Sólin Sólin Rís 08:01 • sest 18:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:43 • Síðdegis: 22:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 16:13 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:01 • sest 18:27 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:43 • Síðdegis: 22:11 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:23 • Síðdegis: 16:13 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað veldur jarðskjálftum?

Steinunn S. Jakobsdóttir

Ysta lag jarðarinnar, jarðskorpan, er samsett úr mörgum flekum sem hreyfast hver miðað við annan. Flekarnir ýmist nuddast saman á hliðunum, eins og til dæmis á Suðurlands- og Tjörnesbrotabeltunum, ýtast hvor frá öðrum, þannig að ný skorpa myndast, samanber gosbeltin, eða þrýstast hver undir annan þannig að gömul skorpa bráðnar á ný, eins og við Indónesíu og vesturströnd Suður-Ameríku. Á öllum þessum flekasamskeytum byggist upp spenna sem losnar við jarðskjálfta. Mismunandi gerðir jarðskjálfta einkenna mismunandi flekasamskeyti.

Á skilum þar sem flekarnir renna hvor fram hjá öðrum eru algengastir svokallaðir sniðgengisskjálftar og ef brotið nær yfirborði geta vegir, girðingar og annað hliðrast um jafnvel nokkra metra. Það fer meðal annars eftir þykkt jarðskorpunnar á flekaskilunum hversu mikil spenna getur byggst upp og þar með hversu stórir þessir skjálftar geta orðið. Stærstu skjálftarnir á Íslandi eru af þessari gerð, samanber Suðurlandsskjálftarnir. Hér á landi verða skjálftar ekki stærri en um 7,2 á Richterskvarða, en í Kaliforníu geta þeir orðið þó nokkuð stærri.

Brotahreyfingar og landform. A) gjá, B) siggengi, C) samgengi, D) sniðgengi, E) sigdalur og F) rishryggur. (Teikn. Þ.E. og G.H.I).

Í gosbeltunum eru svonefndir siggengisskjálftar algengastir, þar sem hluti skorpunnar sígur við gliðnun, en sniðgengis- og þrýstigengisskjálftar mælast þar líka. Jarðskorpan er ung og heit í gosbeltunum og því er ekki hægt að byggja upp mikla spennu þar. Afleiðingin er sú að skjálftar þar verða aldrei mjög stórir, varla mikið stærri en um það bil 6 á Richterskvarða.

Á flekamótum þar sem einn fleki þrýstist undir annan verða svokallaðir þrýstigengisskjálftar. Allra stærstu skjálftar á jörðinni eru gjarnan af þessari gerð og þessir skjálftar eru best fallnir til að mynda flóðbylgjur eða tsunami.

Að lokum skal þess getið að skjálftar geta orðið inni á miðjum flekum vegna staðbundins þrýstings og að það mælast skjálftar sem eru sambland af þeim skjálftum sem hér hefur verið lýst.

Þetta svar er af fengið af vef Veðurstofu Íslands og birt með góðfúslegu leyfi.

Á Vísindavefnum má lesa meira um jarðskjálfta, til dæmis í eftirfarandi svörum:

Heimild:

Höfundur

jarðeðlisfræðingur

Útgáfudagur

30.5.2008

Síðast uppfært

22.6.2018

Spyrjandi

Bryndís Petersen
Anna Pálsdóttir
Eyrún Eyólfsdóttir
Hulda Birna

Tilvísun

Steinunn S. Jakobsdóttir. „Hvað veldur jarðskjálftum?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2008, sótt 9. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=47958.

Steinunn S. Jakobsdóttir. (2008, 30. maí). Hvað veldur jarðskjálftum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=47958

Steinunn S. Jakobsdóttir. „Hvað veldur jarðskjálftum?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2008. Vefsíða. 9. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=47958>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað veldur jarðskjálftum?
Ysta lag jarðarinnar, jarðskorpan, er samsett úr mörgum flekum sem hreyfast hver miðað við annan. Flekarnir ýmist nuddast saman á hliðunum, eins og til dæmis á Suðurlands- og Tjörnesbrotabeltunum, ýtast hvor frá öðrum, þannig að ný skorpa myndast, samanber gosbeltin, eða þrýstast hver undir annan þannig að gömul skorpa bráðnar á ný, eins og við Indónesíu og vesturströnd Suður-Ameríku. Á öllum þessum flekasamskeytum byggist upp spenna sem losnar við jarðskjálfta. Mismunandi gerðir jarðskjálfta einkenna mismunandi flekasamskeyti.

Á skilum þar sem flekarnir renna hvor fram hjá öðrum eru algengastir svokallaðir sniðgengisskjálftar og ef brotið nær yfirborði geta vegir, girðingar og annað hliðrast um jafnvel nokkra metra. Það fer meðal annars eftir þykkt jarðskorpunnar á flekaskilunum hversu mikil spenna getur byggst upp og þar með hversu stórir þessir skjálftar geta orðið. Stærstu skjálftarnir á Íslandi eru af þessari gerð, samanber Suðurlandsskjálftarnir. Hér á landi verða skjálftar ekki stærri en um 7,2 á Richterskvarða, en í Kaliforníu geta þeir orðið þó nokkuð stærri.

Brotahreyfingar og landform. A) gjá, B) siggengi, C) samgengi, D) sniðgengi, E) sigdalur og F) rishryggur. (Teikn. Þ.E. og G.H.I).

Í gosbeltunum eru svonefndir siggengisskjálftar algengastir, þar sem hluti skorpunnar sígur við gliðnun, en sniðgengis- og þrýstigengisskjálftar mælast þar líka. Jarðskorpan er ung og heit í gosbeltunum og því er ekki hægt að byggja upp mikla spennu þar. Afleiðingin er sú að skjálftar þar verða aldrei mjög stórir, varla mikið stærri en um það bil 6 á Richterskvarða.

Á flekamótum þar sem einn fleki þrýstist undir annan verða svokallaðir þrýstigengisskjálftar. Allra stærstu skjálftar á jörðinni eru gjarnan af þessari gerð og þessir skjálftar eru best fallnir til að mynda flóðbylgjur eða tsunami.

Að lokum skal þess getið að skjálftar geta orðið inni á miðjum flekum vegna staðbundins þrýstings og að það mælast skjálftar sem eru sambland af þeim skjálftum sem hér hefur verið lýst.

Þetta svar er af fengið af vef Veðurstofu Íslands og birt með góðfúslegu leyfi.

Á Vísindavefnum má lesa meira um jarðskjálfta, til dæmis í eftirfarandi svörum:

Heimild:

...