Sólin Sólin Rís 08:22 • sest 18:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:46 • Sest 06:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:12 • Síðdegis: 17:29 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:46 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:22 • sest 18:03 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 17:46 • Sest 06:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:12 • Síðdegis: 17:29 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:46 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Marie-Anne Lavoisier og hvert var framlag hennar til vísindanna?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Lengi fram eftir öldum var fátítt í sögu Vesturlanda að konur gegndu störfum utan heimilis. Það á við um mörg starfsvið eins og til dæmis lögfræði, læknisfræði, verkfræði, handverk og ekki síður um vísindastörf. Í þessum starfsgreinum koma konur því lítið við sögu fyrr en kemur fram á 19. eða 20. öld.

Frá fornöld og miðöldum eru einkum þekktar tvær fræðakonur, forngríski stærðfræðingurinn Hýpatía (um 370 - 415) og miðevrópska abbadísin og fræðimaðurinn Hildegard frá Bingen (1098 - 1179). Á 17.-18. öld komu svo fram nokkrar þekktar konur sem unnu sjálfstætt að vísindastörfum en áttu yfirleitt erfitt uppdráttar og þurftu jafnvel að leyna nafni sínu og kyni. Einnig eru þekkt nokkur dæmi þess að konur unnu með eiginmönnum sínum eða öðrum venslamönnum að vísindarannsóknum, oft án þess að þeirra væri getið í birtum ritum.

Ein þessara kvenna var Marie-Anne Lavoisier eða Marie-Anne Pierrette Paulze eins og hún hét þegar hún fæddist í París árið 1758. Faðir hennar, Jacques Paulze, var efnaður aðalsmaður og fræðaiðkandi. Móðir hennar dó þegar hún var þriggja ára og Marie fór þá í klausturskóla eins og algengt var þegar svo stóð á. Þegar hún var 13 ára hætti hún í skólanum af því að hún hafði fengið bónorð frá fimmtugum greifa sem var fjölskylduvinur en jafnframt samviskulaus ævintýramaður. Þess konar hjúskapur var algengur í þá daga.


Myndin sýnir Lavoisier-hjónin, Marie-Anne og Antoine, umkringd rannsóknatækjum og skriffærum. Þetta er margslungið listaverk eftir einn af fremstu málurum þess tíma, Jacques-Louis David (1748-1825). Málarinn þekkti hjónin vel og er líklegt að myndin beri þess merki.

Marie gat ekki fellt sig við þessa nauðungargiftingu og faðir hennar vildi þá ekki beita hana þvingunum. Hann fann í skyndi annan og yngri mann (28 ára) sem var líka tíður gestur á heimilinu. Það var Antoine Laurent Lavoisier sem var lögfræðingur að mennt en jafnframt virtur jarðfræðingur og efnafræðingur og félagi í Franska vísindafélaginu. Hann hafði fengið drjúgan arf frá móður sinni og frænkum og gat helgað sig því hugðarefni að byggja upp kennilega efnafræði og valda byltingu í þeirri fræðigrein með því að byggja á rökfræði og stærðfræði.

Góðar ástir tókust með þeim hjónum eftir brúðkaupið þrátt fyrir barnleysi, enda áttu þau margt sameiginlegt. Þau fengu í brúðargjöf og ráku síðan rannsóknastofu í efnafræði á efri hæð hússins þar sem þau bjuggu í París. Þau höfðu ánægju af tafli og spilum og umræðum um stjörnufræði, efnafræði og jarðfræði. Hann kenndi henni að nota vogir, brennigler og afoxunarglös, og hún lærði einnig þýsku og latínu sem var þá tungumál vísindasamfélagsins. Hún fylgdi honum að málum í baráttu hans gegn dáleiðslu, í notkun hitaloftbelgja, í rannsóknum á orsökum smitsjúkdóma og í endurbótum á metrakerfinu. Þegar hann fór að rannsaka eðli elds og varma tók hún sig til og lærði ensku og þýddi síðan fyrir hann breskar og bandarískar ritsmíðar. Einnig lærði hún myndlist hjá málaranum David sem málaði síðar fræga mynd af þeim hjónum. Hún notaði myndlistarkunnáttuna meðal annars til að gera skýringarmyndir við greinar eiginmannsins.


Hér er Antoine Lavoisier að rannsaka öndun manna ásamt aðstoðarmönnum og eiginkonu sinni sem situr við borðið til hægri á myndinni.

Þessi merku hjón náðu margvíslegum og merkum árangri í rannsóknum sínum. Er síst ofmælt að tala um byltingu í efnafræði eins og nefnt var hér á undan, svipað og Kópernikus olli byltingu í stjarnvísindum og heimsfræði, og Newton í aflfræði. -- Sem dæmi má nefna að þau sneru algerlega við hugmyndum manna um bruna. Áður höfðu menn talið að efnið sem brennur gæfi frá sér sérstakt efni sem nefnt var brunaefni (e. phlogiston) en Lavoisier-hjónin sýndu þvert á móti fram á að efnið sem brennur tekur til sín sérstakt efni úr umhverfinu, súrefnið sem við köllum svo, og að það er eitt af frumefnunum. Í framhaldi af þessu gerbreyttust hugmyndir manna um efnahvörf, hegðun málma, frumefni, efnasambönd og um varðveislu massans.

Meginverkið sem eignað er Antoine Lavoisier kom út árið 1789, sama árið og franska byltingin hófst. Bókin nefnist á frummálinu Traité Élémentaire de Chimie [Ritgerð um grundvallaratriði efnafræðinnar] og er oft talin fyrsta efnafræðikennslubók nútímans. En hún er meira en það því að í henni eru líka frábærar myndir eftir Marie-Anne sem hún skilaði til prentsmiðju ýmist sem grófteikningum, vatnslitamyndum eða ætingum. Myndirnar eru aftast í bókinni og er ástæða til að hvetja lesendur til að skoða þær annaðhvort á pappír í Dover-útgáfu bókarinnar eða í þessari vefútgáfu.



Myndin sýnir eitt af þeim tækjum sem Lavoisier-hjónin notuðu í frægum tilraunum þar sem þau sýndu fram á að gastegundir í lofti eru að minnsta kosti tvær.

Marie-Anne missti bæði mann sinn og föður undir fallöxi frönsku byltingarinnar 8. maí 1794. Hún tók það að sjálfsögðu mjög nærri sér. Hún fékk að dúsa tvo mánuði í fangelsi en svo fór þó að henni voru afhentar eignir sínar að mestu. Hún hélt þá áfram að gefa út vísindarit þeirra hjóna. Hún giftist uppfinninga- og vísindamanninum Benjamin Thompson, Rumford greifa (1758-1814), en þau skildu eftir fjögurra ára hjónaband átaka og ósættis.

Hún hætti að stunda vísindatilraunir og sneri sér að viðskiptum og góðgerðamálum en stóð þó jafnframt fyrir umræðum um vísindi á heimili sínu. Hún dó árið 1836 án þess að skilja eftir sig dagbækur eða önnur gögn sem hefðu getað varpað skýrara ljósi á hlut hennar í efnafræðibyltingunni sem oft er kennd við Lavoisier. Við getum því ekki skorið úr þeim málum með vissu en þó má fullyrða að hún hefur verið ein af merkustu vísindakonunum sem þá höfðu verið uppi.

Heimildir og meira lesefni:

Myndir:
  • Mynd af Lavoisier hjónunum: Málverk eftir Jacques-Louis David. Eagle, Cassandra T., og Jennifer Sloan, 1998. Marie Anne Paulze Lavoisier: The Mother of Modern Chemistry. The Chemical Educator, vol. 3 (5), bls. 5. Sótt 28. 1. 2011.
  • Mynd af tilraunastarfsemi: Teikning eftir Marie-Anne Lavoisier. Marie-Anne Pierrette Paulze á Wikipedia.com. Sótt 28.1.2011.
  • Mynd af tæki: Plate IV, fig. 2. Lavoisier, Antoine-Laurent, 1965. Elements of Chemistry: in a new systematic order, containing all the modern discoveries. Ensk þýðing Robert Kerr. New York: Dover. Sjá afrit á vefnum Gutenberg.org. Sótt 28. 1. 2011

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

28.1.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var Marie-Anne Lavoisier og hvert var framlag hennar til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 28. janúar 2011, sótt 16. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=58214.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2011, 28. janúar). Hver var Marie-Anne Lavoisier og hvert var framlag hennar til vísindanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=58214

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hver var Marie-Anne Lavoisier og hvert var framlag hennar til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 28. jan. 2011. Vefsíða. 16. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=58214>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Marie-Anne Lavoisier og hvert var framlag hennar til vísindanna?
Lengi fram eftir öldum var fátítt í sögu Vesturlanda að konur gegndu störfum utan heimilis. Það á við um mörg starfsvið eins og til dæmis lögfræði, læknisfræði, verkfræði, handverk og ekki síður um vísindastörf. Í þessum starfsgreinum koma konur því lítið við sögu fyrr en kemur fram á 19. eða 20. öld.

Frá fornöld og miðöldum eru einkum þekktar tvær fræðakonur, forngríski stærðfræðingurinn Hýpatía (um 370 - 415) og miðevrópska abbadísin og fræðimaðurinn Hildegard frá Bingen (1098 - 1179). Á 17.-18. öld komu svo fram nokkrar þekktar konur sem unnu sjálfstætt að vísindastörfum en áttu yfirleitt erfitt uppdráttar og þurftu jafnvel að leyna nafni sínu og kyni. Einnig eru þekkt nokkur dæmi þess að konur unnu með eiginmönnum sínum eða öðrum venslamönnum að vísindarannsóknum, oft án þess að þeirra væri getið í birtum ritum.

Ein þessara kvenna var Marie-Anne Lavoisier eða Marie-Anne Pierrette Paulze eins og hún hét þegar hún fæddist í París árið 1758. Faðir hennar, Jacques Paulze, var efnaður aðalsmaður og fræðaiðkandi. Móðir hennar dó þegar hún var þriggja ára og Marie fór þá í klausturskóla eins og algengt var þegar svo stóð á. Þegar hún var 13 ára hætti hún í skólanum af því að hún hafði fengið bónorð frá fimmtugum greifa sem var fjölskylduvinur en jafnframt samviskulaus ævintýramaður. Þess konar hjúskapur var algengur í þá daga.


Myndin sýnir Lavoisier-hjónin, Marie-Anne og Antoine, umkringd rannsóknatækjum og skriffærum. Þetta er margslungið listaverk eftir einn af fremstu málurum þess tíma, Jacques-Louis David (1748-1825). Málarinn þekkti hjónin vel og er líklegt að myndin beri þess merki.

Marie gat ekki fellt sig við þessa nauðungargiftingu og faðir hennar vildi þá ekki beita hana þvingunum. Hann fann í skyndi annan og yngri mann (28 ára) sem var líka tíður gestur á heimilinu. Það var Antoine Laurent Lavoisier sem var lögfræðingur að mennt en jafnframt virtur jarðfræðingur og efnafræðingur og félagi í Franska vísindafélaginu. Hann hafði fengið drjúgan arf frá móður sinni og frænkum og gat helgað sig því hugðarefni að byggja upp kennilega efnafræði og valda byltingu í þeirri fræðigrein með því að byggja á rökfræði og stærðfræði.

Góðar ástir tókust með þeim hjónum eftir brúðkaupið þrátt fyrir barnleysi, enda áttu þau margt sameiginlegt. Þau fengu í brúðargjöf og ráku síðan rannsóknastofu í efnafræði á efri hæð hússins þar sem þau bjuggu í París. Þau höfðu ánægju af tafli og spilum og umræðum um stjörnufræði, efnafræði og jarðfræði. Hann kenndi henni að nota vogir, brennigler og afoxunarglös, og hún lærði einnig þýsku og latínu sem var þá tungumál vísindasamfélagsins. Hún fylgdi honum að málum í baráttu hans gegn dáleiðslu, í notkun hitaloftbelgja, í rannsóknum á orsökum smitsjúkdóma og í endurbótum á metrakerfinu. Þegar hann fór að rannsaka eðli elds og varma tók hún sig til og lærði ensku og þýddi síðan fyrir hann breskar og bandarískar ritsmíðar. Einnig lærði hún myndlist hjá málaranum David sem málaði síðar fræga mynd af þeim hjónum. Hún notaði myndlistarkunnáttuna meðal annars til að gera skýringarmyndir við greinar eiginmannsins.


Hér er Antoine Lavoisier að rannsaka öndun manna ásamt aðstoðarmönnum og eiginkonu sinni sem situr við borðið til hægri á myndinni.

Þessi merku hjón náðu margvíslegum og merkum árangri í rannsóknum sínum. Er síst ofmælt að tala um byltingu í efnafræði eins og nefnt var hér á undan, svipað og Kópernikus olli byltingu í stjarnvísindum og heimsfræði, og Newton í aflfræði. -- Sem dæmi má nefna að þau sneru algerlega við hugmyndum manna um bruna. Áður höfðu menn talið að efnið sem brennur gæfi frá sér sérstakt efni sem nefnt var brunaefni (e. phlogiston) en Lavoisier-hjónin sýndu þvert á móti fram á að efnið sem brennur tekur til sín sérstakt efni úr umhverfinu, súrefnið sem við köllum svo, og að það er eitt af frumefnunum. Í framhaldi af þessu gerbreyttust hugmyndir manna um efnahvörf, hegðun málma, frumefni, efnasambönd og um varðveislu massans.

Meginverkið sem eignað er Antoine Lavoisier kom út árið 1789, sama árið og franska byltingin hófst. Bókin nefnist á frummálinu Traité Élémentaire de Chimie [Ritgerð um grundvallaratriði efnafræðinnar] og er oft talin fyrsta efnafræðikennslubók nútímans. En hún er meira en það því að í henni eru líka frábærar myndir eftir Marie-Anne sem hún skilaði til prentsmiðju ýmist sem grófteikningum, vatnslitamyndum eða ætingum. Myndirnar eru aftast í bókinni og er ástæða til að hvetja lesendur til að skoða þær annaðhvort á pappír í Dover-útgáfu bókarinnar eða í þessari vefútgáfu.



Myndin sýnir eitt af þeim tækjum sem Lavoisier-hjónin notuðu í frægum tilraunum þar sem þau sýndu fram á að gastegundir í lofti eru að minnsta kosti tvær.

Marie-Anne missti bæði mann sinn og föður undir fallöxi frönsku byltingarinnar 8. maí 1794. Hún tók það að sjálfsögðu mjög nærri sér. Hún fékk að dúsa tvo mánuði í fangelsi en svo fór þó að henni voru afhentar eignir sínar að mestu. Hún hélt þá áfram að gefa út vísindarit þeirra hjóna. Hún giftist uppfinninga- og vísindamanninum Benjamin Thompson, Rumford greifa (1758-1814), en þau skildu eftir fjögurra ára hjónaband átaka og ósættis.

Hún hætti að stunda vísindatilraunir og sneri sér að viðskiptum og góðgerðamálum en stóð þó jafnframt fyrir umræðum um vísindi á heimili sínu. Hún dó árið 1836 án þess að skilja eftir sig dagbækur eða önnur gögn sem hefðu getað varpað skýrara ljósi á hlut hennar í efnafræðibyltingunni sem oft er kennd við Lavoisier. Við getum því ekki skorið úr þeim málum með vissu en þó má fullyrða að hún hefur verið ein af merkustu vísindakonunum sem þá höfðu verið uppi.

Heimildir og meira lesefni:

Myndir:
  • Mynd af Lavoisier hjónunum: Málverk eftir Jacques-Louis David. Eagle, Cassandra T., og Jennifer Sloan, 1998. Marie Anne Paulze Lavoisier: The Mother of Modern Chemistry. The Chemical Educator, vol. 3 (5), bls. 5. Sótt 28. 1. 2011.
  • Mynd af tilraunastarfsemi: Teikning eftir Marie-Anne Lavoisier. Marie-Anne Pierrette Paulze á Wikipedia.com. Sótt 28.1.2011.
  • Mynd af tæki: Plate IV, fig. 2. Lavoisier, Antoine-Laurent, 1965. Elements of Chemistry: in a new systematic order, containing all the modern discoveries. Ensk þýðing Robert Kerr. New York: Dover. Sjá afrit á vefnum Gutenberg.org. Sótt 28. 1. 2011
...