Ljóst er þó að hann ferðaðist víða, enda segir hann það berum orðum, og hann þekkti fleiri tegundir jurta en Þeófrastos, sem var nemandi og samstarfsmaður Aristótelesar og fyrsti grasafræðingurinn. Líklegt er að Díoskúrídes hafi lesið rit Þeófrastosar en hann nefnir Þeófrastos þó ekki í formála sínum þar sem hann nefnir rit fjölmargra annarra sem hann hafði lesið, svo sem Júlíusar Bassusar, Níkeratosar, Petroniusar, Nígers og Díódótosar.
Díoskúrídes er einkum þekktur fyrir rit sitt De materia medicina eða Um lyfjafræði sem fjallar í fimm bókum um lyf sem vinna má úr ýmiss konar jurtum og dýraafurðum og um meðhöndlun þeirra, virkni og aukaverkanir. Í ritinu lýsir hann á milli sex hundruð og sjö hundruð jurtum og rúmlega þúsund lyfjum sem nota má á ýmsa vegu við ýmsum kvillum. Díoskúrídes byggir umfjöllun sína stundum á rituðum heimildum jafnt sem munnmælum en stundum einnig á eigin athugunum. Hann áfellist raunar samtímamenn sína sem hann segir að hafi ekki sjálfir gert eigin athuganir og telur að ýmsar rangfærslur í ritum þeirra eigi rætur að rekja til þess að þeir hafi ekki byggt þekkingu sína á eigin reynslu. Hann reynir að setja efnið fram þannig að umfjöllun um jurtir og lyf með áþekka virkni sé öll á sama stað en hann átelur einnig forvera sína fyrir að raða í stafrófsröð eða haga sínum ritverkum með einhverjum öðrum hætti þannig að efnisflokkun verði óeðlileg.

Helsti túlkunarvandinn sem við er að etja við lestur rita Díoskúrídesar er sá að erfitt er og stundum nær ómögulegt að vita hvaða jurtir samsvara þeim sem Díoskúrídes nefnir. Á hans tíma gat hugtakanotkun verið á reiki og ekkert staðlað flokkunarkerfi eða stöðluð vísindaleg heiti tegunda að styðjast við. Í handritum er oft að finna fjölda samheita en sennilegt þykir að þau séu seinni tíma innskot, ágiskanir ritarans ef til vill. Auk ritsins Um lyfjafræði er einnig varðveitt ritið De simplicibus medicinis eða Um einföld lyf í tveimur bókum og stutt ritgerð um læknisfræði. Díóskúrídesi voru enn fremur eignuð ýmis önnur rit um læknisfræði og náttúrufræði en að því er virðist ranglega. Reyndar er mögulegt að einungis Um lyfjafræði sé réttilega eignað honum. Rit hans höfðu mikil áhrif og hlutu meðal annars lof hjá Galenosi. Þau voru þýdd bæði á latínu á sjöttu öld og síðar á arabísku og armenísku og lesin á miðöldum og fram á endurreisnartímann. Þau eru einnig mikilvæg heimild um læknisfræði fornmanna. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvaða jurtir voru notaðar til galdraverka og lækninga? eftir Símon Jón Jóhannesson
- Hver er munurinn á náttúrulyfjum og náttúruvörum? eftir Sesselju Ómarsdóttur og Margréti Bessadóttur
- Hvernig lækningajurt er fífill og hvaða kvilla læknar hann? eftir Sesselju Ómarsdóttur og Margréti Bessadóttur
- Pedanius Dioscorides á Wikipedia.org. Sótt 10.1.2011.
- Unesco.org. Sótt 10.1.2011.