Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Til hvers nota pokadýr pokann sinn?

Rannveig Magnúsdóttir

Eitt helsta einkenni pokadýra er æxlunarkerfi þeirra. Margar pokadýrategundir bera nafn með rentu og kvendýrin bera unga sína í poka. Sum pokadýr eins og til dæmis lítil ránpokadýr eru þó ekki með eiginlega poka. Þessi pokalausu pokadýr hafa eingöngu húðfellingar hjá spenunum sem halda mætti að verji ungana illa fyrir hnjaski. Þótt ótrúlegt megi virðast þá geta þessar pokamýs hlaupið um stokka og steina með fullt hús unga (allt að 6-12 unga) án þess að þeir skaðist eða detti af spenunum.

Öll pokadýr eiga það sameiginlegt að afkvæmi þeirra eru mjög óþroskuð við fæðingu. Pokadýrin fæða eitt eða fleiri afkvæmi sem skríða í átt að spena af ótrúlegum dugnaði. Þessir nýfæddu ungar eru blindir og hárlausir en kengúruungar hafa nokkuð þroskaðar framlappir sem þeir nota til að grípa í feld móður sinnar og skríða áfram.



Ungar á spena.

Pokar pokadýra geta verið af öllum stærðum og gerðum og opið getur verið uppi eða niðri. Hjá kengúrum er op pokans að ofan en hjá kóalabjörnum og vömbum er opið að neðan. Ástæðan fyrir því að sumir pokar snúa niður er að þau dýr hreyfa sig og athafna á annan hátt en kengúrur. Vambar eyða miklum tíma í að grafa holur og það væri afar óhentugt ef op pokans sneri upp því þá myndi pokinn fljótt fyllast af mold og steinum. Forsögulegir kóalabirnir grófu einnig mikið og þótt þeir hafi fært sig upp í trén þá snýr poki þeirra enn niður.

Kvendýr flestra kengúrutegunda eru þunguð mest allt sitt líf. Um leið og hún fæðir eitt afkvæmi þá makast hún og verður þunguð aftur. Nýja fóstrið fer þó strax í dvala eftir nokkrar frumuskiptingar og heldur ekki áfram að þroskast fyrr en eldri unginn fer að éta meiri fasta fæðu. Móðirin getur því framleitt mismunandi mjólkursamsetningu fyrir misgamla unga sína.

Lítil pokadýr eignast yfirleitt marga unga einu sinni á ári, þetta er afar orkufrekt og því lifa þau ekki lengi. Sumar pokamýs (ættkvíslirnar Antechinus, Phascogale og Kaluta) og pokakötturinn Dasyurus hallucatus eiga það sameiginlegt að vera einu spendýrin í heiminum þar sem öll karldýrin í stofninum deyja að loknum fengitíma; þeir ná yfirleitt ekki eins árs aldri. Enn eru margar pokadýrategundir sem lítið hafa verið rannsakaðar, sérstaklega í Suður-Ameríku og Nýju-Gíneu, æxlunarkerfi þeirra eru illa þekkt.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd

  • Frith, H.J. & J.H. Calby. 1969. Kangaroos. Cheshire F.W. (ritstj.). Melbourne.
  • Luo, Z.X., Ji, Q., Wible, J.R. & Yuan, C.X. 2003. An early Cretaceous tribosphenic mammal and metatherian evolution. Science 302. 1934–1940.
  • Macdonald, D. (ritstj.). 2001. The Encyclopedia of Mammals. Oxford, Oxford University Press.
  • Rannveig Magnúsdóttir. 2009. Ránpokadýr í Ástralíu - uppruni og örlög. Náttúrufræðingurinn 78 (3-4): 139-146.
  • Mynd af fenjapokamús á spena: Rannveig Magnúsdóttir.

Höfundur

Útgáfudagur

9.2.2010

Spyrjandi

Laufey Soffía Þórsdóttir, f. 1994, Elín Signý, f. 1991

Tilvísun

Rannveig Magnúsdóttir. „Til hvers nota pokadýr pokann sinn?“ Vísindavefurinn, 9. febrúar 2010. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=55312.

Rannveig Magnúsdóttir. (2010, 9. febrúar). Til hvers nota pokadýr pokann sinn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=55312

Rannveig Magnúsdóttir. „Til hvers nota pokadýr pokann sinn?“ Vísindavefurinn. 9. feb. 2010. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=55312>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Til hvers nota pokadýr pokann sinn?
Eitt helsta einkenni pokadýra er æxlunarkerfi þeirra. Margar pokadýrategundir bera nafn með rentu og kvendýrin bera unga sína í poka. Sum pokadýr eins og til dæmis lítil ránpokadýr eru þó ekki með eiginlega poka. Þessi pokalausu pokadýr hafa eingöngu húðfellingar hjá spenunum sem halda mætti að verji ungana illa fyrir hnjaski. Þótt ótrúlegt megi virðast þá geta þessar pokamýs hlaupið um stokka og steina með fullt hús unga (allt að 6-12 unga) án þess að þeir skaðist eða detti af spenunum.

Öll pokadýr eiga það sameiginlegt að afkvæmi þeirra eru mjög óþroskuð við fæðingu. Pokadýrin fæða eitt eða fleiri afkvæmi sem skríða í átt að spena af ótrúlegum dugnaði. Þessir nýfæddu ungar eru blindir og hárlausir en kengúruungar hafa nokkuð þroskaðar framlappir sem þeir nota til að grípa í feld móður sinnar og skríða áfram.



Ungar á spena.

Pokar pokadýra geta verið af öllum stærðum og gerðum og opið getur verið uppi eða niðri. Hjá kengúrum er op pokans að ofan en hjá kóalabjörnum og vömbum er opið að neðan. Ástæðan fyrir því að sumir pokar snúa niður er að þau dýr hreyfa sig og athafna á annan hátt en kengúrur. Vambar eyða miklum tíma í að grafa holur og það væri afar óhentugt ef op pokans sneri upp því þá myndi pokinn fljótt fyllast af mold og steinum. Forsögulegir kóalabirnir grófu einnig mikið og þótt þeir hafi fært sig upp í trén þá snýr poki þeirra enn niður.

Kvendýr flestra kengúrutegunda eru þunguð mest allt sitt líf. Um leið og hún fæðir eitt afkvæmi þá makast hún og verður þunguð aftur. Nýja fóstrið fer þó strax í dvala eftir nokkrar frumuskiptingar og heldur ekki áfram að þroskast fyrr en eldri unginn fer að éta meiri fasta fæðu. Móðirin getur því framleitt mismunandi mjólkursamsetningu fyrir misgamla unga sína.

Lítil pokadýr eignast yfirleitt marga unga einu sinni á ári, þetta er afar orkufrekt og því lifa þau ekki lengi. Sumar pokamýs (ættkvíslirnar Antechinus, Phascogale og Kaluta) og pokakötturinn Dasyurus hallucatus eiga það sameiginlegt að vera einu spendýrin í heiminum þar sem öll karldýrin í stofninum deyja að loknum fengitíma; þeir ná yfirleitt ekki eins árs aldri. Enn eru margar pokadýrategundir sem lítið hafa verið rannsakaðar, sérstaklega í Suður-Ameríku og Nýju-Gíneu, æxlunarkerfi þeirra eru illa þekkt.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimildir og mynd

  • Frith, H.J. & J.H. Calby. 1969. Kangaroos. Cheshire F.W. (ritstj.). Melbourne.
  • Luo, Z.X., Ji, Q., Wible, J.R. & Yuan, C.X. 2003. An early Cretaceous tribosphenic mammal and metatherian evolution. Science 302. 1934–1940.
  • Macdonald, D. (ritstj.). 2001. The Encyclopedia of Mammals. Oxford, Oxford University Press.
  • Rannveig Magnúsdóttir. 2009. Ránpokadýr í Ástralíu - uppruni og örlög. Náttúrufræðingurinn 78 (3-4): 139-146.
  • Mynd af fenjapokamús á spena: Rannveig Magnúsdóttir.

...