Einfalda svarið
Líklega hefur spyrjanda komið spánskt fyrir sjónir að íslenskum fjölmiðlum verður stundum tíðrætt um að menn ætli að eyða úrani eins og það er kallað. Þetta orðalag er hins vegar byggt á misskilningi. Úran er frumefni. Það þýðir að hreint úran er samsett úr frumeindum eða atómum sem hafa sömu sætistölu sem kallað er, það er að segja jafnmargar róteindir og jafnmargar rafeindir í hverju atómi og sömu rafeindaskipan. Þetta hefur í för með sér að atómin hegða sér öll eins í efnahvörfum, sem sé þegar þau ganga í samband við önnur frumefni.
Úran er frumefni. Í náttúrlegu úrangrýti finnast einkum tvær samsætur: Úran-238 og úran-235. Seinni samsætuna er unnt að „kljúfa“ með upptöku nifteinda, en við það losnar gríðarleg orka úr læðingi.
Öll sagan sögð
En hugum nú aðeins nánar að því hvernig úran er notað í kjarnorku. Í náttúrlegu úrani er samsætan úran-238 ríkjandi eða rúm 99%, úran-235 er rétt innan við 1%. Úran-235 er hins vegar sú samsæta sem unnt er að „kljúfa“ með upptöku nifteinda, en við það losnar gríðarleg orka úr læðingi. Með flókinni tækni (nokkurs konar skilvindutækni) er unnt að breyta hlutfallinu milli úrans-235 og úrans-238, og talað er um að vinna auðgað úran eða einfaldlega að „auðga úran.“ Þegar úran-235 er komið upp í um 20-30% er unnt að nota efnið sem eldsneyti fyrir kjarnorkuver sem framleiða raforku. Til þess að fá nothæft úran í sprengjuodda þarf hins vegar að auðga það upp í 70-90%.
Kjarnorkuáætlun Írana er oft í fréttum. Á myndinni sést Mahmoud Ahmadinejad, Íransforseti í kjarnorkuverinu í Natanz.
- Uraninite á ThinkQuest.org. Sótt 26.1.2012.
- Frontapagemag.com. Sótt 27.1.2012.