Sólin Sólin Rís 05:21 • sest 21:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 22:16 • Sest 12:09 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 09:20 • Síðdegis: 21:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:14 • Síðdegis: 15:26 í Reykjavík

Hvernig er félagskerfi tannhvala?

Edda Elísabet Magnúsdóttir

Fræðimenn hafa nokkuð rannsakað félagskerfi og félagshegðun þriggja tannhvalategunda: háhyrninga (Orcinus orca), búrhvala (Physeter macrocephalus) og stökkla (Tursiops truncatus). Auk þess hafa farið fram töluverðar rannsóknir á hnúfubak en hann telst til skíðishvala.

Hafa ber í huga að hver tegund tannhvala og skíðishvala hefur sitt sérstaka félagskerfi og því er félagshegðun þessara fyrrgreindu tegunda ekki lýsandi fyrir alla aðra tannhvali og skíðishvali. Engu að síður gefa rannsóknirnar okkur vísbendingu um hvað stýri hegðunarmynstri hvala og hvaða þættir ýta undir félagshegðun þeirra.

Eitt einkenni á félagskerfi háhyrninga er að afkvæmin fylgja yfirleitt móður sinni alla tíð eða þar til hún fellur frá, sumar dætur mynda þó nýja fjölskylduhópa. Á fengitímanum heimsækja tarfarnir kvendýr í öðrum hópum en snúa svo aftur til móður sinnar að þeim tíma loknum.


Hópur háhyrninga við strendur Íslands. Karldýrin þekkjast af háum bakugganum.

Meðal búrhvala finnast karla- og kvennahópar. Hópur kvendýranna tengist yfirleitt í beinan kvenlegg. Karldýrin hverfa frá hópnum þegar þeir hafa náð nægilegri líkamsstærð og halda þeir sig þá að mestu leyti einir. Karldýrin flakka milli hafsvæða eftir árstíðum. Þeir eru aðallega á norðlægum slóðum á sumrin en suður í höfum á kvennafari á veturna.

Stökklar lifa á strandsvæðum en margt í hegðunarmynstri þeirra svipar til hegðunar annarra strandsvæðahöfrunga, svo sem hnýðinga við Ísland. Kynjaskiptir hópar er eitt einkenni á félagsháttum þeirra. Engu að síður deila karl- og kvendýr sömu strandsvæðunum. Karldýrin mynda nokkuð stöðug bandalög, í þeim eru oft um þrír til fimm tarfar. Karlstökklarnir í hverju bandalagi vinna saman að veiðum en einnig er talið að þeir keppi við önnur bandalög um aðgang að frjóum kvendýrum. Kvendýrin virðast mynda einhvers konar samtök en samsetning þeirra er nokkuð óstöðug. Í þessum hópum geta samskipti milli einstaklinga verið fjölbreytt, bæði í leik og við veiðar. Tungumál höfrunga á borð við stökkla og hnýðinga getur verið mjög fjölbreytt og talið er að sumir hópar þrói með sér ákveðið „tungumál“ eða „mállýsku“ með sérhæfðum hljóðmerkjum.

Flestir tannhvalir, líkt og höfrungar og búrhvalir, byggja afkomu sína að miklu leyti á samstarfi við aðra einstaklinga sömu tegundar, ekki ólíkt fremdardýrum og fílum. Samstarfið felur í megindráttum í sér að einstaklingar hjálpast að við veiðar til að auka aflaafköstin en standa jafnframt vörð og hjálpast að við að vernda þá veikbyggðari fyrir ýmsum hættum sem leynast í umhverfinu.


Búrhvalir.

Kvendýr tannhvala eru að jafnaði smærri en karldýrin. Þær eru því auðveldari bráð, sérstaklega ef þær eru með kálfa. Því er nokkuð ljóst að samvinna kvendýra við uppeldi og verndun ungviðisins er mjög mikilvæg. Einnig kemur sér vel ef einhver sér um gæta kálfanna á meðan móðirin aflar sér matar. Tannhvalskýr sem hefur hjálpað öðrum kúm er síðan líklegri til að fá aðstoð þegar hún eignast sinn kálf.

Fólk í hvalaskoðun í Skjálfandaflóa í ágúst árið 2010 varð vitni að burði hjá hnýðingskú sem sýndi glögglega mikilvægi samheldni í hvalahópnum. Á meðan fæðingunni stóð, syntu þrjú til fjögur fullorðin dýr umhverfis kúna, henni til varnar. Þegar kálfurinn kom í heiminn hjálpuðust allir höfrungarnir við að koma honum upp á yfirborðið svo hann gæti dregið andann í fyrsta sinn. Þessi atburður sýnir glöggt hversu stóru hlutverki félagskerfi tannhvala gegnir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
 • Baird, R. W. (2000) The killer whale: Foraging specializations and group hunting. In: Cetacean societies: Field studies of dolphins and whales, eds., J. Mann, R. C. Connor, P. L. Tyack & H. Whitehead. University of Chicago Press.
 • Clapham, P. J. (1993) Social organization of humpback whales on a North Atlantic feeding ground. Symposia of the Zoological Society (London) 66:131–45.
 • Connor, R. C., Mann, J., Tyack, P. L. & Whitehead, H. 1998. Social evolution in toothed whales. Trends in Ecology and Evolution 13:228–32.
 • Edda Elísabet Magnúsdóttir, Rasmussen, M.H., and Lammers, M.O. 2010. Combining visual and fixed passive acoustic methods to measure annual variability of cetacean occurrence at the NE-coast of Iceland. Lecture at the 159th Meeting of the Acoustical Society of America, Baltimore, Maryland, 19. - 23. April 2010.
 • Rendell, L. & Whitehead, H. 2001. Culture in whales and dolphins. Behavioural and brain science 24:309 – 382.
 • Tershy, B. R. 1992. Body size, diet, habitat use and social behavior of Balenoptera whales in the Gulf of California. Journal of Mammalogy 73:477 – 486.
 • Whitehead, H. & Weilgart, L. 2000. The sperm whale: social females and roving males. In: Cetacean Societies, eds., J. Mann, R. C. Connor, P. Tyack & H. Whitehead. University of Chicago Press.
 • Weinrich, M. T., Rosenbaum, H., Baker, C. S., Blackmer, A. L and Whitehead, H. 2006. The Influence of Maternal Lineages on Social Affiliations among Humpback Whales (Megaptera novaeangliae) on Their Feeding Grounds in the Southern Gulf of Maine. Journal of Heridity 97:226 – 234.

Myndir:

Höfundur

Edda Elísabet Magnúsdóttir

doktor í líffræði

Útgáfudagur

6.10.2010

Spyrjandi

Björn Leví Óskarsson, Ritstjórn

Tilvísun

Edda Elísabet Magnúsdóttir. „Hvernig er félagskerfi tannhvala?“ Vísindavefurinn, 6. október 2010. Sótt 16. ágúst 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=57341.

Edda Elísabet Magnúsdóttir. (2010, 6. október). Hvernig er félagskerfi tannhvala? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=57341

Edda Elísabet Magnúsdóttir. „Hvernig er félagskerfi tannhvala?“ Vísindavefurinn. 6. okt. 2010. Vefsíða. 16. ágú. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=57341>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig er félagskerfi tannhvala?
Fræðimenn hafa nokkuð rannsakað félagskerfi og félagshegðun þriggja tannhvalategunda: háhyrninga (Orcinus orca), búrhvala (Physeter macrocephalus) og stökkla (Tursiops truncatus). Auk þess hafa farið fram töluverðar rannsóknir á hnúfubak en hann telst til skíðishvala.

Hafa ber í huga að hver tegund tannhvala og skíðishvala hefur sitt sérstaka félagskerfi og því er félagshegðun þessara fyrrgreindu tegunda ekki lýsandi fyrir alla aðra tannhvali og skíðishvali. Engu að síður gefa rannsóknirnar okkur vísbendingu um hvað stýri hegðunarmynstri hvala og hvaða þættir ýta undir félagshegðun þeirra.

Eitt einkenni á félagskerfi háhyrninga er að afkvæmin fylgja yfirleitt móður sinni alla tíð eða þar til hún fellur frá, sumar dætur mynda þó nýja fjölskylduhópa. Á fengitímanum heimsækja tarfarnir kvendýr í öðrum hópum en snúa svo aftur til móður sinnar að þeim tíma loknum.


Hópur háhyrninga við strendur Íslands. Karldýrin þekkjast af háum bakugganum.

Meðal búrhvala finnast karla- og kvennahópar. Hópur kvendýranna tengist yfirleitt í beinan kvenlegg. Karldýrin hverfa frá hópnum þegar þeir hafa náð nægilegri líkamsstærð og halda þeir sig þá að mestu leyti einir. Karldýrin flakka milli hafsvæða eftir árstíðum. Þeir eru aðallega á norðlægum slóðum á sumrin en suður í höfum á kvennafari á veturna.

Stökklar lifa á strandsvæðum en margt í hegðunarmynstri þeirra svipar til hegðunar annarra strandsvæðahöfrunga, svo sem hnýðinga við Ísland. Kynjaskiptir hópar er eitt einkenni á félagsháttum þeirra. Engu að síður deila karl- og kvendýr sömu strandsvæðunum. Karldýrin mynda nokkuð stöðug bandalög, í þeim eru oft um þrír til fimm tarfar. Karlstökklarnir í hverju bandalagi vinna saman að veiðum en einnig er talið að þeir keppi við önnur bandalög um aðgang að frjóum kvendýrum. Kvendýrin virðast mynda einhvers konar samtök en samsetning þeirra er nokkuð óstöðug. Í þessum hópum geta samskipti milli einstaklinga verið fjölbreytt, bæði í leik og við veiðar. Tungumál höfrunga á borð við stökkla og hnýðinga getur verið mjög fjölbreytt og talið er að sumir hópar þrói með sér ákveðið „tungumál“ eða „mállýsku“ með sérhæfðum hljóðmerkjum.

Flestir tannhvalir, líkt og höfrungar og búrhvalir, byggja afkomu sína að miklu leyti á samstarfi við aðra einstaklinga sömu tegundar, ekki ólíkt fremdardýrum og fílum. Samstarfið felur í megindráttum í sér að einstaklingar hjálpast að við veiðar til að auka aflaafköstin en standa jafnframt vörð og hjálpast að við að vernda þá veikbyggðari fyrir ýmsum hættum sem leynast í umhverfinu.


Búrhvalir.

Kvendýr tannhvala eru að jafnaði smærri en karldýrin. Þær eru því auðveldari bráð, sérstaklega ef þær eru með kálfa. Því er nokkuð ljóst að samvinna kvendýra við uppeldi og verndun ungviðisins er mjög mikilvæg. Einnig kemur sér vel ef einhver sér um gæta kálfanna á meðan móðirin aflar sér matar. Tannhvalskýr sem hefur hjálpað öðrum kúm er síðan líklegri til að fá aðstoð þegar hún eignast sinn kálf.

Fólk í hvalaskoðun í Skjálfandaflóa í ágúst árið 2010 varð vitni að burði hjá hnýðingskú sem sýndi glögglega mikilvægi samheldni í hvalahópnum. Á meðan fæðingunni stóð, syntu þrjú til fjögur fullorðin dýr umhverfis kúna, henni til varnar. Þegar kálfurinn kom í heiminn hjálpuðust allir höfrungarnir við að koma honum upp á yfirborðið svo hann gæti dregið andann í fyrsta sinn. Þessi atburður sýnir glöggt hversu stóru hlutverki félagskerfi tannhvala gegnir.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
 • Baird, R. W. (2000) The killer whale: Foraging specializations and group hunting. In: Cetacean societies: Field studies of dolphins and whales, eds., J. Mann, R. C. Connor, P. L. Tyack & H. Whitehead. University of Chicago Press.
 • Clapham, P. J. (1993) Social organization of humpback whales on a North Atlantic feeding ground. Symposia of the Zoological Society (London) 66:131–45.
 • Connor, R. C., Mann, J., Tyack, P. L. & Whitehead, H. 1998. Social evolution in toothed whales. Trends in Ecology and Evolution 13:228–32.
 • Edda Elísabet Magnúsdóttir, Rasmussen, M.H., and Lammers, M.O. 2010. Combining visual and fixed passive acoustic methods to measure annual variability of cetacean occurrence at the NE-coast of Iceland. Lecture at the 159th Meeting of the Acoustical Society of America, Baltimore, Maryland, 19. - 23. April 2010.
 • Rendell, L. & Whitehead, H. 2001. Culture in whales and dolphins. Behavioural and brain science 24:309 – 382.
 • Tershy, B. R. 1992. Body size, diet, habitat use and social behavior of Balenoptera whales in the Gulf of California. Journal of Mammalogy 73:477 – 486.
 • Whitehead, H. & Weilgart, L. 2000. The sperm whale: social females and roving males. In: Cetacean Societies, eds., J. Mann, R. C. Connor, P. Tyack & H. Whitehead. University of Chicago Press.
 • Weinrich, M. T., Rosenbaum, H., Baker, C. S., Blackmer, A. L and Whitehead, H. 2006. The Influence of Maternal Lineages on Social Affiliations among Humpback Whales (Megaptera novaeangliae) on Their Feeding Grounds in the Southern Gulf of Maine. Journal of Heridity 97:226 – 234.

Myndir:...