Sólin Sólin Rís 05:12 • sest 21:41 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:09 • Síðdegis: 20:27 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:12 • Síðdegis: 14:14 í Reykjavík

Hafa óvenjumargir stórir jarðskjálftar orðið undanfarið ár?

Páll Einarsson

Langflestir skjálftar í heiminum stafa af flekahreyfingum og verða á svæðum þar sem spenna safnast í jarðskorpunni á eða nálægt flekaskilum. Stærstir verða skjálftarnir á þeirri gerð flekaskila þar sem samrek á sér stað. Skjálftar eru minni og fátíðari á hjáreksbeltum, og sýnu minnstir á fráreksbeltum. Hraði flekahreyfinganna er nokkuð jafn frá ári til árs og því er spennusöfnunin og skjálftavirknin, sem af henni stafar, nokkuð jöfn þegar litið er til heimsins alls.

Það er ekkert sem bendir til þess að skjálftar í heiminum séu meiri síðasta áratug en áratuginn þar á undan. Öðru máli gegnir ef við horfum á takmörkuð svæði og takmörkuð tímabil. Það er til dæmis vel þekkt að stórir skjálftar á skjálftabelti Suðurlands koma í hviðum, það er margir skjálftar verða á nokkurra ára bili en svo líða margir áratugir með lítilli skjálftavirkni. Á síðasta áratug urðu þar fjórir skjálftar af stærðinni 6 og stærri, árin 2000 og 2008. Svo stórir skjálftar höfðu þá ekki orðið þar síðan 1912.



Fjöldi jarðskjálfta á ári af stærðinni 7 og stærri í heiminum á tímabilinu 1990-2010.

Hér kemur til svokölluð gikkverkun skjálfta. Þegar stór skjálfti verður, breytir hann spennunni á nærliggjandi svæðum. Ef spennan á viðkomandi svæði er nálægt brotmörkum jarðskorpunnar getur breytingin orðið nægileg til að spennan fer yfir mörkin og nýr skjálfti verður.

Eitt besta dæmið sem nú er þekkt í skjálftafræðinni er einmitt frá Suðurlandi. Stóri skjálftinn sem varð 17. júní 2000 átti upptök í ofanverðum Holtum en hann hratt af stað fjölda skjálfta á flekaskilunum allt vestur á Reykjanesskaga. Um þetta má lesa í grein eftir Þóru Árnadóttur og fleiri (2004). Þessir skjálftar áttu upptök á öðrum sprungum en upphafsskjálftinn og eru því ekki eiginlegir eftirskjálftar. Því eru greinilega nokkur takmörk sett hversu langt gikkverkunin getur haft áhrif. Það verður að teljast nokkuð ólíklegt að skjálftar á tilteknum flekaskilum hleypi af stað skjálftum á skilum annarra fleka.

Þó skjálftavirkni heimsins fari ekki vaxandi þá vex jafnt og þétt það tjón sem skjálftar valda. Þetta stafar af sívaxandi mannfjölda í heiminum. Sífellt fleira fólk býr á svæðum þar sem skjálftar eiga upptök og meiri verðmæti eru þar til að eyðileggja. Því er alveg ljóst að tjón vegna skjálfta mun fara vaxandi á komandi árum og áratugum. Stórborgir hafa víða risið í nágrenni skjálftavirkra misgengja síðan síðast urðu þar stórir skjálftar. Hörmungarnar á Haítí í byrjun þessa árs eru dæmi um afleiðingar af slíku.

Því miður verðum við að reikna með að tíðni slíkra áfalla muni aukast. Til að sporna við þessari þróun hafa aðallega verið nefndar þrjár aðferðir:
  1. Setja strangari byggingarstaðla og fylgja þeim eftir af meiri festu en víða tíðkast.
  2. Efla rannsóknir á styrk bygginga og styrkja þær sem eru of veikbyggðar.
  3. Efla rannsóknir á eðli skjálfta með það að markmiði að segja fyrir um þá og gefa út viðvaranir.

San Francisco er ein þeirra stórborga sem hafa byggst upp í næsta nágrenni skjálftamisgengis. Raunar liggur San Andreasmisgengið í gegnum borgina og útborgir hennar. Sprungan er grein af flekaskilum milli Norður-Ameríku- og Kyrrahafsflekanna. Þessi hluti misgengisins hrökk til og gerði mikinn skjálfta árið 1906. Borgin var enn lítil á þessum tíma en hún varð fyrir gríðarlegu tjóni, meðal annars vegna bruna þegar gasleiðslur rofnuðu.

Mælingar sýna að spenna hleðst upp á þessum flekaskilum sem öðrum, en menn greinir nokkuð á um það hversu nálægt spennan sé orðin þeim mörkum að misgengið hrökkvi aftur.



Jarðskjálftinn 1906 olli miklu tjóni í San Francisco. Ljóst er að jörð mun skjálfa aftur á þessum slóðum, hins vegar eru vísindamenn ekki sammála um hvenær búast megi við næsta stóra skjálfta.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimild og myndir:

Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hafa óvenjumargir stórir jarðskjálftar orðið undanfarið ár? Eru einhverjar kenningar um tengsl milli skjálftabelta? Hver er staðan í San Fransisco varðandi uppsafnaða spennu?
Höfundur svarsins tekur fram að hér er um þrjár aðskildar spurningar að ræða en svör við þeim skarast nokkuð svo hann kýs að svara þeim með einum pistli.

Höfundur

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

30.9.2010

Spyrjandi

Halla Hauksdóttir, Andrea Dögg Gylfadóttir

Tilvísun

Páll Einarsson. „Hafa óvenjumargir stórir jarðskjálftar orðið undanfarið ár?“ Vísindavefurinn, 30. september 2010. Sótt 27. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=55881.

Páll Einarsson. (2010, 30. september). Hafa óvenjumargir stórir jarðskjálftar orðið undanfarið ár? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=55881

Páll Einarsson. „Hafa óvenjumargir stórir jarðskjálftar orðið undanfarið ár?“ Vísindavefurinn. 30. sep. 2010. Vefsíða. 27. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=55881>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hafa óvenjumargir stórir jarðskjálftar orðið undanfarið ár?
Langflestir skjálftar í heiminum stafa af flekahreyfingum og verða á svæðum þar sem spenna safnast í jarðskorpunni á eða nálægt flekaskilum. Stærstir verða skjálftarnir á þeirri gerð flekaskila þar sem samrek á sér stað. Skjálftar eru minni og fátíðari á hjáreksbeltum, og sýnu minnstir á fráreksbeltum. Hraði flekahreyfinganna er nokkuð jafn frá ári til árs og því er spennusöfnunin og skjálftavirknin, sem af henni stafar, nokkuð jöfn þegar litið er til heimsins alls.

Það er ekkert sem bendir til þess að skjálftar í heiminum séu meiri síðasta áratug en áratuginn þar á undan. Öðru máli gegnir ef við horfum á takmörkuð svæði og takmörkuð tímabil. Það er til dæmis vel þekkt að stórir skjálftar á skjálftabelti Suðurlands koma í hviðum, það er margir skjálftar verða á nokkurra ára bili en svo líða margir áratugir með lítilli skjálftavirkni. Á síðasta áratug urðu þar fjórir skjálftar af stærðinni 6 og stærri, árin 2000 og 2008. Svo stórir skjálftar höfðu þá ekki orðið þar síðan 1912.



Fjöldi jarðskjálfta á ári af stærðinni 7 og stærri í heiminum á tímabilinu 1990-2010.

Hér kemur til svokölluð gikkverkun skjálfta. Þegar stór skjálfti verður, breytir hann spennunni á nærliggjandi svæðum. Ef spennan á viðkomandi svæði er nálægt brotmörkum jarðskorpunnar getur breytingin orðið nægileg til að spennan fer yfir mörkin og nýr skjálfti verður.

Eitt besta dæmið sem nú er þekkt í skjálftafræðinni er einmitt frá Suðurlandi. Stóri skjálftinn sem varð 17. júní 2000 átti upptök í ofanverðum Holtum en hann hratt af stað fjölda skjálfta á flekaskilunum allt vestur á Reykjanesskaga. Um þetta má lesa í grein eftir Þóru Árnadóttur og fleiri (2004). Þessir skjálftar áttu upptök á öðrum sprungum en upphafsskjálftinn og eru því ekki eiginlegir eftirskjálftar. Því eru greinilega nokkur takmörk sett hversu langt gikkverkunin getur haft áhrif. Það verður að teljast nokkuð ólíklegt að skjálftar á tilteknum flekaskilum hleypi af stað skjálftum á skilum annarra fleka.

Þó skjálftavirkni heimsins fari ekki vaxandi þá vex jafnt og þétt það tjón sem skjálftar valda. Þetta stafar af sívaxandi mannfjölda í heiminum. Sífellt fleira fólk býr á svæðum þar sem skjálftar eiga upptök og meiri verðmæti eru þar til að eyðileggja. Því er alveg ljóst að tjón vegna skjálfta mun fara vaxandi á komandi árum og áratugum. Stórborgir hafa víða risið í nágrenni skjálftavirkra misgengja síðan síðast urðu þar stórir skjálftar. Hörmungarnar á Haítí í byrjun þessa árs eru dæmi um afleiðingar af slíku.

Því miður verðum við að reikna með að tíðni slíkra áfalla muni aukast. Til að sporna við þessari þróun hafa aðallega verið nefndar þrjár aðferðir:
  1. Setja strangari byggingarstaðla og fylgja þeim eftir af meiri festu en víða tíðkast.
  2. Efla rannsóknir á styrk bygginga og styrkja þær sem eru of veikbyggðar.
  3. Efla rannsóknir á eðli skjálfta með það að markmiði að segja fyrir um þá og gefa út viðvaranir.

San Francisco er ein þeirra stórborga sem hafa byggst upp í næsta nágrenni skjálftamisgengis. Raunar liggur San Andreasmisgengið í gegnum borgina og útborgir hennar. Sprungan er grein af flekaskilum milli Norður-Ameríku- og Kyrrahafsflekanna. Þessi hluti misgengisins hrökk til og gerði mikinn skjálfta árið 1906. Borgin var enn lítil á þessum tíma en hún varð fyrir gríðarlegu tjóni, meðal annars vegna bruna þegar gasleiðslur rofnuðu.

Mælingar sýna að spenna hleðst upp á þessum flekaskilum sem öðrum, en menn greinir nokkuð á um það hversu nálægt spennan sé orðin þeim mörkum að misgengið hrökkvi aftur.



Jarðskjálftinn 1906 olli miklu tjóni í San Francisco. Ljóst er að jörð mun skjálfa aftur á þessum slóðum, hins vegar eru vísindamenn ekki sammála um hvenær búast megi við næsta stóra skjálfta.

Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:

Heimild og myndir:

Í heild sinni hljóðaði spurningin svona:
Hafa óvenjumargir stórir jarðskjálftar orðið undanfarið ár? Eru einhverjar kenningar um tengsl milli skjálftabelta? Hver er staðan í San Fransisco varðandi uppsafnaða spennu?
Höfundur svarsins tekur fram að hér er um þrjár aðskildar spurningar að ræða en svör við þeim skarast nokkuð svo hann kýs að svara þeim með einum pistli....