæmis laufhrúgu. Bælið fóðrar hann að innan með laufi eða þurru grasi. Broddgölturinn eignar sér ekki land líkt og mörg spendýra gera, heldur ríkir fullkomið ferðafrelsi í samfélagi broddgalta. Athafasvæðið er ákaflega stórt, margir ferkílómetrar og innan þess svæðir eru jafnvel hundruð annarra broddgalta á veiðum á nóttunni.

Broddgeltir kunna vel að meta þegar skilinn er eftir matur fyrir þá.

Broddgeltir hafa verið vel liðnir í sveita- og bæjarsamfélögum álfunnar hin síðari ár. Algengt er að Evrópubúar fóðri broddgöltinn sinn þegar hann kemur að næturþeli í garðinn. Fólk stendur þá í þeirri trú að þetta sé alltaf sami broddgölturinn en það þarf alls ekki að vera. Oft lendir fólk í því þegar það stundar slíkar matargjafir af krafti að sitja uppi með óþægilega marga broddgelti í mat. Fræg er saga frá Skáni í Svíþjóð þar sem garðeigandi einn fór að gefa broddgöltum mat og áður en hann vissi af tóku þeir að hópast hundruðum saman inn í garðinn hans að næturlagi.

Fengitími evrópska broddgaltarins er í maí og júní. Þá fara karldýrin í ferðalag í leit að blæsma kvendýrum. Þeir geta komist yfir ótrúlegar vegalengdir í leit sinni. Þegar karlinn finnur tilkippilegt kvendýr þarf hann að ganga á eftir kerlingu svo klukkutímum skiptir. Hann hringsnýst utan um hana stynjandi og blásandi og reynir að stugga við henni og fá hana til við sig. Einhverjir kunna að furða sig á því hvernig broddgeltir geti makast án þess að stórskaða sig, en í raun er aðferðin ekki flókin. Karlinn ber sig að eins og karldýr langflestra annarra spendýra með því að fara upp á kerluna að aftan. Hún þarf hins vegar að gæta þess að hafa broddanna niðri á meðan á mökun stendur og þá sleppur karlinn ómeiddur eftir ástarleikinn.

Þótt broddgölturinn eigi sér fáa óvini á fullorðinsárum þá eru ungar hans auðveld bráð þar sem broddarnir koma ekki fram fyrstu vikurnar. Það er helst óværa af minni gerðinni sem angrar fullorðna broddgelti, til að mynda flær, lýs og svokallaður festingi sem er stórmaur af stærri gerðinni sem sýgur blóð.

Broddgeltir voru eftirsótti á tímum Rómaveldis, bæði þótti kjötið gómsætt auk þess sem broddarnir voru notaðir í ullarkamba. Broddgaltarkjöt er einnig eftirsótt á veisluborðum sígauna um alla Evrópu. Evrópski broddgölturinn var áður ofsóttur víða um álfuna. Menn töldu hann éta fasanaunga, héra og kanínuunga sem voru áður eftirsótt veiðidýr. Staðreyndin er þó sú að afrán hans á þessum tegundum er svo lítið að það skiptir engu máli.

Nú á dögum er broddgölturinn fremur vel liðinn. Hundruð þúsunda Evrópubúa setja út mat handa honum og vinsælt er að sitja að kvöldlagi og fylgjast með háttalagi hans. Það slær ekki á vinsældir broddgaltarins að hann er slyngur að drepa höggorma (Vipera berus). Hins vegar bera broddgeltir flær og lýs auk þess sem þeir eru smitberar salmonellu, gin- og klaufaveiki og leptóspírósu en það er sjúkdómur sem bakterían Leptospira interrogans veldur.

Heimildir og myndir:

  • Burton, M. 1969. The Hedgehog. Worchester and London: Andre Deutsch Limited.
  • Macdonald, D. 1995. The Encyclopedia of Mammals. London, Sydney: George Allen and Unwin.
  • Southern, H. 1964. Handbook of British Mammals. Oxford: Blackwell Scientific Publications.
  • Mynd af evrópskum broddgelti: Hedgehog á Wikipedia. Birt undir Creative Commons Attribution ShareAlike 3.0 leyfi. Sótt 9.6.2021.
  • Mynd af broddgelti að snæða: Pixabay.com. Sótt 9.6.2021.


Vísindavefnurinn hefur fengið nokkrar spurningar um broddgelti sem er einnig er svarað hér. Þær eru meðal annars:

  • Hvar lifa broddgeltir?
  • Hvað borða broddgeltir?
  • Hvernig er æxlun broddgalta?
  • Hvað eru broddgeltir stórir?

Spyrjendur eru:
Fanny Hrund Ásgeirsdóttir, Hafdís Eva Árnadóttir, Steingrímur Ingólfsson, Ívar Máni, Pétur Ástbjartsson og Elín Magnúsdóttir
...