Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Fyrir tveimur árum var unnið BA-verkefni í félagsfræði við Háskóla Íslands um svonefnd 1% samtök mótorhjólamanna (Snædís Góa Guðmundsdóttir, 2010). Eitt prósent nafngiftin vísar til þess að 99% mótorhjólamanna eru löghlýðnir borgarar en einungis 1% álíta sig útlaga handan við lög og rétt. Samtökin Hells Angels (Vítisenglar) og Outlaws (Útlagar) tilheyra þessu eina prósenti og bæði hafa nýlega gert vart við sig hér á landi. Markmið ritgerðarinnar var að skoða nánar þetta eina prósent, sér í lagi Hells Angels og Mongols, sem einnig telst til þessa hóps. Einkum var leitast við að varpa ljósi á hvort afbrot hefðu tengst samtökum af þessu tagi erlendis og hvað rannsóknir hefðu sýnt um tengsl gengjanna við brotastarfsemi af ýmsu tagi.
Norskir Vítisenglar.
Samkvæmt fjölda heimilda virðist sem slóð afbrota fylgi þeim sama hvar samtökin ber niður í heiminum. Alls staðar virðast félagsmenn tengjast afbrotum af ýmsu tagi eins og sölu fíkniefna, vændi, fjárkúgun, ránum og ofbeldi. Niðurstaðan byggir á ólíkum heimildum er greina frá starfsemi í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada, auk Ástralíu og jafnvel víðar (sjá til dæmis Barker og Human, 2009; Johnstone, 2004 og Sher og Marsden, 2006).
Það er ekki alveg jafn ljóst hvort brotin eru framin í skjóli samtakanna sjálfra eða hvort þau eru verk einstaklinga sem vill svo til að eru í þeim. Brotastarfsemi virðist þó fylgja meðlimum samtakanna hvar sem þeir stíga niður fæti. Jafnvel þótt meðlimir segi samtökin ekki tengjast afbrotum laðast að þeim einstaklingar með afbrotasögu af ýmsu tagi. Þarna koma þeir saman og mynda félagsband, skapa í raun ákveðið hagsmunafélag eða samtök um málefni sín.
Hells Angels eru elstu og áhrifamestu samtök mótorhjólamanna. Þau voru stofnuð í Bandaríkjunum árið 1948 af uppgjafahermönnum (sjá til dæmis Lavigne, 1987). Félagsmenn lifa eftir mottóinu „skítt með heiminn“ (e. fuck the world), sem segir í raun ansi margt um afstöðu þeirra til samfélagsins. Meðlimir líta á sig sem útlaga og vilja skapa eigin heim, þar sem þeirra eigið siðferði á að fá að ríkja.
Merki vítisengla er vængjuð hauskúpa.
Hells Angels líta fyrst og fremst á sig sem mótorhjólaklúbb (e. motorcycle club) sem er skammstafað MC. Í tilfelli 1% klúbbanna má segja að stafirnir standi einnig fyrir mens club því að kvenfólki er meinuð aðild.
Afstaðan til kvenna er vafasöm og konur fá eingöngu að vera með sem fylgihlutir eða eign tiltekinna meðlima, stundum kallaðar gamlar kerlingar eða hnakkaskraut. Inntaka er háð ýmsum skilyrðum og til að fá inngöngu í samtökin þarf stundum að ganga í berhögg við viðmið og gildi samfélagsins, og ekki síður til að komast til metorða innan samtakanna (sjá til dæmis Droban, 2007).
Einkennandi fyrir félagsskapinn er tryggð við samtökin og þagmælska. Það er ekki auðvelt fyrir meðlimi að segja skilið við samtökin, enda hafa þeir séð og heyrt ýmislegt sem ekki má spyrjast út fyrir raðir félagsmanna. Erlendis eru til ýmsar sögur af þeim sem hafa lent illa í því að vilja ganga úr samtökum eins og Hells Angels.
Félagsmenn greiða félagsgjöld og samtökin afla sér tekna með sölu á margvíslegum varningi tengdum samtökunum. Á síðustu árum hafa Hells Angels reynt að bæta ímynd sína meðal almennings með því að gefa fé og muni í góðgerðastarfsemi af ýmsu tagi enda eru móðursamtökin álitin allvel stæð.
Heimildir:
Barker, T. og Human, K. M. (2009). Crimes of the big four motorcycle gangs. Journal of Criminal Justice, 37(2): 174-179.
Droban, K. (2007). Running with the Devil: The True Story of the ATF´s Infiltritation of the Hells Angels. Guilford, CT: The Lyons Press.
Johnstone, M. (2004). Gangland, a Global History of Gang War, Gangsters, and Criminal Culture. London: Arcturus.
Lavigne, Y. (1987). Hells Angels: Three Can Keep a Secret if Two are Dead. New York: Kensington Publishing Corp.
Sher, J. og Marsden, W. (2006). Angels of Death: Inside the Biker Gangs´ Crime Empire. New York: Da Capo Press.
Helgi Gunnlaugsson. „Tengjast mótorhjólaklúbbar eins og Hells Angels vafasamri starfsemi eins og margir halda fram?“ Vísindavefurinn, 13. apríl 2012, sótt 17. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=56757.
Helgi Gunnlaugsson. (2012, 13. apríl). Tengjast mótorhjólaklúbbar eins og Hells Angels vafasamri starfsemi eins og margir halda fram? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=56757
Helgi Gunnlaugsson. „Tengjast mótorhjólaklúbbar eins og Hells Angels vafasamri starfsemi eins og margir halda fram?“ Vísindavefurinn. 13. apr. 2012. Vefsíða. 17. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=56757>.