Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið „samfélagssáttmáli“ er notað til að lýsa siðfræði- og stjórnspekikenningum sem fela í sér að réttindi manna og skyldur byggist á einhvers konar samkomulagi. Slíkar kenningar eru æði margvíslegar og eiga sér langa sögu svo engin ein stutt skilgreining dugar til að afmarka allt sem meint hefur verið með þessu orði.
Elsta heimild sem ég þekki um þá hugmynd að skyldur manna hvíli á samkomulagi er samræðan Kríton sem skrifuð var af gríska heimspekingnum Platoni á fyrri hluta fjórðu aldar fyrir okkar tímatal. Samræðan á sér stað þar sem Sókrates, lærimeistari Platons, er staddur í fangelsi og bíður þess að vera tekinn af lífi. Vinur Sókratesar sem Kríton heitir er í heimsókn hjá honum og býðst til að hjálpa honum að flýja úr fangelsinu. Sókrates svarar með því að segja að þá bryti hann gegn lögunum sem hann væri skuldbundinn til að hlýða og veltir fyrir sér hvað lögin hefðu um þetta að segja ef þau gætu talað:
„Gættu nú að, Sókrates,“ mundu lögin ef til vill … segja, „hvort við höfum rétt að mæla, að það sem þú ætlar nú að gera oss, sé rangt. Það erum vér, sem höfum þig í heiminn borið, fóstrað þig og frætt og miðlað þér, eins og öllum öðrum þegnum, af þeim fríðindum sem oss var unnt að veita. Eigi að síður gefum vér hverjum Aþenumanni, jafnskjótt og hann hefur náð lögaldri og kynnt sér háttu ríkisins og oss lögin, kost á að velja um, og lýsum yfir því, að hverjum manni skuli vera frjálst að taka með sér það sem hann á, og fara þangað sem hann vill, þó að oss þyki fyrir því. Hvort sem einhver yðar vill flytjast til nýlendu, ef hann fellir sig ekki við borgina og oss lögin, eða hann vill fara til annarra landa og setjast þar að, þá eru engin af oss lögunum því til fyrirstöðu, að hann fari á brott og hafi með sér eigur sínar. En hver yðar, sem verður kyrr, þegar hann sér, hvernig vér dæmum dóma og stjórnum öðrum borgarmálum, köllum vér, að hafi í verki skuldbundið sig til að gera það, sem vér bjóðum honum.1
Í þessum orðum sem Sókrates leggur lögunum í munn kemur fyrir meginhugsun flestra kenninga um samfélagssáttmála, nefnilega að skyldur borgaranna við ríkið hvíli, að minnsta kosti að einhverju leyti, á sáttmála eða samkomulagi, það er að mönnum beri að hlýða lögunum í landi sínu eða gera eins og yfirvöld bjóða vegna þess að þeir hafi sjálfir samþykkt það. Líkt og flestar kenningar um samfélagssáttmála gerir þessi ráð fyrir að menn skuldbindi sig í verki eða með einhvers konar þegjandi samkomulagi fremur en með formlegum samningi, loforði eða yfirlýsingu.
*
Eitt af áhrifamestu ritum um stjórnspeki frá seinni öldum er Leviathan eftir Englendinginn Thomas Hobbes (1588–1679). Þar segir hann:
Sé ekkert vald sem allir óttast þá ríkir ófriður og sá ófriður er stríð allra manna gegn öllum mönnum … Meðan þetta ástand varir hefur vinnusemi engan tilgang því afrakstur hennar er ótryggur og því er engin jarðrækt og engar siglingar og menn nota ekki vörur sem fluttar eru sjóleiðis; ekki eru heldur neinar vel búnar byggingar og ekki neinar vélar til að flytja og fjarlægja hluti sem mikla krafta þarf við, engin þekking á yfirborði jarðarinnar, ekkert tímatal, engar listir, ekkert er skrifað og það er ekki neitt samfélag. Það versta er þó að menn búa við stöðugan ótta og sífellda ógn um grimmilegan dauðdaga og líf þeirra er einmanalegt, snautt, napurt, dýrslegt og stutt.2
Hobbes áleit að menn gætu ekki séð lífi sínu og afkomu borgið nema semja um það sín í milli að fela einhverjum vald sem allir óttast. Hann lýsti tilurð ríkisvaldsins eins og það yrði til með sáttmála hvers og eins við alla hina. Samkomulagið er ekki milli almennings og valdhafans svo hann er ekki skuldbundinn þegnunum á neinn hátt og ekki settur undir nein lög. Hobbes gerði ráð fyrir að samfélagssáttmálinn færði ríkinu ótakmarkað vald yfir þegnunum.
Eina leiðin til að menn byggi upp slíkt vald sem getur varið þá fyrir árásum utanaðkomandi og skaða hvers af annars völdum … er að allt afl þeirra og vald sé falið einum manni eða einni samkundu manna sem gerir vilja allra að einum vilja. Þetta þýðir að einum manni eða einni samkundu er falið að koma fram í nafni allra og allir fallast á að verk þau sem þessi eini vinnur eða lætur vinna og varða frið og öryggi hópsins séu sín verk og beygi þannig vilja sinn undir vilja hans og dóma sína undir dóma hans. Þetta er meira en bara samkomulag eða samstilling. Þetta er raunveruleg sameining allra í eina persónu sem verður þegar allir semja við hvern og einn hinna rétt eins og hver maður segði við sérhvern annan: Ég læt rétt minn til sjálfstjórnar af hendi og fel hann þessum manni, eða þessari samkundu manna, með því skilyrði að þú afhendir honum þinn rétt. Að þessu loknu er sá fjöldi sem sameinast hefur í eina persónu nefndur ríki …3
Annar upphafsmaður áhrifamikillar kenningar um samfélagssáttmála var John Locke (1632–1704) sem var Englendingur eins og Hobbes. Hann hafnaði því að eðlilegt sé að lýsa tilurð ríkis svo að menn feli einhverjum ótakmarkað vald og hélt því fram að réttara væri að líta svo á að ríkisvald réttlættist af almennu samkomulagi um að fela yfirvöldum tiltekin afmörkuð verkefni. Hobbes hafði notað kenningu um samfélagssáttmála til að réttlæta konungseinveldi af því tagi sem var í tísku eftir þrjátíu ára stríðið. Locke reyndi að nota þá hugmynd, að skyldan til að hlýða yfirvöldum hvíli á samkomulagi, til að réttlæta hugmyndir um ríkisvald sem gengu þvert gegn hugmyndum um einveldi. Í bók sinni Ritgerð um ríkisvald (The Second Treatise of Government) lýsir hann tilurð ríkisins á þessa leið:
Þar sem öllum mönnum er náttúrulegt að vera frjálsir, jafnir hver öðrum og sjálfstæðir, má ekki svipta neinn mann þessum réttindum og setja hann undir lögsögu annars án þess hann veiti til þess samþykki sitt. Maður getur aðeins með einu móti afsalað sér náttúrulegu frelsi sínu og lagt á sig bönd borgaralegs samfélags: það er með því að gera samkomulag við aðra menn. … Þegar hópur manna hefur þannig samþykkt að mynda með sér eitt samfélag eða ríki, eru meðlimir hans þar með orðnir ein ríkisheild þar sem meirihlutinn hefur rétt til að taka ákvarðanir fyrir allan hópinn og breyta í hans nafni.4
Þótt Locke teldi rétt að meirihlutinn hefði vald til að taka ákvarðanir fyrir allan hópinn áleit hann vald meirihlutans yfir einstaklingunum þó takmarkað af siðferðilegum rétti (eða mannréttindum) sem væri til á undan ríkinu. Kenning hans hafði síðar mikil áhrif á þróun frjálshyggju og lýðræðishugmynda.
Hugmyndir um samfélagssáttmála hafa ekki aðeins verið notaðar til að réttlæta konungseinveldi og frjálshyggju. Frumkvöðlar vinstristefnu eins og Frakkinn Jean-Jacques Rousseau (1712-1778) hafa líka reynt að rökstyðja kenningar sínar með tilvísun til sáttmála. Í riti sem kallast Samfélagssáttmálinn (Du Contrat social) lýsir Rousseau hugsjón sinni um ríki jafningja sem hafa með sér sáttmála um að allir fylgi almannavilja.
*
Hér hef ég farið nokkrum orðum um kenningar í þá veru að skylda borgaranna við ríkið, eða sú skylda hvers og eins að hlýða lögunum, hvíli á samkomulagi. Sumir hafa einnig notað hugmyndir um samfélagssáttmála til að skýra tilurð eða uppruna siðferðis eða einhverra hluta þess, það er að segja hvernig réttindi og skyldur sem gilda í samskiptum einstaklinga hafa orðið til og mótast. Hobbes taldi til dæmis að samfélagssáttmálinn skýrði ekki aðeins hvernig ríkisvald verður til heldur líka hvernig réttlæti verður til. Síðan þá hafa margir reynt að nota svipaðar hugmyndir til að varpa ljósi á siðferði fólks. Þeirra þekkastur er líklega Skotinn David Hume (1711-1776) sem áleit að eignarréttur hvíldi á þegjandi samkomulagi sem hefði mótast sem hefð eða venja.
Þessar siðfræðikenningar gera ekki ráð fyrir að menn hafi í bókstaflegum skilningi samið um hvað er rétt og hvað er rangt. Að minnsta kosti sumar þeirra má fremur skilja svo að siðferði eða einhverjir hlutar þess byggi á samkomulagi með svipuðum hætti og tungumálið. Það þarf að vera samkomulag um merkingu orða til að menn geti talað saman en tungumálið hefur samt ekki orðið til með þeim hætti að menn kæmu saman til fundar og gerðu með sér samning um fyrir hvað orðin stæðu. Samkomulag af þessu tagi er stundum ekkert annað en venja sem byggir á gagnkvæmum skilningi. Hver og einn heldur sig við hana vegna þess að hann býst við að hinir geri það og veit að þeir búast við að hann geri það.
*
Þótt frægustu kenningasmiðir um samfélagssáttmála hafi flestir verið upp á 17. og 18. öld eru kenningar af þessu tagi enn til umræðu og hefur vegur þeirra heldur vaxið á seinni árum, einkum vegna áhrifa Bandaríkjamannsins John Rawls. Árið 1971 sendi Rawls frá sér bók sem kallast Kenning um réttlæti (A Theory of Justice). Þar notar hann samfélagssáttmála til að skilgreina og útskýra réttlæti og réttláta samfélagsskipan. Í stuttu máli er kenning Rawls á þá leið að samfélagsskipan sé réttlát ef skynsamir menn sem kæmu saman undir fávísisfeldi mundu samþykkja hana allir sem einn. En fávísisfeldur er þeirrar náttúru að undir honum veit hver og einn öll almenn sannindi um mannlífið en hefur enga hugmynd um sína eigin stöðu, veit til dæmis ekki hvort hann sé ríkur eða fátækur, hraustur eða veikur, borgarbúi eða sveitamaður, karl eða kona.
Síðan bók Rawls kom út hefur áhugi siðfræðinga og stjórnspekinga á kenningum um samfélagssáttmála vaxið ár frá ári og rit heimspekinga frá 17. og 18. öld sem fjölluðu um efnið verið rökrædd og túlkuð upp á nýtt.
Ítarlegri umfjöllun um samfélagssáttmála má finna í kaflanum um Hobbes í bók minni Vafamál sem út kom hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1998.
Heimildir:
1Íslensk þýðing Sigurðar Nordal og Þorsteins Gylfasonar. Tilvitnun tekin úr bókinni Síðustu dagar Sókratesar, Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1990 bls. 91.
2 Leviathan 13. kafli. (Þýðing AH)
3 Hobbes: Leviathan 17. kafli. (Þýðing AH)
4 Locke: Ritgerð um ríkisvald grein 95. (Þýðing AH)
Myndir
Mynd af Sókratesi er af Socrates. Jimpoz.com. Sótt 10.2.2006
Mynd af Hobbes er af Thomas Hobbes. Wikipedia, frjálsa alfræðiorðabókin. Sótt 10.2.2006
Atli Harðarson. „Hvað er átt við með samfélagssáttmála?“ Vísindavefurinn, 10. febrúar 2006, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=5633.
Atli Harðarson. (2006, 10. febrúar). Hvað er átt við með samfélagssáttmála? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=5633
Atli Harðarson. „Hvað er átt við með samfélagssáttmála?“ Vísindavefurinn. 10. feb. 2006. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=5633>.